Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 mánaða.
Ragnheiður I. Þórarinsdóttir, rektor Landbúnaðarháskóla Íslands, ávarpaði gesti í upphafi málþingsins.
Ragnheiður I. Þórarinsdóttir, rektor Landbúnaðarháskóla Íslands, ávarpaði gesti í upphafi málþingsins.
Mynd / smh
Á faglegum nótum 28. mars 2024

Áskoranir og tækifæri í matvælaframleiðslu

Höfundur: Sigurður Már Harðarson

Á málþingi sem Landbúnaðar­háskóli Íslands stóð fyrir á Hvanneyri 7. mars, talaði Oddný Anna Björnsdóttir um áhrif íþyngjandi regluverks á smáfram­ leiðendur matvæla – sem hún kallaði „blýhúðun“ og hamlaði framþróun.

Oddný Anna Björnsdóttir.

Oddný er framkvæmdastjóri Samtaka smáframleiðenda matvæla (SSFM) og Beint frá býli (BFB), félags heimavinnsluaðila, en það varð aðildarfélag að SSFM í apríl árið 2022. Félög eru alls 208, 55 prósent þeirra eru rekin á lögbýlum, 25 prósent á höfuðborgarsvæðinu og 20 prósent í þéttbýli á landsbyggðinni. Hún segir hugtakið blýhúðun meira lýsandi en „gullhúðun“, sem hafi þó sams konar merkingu, vegna áhrifanna sem séu íþyngjandi.

Hamlandi áhrif á framþróun

Talsverður vöxtur hefur verið í starfsemi smáframleiðenda á Íslandi á undanförnum árum, bæði í fjölda fyrirtækja og veltu. Oddný segir að fram til 2022 hafi félagsmönnum fjölgað hratt en síðan hafi fjöldinn haldist svipaður. Veltan hafi aukist um 62 prósent á milli áranna 2021 og 2022 vegna jákvæðra breytinga í ytra umhverfi. Þannig hafi blýhúðun regluverksins ekki komið í veg fyrir þennan mikla vöxt, en þó örugglega haft hamlandi áhrif á að enn hraðari framþróun á ýmsum sviðum framleiðslu og þróunar.

Í erindi Oddnýjar tiltók hún nokkur dæmi um birtingarmyndir blýhúðunarinnar. Eitt tilvikið sneri að kröfum Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur þess efnis að smáframleiðendur matvæla þyrftu formlegt starfsleyfi til að reka verslun, vegna þátttöku á matarmarkaði. Eftir áralöng mótmæli SSFM/BFB breytti matvælaráðuneytið loks reglugerð í fyrra. Annað dæmið var af banni við framleiðslu á ógerilsneyddum ostum, sem þó er leyft á öllum öðrum Norðurlöndum og víðs vegar í Evrópu að sögn Oddnýjar og fluttir inn í stórum stíl. Þriðja dæmið var af lögum sem sett voru um starfsemi skeldýraræktar árið 2011, sem í raun voru svo íþyngjandi að greinin aflagðist í kjölfarið. Síðasta dæmið sem Oddný tók var af framleiðendum villibráðaafurða sem sættu óeðlilegum kröfum og gjaldtökum eftirlitsaðila.

Oddný segir dæmin byggja á reynslusögum sem hún byrjaði að safna þegar hún skynjaði hversu alvarlegt vandamál væri á ferðinni. Hún segir SSFM/BFB hafa um árabil bent á að vandamálin séu ekki öll vegna regluverksins á Evrópska efnahagssvæðinu (EES) sem Ísland hafi innleitt. Vandinn sé að stórum hluta heimatilbúinn. Oft megi rekja íþyngjandi áhrif regluverksins einfaldlega til geðþóttaákvarðana íslenskra eftirlitsaðila. Mikið ósamræmi sé gjarnan á milli þeirra sem taki út starfsemi smáframleiðenda sem hafi óeðlilega mikið persónulegt vald.

Nýleg könnun meðal félagsmanna staðfesti að þetta sé viðhorf flestra smáframleiðenda, en þar kemur einnig fram að langflestir telja sig vera fórnarlömb blýhúðunar og telja mjög miklu máli skipta ef eftirlitið yrði einfaldað og gert skilvirkara.

SSFM/BFB hafa skorað á Katrínu Jakobsdóttur, starfandi matvælaráðherra, að ráðast í sambærilega úttekt og gerð var í umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu. Þar kom í ljós að á árunum 2010 til 2022 hafi reglurnar sem innleiddar voru til Íslands verið meira íþyngjandi í 41% tilfella en EES-samstarfið kveði á um.

Áskoranir og tækifæri

Margrét Gísladóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í landbúnaði, flutti erindi um framþróun hefðbundinnar matvælaframleiðslu. Meginumfjöllun Margrétar var að draga saman upplýsingar um þróun búvöruframleiðslu á Íslandi á undanförnum árum, þar sem fram kom að stöðnun væri þrátt fyrir vaxandi fólksfjölda og aukinn fjölda ferðamanna.

