Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Karen Rós Róbertsdóttir að störfum en hún er að gera mjög athyglisverða hluti á ræktun á grænmeti utandyra, ekki síst fram á vetur.
Karen Rós Róbertsdóttir að störfum en hún er að gera mjög athyglisverða hluti á ræktun á grænmeti utandyra, ekki síst fram á vetur.
Líf og starf 18. mars 2022

Ætlar sér að rækta vindmyllupálmatré og trefjabananatré úti með hita í sumar

Höfundur: Magnús Hlynur Hreiðarsson

Áhersla á fjölbreytt mataræði með því að auka neyslu matjurta hefur færst í aukana. Samfélög leitast í auknum mæli við að efla fæðuöryggi sitt. Meðal annars með því að veita jákvæða upplifun og fræðslu sem stuðlar að bættri neysluhegðun og sjálfbærari þróun.

Íslendingar eru ríkir af auðlindum en gætu nýtt þær betur. Í Löngugróf sunnan Elliðaárdals er fyrirhuguð starfsemi „ALDIN Biodome“ þar sem kjarnastarfsemin er ræktun og upplifun henni tengd. Umtalsvert affallsvatn fellur frá nærliggjandi hverfi, um 30 gráðu heitt, beint í fráveitu og síðan viðtaka.

Karen Rós Róbertsdóttir, nemandi á ylræktarbraut í garðyrkju við Landbúnaðarháskóla Íslands, vann verkefnið „Matjurtarækt utandyra fram á vetur“ sem var tilnefnt til nýsköpunarverðlauna forseta Íslands á dögunum, en sex verkefni voru tilnefnd og hlutu þau öll viðurkenningu. Leiðbeinendur voru Hjördís Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri „ALDIN Biodome“, og Jón Þórir Guðmundsson garðyrkjufræðingur en auk þeirra kom EFLA að verkefninu sumarið 2020.

Verkefni Karenar var tilnefnt til ný­sköpunar­verðlauna forseta Íslands enda þykir það mjög athyglis­vert.

Affallsvatn til að hita jarðveg

Síðastliðið eitt og hálft ár hefur farið fram tilraun til að nýta hluta af þessu affallsvatni til að hita jarðveg og lengja þannig tímann sem ræktun er möguleg utandyra. Fjöldi tegunda matjurta hefur verið prófaður, s.s. ávaxtatré, kálplöntur, salttegundir, kryddjurtir o.fl. Með samanburðarrannsóknum var ræktunarárangur skoðaður út frá skilgreindum forsendum. Rannsóknin hefur sýnt fram á að með hitun jarðvegs er hægt að rækta nýjar tegundir utandyra og auka vöxt eða magn tiltekinna afurða margfalt. Sem dæmi var nývöxtur ávaxtatrjáa með hita í jarðveginum tvöfalt meiri en í sömu trjám í jarðvegi án hita; jarðarberjaplöntur hófu vöxt mun fyrr og gáfu þroskuð ber einum og hálfum mánuði fyrr og klettasalat óx í allt að fjórföldu magni í beði með hita, miðað við sömu tegundir í samanburðarbeðum. En byrjum á því að fá að kynnast Karenu Rós, sem vann verkefnið með Hjördísi Sigurðardóttur, matvæla- og skipulagsfræðingi og framkvæmdastjóra „ALDIN Biodome“.

Ólst upp í Texas

„Ég fæddist í Bandaríkjunum (í Kaliforníu) og ólst þar upp (Texas, Indiana, Iowa), en ég er íslenskur ríkisborgari. Fjölskyldan býr í Bandaríkjunum, aðallega í Indiana og Texas. Ég bý í Reykjavík en á land í Hvalfirði og ætla að búa þar til neðanjarðar hellishús. Ég vinn hjá Isavia ANS og er fjarnemi hjá LbhÍ (garðyrkjunemi/ylræktarbraut)“.

Sjaldgæfar suðrænar plöntur

En hvað kom til að Karen Rós valdi að fara á ylræktarbraut LbhÍ?
„Í 18 ár hef ég verið að rækta sjaldgæfar suðrænar plöntur og vildi læra meira um ræktun almennt. Ég byrjaði á lífrænu brautinni en uppgötvaði að hún snýst aðallega um skriffinnsku. Þótt það séu margar góðar hugmyndir í lífrænni ræktun þá er líka mikið kukl og gervivísindi í vísindabúningi, og maður þarf að gera „allt eða ekkert“, annaðhvort „lífrænt“ eða „ekki lífrænt“, ekkert þar á milli.

En ylrækt hentar mun betur, því áherslan hjá mér hefur aðallega verið á sjaldgæfum suðrænum plöntum,“ segir hún.
Mikill heiður

Karen Rós segir það hafa verið mikinn heiður fyrir sig og Hjördísi að verkefni hennar hafi verið tilnefnt til nýsköpunarverðlauna forseta Íslands. „Já, mikill heiður og það hefur opnað fyrir mér ýmsar leiðir til að prófa mig áfram með mína draumaræktun á stórum skala.“

Jarðvarmi skiptir öllu
Hér er verið að vigta og allt skráð samviskusamlega niður.

Þegar Karen Rós er spurð um hvað verkefni hennar fjalli á „mannamáli“ er hún fljót að svara.

