Afkoma sauðfjárbænda verður að batna
Sauðfjárrækt hefur um langan tíma verið ein af burðarstoðum íslensk landbúnaðar. Búgreinin hefur gengið í gegnum breytingar undanfarna áratugi. Um áraraðir hefur íslenskt kindakjöt verið útflutningsafurð. Afkoma af útflutningi hefur verið sveiflukennd. Koma þar til ýmsar ástæður svo sem áhrif gengis og almennra markaðsaðstæðna í heiminum.
Hluti framleiðslunnar sem er fluttur út eru vörur sem ekki eiga sér markað hér á landi. Megin afurð sauðfjárræktarinn er dilkakjöt en til fellur líka kjöt af fullorðnu fé, hliðarafurðir og síðan er innlend eftirspurn eftir lambakjöti með þeim hætti að hlutfallslega selst meira af hryggjum og lærum sem býr til þörf til útflutnings á þeim vörum sem ekki er markaður fyrir hér á landi.
Haustið 2016 lækkaði afurðaverð á lambakjöti um 9,1% og öðru kindakjöti um 33,4%. Árið eftir lækkað afurðaverðið aftur um 30% og verð á öðru kindakjöti stóð í stað. Hrun í afkomu á erlendum mörkuðum fyrir kindakjöt og hliðarafurðir þeirra samhliða óhagstæðri gengisþróun var megin ástæðan fyrir þessari þróun. Síðan þá beittu Landssamtök sauðfjárbænda sér fyrir aðgerðum sem myndu leiða okkur sem fyrst út úr þessari stöðu. Einkum var horft til aðgerða sem myndu draga úr framleiðslu og jafnframt taka á vandamálum í birgðasöfnun. Ríkisstjórnin kom til móts við hluta kjaraskerðingar bænda í upphafi árs 2018 og farið var í sérstök átaksverkefni í útflutningi 2016-2017 og 2017-2018. Eiginlegar aðgerðir vegna stöðunnar komu ekki til framkvæmda fyrr en endurskoðun sauðfjársamnings lauk í janúar 2019. Inn í þann samning sóttust sauðfjárbændur eftir verkfærum sem gætu til framtíðar hjálpað til við að takast á við ófyrirséða markaðsbresti. Fullyrða má að nær öll landbúnaðarkerfi í heiminum eru byggð upp með slíkum hætti.
Vetrarfóðraðar kindur árið 2016 voru um 474 þúsund. Ekki eru komnar fram endanlega fjöldatölur fyrir árið 2020 en gera má ráð fyrir að að fjöldinn verði um 418 vetrarfóðraðar kindur. Sauðfé hefur því fækkað um 11,5% á þessu tímabili.
Framleiðsla á dilkakjöti var árið 2016 um 9.300 tonn og mun á komandi haust verða um 8.100 tonn. Hér um að ræða samdrátt upp á 1.200 tonn af dilkakjöti eða 12,8%.
Vísitala neysluverðs mælir þróun smásöluverðs á lambakjöti. Frá upphafi árs 2016 fram á haustið 2018 lækkað smásöluverð á lambakjöti um 8% meðan almennt verðlag hækkaði um 5%. Síðan þá hefur smásöluverð á lambakjöti smám saman farið hækkandi og er nú um 5% hærra en það var við upphaf árs 2018.
Afurðaverð haustið 2019, að teknu tilliti til álagsgreiðslna, var 68% af því sem það hefði verið ef afurðaverð hefði fylgt almennri verðlagsþróun í landinu frá árinu 2013. Ef þessi mismunur er skoðaður nánar og reiknaðar út þær tekjur sem íslensk sauðfjárrækt hefur orðið af vegna hruns í afurðaverði þá nemur það fyrir árin 2014-2019 um 7,2 milljörðum.
