Nýstárleg íhaldssemi
Bændablaðið fékk til prufu hinn nýja Toyota C-HR. Þetta er fágaður smájepplingur með óvanalegt útlit og mikinn útbúnað.
Bíllinn í þessum prufuakstri var tvinnbíll með tveggja lítra bensínvél sem studd er af rafmagnsmótor. Hann er af svokallaðri Premium útgáfu, sem kemur meðal annars með nítján tommu álfelgum, leðuráklæði, rafdrifnu sportsæti, sjónlínuskjá og ýmsu fleiru. Þá var þessi bíll með fjórhjóladrifi sem er aukahlutur.
Samsvarar sér vel
Ein helsta sérstaða Toyota C-HR er nýstárlegt og djarft útlitið. Hönnuðum bílsins hefur verið gefinn laus taumurinn og minnir C-HR á concept bíla sem kynntir eru á bílasýningum en enda svo aldrei í framleiðslu. Hvergi er hægt að sjá eitthvað sem er gamaldags eða samsvarar sér ekki í heildarmyndinni.
Þegar gengið er að bílnum taka á móti manni bestu innfelldu hurðarhúnarnir sem blaðamaður hefur komist í tæri við. Til að taka bílinn úr lás er nóg að ýta inn fremri hluta handfangsins og þá kemur aftari hlutinn út og helst þar þangað til ekið er af stað. Til að læsa er ýtt á takka sem bregst alltaf við, þrátt fyrir að notandinn sé í þykkum hönskum og úti er hellirigning – eitthvað sem ekki er hægt að ganga að vísu á bílum með lyklalaust aðgengi.
Nóg af tökkum
Toyota lagði sig sérstaklega fram við að gera nýju kynslóðina af C-HR og finnst það þegar sest er um borð að um meiri lúxusbíl er að ræða en forverann. Allt sem hægt er að snerta er með mjúku fóðri eða klætt leðri eða leðurlíki.
Innréttingin er framtíðarleg í útliti, en íhaldssöm í útfærslu á þann hátt að meira er um takka en í mörgum nýjum bílum og margmiðlunarskjárinn spilar ekki höfuðhlutverk. Hefðbundnir hnappar hafa þann kost fram yfir snertiskjá að þeir sem hafa náð að kynnast bílnum ættu að geta átt við stillingar með því að þreifa fyrir sér í staðinn fyrir að taka augun of lengi af veginum. Sjálfur margmiðlunarskjárinn er skýr og með fallegt viðmót. Þar er hægt að nálgast nokkrar stillingar, stjórna tónlistarspilun og tengjast leiðsögukerfi – annars fer flest allt fram án hans. Þetta er ágæt tilbreyting frá mörgum öðrum bílum þar sem ofuráhersla er á margmiðlunarskjáinn og hefur Toyota fundið gott jafnvægi.
Hægt er að tengja símann þráðlaust við skjáinn með Android Auto. Í þessum prufuakstri kom upp villa í kerfinu og glataðist tengingin í nokkur skipti og lagaðist ekki nema slökkt og kveikt væri á bílnum. Samkvæmt upplýsingum frá Toyota er þetta eitthvað sem er hægt að laga með uppfærslu í gegnum netið. Venjulega Bluetooth-tengingin er annars mjög áreiðanleg.
Leðurklædd sportsæti
Eins og hefur komið fram eru sætin leðurklædd í Premium útfærslunni. Bílstjórinn getur stillt sætið sitt með rafmagni, en farþegar þurfa að gera það handvirkt. Þá hefur ökumaðurinn möguleika á að stilla stuðninginn við mjóbakið. Heilt yfir eru framsætin prýðilega þægileg, en Premium útfærslan er með svokölluð sportsæti og fannst undirrituðum bólstrunin á sessunni vera pínu þröng og þrýsta aðeins á mjöðmina. Hugsanlega eru hefðbundnari sætin í ódýrari útgáfunum betri að þessu leyti. Rýmið er gott til höfuðs og fóta og ætti að duga flestum, þótt hárið á hávöxnustu ökumönnunum sé líklegt til að strjúkast við þakið. Í samanburði við eldri gerðina af Toyota C-HR er höfuðrýmið talsvert meira.
Aftursætin leyna á sér
Við fyrstu sýn virðast aftursætin vera afar þröng en raunin er hins vegar allt önnur. Séu framsætin í öftustu stöðu getur verið smá bjástur að koma fótunum fyrir. En þegar búið er að setjast getur fullorðinn einstaklingur vel við unað þar sem nóg rými er fyrir fæturna undir framsætinu og hnén aftan við sætisbakið.
