Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Hvannarlaufin skorin án þess þó að rífa plöntuna upp með rótum.
Hvannarlaufin skorin án þess þó að rífa plöntuna upp með rótum.
Mynd / Saga Natura
Líf og starf 31. maí 2022

Þurfa 40–50 tonn af hvannarlaufum

Höfundur: smh

Saga Natura, sem framleiðir heilsubótarvörur úr íslenskri ætihvönn, ákallar nú bændur og landeigendur um að fá aðgang að löndum þeirra til tínslu á hvönn. Auk þess er auglýst eftir fólki til að sækja þetta mikilvæga hráefni í framleiðsluna.

Blaðamaður heimsótti þau Sólveigu Stefánsdóttur, framkvæmdastjóra Saga Natura, og dr. Steinþór Sigurðsson, vísindamann fyrirtækisins, á dögunum eftir að hafa séð smáauglýsingu í Bændablaðinu frá þeim. Í henni var auglýst eftir landsvæði þar sem hægt væri að tína ætihvönn í sumar.

„Á síðasta ári höfum við séð mikla söluaukningu á vörunum Saga Pro og Voxis þar sem aðalhráefnið er þykkni sem við vinnum úr hvannarlaufum. Birgðir okkar eru að klárast þannig að nú köllum við eftir aðstoð fólks við tínslu og biðjum um leyfi fyrir okkur og okkar fólk til að fá að fara um heppileg lönd og tína,“ segir Sólveig.

Sólveig Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Saga Natura, og dr. Steinþór Sigurðsson vísindamaður í vinnslusal fyrirtækisins. Mynd / smh

Ein mikilvægasta nytjajurt Íslandssögunnar

Hún segir að ætihvönnin sé auðvitað ein mikilvægasta nytja- og lækningajurt Íslandssögunnar. Heimildir séu fyrir því að hún hafi verið mikilvæg verslunarvara hjá víkingum og í Grágás hafi verið kveðið á um viðurlög við stuldi á hvönn, útlegð eða sekt ef tekin var hvönn úr annarra garði.

„Hjá okkur er handtínt úti í náttúrunni og svo eru þau þurrkuð eða fryst innan sólarhrings. Síðan eru þau soðin niður í þykkni og loks frostþurrkuð og mulin.
Þá er hráefnið tilbúið til að fara í hylki til inntöku, fyrir Saga Pro til dæmis, eða í brjóstsykursgerð fyrir Voxis-vörurnar.“

Hrísey helsta nytjalandið

Að sögn Sólveigar hefur Hrísey verið helsta nytjalandið fyrir hráefnisöflun Saga Natura, árum saman. „Núna er komið að ákveðnum þolmörkum þar, því þeir sem vinna hvönnina fyrir okkur þar ráða bara við tiltekið magn og svo þurfum við líka að fara að huga að öðrum svæðum nálægt okkar vinnslustöð. Það er meðal annars bara út af öryggisatriðum, það er ekki gott að treysta bara á eitt svæði ef það yrði nú uppskerubrestur þar – til dæmis vegna ótíðar eða náttúruhamfara.

En vegna þess að við erum háð ví að þurfa að þurrka eða frysta hráefnið innan sólarhrings frá því að það er tínt, verða landsvæðin að vera í um 100 kílómetra radíus frá okkar vinnslu. Í sumar áætlum við að þurfa að tína – eða láta tína fyrir okkur – um 40 til 50 tonn af hvannarlaufum. Við ráðumst í þetta átak vegna þess að hvannartínslutíminn er svo skammur; í raun höfum við bara frá því í lok júní og fram yfir miðjan ágúst fyrir tínsluna á hvannarlaufunum og birgðasöfnun næstu 12 mánuðina.

Við biðjum um að bændur og landeigendur gefi sig fram við okkur, þar sem vænlegt er að tína hvönn. Fólki sem hefur áhuga á því að tína fyrir okkur munum við greiða 500 krónur á kíló í verktakagreiðslum. Við höfum áætlað að öflugt tínslufólk geti tínt allt að 80 til 100 kíló á dag.“

Tilraunaræktun í Gunnarsholti

Steinþór segir að fyrir tveimur árum hafi fyrirtækið hafið tilraunaræktun á hvönn á nokkrum hekturum í Gunnarsholti. „Við erum í raun enn með ræktunina í þróun því að ýmsu er að hyggja, en bindum miklar vonir við hana. Ef hún mun þrífast eins og hún hefur gert þarna hjá okkur á undanförnum árum liggur beint við að við munum notast að miklum hluta við hráefni úr eigin framleiðslu í framtíðinni. Það skýrist hvernig þessi tilraun mun ganga eftir um tvö ár.“

Sólveig segir að það sé mikið lán að hafa Steinþór í Saga Natura-teyminu, því hann sé sá Íslendingur sem hafi rannsakað heilsusamleg áhrif hvannarinnar einna mest á Íslandi; aðgreint og einangrað öll virku efnin – ásamt því að prófa þau eitt af öðru. „Við Sigmundur [Guðbjarnarson] byrjuðum á að rannsaka hvönnina í kringum aldamótin. Við byrjuðum reyndar á því að skoða allar mögulegar jurtir en í öllum þessum virkniprófunum sem við gerðum, þá kom hvönnin alltaf best út. Við beindum því sjónum okkar meira að henni. Framan af skoðuðum við mest fræið og rótina dálítið – en það má segja að mesta hefðin sé fyrir rannsóknum á henni víða í Evrópu og einnig kannski neyslan. En fyrir hálfgerða tilviljun fórum við svo að skoða hvannarlaufið. Við skoðuðum áhrifin á krabbameinsæxli og eftir að við fengum áhugaverðar niður- stöður út úr þeim rannsóknum leiddi það til þess að við fórum að vinna meira með það.“

Vörulína sem byggir á gömlum grunni

Sigmundur og Steinþór stofnuðu fyrirtækið Saga Medica árið 2000. Fyrstu fæðubótarvörurnar komu á markað fáeinum árum síðar, sem rötuðu síðan inn í vörulínu hins nýja fyrirtækis, Saga Natura, eftir að fyrirtækin Saga Medica og Key Natura – sem framleiddi fæðubótarvörur úr smáþörungum – runnu saman árið 2018.

