Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Bílfarmur af lúðrasveitungum Þorlákshafnar, er leiddu skrúðgöngu á bæjarhátíð Ölfyssinga, Hamingjunni við hafið.
Bílfarmur af lúðrasveitungum Þorlákshafnar, er leiddu skrúðgöngu á bæjarhátíð Ölfyssinga, Hamingjunni við hafið.
Líf og starf 24. október 2022

Blásið í partílúðrana

Höfundur: Sigrún Pétursdóttir

Lúðrasveit Þorlákshafnar hefur vakið athygli undanfarinn áratug fyrir öfluga starfsemi sína og samstarf með þekktum listamönnum.

Sveitin stendur á margan hátt fyrir óhefðbundnu lúðrasveitarstarfi, t.a.m. Þorláksvökunni er margir minnast. Um ræðir tólf tíma tónlistarvöku, hugmynd stjórnanda lúðrasveitarinnar, Englendingsins Róberts Darling, en sú fyrsta var haldin laugardaginn 28. maí árið 1988, eins og fróðir menn muna.

Lífið & sálin í uppbyggingu tónlistarlífs Þorlákhafnar, Robert Darling, stendur hér keikur ásamt dóttur sinni og tengdadóttur.

Árið 1984 hóf Lúðrasveitin starfsemi sína undir hatti þeirra er hjarta menningar og listar sló. Má nærri geta hversu stórkostulegt framtak þetta var, í rúmlega 1.000 manna plássi Þorlákshafnar þessa tíma. Stjórnandi var ráðinn, Róbert Darling áðurnefndur, sem átti eftir að hafa mikil áhrif á tónlistarlíf bæjarins. Auk þess að stjórna lúðrasveitinni í rúm þrjátíu ár, var það meðal annars að hans frumkvæði sem Barnakór Þorlákshafnar var stofnaður árið 1991, sem hann stjórnaði fram til ársins 1995. Einnig stjórnaði hann Söngfélagi Þorlákshafnar og sinnti stöðu organista Þorlákskirkju til fjölmargra ára.

Róbert stóð keikur við stjórn Lúðrasveitar Þorlákshafnar þar til árið 2016 en hefur síðan spilað sem óbreyttur liðsfélagi á barítónhorn í lúðrasveitinni. Ráðnir stjórnendur hafa síðan þá verið Snorri Heimisson og Guðmundur Óli Gunnarsson auk Ásu Berglindar Hjálmarsdóttur, trompetleikara og meðlims Lúðrasveitar Þorlákshafnar frá barnæsku, sem hefur stjórnað annað veifið hin síðari ár. Heldur Ása Berglind einnig um stjórnartaumana í verkefninu Þar sem himin ber við haf.

Tónlistarmaðurinn frá Þorlákshöfn

Það var í kringum árið 2012 sem lúðrasveitin hóf að vekja athygli á landsvísu vegna samstarfs hennar við tónlistarmanninn Jónasar Sig, sem fæddur er og uppalinn í Þorlákshöfn. Hafði stjórn sveitarinnar samband við Jónas – með sameiginlegt tónleikahald í huga – þar sem hans þekktustu lög yrðu spiluð.

Lúðrasveit Þorlákshafnar forðum daga, Jónas Sig. fyrir miðju.

Samstarfið fæddi af sér tylft nýrra laga, í raun óðs til sjávarþorpa 20. aldarinnar, og út var gefin platan Þar sem himin ber við haf.

Í kjölfarið voru haldnir hvorki meira en minna en þrennir útgáfutónleikar í Reiðhöll Guðmundar í Þorlákshöfn, uppselt á þá alla.

Þótti gjörningurinn svo stórfenglegur á allan hátt, að hann hlaut tilnefningu Íslensku tónlistarverðlaunanna. Sumarið 2013 hélt svo allur hópurinn, lúðrasveitin ásamt Jónasi og hljómsveit, á Borgarfjörð eystri þar sem haldnir voru tvennir tónleikar í aðdraganda Bræðslunnar. Einnig uppselt á báða.

Ekkert verkefni er of stórt eða of smátt

Það má með sanni segja að þarna hafi lúðrasveitarmeðlimir komist á bragðið með stóra og flókna umgjörð sem og samvinnu með öðrum.Sem dæmi um uppákomur og tónleika sveitarinnar og má nefna Landsmót íslenskra lúðrasveita, sem haldið var í Þorlákshöfn í kjölfar tónlistarveislu Þar sem himin ber við haf. Þar komu fram, ásamt 150 hljóðfæraleikurum, hljómsveitirnar 100.000 naglbítar, Fjallabræður og Jónas Sig.

