Fiski-nasl úr afskurði og blómapappír úr beinum
Nýsköpunarkeppninni MAKE-athon á Íslandi, sem gekk út á að finna lausnir til að bæta nýtingu hliðarafurða í sjávarútvegi, lauk formlega 18. september með lokaathöfn og verðlaunaafhendingu. Tíu teymi kepptu með alls 50 þátttakendum og varð niðurstaðan að tvö lið voru útnefnd sigurvegarar; SOS-hópurinn sem framleiddi eins konar „pepperóní“ eða nasl úr fiskafgöngum og Otoseed-hópurinn sem framleiddi pappír úr fiskbeinum sem hefur þann eiginleika að upp úr honum spretta blóm, sé hann vökvaður.
MAKEathon á Íslandi var í umsjón Matís og stóð yfir í eina viku á fjórum stöðum á Íslandi; Reykjavík, Akureyri, Neskaupstað og Bolungarvík/Ísafirði, þar sem þátttakendur með fjölbreyttan bakgrunn spreyttu sig á verkefninu „Hvernig getum við aukið verðmæti hliðarafurða í sjávarútvegi til að gera vinnsluna sjálfbærari?“
MAKEathon á Íslandi er hluti sambærilegra evrópskra viðburða sem eru rekin undir verkefninu MAKE-it, sem stofnað var af EIT FOOD – sem er hluti af undirstofnun Evrópusambandsins. Í þessum verkefnum er lögð áhersla á sjálfbærni og nýsköpun meðal annars í matvælaframleiðslu í Evrópu.
Viðburðurinn fór að mestu fram með fjarfundarbúnaði og í gegnum samfélagsmiðla – og sömuleiðis lokaathöfnin. Verkefnið var unnið í nánu samstarfi við FabLab á Íslandi og gefur þátttakendum frábært tækifæri til að kynnast nýsköpunarumhverfinu betur og jafnframt tækifæri til að þróa eigin vöru í kjölfar MAKEathon.