Berkjualdin líkjast könglum
Að smakka alls kyns hitabeltisaldin er góð skemmtun. Berkjualdin eða berkjur sjást annað slagið í verslunum hér en vinvældir þeirra hafa aukist mikið í Evrópu undanfarin ár. Plantan er það sem kallast pantropical og þýðir að hún er ræktuð í hitabeltinu hringinn í kringum hnöttinn. Aldinin þroskast hratt og þola illa geymslu.
Ekki fundust heimildir um magn berkjualdina í ræktun í heiminum undanfarin ár og líklega stafar það af því að nokkrar tegundir aldinsins eru í ræktun og flokkun þeirra misjöfn milli landa.
Aldin tilbúið til neyslu. Algengt er að indversk skólabörn færi kennara sínum berkju að gjöf. Mynd / Guðrún Hulda Pálsdóttir.
Mest mun vera framleitt af aldininu í Mexíkó og fylgir Brasilía þar á eftir. Ræktun á berkju í Evrópu er mest við strendur Granada á Spáni og í Portúgal og neyta þær þjóðir mest Evrópubúa af aldininu. Víða í ræktun í Suðaustur-Asíu og í Ástralíu. Plantan er í dag það sem kallast pantropical sem þýðir að hún er ræktuð í hitabeltinu hringinn í kringum hnöttinn.
Spár gera ráð fyrir að ræktun berkjualdina eigi eftir að aukast talsvert í framtíðinni þar sem markaður fyrir aldinið er að aukast og framleiðslugeta talsvert meiri en framleiðslan.
Innflutningur á berkjualdinum er ekki skráður sérstaklega hjá Hagstofu Íslands enda ólíklegt að hann sé það verulegur að hann flokkist ekki með öðrum aldinum í innflutningi.
Ættkvíslin Annona
Tegundir innan ættkvíslarinnar Annona eru sagðar vera milli 120 og 160 en fjöldinn er breytilegur eftir heimildum. Allar tegundirnar eru blómstrandi tré eða runnar sem finnast villtir á mörkum hitabeltisins í Suður-Ameríku og Afríku. Flestar eru sígrænar en nokkrar tegundir lauffellandi. Allar eru þær með öfluga stólparót sem nær allt að 1,8 metra niður og er með hliðarrætur. Stofninn brúnleitur og með þunnum og eilítið skeljakenndum berki sem myndar mislitar langsum rendur. Laufið misstórt og ólíkt viðkomu eftir tegundum, samsett úr mörgum stakstæðum smáböðum. Blómin fá í hnapp eða eitt sér og vaxa á meginstofni plöntunnar eða eldri greinum. Krónublöðin þrjú til fjögur og minni en bikarblöðin sem eru gul eða hvít með rauðu. Tvíkynja en frævlar og frævur í sama blómi þroskast á mismunandi tíma, frjóvgað með skordýrum. Aldinið misstórt eftir tegundum, kón- eða köngullaga, gul, rauð eða hvít á ytra borði en ljós að innan. Milli 55 og 75 svört fræ eru í hverju aldini og er þeim mikið dreift af ávaxtaleðurblökum sem eru sólgnar í aldinið.
Sjö tegundir innan ættkvíslarinnar Annona eru talsvert mikið í ræktun og enn fleiri eru ræktaðar í minna mæli til heimilisnota. Helstu ræktunartegundirnar eru A. reticulata, A. squamosa og A. cherimola auk þess sem fjöldi blendinga þessara tegunda eru í ræktun og að sögn þeirra sem til þekkja er talsverður bragðmunur milli tegundanna og blendinganna.
Tegundin Annona reticulata er mest ræktaða sætaldinstré í heiminum í dag og nær um 10 metra hæð.
Tegundin A. reticulata, sem er í mestri ræktun í heiminum í dag, er lauffellandi tré sem nær um 10 metra hæð og myndar opna og óreglulega krónu, yfirleitt lægra í ræktun. Stofninn ljósbrúnn 25 til 35 sentímetrar í þvermál. Blöðin mjólensulaga og með greinilegum blaðæðum, 10 til 20 sentímetra löng og 2 til 7 sentímetrar að breidd og oddmjó. Stakstæð og illa lyktandi. Blómin opin, gul, 2 til 3 sentímetrar í þvermál og yfirleitt þrjú saman í hnapp. Aldinin ólík af stærð eftir afbrigðum og allt frá 7 og upp í 16 sentímetra að lengd og þvermáli, brún, gul og bláleit og rauð með hvítu í. Oftast 200 til 700 grömm en hafa mælst yfir kíló að þyngd. Þrátt fyrir að aldinin geti verið samhverf, hjartalaga, óregluleg, hnöttótt eða köngullaga eftir afbrigðum er með þeim sterkur ættarsvipur. Aldinhúðin þykk í sér en aldinið safaríkt, ilmsterkt og með mjög einkennandi sætu bragði. Fræin svört, flatvaxin, 1,5 til tveir sentímetrar að lengd, einn að breidd.