 Meðlimir sveitarinnar prúðbúnir fyrir nýárstónleika árið 2021.

Eftir Landsmótið varð frekari samvinna og tónleikahald Lúðrasveitar Þorlákshafnar og Lúðrasveitar Vestmannaeyja ásamt Fjallabræðrum og Jónasi Sig. Einnig verður að nefna dýrmætt samstarf sveitarinnar og tónlistarmannsins Magnúsar Þórs Sigmundssonar. Hélt lúðrasveitin fáeina tónleika um landið þar sem lög hans voru spiluð og Stefán Jakobsson, söngvari hljómsveitarinnar Dimmu, söng listavel eins og hann er nú þekktur fyrir.

Er Magnús Þór einn ástsælasti og afkastamesti laga- og textahöfundur þjóðarinnar og tónlist hans að finna á hundruðum útgefinna platna. Þekkir þar yngri kynslóðin vafalaust söngvana um Póstinn Pál og Óla prik. (Ekki samt í flutningi Stebba Jak.)

Svo hefur lúðrasveitin, auðvitað yfir árin, ýmist haldið jóla- eða nýárstónleika og þá fengið til liðs við sig þekkta söngvara á borð við Valgerði Guðnadóttur, Jógvan Hansen, Guðrúnu Gunnarsdóttur, Halldóru Katrínu og Valdimar.

Í sól og blíðu á lúðrasveitamóti í Lettlandi.
Samheldinn og kröftugur hópur

Þó hér sé allmargt upp talið, er þetta einungs brot af verkefnum Lúðrasveitar Þorlákshafnar, enda kröftugur og samheldinn hópur sem vílar ekki fyrir sér hvert stórverkefnið á fætur öðru.

Sveitin hefur í gegnum tíðina átt því láni að fagna að eðlileg endurnýjun á sér stað; ungt fólk kemur í sveitina og þá líka á 3. stigi í tónlist.

Meirihluti hljóðfæraleikaranna eru að auki aldir upp í Þorlákshöfn og hafa lært á sín hljóðfæri hjá Tónlistarskóla Árnesinga. Eru flestir búsettir í Þorlákshöfn en töluverður hluti býr á höfuðborgarsvæðinu og einhverjir í nágrannasveitarfélögum. Má því segja að lúðrasveitin sé brú til brottfluttra.

Meðlimir sveitarinnar, allt frá sextán ára og að sjötugu, búa að því að þrátt fyrir aldursbilið er ekkert kynslóðabil.

Alþýðuhljómsveit sem þessi er þverskurður mannlífs. Í henni má finna hjúkrunarfræðinga, rafvirkja, kennara á öllum skólastigum, framhalds- og háskólanema, félagsfræðing, grafískan hönnuð, markaðs- og menningarsérfræðing, lækni, leikara, rakara, flugfreyju og þar fram eftir götunum.

Er öllum tekið opnum örmum enda lúðrafangið breitt og heitt.

Besta gjöfin
Líf og starf 20. desember 2024

Besta gjöfin

Í jólabókaflóðinu sem nú stendur sem hæst kennir ýmissa grasa. Þar innan um stin...

Jólaföt á grænum nótum
Líf og starf 20. desember 2024

Jólaföt á grænum nótum

Vistvænt jóladress er eitthvað sem ætti að vera efst á listanum um þessar mundir...

Særður fram úr myrkviðum aldanna
Líf og starf 20. desember 2024

Særður fram úr myrkviðum aldanna

Íslenski jólakötturinn var næstum horfinn úr menningunni fyrir um hálfri öld þeg...

Á döfinni í desember
Líf og starf 20. desember 2024

Á döfinni í desember

Uppákomur og skemmtanir eru árvissir viðburðir um þetta leyti og ýmislegt áhugav...

Fórn vetrarsólstaða
Líf og starf 20. desember 2024

Fórn vetrarsólstaða

Víða um heim koma geitur fyrir í trúarbrögðum og eru heiðnar norrænar jólahefðir...

Uppselt þar til í janúar
Líf og starf 18. desember 2024

Uppselt þar til í janúar

Leikfélag Hveragerðis tók fyrir leikverkið vinsæla, Ávaxtakörfuna, nú í haust un...

Mannamót
Líf og starf 17. desember 2024

Mannamót

Bjarki Elvar Stefánsson sigraði á Íslandsmeistaramóti í Hornafjarðarmanna sem fó...

RÚV sýnir bridds aukinn áhuga
Líf og starf 17. desember 2024

RÚV sýnir bridds aukinn áhuga

Sveit InfoCapital er deildarmeistari 2024 í Deildakeppninni sem var spiluð í Haf...