Steinþór segir að það sé talsverður munur á því efnainnihaldi sem finnst í rótinni, fræinu og síðan laufinu. „Það eru ekki sömu efni í öllum hlutum plöntunnar en sum efni finnast í sumum hlutum en þá í mismunandi styrkleika. Vinnsluaðferðin er líka mismunandi eftir því hvaða virku efni við erum að vinna með.

Rótin hefur ekki verið nýtt að neinu marki á Íslandi af praktískum ástæðum – það er mun snúnara að vinna hana. Rannsóknir okkar Sigmundar gáfu til kynna að virkni efnanna í henni væri talsvert frábrugðnari en í hinum hlutunum.“

Talsvert selt til Bandaríkjanna og Nýja-Sjálands

„Já, en við seljum reyndar talsvert Saga Pro til útlanda, einkum Bandaríkjanna og Nýja-Sjálands,“ segir Sólveig spurð um hvort Ísland sé sterkasta markaðssvæði Saga Natura. „Hróður vörunnar hefur farið víða, enda hrjá vandamál sem eru tengd ofvirkri þvagblöðru fólk um allan heim, bæði konur og karla á öllum aldursskeiðum þótt þau séu algengust í eldra fólki. Þetta er langvinsælasta varan okkar.

Sala á SagaPro fyrir erlenda markaði hófst fyrir rúmlega tíu árum en við erum líka með markaði í Kanada, Svíþjóð, Sviss og í Asíu – og fleiri lönd eru í sigtinu. Við bíðum nú vongóð eftir nýjum niðurstöðum úr stórri og kostnaðarsamri rannsókn sem Evrópusambandið studdi, enda eru náttúruleg fæðubótarefni sem byggð eru á klínískum niðurstöðum afar söluvænleg,“ segir hún.

Steinþór hefur reyndar sjálfur unnið að rannsóknum á virku efnunum í þvagblöðrulíkani. Með þeirri aðferð fann hann efni í hvönninni sem hefur slakandi áhrif á þvagblöðruna. Sólveig segir að þetta þýði að Saga Pro virki líka fyrir konur, því það er enginn sérstakur líffræðilegur munur á þvagblöðru karla og kvenna. Saga Natura hefur sótt um einkaleyfi á notkun virka efnisins í ætihvönninni gegn vandamálum tengdum ofvirkri þvagblöðru.

Öflugt fólk í startholunum að tína hvannarlauf. Myndir / Saga Natura

Eingöngu ætihvönn nothæf

Steinþór leggur áherslu á að eingöngu ætihvönn sé nothæf sem hráefni í þeirra vörur. „Það er reyndar á einstökum stöðum þar sem geithvönn og ætihvönn vaxa saman og óvanir geta ruglast, en það er mjög mikilvægt að ganga úr skugga um að um ætihvönn sé að ræða áður en blöð plöntunnar eru tínd,“ segir hann. Aðrar hvannartegundir séu hins vegar frábrugðnari og varasamt að handleika, eins og bjarnarkló og tröllahvönn.

Þau hvetja áhugasama til að gefa sig fram, því um einstakt tækifæri sé að ræða til að njóta útivistar í íslenskri náttúru og að fá greitt sómasamleg laun fyrir afraksturinn. 

Skylt efni: hvönn | hvannarlauf | Saga Natura

Besta gjöfin
Líf og starf 20. desember 2024

Besta gjöfin

Í jólabókaflóðinu sem nú stendur sem hæst kennir ýmissa grasa. Þar innan um stin...

Jólaföt á grænum nótum
Líf og starf 20. desember 2024

Jólaföt á grænum nótum

Vistvænt jóladress er eitthvað sem ætti að vera efst á listanum um þessar mundir...

Særður fram úr myrkviðum aldanna
Líf og starf 20. desember 2024

Særður fram úr myrkviðum aldanna

Íslenski jólakötturinn var næstum horfinn úr menningunni fyrir um hálfri öld þeg...

Á döfinni í desember
Líf og starf 20. desember 2024

Á döfinni í desember

Uppákomur og skemmtanir eru árvissir viðburðir um þetta leyti og ýmislegt áhugav...

Fórn vetrarsólstaða
Líf og starf 20. desember 2024

Fórn vetrarsólstaða

Víða um heim koma geitur fyrir í trúarbrögðum og eru heiðnar norrænar jólahefðir...

Uppselt þar til í janúar
Líf og starf 18. desember 2024

Uppselt þar til í janúar

Leikfélag Hveragerðis tók fyrir leikverkið vinsæla, Ávaxtakörfuna, nú í haust un...

Mannamót
Líf og starf 17. desember 2024

Mannamót

Bjarki Elvar Stefánsson sigraði á Íslandsmeistaramóti í Hornafjarðarmanna sem fó...

RÚV sýnir bridds aukinn áhuga
Líf og starf 17. desember 2024

RÚV sýnir bridds aukinn áhuga

Sveit InfoCapital er deildarmeistari 2024 í Deildakeppninni sem var spiluð í Haf...