Stjörnuspá
Vatnsberinn kemur ferskur undan vætusömu sumri og er til í hvað sem er. Hann hefur sjaldan haft eins skýra mynd af áformum sínum og því um að gera að halda ótrauður áfram. Gæta þess þó að fara ekki offari og taka tillit til sinna nánustu. Happatölur 5, 41, 73.
Fiskurinn er þungur þessa dagana og hefur barist við veikindi á einn eða annan hátt nú í lengri tíma. Einhver ónot sem vilja ekki hverfa eða hugarangur sem situr í honum. Gæfan er honum þó hliðholl er kemur að peningum, en óvænt lán í þeim efnum má vænta á næstu vikum. Happatölur 8, 15, 11.
Hrúturinn hefur reynt sitt besta til að taka skref sér til betrunar en hefur ekki alltaf fengið þau viðbrögð frá öðrum sem hann bjóst við. Það má þó ekki láta deigan síga því batnandi manni er best að lifa og gott að muna að ferska loftið gerir öllum gott. Áfram gakk með sól í hjarta. Happatölur 38, 62, 1.
Nautið ætti að staldra við um þessar mundir og líta yfir líf sitt. Gott væri svo að gera einhvers konar plan yfir næstu þrjú ár sem munu verða afar heillasæl ef tekin eru skref í rétta átt. Rétta áttin eru þeir draumar og væntingar sem hafa blundað í nautinu en hafa beðið þess að verða að veruleika. Happatölur 5, 13, 32.
Tvíburinn finnur haustið hellast yfir sig og er hálfringlaður. Missti hann af sumrinu? Það þarf þó ekki að örvænta, því með hausttilfinningunni hellist óvænt værð og ró yfir oft yfirspenntan tvíburann. Þess er best að njóta og helst (láta) dekra sem mest við sig. Það mun borga sig þó síðar verði. Happatölur 9, 21, 45.
Krabbinn snýst í hringi innra með sér og finnst hann standa á tímamótum. Er hann hamingjusamur? Vantar gáska og gleði í líf hans? Spennu? Eitthvað er það og því best að vega og meta hverja mögulega ákvörðun út frá því sem hann telur koma sér best því maður lifir víst bara einu sinni. Happatölur 18, 28, 36.
Ljónið hefur verið á harðahlaupum síðustu vikurnar. Helst þá innra með sér því nú vill það gera vel á sem flestum sviðum lífsins, enda farið að sjá jákvæða uppskeru eftir hamaganginn. Það mun smita út frá sér ef vel er haldið á spöðunum og hygla ljóninu enn frekar. Happatölur 10, 29, 76.
Meyjan hefur þótt alvarleg í bragði undanfarið, en er í raun hamingjusöm og ró í hjarta. Sjálfstraust hennar hefur aukist og eykst enn fremur næstu vikur. Mun sú tilfinning opna henni nýjar dyr sem hún ætti ótrauð að stika í gegnum eins og hún eigi heiminn. Leiðin er einungis upp á við. Happatölur 4, 66, 28.
Vogin finnur fyrir einhverju óöryggi og kvíða þessa dagana en má þó trúa því að allt í kringum hana eru ástvinir sem styðja hana í einu eða öllu. Með það í huga hressist sálartetrið fyrr en síðar enda alltaf gott að umvefja sína nánustu og muna að ástin sigrar allt. Happatölur 10, 19, 21.
Sporðdrekinn er nú vakinn og sofinn yfir nýjustu hugmynd sinni sem mun verða honum til gæfu ef vel er á haldið. Gæta skal þó þess að sýna heiðarleika ofar öllu því annars fer ekki vel. Einhver lasleiki er í kortunum og því skal muna að gæta að því þó mikið sé um að vera. Happatölur 2, 68, 67.
Bogmanninum hefur fundist óþarflega mikið liggja á sínum herðum undanfarið en er ekki viss um hvert hann getur leitað til þess að fá aðstoð. Aðstoðin er þó nær en hann grunar, en hann þarf að brjóta odd af oflæti sínu til þess að fá hjálpina. Eftir það verða allar leiðir færar. Happatölur 5, 1, 41.
Steingeitin er eitthvað áttavillt í lífi sínu þessar vikurnar og finnst að öll hennar veraldarsýn sé að hrynja. Sem er ekki skrýtið ef stoðirnar eru ekki traustar en hafa haldist uppi á þrjóskunni. Þrjóskan er barátta sem erfitt er að breyta og því spurning hvað kemur fólki best. Happatölur 3, 14, 25.