Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 mánaða.
Can-Am Outlander MAX DPS 700 er splunkunýtt kanadískt fjórhjól. Allt yfirbragð þess og notkun ber með sér vandaða framleiðslu.
Can-Am Outlander MAX DPS 700 er splunkunýtt kanadískt fjórhjól. Allt yfirbragð þess og notkun ber með sér vandaða framleiðslu.
Vélabásinn 8. ágúst 2024

Algjör jaxl utan vega

Höfundur: Ástvaldur Lárusson

Bændablaðið fékk til prufu þriðju kynslóð af Can-Am Outlander fjórhjólinu. Það er götuskráð tæki með rými fyrir tvo sem hentar bæði sem leikfang eða vinnuvél.

Hvað varðar útlit er Can- Am Outlander afar hefðbundið fjórhjól. Þessi útgáfa af Outlander á samkvæmt umboðinu næstum ekkert sameiginlegt með fyrri gerðinni, en í fljótu bragði þekkjast kynslóðirnar varla í sundur.

Eins og öll fjórhjól, þá er þetta með fjórum litlum og grófum dekkjum ásamt því sem öxlarnir og fjöðrunarbúnaðurinn er fyrir allra augum. Í miðjunni er hnakkur og sæti fyrir farþega og stýri rétt eins og á mótorhjóli. Þá eru öflugar farangursgrindur beggja vegna og var þetta hjól sérstaklega útbúið aukaboxi að aftan.

Lungamjúkt sæti

Þægilegt er að klofa hnakkinn sem er nokkuð breiður. Svampurinn undir sitjandanum er lungamjúkur og fer vel með notandann. Stýrið er býsna ofarlega og getur notandinn setið beinn í baki. Farþegasætið er með háu sætisbaki og tveimur öflugum handföngum til beggja hliða sem gefur farþeganum mikinn stöðugleika.

Fjórhjólið er ekki með neitt eiginlegt mælaborð en hins vegar lítið stjórnborð með nokkrum tökkum og litlum skjá. Við vinstri hönd á stýrinu er handfang fyrir frambremsuna og innan seilingar eru takkar til að ræsa hjólið, drepa á því, stýra aðalljósum, stefnuljósum, hættuljósum, flautu, ásamt hnappa til að stilla hitann í handföngunum. Við hægrifót er lítið fótstig fyrir afturbremsu.

Við hægri höndina er inngjöf við þumalinn og takki þar sem valið er milli afturhjóladrifs og fjórhjóladrifs. Þá er hnappur þar sem hægt er að velja á milli þriggja akstursstillinga, en að auki við hefðbundna stillingu er hægt að velja „work mode“ og sportstillingu. Sú fyrrnefnda hægir á inngjöf og lækkar hámarkshraða sem reyndist notadrjúgt í torfærum. Þá síðarnefndu þorði undirritaður ekki fyrir sitt litla líf að nota, en með henni er allt afl hjólsins leyst úr læðingi.

Aftursætið fer vel með farþega og hafa þeir öflug handföng til að halda í.

Vatnsþétt hólf

Framan við hnakkinn er kúla þar sem aðallyklinum er smellt upp á, en hjólið drepur sjálfkrafa á sér um leið og lykillinn er tekinn af kúlunni. Rétt við klofið á ökumanninum er lítið geymsluhólf sem hentar fyrir farsíma eða aðra smáhluti og er með usb-hleðslutengi.

Þessi Can-Am fjórhjól koma með vatnsþéttu geymsluhólfi að framan sem rúmar skjalatösku. Undirritaður veit ekki hvort um sé að ræða úthugsað öryggisatriði hjá framleiðandanum svo lokið fjúki ekki upp eða hreinan klaufaskap, en til þess að opna hólfið þarf að beita báðum höndum samtímis á tvær læsingar. Þó svo að ofan á hólfinu komi pollur í rigningu, virðast rennurnar meðfram því beggja vegna ná að beina vatninu í burtu þegar það er opnað.

Boxið að aftan, sem er aukahlutur, er flatt en nær að rúma merkilega mikið. Gæta þarf varúðar þegar það er opnað á votviðrisdegi svo vatnið flæði ekki allt inn í hólfið.

Geymsluhólfið að framan er vatnsþétt og rúmar skjalatösku.

Óhentugt í borg

Can-Am Outlander er með stiglausri reimskiptingu og er notkun hennar sambærileg og á sjálfskiptum fólksbílum þar sem ökumaðurinn rennir stöng fram og til baka til að velja á milli P, N, H og L. Við allan almennan akstur er hjólinu ekið í H, sem er háa drifið, en í erfiðari torfærum er hægt að skipta niður í lága drifið.

Þrátt fyrir að fjórhjólið sé götuskráð og fullkomlega löglegt í umferðinni er það óskemmtilegt samgöngutæki. Upplifunin af akstri í þungri umferð á stofnbrautum getur verið uggvænleg, enda ökumaðurinn alveg berskjaldaður fyrir öðrum ökutækjum ásamt veðri og vindum. Hið litla hjólabil passar heldur aldrei almennilega í hjólförin sem myndast í malbikið sem veldur óstöðugleikatilfinningu.

