Þrír geithafrar geltir
Silvia Windmann dýralæknir leit við að Felli í Finnafirði þegar blaðamaður Bændablaðsins var þar í heimsókn. Erindi hennar var að gelda þrjá geithafra.
Starfssvæði Silviu er Vopnafjarðarhreppur, Langanesbyggð, Svalbarðshreppur og Raufarhöfn, eða þjónustusvæði sex eins og það er kallað. Erindi Silviu að Felli var að gelda þrjá geithafra.
Silvía er frá Þýskalandi en búin að búa á Íslandi í fjórtán ár. „Ég kom upphaflega til Íslands í starfsnám fyrir sautján árum og kynntist núverandi manninum mínum. Að starfsnáminu loknu sneri ég aftur til Þýskalands til að ljúka náminu og svo aftur til Íslands að því loknu.“
Silvia fór sér að engu óðslega kringum geithafrana áður en geldingin fór fram. Fyrst voru þeir svæfðir og eftir að þeir höfðu lognast út af lagði hún þá á hliðina.
Geldingartólið er stór og mikil töng sem brugðið er við rót pungsins og hert að. Ekki var neitt blóð að sjá við geldinguna en blaðamaður Bændablaðsins lét sér nægja að horfa á eina og hraðaði sér svo burt því ekki var laust við að hann væri töluvert smeykur við geldingatöngina.