Berróta plöntur
Plöntur sem ætlaðar eru í limgerði eru oft og tíðum seldar berróta sem þýðir að þær eru hvorki í potti né með stóran rótaklump í kringum rótakerfið, bara ræturnar allsberar og óvarðar. Svona plöntur eru frekar viðkvæmar í flutningum og þegar þær eru keyptar í gróðrarstöðvum er þeim pakkað inn í viðeigandi umbúðir og ýmist mosi eða mold sett með rótunum til að halda á þeim raka þangað til þær komast á áfangastað.
Berróta plöntur í heimferðarpoka.
Best er að gróðursetja þessar plöntur sem fyrst að sumrinu því ef þær eru orðnar fulllaufgaðar þarf að gæta þess sérstaklega að vökva þær vel og lengi á meðan rótakerfið kemur sér fyrir.
Berrótaplöntur sem ætlunin er að gróðursetja í limgerði þarf að geyma í skugga fram að gróðursetningu og bleyta hressilega í rótakerfinu áður en þeim er plantað og eins ef þarf að geyma þær í 1-2 daga fram að gróðursetningunni, þó er ágætt að hafa þennan geymslutíma sem stystan.
Jarðvegur fyrir limgerði þarf að vera góður garðajarðvegur. Áður en plönturnar fara niður er gott að grafa skurð í þeirri lengd sem limgerðið á að vera og dýptin á skurðinum þarf að vera eins og blaðið á skóflunni.
Berróta yfirmokað.
Í skurðinn er settur lífrænn áburður, t.d. molta eða búfjáráburður, og honum blandað saman við moldina sem fyrir er. Þá er plöntunum raðað niður í skurðinn með því millibili sem mælt er með og moldinni, sem mokað var upp úr skurðinum, mokað ofan í hann aftur. Plönturnar eru réttar við og moldinni þjappað hæfilega vel að þeim þannig að þær standi teinréttar og í þráðbeinni röð, tilbúnar að veita skjól í framtíðinni.
Eins og í allri gróðursetningu lýkur limgerðisútplöntuninni á vökvun. Næstu daga á eftir er gott að byrja morgunverkin á að huga að plöntunum og vökva þær vandlega, sérstaklega ef þurrt er í veðri og sólríkt.