Allt sami bananinn
Bananar vaxa ekki á trjám. Þeir eru ber en ekki ávextir og þrátt fyrir að um þúsund afbrigði af bönunum séu í ræktun erum við nánast öll að borða sama bananann sem er yrki sem kallast Cavendish.
Áætluð heimsframleiðsla á bönunum árið 2013 var milli 110 og 120 milljón tonn. Stærstu framleiðslulöndin eru Indland með 25 milljón tonn, Kína tæp 11 milljón, Úganda 10, Filippseyjar 9 og Ekvador og Brasilía sem framleiða um 7 milljón tonn hvort land. Í öllum þessum löndum er mest af framleiðslunni neytt heima fyrir. Í sumum framleiðslulöndum er ekki gerður greinarmunur á bönunum og plantian sem svipar mjög til banana og vex á plöntu sem er náskyld bananajurtinni. Plantian hafa verið kallaðir mjölbananar á íslensku.
Ekvador er það land sem mest flytur út af bönunum, rúm 5 milljón tonn, í öðru til þriðja sæti eru Kosta Ríka og Kólumbía sem flytja út tæp 2 milljón tonn hvort land. Stærstu innflytjendur banana eru lönd Evrópusambandsins sem samanlagt flytja inn tæp 4, 5 milljón tonn, Þýskaland og Bretland eru stórtækust. Bandaríkin flytja inn um 2,7 milljón tonn, Rússland tæp 1,25 og Japan 1,1 milljón tonn.
Innflutningur á bönunum til Íslands árið 2014 nam um 7.000 tonn og er mest flutt inn frá Ekvador, Kosta Ríka og Panama. Auk þess er flutt inn lítilræði af mjölbönunum eða plantian.
Smábændur og bananabarónar
Stærstur hluti bananaframleiðslu í heiminum á sér stað á litlum fjölskyldubúum og er neytt heima eða framleiðslan seld á heimamarkaði. Bananar gefa uppskeru árið um kring í hitabeltinu og hluti af daglegri fæðu yfir 500 milljóna manna þar á hverjum degi. Bananar eru með mest neyttu plöntuafurðum í heimi.
Stór framleiðslufyrirtæki eins og Chiquita, Del Monte, Dole, and Fyffes rækta banana á stórum landsvæðum í löndum eins og Ekvador, Kólumbíu, Kosta Ríka, Gvatemala og Hondúras. Öll hafa þessi fyrirtæki verið sökuð um að eiga þátt í stórfelldri eyðingu frumskóga í Mið- og Suður-Ameríku. Um tíma áttu bananaræktarfyrirtækin stóran hluta af öllu landi í einkaeigu í Kosta Ríka, Hondúras, Panama og fleirum. Fyrirtækin höfðu einkaleyfi á ræktun og sölu á bönunum í löndunum og borguðu nánast engan skatta. Vegna sterkra stöðu fyrirtækjanna í þessum löndum voru þau uppnefnd bananalýðveldi.
Bandaríski bananaframleiðandinn United Fruit átti um 80% af öllu einkalandi í Gvatemala í upphafi fimmta áratugar síðustu aldar og var talsverður kurr í landinu vegna þess. United Fruit vann náið með bandarísku leyniþjónustunni CIA og í samvinnu við hana tókst fyrirtækinu að fá kosna stjórn og forseta í landinu sem var því hliðhollt. Þannig tryggði fyrirtækið stöðu sína í landinu í mörg ár í viðbót.
Árið 2014 sameinuðust Fyffes og Chiquita í stærsta bananaframleiðslu og dreifingarfyrirtæki í heimi, ChiquitaFyffes. Áætluð ársvelta fyrirtækisins er áætluð 160 milljón bananakassar, að verðmæti um einn milljarður Bandaríkjadala eða um 132 milljarðar íslenskar krónur.
Neysla á bönunum er víða ólík því sem við eigum að venjast. Þeir eru tíndir óþroskaðir og matreiddir ekki ósvipað og við gerum við kartöflur. Steiktir, soðnir, bakaðir og skornir í flögur. Fjöldi hitaeininga í kartöflum og bönunum er svipaður.
