Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Með því að fylgjast með leguhegðun má fá afar gagnlegar upplýsingar um ástand fjósa.
Með því að fylgjast með leguhegðun má fá afar gagnlegar upplýsingar um ástand fjósa.
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Höfundur: Snorri Sigurðsson

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upplýsingar um bústjórnina á kúabúum, aðstæðurnar sem nautgripirnir búa við og atlætið sem þeir fá.

Eitt af mínum uppáhaldsráðum til kúabænda er einmitt að segja þeim að „spyrja“ kýrnar sínar að hinu og þessu – þær segi nefnilega frá því hvernig þær hafa það með hegðun og útliti! Það er einmitt vegna þessa að þegar ég er í ráðgjafaheimsóknum þá fer ég oft í heimsóknir í fjós án þess að bóndinn komi með, ég vil hreinlega fá frið til þess að „spjalla“ aðeins við kýrnar! Þetta kann að hljóma hálf undarlega en tilfellið er að kýrnar geta með hegðun sinni og útliti gefið mjög sterkt til kynna hvernig bústjórninni er háttað hverju sinni og hvar bóndinn geti bætt vinnubrögð sín.

Atferlið

Eitt það fyrsta sem maður tekur eftir er hvort kýrnar séu öruggar með sig eða ekki. Þegar nýr og framandi einstaklingur kemur inn í fjósið þá bregðast kýrnar misjafnlega við. Stundum rjúka þær frá eða halda öruggri fjarlægð frá viðkomandi. Oftast fæ ég að heyra það frá bændunum að þetta sé nú eðlilegt, enda þekki þær mig alls ekki. Kórrétt, en tilfellið er að ég hef líka komið í ótal fjós þar sem kýrnar voru pollrólegar og það þó þær þekktu mig alls ekki neitt!

Málið er að kýr gera ekki mikinn mun á fólki, ef rétt hefur verið farið að þeim og þeim sinnt rétt alla tíð. Traust er mikilvægt þegar kýr eru annars vegar enda ef þær eru eitthvað taugastrekktar þá framleiða þær minna af mjólk enda líður þeim ekki vel.

Góð þumalfingursregla er að þegar nýr aðili gengur inn í fjós og t.d. sest í einn legubásinn þá ættu kýr á þarnæstu básum varla að standa á fætur. Eftir fáar mínútur ættu taugasterkustu kýrnar enn fremur að hafa komið að viðkomandi og kannað málið nánar.

Til viðbótar má reikna með því, þegar gengið er rólega um flóra fjóssins, að kýrnar haldi sig mögulega í eins metra fjarlægð frá viðkomandi en séu ekkert endilega að fara í burtu þó nær sé komið. Sé bilið meira en það, bendir það klárlega til þess að þær vantreysti fólki og búist við einhverju óvæntu.

Leguhegðun

Önnur góð vísbending á líðan kúa er að fylgjast með leguhegðun þeirra.

Kúm er eðlislægt að leggjast hratt niður og standa nokkuð örugglega upp þegar legulotunni líkur. Ef kýr eru lengi að munda sig til við að leggjast í básinn sinn bendir það til þess að eitthvað sé að. Þetta geta verið atriði eins og ranglega stilltar innréttingar, illa hannaðir básar eða hreinlega mjög hált undirlag í básnum. Að sama skapi má sjá merki um það sama þegar kýr standa á fætur en venjulega vippa þær sér fram á framhnén fyrst og lyfta svo afturhlutanum upp. Að endingu rétta þær svo úr framfótunum. Ef þessi ferill, sem vel að merkja krefst töluverðs pláss fram á við þ.e. þegar þær færa þunga líkamans fram á framhnén, tekur langan tíma þá er eitthvað að.

