Gamlir Zetorar á nýju dagatali
Fallegar myndir af Zetor-dráttarvélum á Íslandi frá síðustu öld prýða nýtt dagatal Búsögu, búnaðarsögusafns Eyjafjarðar á bænum Saurbæ.
Heiðurinn af dagatalinu á formaður stjórnar Búsögu, Sigurður Steingrímsson, sem naut aðstoðar góðs fólks við gerð dagatalsins. „Þetta er dagatal til að hengja upp á vegg. Auk mynda og fræðslu um Zetor-dráttarvélar, sem tengjast myndunum í hverjum mánuði, og almennrar fræðslu um þema dagatalsins, koma fram í dagatalinu helstu hátíðisdagar. Einnig eru upphafsdagar gömlu mánaðanna birtir, en þeir sjást nú æ sjaldnar,“ segir Sigurður.
Búsaga er áhugamannafélag, sem var stofnað árið 2011 en byggði á eldri félagsskap um varðveislu dráttarvéla. Markmið félagsins eru meðal annars að hvetja bændur og aðra til að farga ekki munum í þeirra eigu sem kunna að hafa varðveislugildi með tilliti til búnaðarsögunnar.
Auk þess að leitast við að varðveita safngripi sem félaginu eru afhentir og safnið telur hafa varðveislugildi og ekki síður að standa fyrir sýningum eða kynningum á safngripum.
„Búsaga er með aðstöðu í útihúsum að Saurbæ í Eyjafjarðarsveit samkvæmt samingi við sveitarfélagið. Húsnæðið var mjög illa farið þegar Búsaga flutti starfsemi sína þangað, hélt hvorki vatni né vindi. Margir félagar í Búsögu hafa unnið gríðar- mikið sjálfboðastarf við endurbætur á húsnæðinu og notið stuðnings og velvildar sveitarfélagsins, verktaka og fyrirtækja í Eyjafirði, sem allir eru mjög þakklátir fyrir,“ segir Sigurður.
Nýja dagatalið, sem kostar 3.000 krónur, er hægt að panta í gegnum netfangið busaga@simnet. is og í síma 894-9330 eða með skilaboðum á Facebook (Búsaga – búnaðarsögusafn Eyjafjarðar).