Smalað í Hrútatungurétt
Fyrstu haustréttir landsins fóru fram laugardaginn 4. september og standa nú réttir sem hæst yfir víða um land.
Hrútatungurétt í Hrútafirði var ein af þeim réttum sem réttað var í 4. september. Um fjögur þúsund fjár voru í réttunum og komu lömbin vel holduð og falleg af fjalli.
Magnús Hlynur Hreiðarsson var í réttunum og tók meðfylgjandi ljósmyndir.
Bændur voru ánægðir með það hvað lömbin komu falleg af fjalli.
Kvenfélag Staðarhrepps sá um kaffiveitingarnar í réttarhléinu af sínum myndarskap.
Það er mjög mikilvægt að skoða mörkin vel þannig að kindurnar fari nú örugglega í réttan dilk.
Það á að vera gaman og það er gaman í réttum. Hér að ofan er Anna Björk Björgvinsdóttir að draga fyrir Þóroddsstaði.
Stundum þarf að bera lömbin í dilkana sína, hér hefur Sigurbjörg Þorsteinsdóttir á Reykjum brugðið á það ráð.
Ómar Elí Fannarsson, sjö ára, var að fara í sínar fyrstu réttir. Honum fannst ótrúlega gaman í réttunum og fékk stundum aðstoð ömmu sinnar við að draga.