Annað atriði sem gefur til kynna að eitthvað sé að er ef kýrnar liggja mjög hátt uppi í básnum, þ.e. geta auðveldlega skitið upp í básinn þegar þær liggja. Að sama skapi ef kýrnar liggja mjög langt aftur í básnum, með jafnvel 20-30 cm af líkamanum aftur af enda bássins, þá þarf að skoða hönnun bássins og stillingar á innréttingum. Bringuborðið á að stilla kýrnar rétt af í básnum svo meirihluti þeirra liggi rétt. Rétt er að taka fram að auðvitað eru alltaf einhverjar kýr sem eru mjög stórar eða aðrar mjög litlar og falla því utan við svona athugun.

Þriðja atriðið, sem snýr að leguhegðun, er að athuga hvort margar kýr standi í básunum í stað þess að liggja eða standi hálfar uppi í básana. Eins og fyrr segir þá er þeim eðlislægt að leggjast hratt niður og þá er vitað að kýr framleiða meiri mjólk liggjandi en standandi svo hver bóndi vill væntanlega að kýrnar liggi frekar en að þær standi. Ef margar kýr standa eða eru hálfar uppi í básana er það enn eitt merkið um að eitthvað megi lagfæra við nærumhverfi kúnna.

Kýr þurfa gott svæði til þess að standa á fætur og leggjast niður.
Hreinleikamat

Það næsta sem gott er að gera er að skoða hve hreinn feldur kúnna er. Séu óhreinindi á lærum eða hala bendir það til þess að betur megi fara í bústjórninni og gæti þar verið um að ræða skort á undirburði eða ranglega stilltar innréttingar.

Séu óhreinindin aðallega á leggjum bendir það til þess að flórarnir séu ekki alveg nógu vel hannaðir eða útmokstur á skít frá flórum ekki rétt framkvæmdur.

Þegar kýr eru aftur á móti skítugar á bæði júgrum og kvið, þá þarf verulega að skoða málin enda er beint samhengi á milli slíkra óhreininda og júgurheilbrigði svo enginn ætti að sætta sig við slíkt.

Dæmi um afar slæma spenaenda.
Spenarnir

Ástand á spenum og sérstaklega spenaendum er annað atriði sem vert er að gefa gaum. Flestar kýr eru mjólkaðar tvisvar til fjórum sinnum á dag, eftir því hvaða mjaltatækni er notuð, og eru spenarnir og spenaendarnir því undir töluverðu álagi.

Séu mjaltatækin ekki rétt stillt eða vinnubrögð við mjaltirnar rangar, t.d. of lítill undirbúningur kúnna fyrir mjaltir, þá sést það oft fljótt á gæðum spenaendanna.

Þess vegna er einkar gagnlegt að fylgjast með ástandi þeirra og ef margir spenaendar eru t.d. svolítið útstæðir bendir það til þess að bregðast þurfi við.

Lögun og áferð skítsins segir mikið til um ástand fóðrunarinnar.
Skíturinn

Skítur kúnna segir ótrúlega mikið um ástand hjarðarinnar og reyndar einstaklinganna líka. Það getur þó verið varasamt að einblína á einstakar kýr og skítinn frá þeim því það getur verið dagamunur á kúnum. Sé aftur litið heilt yfir hjörðina og lögun skíts og áferð skoðuð, gefur það afar góða mynd af því hvernig fóðrun er háttað og því hvernig meltingarvegir kúnna hafa það.

Þannig bendir t.d. þurr skítur og kögglaður eða mjög blautur og þunnur hjá mjólkurkúm til þess að efnainnihald fóðursins sem gripirnir eru að éta sé ekki rétt

Enn fremur má taka skítasýni og skola það eftir kúnstarinnar reglum og fá þá innsýn í meltinguna og hvernig kúnum gengur að nýta hráefnin í fóðrinu sem best.

Göngulag

Hvernig kýr ganga, þ.e. hvernig göngulag þeirra er og útlit þegar þær ganga, segir töluvert um ástand kúnna og raunar um fjósið sjálft.