Villtar plöntur dafna vel frá sjávarmáli upp í 1500 metra hæð í náttúrulegum heimkynnum sínum. Hundruð ef ekki þúsundir yrkja og blendinga ólíkra tegunda sem eru ólík eftir stærð, lit og lögun eru í ræktun.
Saga og útbreiðsla
Fornleifarannsóknir sýna að villt berkjualdin hafa verið nytjuð í þúsundir ára og að þau voru ræktuð við Yautepec-ána í norðanverðri Mexíkó rúmum eitt þúsund árum fyrir Krist.
Berkjualdin á grein á Indlandi. Mynd / GHP.
Þrátt fyrir að flestar tegundir innan Annona ættkvíslarinnar séu upprunnar í Suður-Ameríku finnast nokkra tegundir í Afríku, bæði villtar og ræktaðar. Aldin tegundanna beggja vegna Atlantsála eru sviplík þrátt fyrir sjónarmun að undanskildu aldini einnar afrískrar tegundar, A. mannii, sem líkist langri, sverri og hangandi pylsu frekar en köngli. Þekktasta afríska berkjutegundin kallast á latínu A. senegalenis og finnst villt frá Senegal til Suður-Afríku, auk þess sem tréð er víða ræktað við lítil þorp. Sagt er að senegalberkjualdin, sem eru gul eða appelsínugul að lit og fremur smá, angi eins og ananas og bragðist eins og apríkósa.
Írski læknirinn og náttúrufræðingurinn Sir Hans Sloane, uppi 1606 til 1753, var duglegur safnari forn- og náttúrugripa og er safn hans að hluta til grunnurinn að bæði þjóðminja- og náttúrugripasafni Breta. Sloane segir í bók um ferðalög sín á árunum 1686 til 1688 að Annona tegundir vaxi á eyjunni Jamaíka en að þar væri plantan meira notuð til alþýðulækninga en til átu. Til dæmis til að græða sár og lægja bólgur.
Jamaíka var á þessum tíma gríðarleg uppspretta auðs vegna ræktunar á sykurreyr sem var mannað með þrælahaldi. Meðal þess sem Sloane skráði hjá sér meðan hann dvaldi á Jamaíka var hvernig þrælum var refsað. Væri þræll fundinn sekur um að gera uppreisn var hann negldur fastur við jörðina og síðan lagður eldur að höndum hans og fótum og hann brenndur smátt og smátt í átt að höfðinu. Fyrir smærri glæpi þótti viðeigandi að höggva af þrælum hálfan fót og svikust þrælar undan í vinnunni fengu þeir óspart að finna fyrir svipunni og salt og pipar sturtað í sárin. Stundum var bráðnu vaxi eða sjóðheitri olíu hellt á líkama þeirra í refsingarskyni.
Heimili og garður Sloan, Chelsea Manor, síðustu æviárin er í dag þekkt sem Chelsea Physic Garden í London og einn elsti varðveitti lækningajurtagarður í heimi.
Aldin ólíkra Annona tegunda (a) A. squamosa, (b) A. cornifolia, (c) A. coriacea, (d) A. cherimola, (e) A. reticulata, (f) A. senegalensis, (g) A. purpurea, (h) A. diversifolia, (i) A. hypoglauca, og (j) A. salzmannii.
Talið er að A. reticulata hafi verið flutt til Afríku snemma á 17. öld og Indlands um svipað leyti. Algengt er í dag að indversk skólabörn færi kennara sínum berkju að gjöf sem virðingarvott.
Bandaríski rithöfundurinn Mark Twain, uppi 1835 til 1910, sagði að berkjur eða berkjualdin væru sannkallaðar kræsingar.
Berkjualdin eru þjóðarávöxtur Síle.
Nafnaspeki
Þrátt fyrir að aldin berkjutegunda séu ólík eiga þau það til að ganga kaupum og sölum undir sama heitinu þrátt fyrir að staðarheiti þeirra séu ólík. Nafnaruglingur milli tegunda er því talsverður.
Latneska ættkvíslarheitið Annona er komið af anón sem er nafn aldinsins á Taíno sem er eitt af mörgum tungumálum sem kallast Aravkan og voru töluð víða í Suður-Ameríku fyrir komu Evrópumanna. Heitið Annona mun hafa orðið til úr blöndu af spænsku, latínu, frönsku og tungumáli Kreóla á Haítí.
Tegundarheitin reticulata, squamosa og cherimola þýða aftur á móti netlaga, vísa til lögunar aldinsins og heitis aldinsins á tungumáli Inka.
Lauf og blómvísar.
Á ensku þekkjast heiti eins og custard apple, soursop, wild-sweetsop, bull's heart, bullock's-heart, ox-heart, pearl of the Andes og queen of the subtropical fruit. Spánverjar kalla aldinið mörgum nöfnum eins og anona, anona colorada, anona corazón, anonillo, corazon, corazón de buey, guanabano, mamán og suncuya. Frakkar segja pomme cannelle, cachiman, coeur de boeuf eða zannone, Ítalir cachirmano, cuor di bue eða cuore di bue. Í Kína kallast aldinið niu xin fan li zhi en í Víetnam binh bat, mâng câu dai og qua na en mean bat og mo bat í Kambótíu. Á Kúbu gengur aldinið undir heitunum cherimoya og mamón.