Grasafræði og ræktun
Jurtin sem bananar vaxa á er þróttmikil fjölær planta sem getur náð tíu metra hæð og líklega hæsta planta í heimi sem ekki er með trékenndan stöngul. Afbrigði sem mest er ræktað er dvergvaxið í þeim samanburði og verður sjaldnast hærra en þrír metrar. Stöngullinn vex upp af fjölærum jarðstöngli sem liggur grunnt. Blöðin stór og bátlaga. Blómin tvíkynja og aldinið stórt mjölmikið ber með þykka húð, 60 til 150 saman í stórum klasa. Aldin banana eru misþétt í sér og geta verið græn, gul, rauð, brún og blá en bananar í verslunum eru yfirleitt gulir.
Stöngullinn sölnar eftir að aldinið nær þroska en nýr vex fljótlega upp af rótinni. Ræktunaryrki eru þrílita og ófrjó og þess vegna eru bananarnir sem fást í verslunum frælausir.
Kjöraðstæður bananaplöntunnar er í hitabeltinu þar sem daglengd er tólf tímar, hitastig liggur á milli 26 og 30° á Celsíus og loftraki um 50%. Plantan hættir að vaxa fari hitinn undir 18° og yfir 38°. Við góðar aðstæður tekur um átján mánuði frá því að stöngullinn vex frá rótinni þar til aldinið nær fullum þroska.
Plantan kýs næringarríkan, rakan en ekki blautan jarðveg. Kjörsýrustig hennar er pH 6 til 7,5 sem er fremur súr jarðvegur. Vegna þess hversu hratt bananaplöntur vaxa og krefjandi þær eru á næringarefni er meðallíftími bananaplantekru ekki nema 25 ár.
Bananar eru ríkir af A-, B-, C- og E-vítamínum og innihalda mikið af steinefnum eins og sinki, járni og magnesíum.
Ættkvíslin Musa
Talið er að Musa sp., eins og sá banani sem við þekkjum, sé afkomandi tveggja gamalla ræktunartegunda sem kallast M. acuminata og M. balbisiana á latínu.
Ættkvíslin Musa telur um 70 tegundir og eru flestar nytjaðar á einhvern hátt. Nafn ættkvíslarinnar er lánsorð úr arabísku, mauz, sem þýðir aldin eða ávöxtur. Orðið banani er einnig arabískt að uppruna, banan, og þýðir fingur. Á kínversku kallast bananar jiao.
Uppruni og útbreiðsla
Þrátt fyrir að Cavendish og fjöldi annarra ræktunarafbrigða af bönunum finnist ekki í náttúrunni eru villt heimkynni nánustu ættingja þeirra í Suðaustur-Asíu og Indlandi. Fornleifarannsóknir benda til að nytjar á villtum forverum nútíma banana eigi sér tíu þúsund ára sögu í Asíu.
Vitað er að arabískir kaupmenn og liðsmenn Alexanders mikla fluttu með sér plöntur eða fræ yfir til Tyrklands og landanna við botn Miðjarðarhafs rúmum 400 árum fyrir upphaf okkar tímatals. Sex hundruð árum eftir fæðingu Krists eru bananar verslunarvara í Mið-Austurlöndum og ræktun þeirra talsverð í austanverðri Afríku og í kringum Viktoríuvatn.
Talið er að fyrstu bananarnir hafi borist með Márum frá Marokkó til Evrópu í gegnum Spán á 12. öld.
Fljótlega eftir fund Ameríku fluttu Spánverjar banana vestur um haf og hófu ræktun á þeim á eyjum Karíbahafsins. Plönturnar kunnu vel við sig í þessum nýju heimkynnum og fljótlega var ræktun þeirra um alla Mið-Ameríku og bananar hluti af þrælaversluninni sem átti sér stað milli nýja og gamla heimsins. Í sjóferðadagbók James Cook segir að hann hafi fundið bananaplöntur á Havaíeyjum árið 1799.
Franski rithöfundurinn Jules Verne lýsir því í bók sinni Umhverfis Jörðina á 80 dögum, frá 1872, þegar Philleas Fogg er á Indlandi og stoppar undir knippi af bönunum og hefur orð á að þeir séu hollir eins og brauð og mjúkir eins og rjómi.
Til eru heimildir um að fyrstu bananarnir hafi borist til Bandaríkjanna frá Kúbu 1804. Fyrstu 100 árin þóttu þeir forvitnileg nýlunda og á fárra færi að borða þá en skömmu eftir aldamótin 1900 voru þeir orðnir vinsæl fæða um alla Norður-Ameríku. Á þeim tíma var brandarinn um að fólk renni á rassinn á bananaberki enginn brandari því börkurinn lá eins og hráviði úti um allar götur.