Í greiningu hennar á tækifærum fyrir Ísland til framleiðsluaukningar, tiltók hún fimm atriði sem tækifæri; hagræðingu í sláturiðnaði, græna orku og raforkumál, nægt landnæði, hvatar til framleiðslu og móttækilegan markað. Varðandi áskoranir nefndi hún sjö atriði; háan framleiðslukostnað, blýhúðun reglugerða, heimasmíðaðar hindranir, afkomu bænda, framleiðsluvilja, vöntun á sérfræðingum og forgangsröðun.

Guðmundur Stefánsson.
Fordæmi sjávarútvegsins

Guðmundur Stefánsson, sviðsstjóri hjá Matís, spurði í sínu erindi hvort íslenskir búvöruframleiðendur gætu eitthvað lært af sjávarútveginum. Þar vísar hann til þeirrar staðreyndar að Ísland er leiðandi í nýtingu á hliðarafurðum í þorskvinnslu. Guðmundur sagði að Ísland flytti hlutfallslega mjög lítið út af heilum þorski miðað við flakaðan fisk og því færi verðmætasköpunin fram hér heima á Íslandi.

Mikil vinna hafi verið sett í að búa til verðmæti úr þeim 62 prósentum þorsksins sem eftir eru þegar búið er að flaka hann. Í dag færi þessi hluti hliðarafurðanna í raun í sex úrvinnsluflokka, sem spanna allt frá matvælavinnslu yfir í orku- og áburðarframleiðslu.

Í lok erindis síns nefndi Guðmundur nokkrar mögulegar leiðir sem landbúnaðurinn gæti farið að fordæmi sjávarútvegsi

Til dæmis með því að bæta nýtingu lífmassa, til dæmis grænmetis, með bygg- og hafraræktun til manneldis, framleiðslu á fæðubótarefnum úr innmat og líffærum, framleiðslu á vörum með sérstöðu eins og lífrænt vottuðum, breyta framleiðslukerfum sauðfjárræktar svo ferskt lambakjöt væri í boði yfir lengri tíma og samstarf frumkvöðla og fyrirtækja við rannsóknasamfélagið.

Erla Sturludóttir.
Rannsóknir í landbúnaði skipta máli

Erla Sturludóttir, deildarforseti ræktunar og fæðu hjá Landbúnaðarháskóla Íslands, fjallaði um rannsóknir í landbúnaði á vegum skólans. Skólinn rekur þrjár deildir; ræktun og fæðu, náttúru og skóga auk skipulags og hönnunar. Í máli Erlu kom fram að rannsóknir í landbúnaði og frumframleiðslu matvæla fara mest fram á sviði ræktunar og fæðu. Þar undir skiptast rannsóknarsviðin niður í jarðrækt, búfjárrækt, erfðarannsóknir, umhverfisrannsóknir og bútækni. Sagði Erla að margvísleg skörun væri í rannsóknum á milli þessara sviða.

Mörg áhugaverð verkefni væru í gangi sem miðuðu að framförum í landbúnaði. Í jarðrækt væru nokkur verkefni í gangi um kynbætur á byggi og hveiti og prófanir á hafrayrkjum. Í ylrækt stæðu yfir rannsóknir á áhrifum mismunandi lýsingar í gróðurhúsum á vöxt og uppskeru. Markverðar rannsóknir á lífrænum áburði stæðu yfir, þar sem skoðuð væru gæði mismunandi áburðarefna.

Í búfjárrækt nefni Erla sem dæmi, að verið væri að rannsaka erfðalegar orsakir kálfadauða í íslenskum kúm og burðarerfiðleika, áhrif skilvirkrar skiptibeitar mjólkurkúa í mjaltaþjónafjósum og hvort aðgengi að útisvæðum hafi áhrif á mjólkurframleiðslu og gæði hennar.

Þá væri verið að skoða leiðir til að auka fallþunga og verðmæti sláturlamba.

Einnig væru loftslagsverkefni unnin við skólann og ýmis hagræn verkefni í gangi, til dæmis greining á stuðningskerfi landbúnaðarins og mat á hagrænum áhrifum af nýju mjólkurkúakyni.

Landbúnaður verði arðsamur

Fjögur önnur erindi voru flutt á málþinginu, en þegar þeim var öllum lokið voru umræður þátttakenda sem síðan samþykktu eftirfarandi ályktun málþingsins:

„Fulltrúar málþingsins eru sammála um að íslenskur landbúnaður búi yfir miklum tækifærum enda ein af undirstöðuatvinnugreinum þjóðarinnar. Hættumerki eru á lofti sem ungir bændur, hagsmunasamtök bænda og fleiri hafa bent á og mikilvægt er að grípa til aðgerða strax. Vandinn er þegar viðurkenndur og fjármögnunar þörf. Málþingið skorar á hagaðila og stjórnvöld að taka höndum saman og tryggja góða aðstöðu til rannsókna, menntunar og nýsköpunar og styðja við tækniframfarir og nýliðun. Þannig er tryggt að íslenskur landbúnaður sé arðsöm og eftirsóknarverð atvinnugrein. Miklir hagsmunir eru í húfi fyrir íslenska þjóð.“

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...