Lömbin ekki alltaf til í að standa kyrr og brosa
Íslensk lömb - Lambadagatal 2022 er komið út í áttunda sinn. Daga- talið er í A4 stærð og auðvelt að hengja það upp hvar sem hentar. Sem fyrr prýða dagatalið stórar andlitsmyndir af fallegum, marglitum, nýlega fæddum lömbum úti í náttúrunni.
„Allar myndirnar í dagatalinu voru teknar á sauðburði síðastliðið vor og það vor var skítkalt en þurrt og hægviðrasamt,“ segir Ragnar Þorsteinsson í Sýrnesi í Aðaldal, sauðfjárbóndi, útgefandi og höfundur lambadagatalsins. Hann segir bæði krefjandi og tímafrekt að taka myndir af lömbum eins og öðru ungviði. Þau eru sjálfstæð og á sífelldri hreyfingu, fylgjast vel með því sem er í gangi í kringum sig og eru stundum lítið til í að standa kyrr og brosa meðan myndavélinni er stillt upp. „Á þessum tíma er sauðburður í fullum gangi og því oft ekki mikill tími aflögu til annarra verka.
Myndatakan er þó mjög skemmtileg og það er endurnærandi á sál og líkama að leggjast út á tún og taka myndir af lömbunum, knúsa þau og vinna traust þeirra. Megintilgangur útgáfunnar er að breiða út sem víðast, fegurð og fjölbreytni íslensku sauðkindarinnar og finna á þeirri vegferð, þá miklu velvild sem er meðal fólks til okkar sauðfjárbænda og íslensku sauðkindarinnar en hún hefur fætt okkur og klætt í gegnum aldirnar og án hennar værum við ekki til sem þjóð í dag,“ segir Ragnar í Sýrnesi.