Afkvæmarannsóknir í sauðfjárrækt 2016
Höfundur: Eyjólfur Ingvi Bjarnason, ráðunautur í sauðfjárrækt hjá RML
Fagráð í sauðfjárrækt ákvað í vetur að gera þær breytingar á reglum um styrkhæfar afkvæmarannsóknir frá því sem var í gildi sl. haust, að lágmarksfjöldi veturgamalla hrúta í samanburði skyldu vera 4 í stað 5 og að styrkurinn á hvern veturgamlan hrút skyldi hækka úr 2.000 kr. í 3.500 kr.
Jafnframt að ef sú heildarupphæð sem áætluð er af fagfé til þessa verkefnis gengur ekki út mun styrkurinn hækka þannig að hann deilist jafnt út á alla veturgömlu hrútana. Reglur fyrir styrkhæfum afkvæmarannsóknum þetta haustið eru eftirfarandi:
- Í samanburði þurfa að vera 5 hrútar og að lágmarki séu 4 af þeim veturgamlir (fæddir 2015).
- Undan hverjum hrúti þarf að ómmæla og stiga 8 lömb af sama kyni og hrúturinn þarf að eiga 15 afkvæmi með kjötmatsupplýsingar.
- Hrútarnir skulu hafa verið notaðir á sem jafnasta ærhópa þar sem aldur er blandaður. Ekki er tekinn gildur afkvæmadómur hrúta sem notaðir er á veturgamlar ær, nema allir hrútarnir í samanburðinum séu notaðir á veturgamlar ær (gemlinga).
- Ganga þarf frá afkvæmarannsókninni í Fjárvís.is (vista uppgjörið). Þeir sem ekki eru í netskilum leiti aðstoðar hjá ráðunautum RML.
- Tilkynna þarf að uppgjöri sé lokið með því að senda tölvupóst á ee@bondi.is
Tekið skal fram að ekki eru takmörk fyrir því hve margir hrútar geta verið með í rannsókninni umfram lágmarkskröfur og greiddur er styrkur á alla veturgamla hrúta sem eru með í samanburðinum.
Skilyrðin sem sett hafa verið varðandi veturgömlu hrútana hafa þann tilgang að hvetja til aukinnar notkunar á lambhrútum og markvissrar prófunar á þeim með það fyrir sjónum að hraða erfðaframförum í stofninum. Líkt og bændur þekkja eru vel útfærðar afkvæmaprófanir ákaflega skilvirk leið til þess að meta gildi hrútanna sem ræktunargripa m.t.t. skrokkgæða.