Helst er hægt að gagnrýna að ekki sé mikið svigrúm fyrir kálfana. Þá er höfuðrýmið rétt nóg fyrir hávaxna í styttri tíma, þótt þeir muni líklega kvarta á lengri ferðalögum. Afturgluggarnir eru líka nokkuð stórir og hleypa mun meiri birtu inn en forveri þessa bíls.
Farangursrýmið er býsna vel formað og skotthlerinn stór þannig að líklega verður hægt að koma fyrir barnavagni sem hægt er að brjóta saman. Gólfið flúttir ekki við skotthlerann þannig að það er pínu röst til að lyfta farangri yfir.
Hefðbundinn og hljóðlátur í akstri
Akstur Toyota C-HR er mjög hefðbundinn. Þetta er sjálfskiptur bensínbíll, með allar stangir og stjórntæki á sínum stað og ekkert sem kemur á óvart. Hann er snarpur og lipur og er þokkalega hátt undir hann. Við almennan borgarakstur eða á betri þjóðvegum er fjöðrunin alveg mátuleg. Bíllinn reynist hins vegar nokkuð hastur þegar ekið er á ósléttari vegum. Hljóðeinangrunin er góð og lítið mál að eiga í lágværum samræðum við sessunaut sinn. Þó heyrist alltaf smávægilegur dekkjadynur og berst malið í vélinni í farþegarýmið þegar hún fer á hærri snúninga. Dekkjadyninn má eflaust rekja til 19 tommu felganna og má búast við að hann sé minni ef ekið er á belgmeiri dekkjum.
Hybrid valkostur við dísil
Eins og áður segir er þetta tvinnbíll þar sem bensínmótor og rafmagnsmótor vinna saman. Bílnum í þessum prufuakstri var ekki hægt að stinga í samband, þó plug-in-hybrid útfærslur séu fáanlegar. Blendingskerfið í þessum bíl skilar sér í lítilli eldsneytiseyðslu og og eru hybrid-bílar góður valkostur við dísilbíla. Samkvæmt framleiðanda á eldsneytisnotkunin að vera rétt um fimm lítrar á hverja hundrað kílómetra. Það gæti verið nokkuð nærri lagi, en í þessum prufuakstri var meðaleyðslan 5,8 lítrar og var engin áhersla lögð á sparakstur.
Fjórhjóladrifið í C-HR virkar þannig að framhjólin eru tengd við bensínvélina, á meðan afturhjólin eru knúin áfram af rafmagnsmótor. Þetta er afar rökrétt útfærsla á aldrifi í blendingsbíl þar sem í staðinn fyrir að tengja drifskaft við afturöxulinn liggja rafmagnssnúrur aftur með bílnum.
Þessi bíll er 197 hestöfl og er hann 7,9 sekúndur að ná hundrað kílómetra hraða frá kyrrstöðu. Það hefur þótt gott í denn tíð, en eftir að hafa prufukeyrt hvern rafmagnsbílinn á fætur öðrum finnst undirrituðum C-HR hægur í þeim samanburði. Aflið er hins vegar alveg nóg fyrir alla almenna notkun.
Eins og gengur og gerist með nýja bíla í dag þá heyrast ýmis viðvörunarhljóð í akstrinum.
Þau eru ekki ærandi í Toyota C-HR eins og vill stundum vera. Þó heyrðist oft eitthvert píp sem undirritaður skildi aldrei hvað átti að tákna þar sem hvergi fylgdi skýring á við hverju væri verið að vara.
Niðurstaða
Helstu mál í millimetrum: Lengd, 4.362; breidd, 1.832; hæð, 1.564. Ódýrasta útgáfan á C-HR er á 6.790.000 krónur, en verðið á bílnum í þessum prufuakstri er 9.490.000 krónur með virðisaukaskatti.
Þegar bíllinn er skoðaður að utan er auðvelt að áætla að hann sé þröngur, en þegar inn er komið er nóg pláss fyrir fjóra fullorðna og einn ungling. Þó C-HR sé nýstárlegur í útliti er notkun bílsins hefðbundin og fór hann langt fram úr öllum væntingum.
Hvað verðið varðar þá er tæp níu og hálf milljón býsna mikill peningur, sérstaklega þegar skoðaðir eru aðrir bílar sem fást fyrir svipaða fjármuni. Það er hins vegar vel hægt að mæla með að fólk kynni sér þennan bíl og eru ódýrari útgáfurnar á samkeppnishæfu verði.