„Já, Ísland er heppið að eiga mikinn jarðvarma og óheppið að jarðvegurinn hérlendis er svo kaldur. Auðvitað hugsar maður að við gætum notað heita vatnið til að hita jarðveg en því miður er heitt vatn verðmæt auðlind. En volgt vatn, ~30° eða þannig, er eiginlega úrgangsefni, hent í ár eða út í sjó. Ég sá þetta sem sóun auðlindanna okkar og að það á að vera hægt að nota það í útirækt. Þótt ég hafi fengið styrk í gegnum „Aldin“ frá Nýsköpunarsjóði námsmanna greiddum við í rauninni mun meira sjálf til að setja upp og reka verkefnið. Mér fannst það skipti miklu máli að nota auðlindirnar okkar betur.“

Vorin mikilvægust

Í verkefni Karenar kom skýrt fram að mestu áhrifin með ræktun grænmetis utandyra séu á vorin, þegar jarðvegurinn er kaldur en sólskin er mikið. Minnstur árangur sé hins vegar yfir veturinn þegar lítil sem engin sól er. Vöxturinn fari alltaf mjög hratt af stað þegar sólin kemur aftur, t.d. í mars.

Vantar meiri nýsköpun

Þegar Karen er spurð út í stöðu matjurtaræktunar á Íslandi segir hún erfitt að lýsa því í stuttu máli en henni finnst þó að það þurfi að vera meiri nýsköpun í matjurtarækt og betri upplýsingamiðlun.

„Til dæmis eru margar heimildir sem við notum í skólanum frá Danmörku. En auðvitað er umhverfið hérna allt öðruvísi en víða úti í heimi, loftslagið, jarðvegurinn, birtustig, auðlindir sem eru í boði o.fl. Það eru margir garðyrkjubændur að gera alls konar rannsóknir, oft með mjög áhugaverðum árangri. Ég er alls ekki sú fyrsta að nota heitt vatn í matjurtarækt, þó ég sé framarlega á því sviði með því að nota ódýrt og mjög aðgengilegt volgt affallsvatn í ódýrum PEX rörum. Tilraunir er alltaf fyrsta skrefið og svo þarf að miðla áfram,“ segir Karen.

Karen Rós Róbertsdóttir fyrir miðri mynd með viðurkenningarskjalið vegna nýsköpunar­verðlaunanna sem Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, afhenti henni á Bessastöðum. Lengst til vinstri á myndinni er Hjördís Sigurðardóttir, leiðbeinandi Karenar.
Volgt vatn er alls staðar

Það er ekki bara jarðhitinn sjálfur sem Karen leggur áherslu á.

„Nei, alls ekki, mér finnst áhugaverðast vatnið sem við getum kallað „úrgangsefni“ en er samt mun heitara en jarðvegurinn. Jarðvegur er frekar einangrandi og það er vel hægt að einangra hann betur. Þannig þarf hiti ekki að flæða hratt úr rörum, eins og með snjóbræðslu. Með snjóbræðslu vill maður tapa hita við yfirborðið en við viljum ekki tapa hita úr yfirborðinu. Þannig má vatnið flæða hægt í gegn, aðeins rúmlega 1 ml á sekúndu á fermetra. Og þannig skiptir það engu máli hvað vatn, sem er ~30°, tapar hitainnihaldinu hægt, því hitinn tapast úr jarðveginum hægt líka.Volgt vatn er alls staðar. Það verður til við rafmagnsframleiðslu, rennur frá ofnum, laugum, kælikerfum, úr grunnum borholum, eða borholum sem „misheppnuðust“ þegar leitað var að heitu vatni og fleira í þessum dúr. Volgt vatn er mjög algeng auðlind sem við eigum að nýta betur,“ segir Karen.

Vindmyllupálmatré og trefjabananar

Nú þegar styttist í lok námsins hjá Karen í LbhÍ er hún farin að velta því fyrir sér hvað taki við hjá sér. „Já, það er spurning, eins og er er ég aðallega að leggja áherslu á framhaldsrannsóknir í „Aldin Biodome“ garðinum en á þessu ári ætla ég að prófa til dæmis að rækta vindmyllupálmatré og trefjabananatré úti með hita. Hver veit hvort það gengur, en það verður gaman að fylgjast með þeirri tilraun. Og á landinu mínu ætla ég að reisa stórt gróðurhús til að rækta sjaldgæfar plöntur, gera tilraunir í skógrækt og ýmsa aðra rannsóknarvinnu. Að lokum vil ég segja þetta: „Grasafræðilega séð eru plöntur geggjað töff.“

Smyrill
Líf og starf 20. nóvember 2024

Smyrill

Smyrill er minnsti og jafnframt algengasti ránfuglinn á Íslandi. Hann er nokkuð ...

Róbóti í stuði
Líf og starf 19. nóvember 2024

Róbóti í stuði

Róbótar Internetsins verða betri og betri í bridds. Þeir eru reyndar oft slakir ...

Förum okkur hægar
Líf og starf 18. nóvember 2024

Förum okkur hægar

Mikið hefur verið fjallað um „fast fashion“ eða hraðtísku í fjölmiðlum sl. ár, þ...

Íslandsmót skákfélaga
Líf og starf 15. nóvember 2024

Íslandsmót skákfélaga

Árlega eru haldin tvö mjög fjölmenn skákmót á Íslandi, Íslandsmót skákfélaga og ...

Íslensku hreindýrin í nýrri ljósmyndabók
Líf og starf 13. nóvember 2024

Íslensku hreindýrin í nýrri ljósmyndabók

Út er komin ljósmyndabókin Á slóðum íslenskra hreindýra í fylgd með Skarphéðni G...

Nautaskankar
Líf og starf 13. nóvember 2024

Nautaskankar

Þverskornir nautaskankar, oft ranglega merktir sem Osso Buco, eru ekki oft í hil...

Stjörnuspá vikunnar
Líf og starf 11. nóvember 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn hefur sjaldan verið óþreyjufyllri en þarf að hægja á sér ef vel á að...

Metnaðarfullt umhverfi
Líf og starf 8. nóvember 2024

Metnaðarfullt umhverfi

Lífið á garðyrkjustöðinni Espiflöt í Reykholti er litríkt. Næstu daga geta lesen...