Kýr sem eru með einhver fótamein skjóta oftast upp kryppu við gang eða jafnvel þegar þær standa kyrrar.

Þannig sýna kýr það berlega þegar þeim finnst undirlagið vera of hált og verður gangurinn þá varkár og skrefin oft mjög stutt. Þá sjást oft á slíkum gólfum merki um að kúm hafi skrikað fótur t.d. þegar langar strokur sjást á gólfinu. Þetta er skýrt merki um að gólfgerðina megi bæta.

Göngulagið segir líka margt um ástand fóta og svokallað heltismat gefur til kynna hvort með bústjórninni hafi tekist að hlúa nógu vel að kúnum og klaufheilsu þeirra. Ef kýr sem ganga um skjóta samhliða upp kryppu bendir það skýrt til þess að þær séu að hlífa einhverjum fæti og með því að reyna að létta af þunga sínum á viðkomandi fót.

Þetta geta þær einnig gert þegar þær standa kyrrar. Með því að fylgjast með þessu má því sjá nokkuð auðveldlega hvort einhverju sé ábótavant á þessu sviði.

Holdafar

Holdafar kúa er skýrt og greinilegt merki um gæði fóðrunar og hirðingar á kúm og ættu allir bændur að kunna góð skil á holdastigun. Holdafar er vissulega misjafnt hjá kúm eftir stöðu á mjaltaskeiði og á að vera það en sé misbrestur á þessu gefur það til kynna að bæta þurfi fóðrun og umhirðu kúnna og mögulega flokkun þeirra í mismunandi hópa sé hjörðin nógu stór til þess.

Át- og drykkjarhegðun

Að lokum má nefna að át- og drykkjarhegðun kúa segir einnig töluvert um bústjórnina. Þannig er t.d. hægt að sjá á áthegðun kúa hvort fóðrið henti þeim vel eða ekki.

Kýr þurfa gott og hálkulaust undirlag til þess að athafna sig á.

Kýr sem hnusa mikið í fóðrinu og grafa snoppuna niður í fóðurstrenginn gefa með því til kynna að eitthvað gómsætt sé að finna þarna og því leita þær það uppi. Það er ekki ákjósanlegt að kýrnar geri þetta enda á fóðrunin að byggja á ákvörðun bóndans en ekki kúnna sjálfra. Enn fremur ef einhverjar kýr halda aftur af sér þegar svo til allar aðrar éta, þá bendir það til vandamála.

Það gæti verið vegna eineltis, þ.e. hinnar svokölluðu goggunarraðar, og viðkomandi gripur eða gripir treysti sér hreinlega ekki að fóðrinu á meðan einhverjar hærra settar og ráðríkar kýr njóta fóðursins.

Þetta skapar ójafnvægi í hjörðinni og þessar viðkvæmu kýr verða óhagkvæmari í rekstri. Oftast liggur skýringin á svona hegðun í því að annaðhvort er fóðrið skammtað of naumt eða það vantar meira pláss fyrir hjörðina við át. Annað dæmi um svipaða stöðu er ef kýr forðast vinsæl drykkjarker eða staði þar sem margar kýr eru komnar saman við drykkjarker. Til þess að sjá svona hegðun þarf þó að hafa góðan tíma fyrir sig enda fátítt að uppgötva þessa hegðun við stutta ráðgjafaheimsókn.

Margt fleira mætti tína til við svona yfirlit eins og t.d. jórtrunartíðni, þ.e. hve oft kýr tyggja þegar þær jórtra, nú eða með einfaldri skoðun á fóðrinu til þess að meta það hvort það sé rétt samansett fyrir kýrnar og fleira mætti nefna. Mestu skiptir að setja kýrnar í forgrunn.

Þær eru lykillinn að velgengni búanna og ef ástand þeirra og líðan er góð, stóraukast líkurnar á því að það sama muni eiga við um bóndann og búið í heild.

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...