Fjölbreyttar nytjar
Víða í Suður- og Suðaustur-Asíu eru blóm og vaxtarsprotar bananaplöntunnar nýttir í súpur og steiktir á pönnu og er sagt að þeir bragðist svipað og þistilhjörtu.
Laufblöðin, sem eru stór, sveigjanleg og vatnsheld, eru notuð til að geyma í mat og sem ílát til að borða af auk þess sem þau eru æt. Blöðin eru einnig notuð sem þak yfir bráðabirgðaskýli.
Í Úganda og Rúanda og þar um slóðir eru ræktaðir sérstakir bjórbananar sem notaðir eru til að brugga úr bananabjór. Bruggaðferðin er þannig að hýðið er tekið utan af og bönunum hent í stórt fat. Safinn er marinn úr bönununum með fótunum svipað og gert er með vínber hjá sumum vínframleiðendum í Evrópu. Safinn er síðan síaður úr maukinu og látinn gerjast í tunnum í nokkra sólarhringa.
Auk þess að vera fæða eru bananar víða notaðir til lækninga og sagt er að innra lagið á berkinum sé gott til að hvítta tennur.
Úr trefjum blaða og stönguls eru unnar örfínar trefjar til vefnaðar. Í Japan er vefnaður úr trefjum plöntunnar aldagömul hefð og yrki af henni eingöngu ræktuð vegna trefjanna.
Bananaskýla söng- og dansarans Josephine Baker þótti afskaplega ögrandi og hneykslaði marga á sínum tíma og ekki má gleyma því að það var banani á umslagi fyrstu plötu Velvet Underground sem Andy Warhol hannaði.Trefjarnar má einnig nota til að búa til pappír.
Síðasti bananinn
Þrátt fyrir að það finnist yfir þúsund yrki af bönunum er nánast eingöngu eitt sem er fáanlegt í verslunum hér á landi og víðast á Vesturlöndum enda ríflega 90% af öllum bönunum í boði. Yrkið sem er gamalt og kemur upprunalega frá Kína kallast Cavendish. Ræktun þess var almenn um 1950 og tók það við af yrkinu Gros Michel sem var óræktunarhæft vegna sveppasýkingar sem lagðist á rætur plantnanna og kallast Pananaveiki. Cavendish-bananar þykja ekki jafn bragðgóðir og Gros Michel en líf- og geymslutími þess er lengri.
Yrkið Cavendish hefur átt undir högg að sækja undanfarin ár. Ástæðan er Fusarium-sveppur sem hefur breiðst hratt út og drepur plönturnar. Útbreiðsla sveppsins hefur verið frá Fiji-eyjun um Asíu til Afríku og Mið-Austurlanda. Sveppurinn, sem kallast fullu nafni Fusarium oxysporum f.sp. cubense TR4, hefur herjað á bananarækt í Asíu í rúm tuttugu ár og gert mikinn usla í Kína, Indónesíu, Malasíu og Taívan. Árið 2013 varð hans fyrst vart í Afríku og síðan hefur hann verið að breiðast út þar sem bananar eru ræktaðir í álfunni og yfir til Mið-Ameríku.
Á sama tíma og sýking vegna sveppsins breiðist út hefur verið reynt að finna yrki sem getur komið í staðinn fyrir Cavendish en þær prófanir skilað litlu. Sveppurinn hefur lagst á mörg þeirra og þau sem þola hann hafa ekki reynst eins bragðgóð og með eins langan geymslutíma og Cavendish.
Bananalýðveldið Ísland
Talið er að fyrsta bananaplantan hafi borist til Íslands frá Englandi árið 1939 og voru þeir ræktaðir í garðyrkjustöð í Laugardalnum í Reykjavík og tveimur árum seinna bar plantan aldin.
Græðlingar af þessari plöntu voru gefnir til Garðyrkjuskólans á Reykjum og árið 1951 var þar reist 1100 fermetra gróðurhús fyrir plönturnar. Húsið kallast Bananahúsið og enn í dag eru þar ræktaðir bananar.
Því hefur stundum verið fleygt fram að bananaræktunin á Reykjum sé sú mesta í Evrópu og Ísland fyrir vikið mesta bananalýðveldi í álfunni.