Framleiðslukostnaður á lambakjöti er um 1.150 kr/kg (1.000-1.300 kr/kg). Tekjur bænda koma annars vegar frá afurðastöð og hins vegar sem opinber stuðningur. Það er nokkuð breytilegt hversu mikið hver bóndi fær í opinberan stuðning en gera má ráð fyrir að stuðningurinn sé um 450 kr/kg lambakjöts (350-550kr/kg). Afurðaverð til bænda þarf því að vera um 700 kr/kg til að standa undir framleiðslukostnaði. Afurðaverð haustið 2019 var 461 kr/kg. Ef horft er til afurðaverðs í nágrannalöndum okkar má sjá að afurðaverð á Íslandi var með því lægsta sem gerist í Evrópu á sama tíma og kostnaður við framleiðsluna er hærri en í flestum þessara samanburðar landa. Afkoma sauðfjárbænda verður að batna.
Nú hafa nokkrar afurðastöðvar greitt uppbót á afurðaverð haustsins 2019. Það er jákvæð þróun og gefur okkur væntingar um að afkoma sauðfjárbænda fari batnandi. Hins vegar eru líka blikur á lofti. Framleiðslukostnaður afurðastöðva fer hækkandi með vaxandi rekstrar- og launakostnaði. Það sama gildir um framleiðslukostnað bænda. Ekki er ljóst hvaða áhrif innflutningur á hráu kjöti sem hófst nú um áramótin mun hafa á kjötmarkaði hér á landi. Þá eru áhrif COVID-19 sjúkdómsins á heimsmarkað með kjöti óviss og jafnframt er algjörlega á huldu hvernig viðskipti við Bretland og Evrópusambandið muni þróast við útgöngu Breta úr EU. Útflutningur á kindakjöti til Bretlands er afar mikilvægur þó ekki fari þangað dýrustu hlutarnir.
Það er aðkallandi að það fari fram umræða um framtíðar fyrirkomulag sauðfjárslátrunar. Sauðfjárbændur hafa bent á að koma megi á sambærilegu fyrirkomulagi í sauðfjárslátrun og er við söfnun og úrvinnslu á mjólk. Í slíku kerfi er hægt að tryggja bændum viðunandi afkomu og jafnframt stuðla að því að samkeppni milli kjötvinnsla sé virk eftir að búið er að slátra og grófvinna kjötið. Ekkert kerfi er án galla og mikilvægt í slíku kerfi að tryggja öllum framleiðendum jafnan aðgang að hráefni og þannig tryggja eðlilegt samkeppnisumhverfi á síðari stigum. Slíkt kerfi myndi skapa stöðugleika í afkomu bænda og bæta hag neytenda.
Stóra verkefnið sem sauðfjárbændur standa frammi fyrir er að bæta afkomu greinarinnar. Ef afurðaverð hækkar ekki verulega í haust mun framleiðslan dragast enn meira saman. Á næstu vikum mun framkvæmdastjóri og formaður LS fara á fundi aðildarfélaganna. Þar munum við ræða afkomu greinarinnar og önnur verkefni sem fram undan eru í starfi félagsins. Verkefnin eru af ýmsum toga. Unnið er að því að framfylgja stefnu LS í loftslagsmálum í tengslum við verkefnið Loftslagsvænn landbúnaður, sem er samstarfsverkefni RML, Landgræðslunnar, Skógræktarinnar og umhverfisráðuneytisins. Það þarf líka stöðugt að vinna að því að auka framlegð í greininni með því að efla rannsóknir og ráðgjöf. Á dögunum var haldin ráðstefna á vegum Fagráðs í sauðfjárrækt til að miðla niðurstöðum rannsókna og skiptast á skoðunum um áherslur og stefnur í sauðfjárrækt. Ráðstefnuna sóttu um 60 manns og annar eins hópur fylgdist með streymi á netinu. Ráðstefnan var tekin upp og verða upptökur aðgengilegar innan skamms. Síðar í þessum mánuði fer fram kynning á fyrstu niðurstöðum Grólindar verkefnisins, þar sem unnið er að því að kortleggja ástand gróður- og jarðvegsauðlinda landsins og þróa sjálfbærnivísa fyrir nýtingu auðlindanna. Þetta er verkefni sem sauðfjárbændur hafa tekið þátt í að þróa og mun hjálpa okkur að gera enn betur þegar kemur að skipulagi beitar og landnýtingu. Við hvetjum bændur til að fjölmenna á aðildarfélagsfundina og láta í ljós sína skoðun um málefni sauðfjárræktarinnar.