Ráðamenn þurfa því ekki að hafa áhyggjur af því að götur borgarinnar fyllist af götuskráðum fjórhjólum þó einn og einn sérvitringur sjáist á stangli á leiðinni á skrifstofu í Borgartúni. Götuskráningin getur hins vegar verið mikill kostur fyrir þá sem þurfa að fara um stuttan veg á torfæruslóðir eða búa í dreifbýli. Allir aðrir ættu að fá sér kerru.

Ökumaðurinn hefur allt í höndum sér. Lítill skjár sýnir grunnupplýsingar.

Öflugt í torfærum

Þessi gagnrýni skiptir hins vegar litlu máli og þegar farið er út fyrir malbik og möl yfir í drullu og grjót finnst að Can-Am Outlander er algjör jaxl. Furðu afslappandi er að aka yfir grófa slóða sem venjulegur óbreyttur jeppi kæmist ekki án þess að valda tjóni á náttúru og ökutæki.

Í allra erfiðustu torfærunum kemur lága drifið sér vel og þar sem hjólið er fislétt og á grófum dekkjum kemst það upp ótrúlegar brekkur. Þá er hin litla stærð gagnleg til að geta sneitt fram hjá og á milli grjóts sem annars væru jeppum ofviða. Veghæðin er það mikil að jafnvel stærstu hnullungar rekast ekki undir kviðinn.

Fjórhjólið stendur sig best á grófum slóðum þar sem jeppar kæmust varla.

Eins strokks vél

Þetta hjól kemur með 700 rúmsentímetra eins strokks Rotax vél, sem þrátt fyrir þennan staka sýlinder er býsna þýð. Hestöflin fimmtíu og tvö eru drjúg fyrir ökutæki sem vegur minna en hálft tonn með ökumanni og þarf að halda þétt í stýrið þegar allt er gefið í botn.

Togið er mikið á öllum snúningshraða og heldur vélarbremsan vel við hvort sem ekið er niður brekku á fjalli eða slegið af við rauð ljós. Á jafnsléttu nemur hjólið fljótlega staðar þegar inngjöfinni er sleppt og er hægt að keyra lengi án þess að nota bremsu. Mótorinn myndi seint teljast hljóðlátur og heyrist alltaf vel í honum, sama hvort maður er stopp á rauðu ljósi eða á fleygiferð.

Að lokum

Við alla notkun finnst vel að Can-Am Outlander MAX DPS 700 er vandað tæki. Allir málmar eru þykkir og þétt skrúfaðir saman, allt plast er þykkt og seigt og er hnakkurinn með óviðjafnanlega mjúkum svampi.

Þrátt fyrir að hinn kanadíski framleiðandi þessara fjórhjóla gefi sig út fyrir að leggja allt í gæði og áreiðanleika þá virðist það ekki spilla fyrir samkeppnishæfni Can- Am hvað varðar verð. Outlander MAX DPS 700 kostar frá 2.390.000 og eru nánast óteljandi möguleikar á aukahlutum. Helstu mál eru í sentímetrum: Lengd, 239; breidd, 121; hæð, 133. Þurrvigt er 364 kílógrömm. Nánari upplýsingar fást hjá Ellingsen, söluaðila Can-Am á Íslandi.

Flytur fjölskyldur með stæl
Vélabásinn 13. desember 2024

Flytur fjölskyldur með stæl

Hér er á ferðinni nýr rafmagnsbíll frá Renault sem hefur fengið mikið lof hjá ev...

Traustur fararskjóti endurnýjaður
Vélabásinn 28. nóvember 2024

Traustur fararskjóti endurnýjaður

Bændablaðið fékk til prufu nýjustu gerðina af Honda CR-V e:PHEV Advance Tech, se...

Með öfluga bensínvél og stórt batterí
Vélabásinn 14. nóvember 2024

Með öfluga bensínvél og stórt batterí

Bændablaðið fékk til prufu Audi Q7 sem er stór og vel útbúinn jepplingur frá Þýs...

Alveg eins og sportbíll
Vélabásinn 17. október 2024

Alveg eins og sportbíll

Bændablaðið fékk til prufu Hyundai Ioniq 6 sem er stór rafknúinn fólksbíll með a...

Fjölskyldubíll með stæla
Vélabásinn 3. október 2024

Fjölskyldubíll með stæla

Hér er á ferðinni praktískur fjölskyldubíll sem er ekki nema 2,6 sekúndur frá ky...

Snarpur borgarbíll
Vélabásinn 19. september 2024

Snarpur borgarbíll

Bændablaðið fékk til prufu smart #3, miðlungsstóran rafmagnsbíl sem sameinar ýms...

Óviðjafnanleg fágun
Vélabásinn 5. september 2024

Óviðjafnanleg fágun

Bændablaðið fékk til prufu EQE SUV rafmagnsbílinn frá Mercedes Benz. Um er að ræ...

Sjálfkeyrandi ítölsk kerra
Vélabásinn 22. ágúst 2024

Sjálfkeyrandi ítölsk kerra

Bændablaðið fékk til prufu vinnubíl af gerðinni Piaggio Porter sem er nánast óþe...