Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 mánaða.
„Maka þá í floti og súru sméri“
Menning 8. apríl 2024

„Maka þá í floti og súru sméri“

Höfundur: Steinunn Ásmundsdóttir

Orðsins list kemur að þessu sinni úr Þjóðsagnabók Ásgríms Jónssonar listmálara. Hann fæddist í Rútsstaðahjáleigu (Suðurkoti) í Flóa árið 1876.

Ásgrímur Jónsson.

Í æsku „lifði hann því lífi sem alþýða manna lifði til sveita hér á landi á þeirri tíð, við störf hennar og hætti“. Hann nam við Konunglega listaháskólann í Kaupmannahöfn á árunum 1900– 1903 og ferðaðist víða að námi loknu. Hann varð fyrstur íslenskra málara til að gera myndlistina að aðalstarfi og er hvað þekktastur fyrir landslagsmyndir sínar þó svo að á löngum ferli hafi stefnur og áherslur hjá honum breyst. Síðustu misserin sem Ásgrímur lifði vann hann að nýjum flokki mynda úr íslenskum þjóðsögum. Allt frá unga aldri höfðu þjóðsögurnar verið honum hugleiknar og á langri ævi gerði hann margar myndir út af þjóðsagnaefni, blýants- og pennateikningar, vatnslitamyndir og olíumálverk. Skömmu fyrir andlátið fól hann Bókaútgáfu menningarsjóðs handrit að úrvali nýrra þjóðsagnamynda og nokkurra eldri, um 40 talsins, ásamt tilheyrandi sögum.

Ásgrímur lést árið 1958 og hvílir í Gaulverjabæjarkirkjugarði.

Séra Skúli Gíslason (1825– 1888) var ötull þjóðsagnasafnari og eru margar sögur frá honum prentaðar m.a. í Þjóðsögum Jóns Árnasonar. Skúli var ættaður úr Vesturhópshólum í V-Hún., nam við Reykjavíkurskóla og Hafnarháskóla, amtráðsmaður Suðuramts í áratug, prestur á Breiðabólstað í Fljótshlíð í þrjá áratugi og prófastur í Rangárþingum síðustu átta ár ævinnar.

Trunt, trunt og tröllin í fjöllunum

Einu sinni voru tveir menn á grasafjalli. Eina nótt lágu þeir báðir í tjaldi saman. Svaf annar, en hinn vakti. Sá þá hinn, er vakti, að sá, sem svaf, skreið út. Hann fór á eftir og fylgdi honum, en gat naumast hlaupið svo, að ekki drægi sundur með þeim. Maðurinn stefndi upp til jökla. Hinn sá þá, hvar skessa mikil sat uppi á jökulgnípu einni. Hafði hún það atferli, að hún rétti hendurnar fram á víxl og dró þær svo upp að brjóstinu, og var hún með þessu að heilla manninn til sín. Maðurinn hljóp beint í fang henni, og hljóp hún þá burt með hann. Ári síðar var fólk úr sveit hans á grasafjalli á sama stað; kom hann þá til þess og var fálátur og ábúðarmikill, svo varla fékkst orð af honum. Fólkið spurði hann, á hvern hann tryði og sagðist hann þá trúa á guð. Á öðru ári kom hann aftur til sama grasafólks. Var hann þá svo tröllslegur, að því stóð ótti af honum. Þó var hann spurður, á hvern hann tryði, en hann svaraði því engu. Í þetta sinn dvaldi hann skemur hjá fólkinu en fyrr. Á þriðja ári kom hann enn til fólksins; var hann þá orðinn hið mesta tröll og illilegur mjög. Einhver áræddi þó að spyrja hann að, á hvern hann tryði, en hann sagðist trúa á „trunt, trunt og tröllin í fjöllunum“ og hvarf síðan. Eftir þetta sást hann aldrei, enda þorðu menn ekki að vera til grasa á þessum stað nokkur ár eftir.*

Frá séra Skúla Gíslasyni, eftir sögn nyrðra

*Þegar tröll eru að magna og trylla þá menn, er þau hafa heillað til sín, eru þau vön að maka þá í floti og súru sméri þannig, að tvö tröll baka og toga þá yfir glæðum, og heldur þá annað í höfuðið og hitt í fæturna. Bls. 136-7, Þjóðsagnabók Ásgríms Jónssonar, Bókaútgáfa menningarsjóðs, 1959.

Stjörnuspá vikunnar
Líf og starf 15. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn er eitthvað órór þessa dagana enda einhver stífla á verkefnum í krin...

Gerum okkur dagamun
Líf og starf 12. júlí 2024

Gerum okkur dagamun

Nú er ekki seinna vænna en að fara að leggja línurnar fyrir sumarið og með það t...

Bænder
Líf og starf 12. júlí 2024

Bænder

Sumir fara á Tinder. Aðrir hafa ekki tíma í slíkt vegna anna í búskapnum. Hér, k...

Vættafundur á Eyjabökkum
Líf og starf 10. júlí 2024

Vættafundur á Eyjabökkum

Orðsins list kemur að þessu sinni frá Oddbjörgu Sigfúsdóttur.

Sumarkveðja
Líf og starf 10. júlí 2024

Sumarkveðja

Nú þegar lífið kviknar með sumrinu og golan leikur við kinn, skulum við gleðjast...

Himbrimi
Líf og starf 9. júlí 2024

Himbrimi

Himbrimi er nokkuð stór vatnafugl og er einn af einkennisfuglum íslenskra heiðav...

Sumarsveiflan 2024
Líf og starf 8. júlí 2024

Sumarsveiflan 2024

Áherslur tískunnar fara nokkuð vítt og breitt þetta árið en nú þegar er farið að...

Dugur og elja ofar öllu
Líf og starf 8. júlí 2024

Dugur og elja ofar öllu

Eitt þeirra mætu kvenfélaga sem hér á landi sitja er Kvenfélag Hringsins sem hef...