Þjóðverjar segja annone, netzannone, ochsenherz, og ochsenherzapfel, Svíar nätannona og Danir oksehjerte og netannona.
Á íslensku þekkjast heiti eins og sætaldintré, kvöldberkja, sólberkja, morgunberkja og dagmálsberkja til að aðgreina ólíkar tegundir. Berkja er því ágætt samheiti en greinir ekki milli einstakra tegunda af ættkvíslinni Annona.
Ræktun
Almennt dafnar sætaldintré best í röku hitabeltisloftslagi þar sem loftraki er hár eða á jöðrum þess þar sem úrkoma er mikil. Kjörhiti þeirra er 17° til 24° á Celsíus og trén þola ekki að hitinn fari niður fyrir -2° á Celsíus. Hæfilegt sýrustig jarðvegs fyrir A. reticulata er á bilinu 5 til 8. Kýs djúpan síraka og lifandi mold en þolir ekki að standa í vatnsósa jarðvegi.
Trén bera aldin þrjú til fimm ár eftir gróðursetningu og það tekur aldinið fimm til sex mánuði að ná fullum þroska eftir frjóvgun.
Aldin til sölu í Víetnam.
Auðvelt er að rækta plöntuna upp af fræi en erfiðara að halda henni lifandi innanhúss hér á landi. Í framleiðslu á aldinum er yrkjum fjölgað með greina- eða brumágræðslu.
Blómin sums staðar frjóvguð með höndum til að tryggja aldinmyndun þar sem hentugir frjóberar finnast ekki í náttúru ræktunarsvæðisins. Trén þurfa talsverða umhirðu í ræktun svo þau vaxi ekki úr sér.
Síðþroski aldinanna er hraður og þarf því margar og hraðar hendur við uppskeruna sem er öll unnin með höndum. Aldinið er viðkvæmt fyrir hjaski strax við uppskeru og hefur stuttan hillutíma.
Í dag hefur tegundin gert sig heimakomna á stöðum og víðar í heiminum þar sem hún hefur slæðst út frá ræktun og á mörgum stöðum er litið á hana sem ágenga tegund og bölvaðan arfa í annarri ræktun.
Við góðar aðstæður gefur hvert tré af sér um 45 kíló á ári.
Nytjar
Berkjualdin er 72% vatn, 25% kolvetni, 2% prótein og 1% fita. Í hundrað grömmum af berkjualdini eru um 101 kílókaloría og 25% af ráðlögðum C-vítamín dagskammti og 17% af ráðlögðum dagskammti af B6. Auk þess sem aldinið inniheldur A, B, E, og K1 vítamín, auk stein- og andoxunarefna.
Gæta skal þess að allir hlutar sætaldinstrjáa nema aldinin eru eitraðir og geta valdið skaða á taugakerfinu og heilastarfsemi sé þeirra neytt í miklu magni.
Indversk afbrigði berkjualdins.
Berkjualdin eru sæt og þykja einstaklega bragðgóð. Þau eru borðuð hrá og einnig höfð í safa, ís og búðinga og á Indlandi eru þau höfð í sósur. Lauf og greinar eru notuð til litunar og gefa bláan lit.
Þar sem ytri börkur sætaldins-trjáa er fremur þunnur er hann notaður í umbúðir og úr innri berkinum eru búnir til fínlegir skrautmunir. Viður trjánna er mjúkur í sér en þrátt fyrir að hann sé talinn fremur lélegur til smíða eru búnir til úr honum ýmsir smámunir.
Allir hlutar plöntunnar eru nýttir til alþýðulækninga þar sem hun finnst. Mulin lauf eru sögð góð á graftarkýli og lægja bólgur. Mulið rótarduft var notað til að sefa tannverk og rótarseyði til að lækka sótthita. Auk þess sem barkarseyði þótti gott við iðraormum, steinsmugu og ýmsum amorskvillum.
Berkjualdin á Íslandi
Vinsældir berkjualdina hafa aukist víða um heim og þau hafa verið til sölu hér á landi. Skammur hillutími og að aldinin eru viðkvæm og skemmast við hnjask hefur eflaust valdið því að aldinin eru fremur fáséð hér á landi. Þetta gæti þó breyst því að ný yrki með lengri geymslutíma eru komin á markað, flutningatækni batnað og sala þeirra að aukast í Evrópu.
Ekki fer mikið fyrir berkjualdinum í íslenskum fjölmiðlum. Ein lýsing fannst á timarit.is úr Morgunblaðiðnu frá því í ágúst 2002 þar sem segir í grein sem ber fyrirsögnina Velkomin sólaldin, blæjuber og kakí og fjallar um framandi ávexti og aldin. „Morgunberkja, annóna (e. cherimoya, lat. Annona cherimola): aldin trés af sætaldinsætt sem vex í Suður-Ameríku. Með grænleitt hreistrað hýði, ljóst aldinkjöt með svörtum fræjum, talið með ljúffengustu ávöxtum en geymist illa.“
Berkjualdin eftir tínslu.