Bílabúð Benna með opnunartilboð í nýju húsnæði
Höfundur: Hjörtur L. Jónsson
Hinn 17. febrúar opnaði Bílabúð Benna glæsilegan nýjan sýningarsal fyrir Ssang Yong og Opel í nýju húsnæði á Krókhálsi 9.
Við opnunina var frumsýndur nýr Opel Crossland X. Ég fékk sjálfskipta Crossland-bílinn eftir frumsýninguna til prufuaksturs.
Vélin ótrúlega kraftmikil þrátt fyrir að vera ekki nema 1.200 cc
Fyrir fram gerði ég mér ekki miklar vonir um þennan bíl þegar ég sá í auglýsingabæklingi að vélin væri ekki nema 1.200 rúmsentímetra (cc) en annað kom á daginn. Þessi litla vél skilar bílnum vel áfram, snerpa er góð og er bíllinn snöggur að ná umferðarhraða úr kyrrstöðu. Þegar kemur að brekkum hefur mér fundist nánast allir bílar með minni vélar en 1.500 cc vera að tapa leiðinlega mikilli ferð, en mér til furðu tapaði Opel Crossland ekki mikilli ferð í þeim brekkum sem ég ók upp á meðan ég var með bílinn. Það voru nokkrir búnir að prufukeyra bílinn í næsta nágreni við Bílabúð Benna og þegar ég settist inn í bílinn var búið að keyra hann yfir 400 km og meðaleyðsla þeirra á hundraðið var 9,1 lítrar.
Fyrst prófaði ég bílinn innanbæjar og var mín eyðsla 8,4 l á hundraðið á meðalhraða upp á 32 km. Í akstri upp á Mosfellsheiði og til baka á meðalhraða upp á 66 var ég að eyða í langkeyrslu 6,0 lítrum af bensíni á hundraðið, allavega var ég vel sáttur við þessa túrbó-bensínvél sem er ekki nema 1.199 cc og skilar 110 hestöflum.
Mismikið veghljóð frá fram- og afturhjólum
Það er þægilegt að keyra bílinn og fjöðrunin góð á malarvegi. Þó fannst mér Crossland sóða sjálfan sig full mikið að aftan eftir aksturinn á malarveginum.
Veghljóð er lítið frá framhjólunum en heldur meira frá afturhjólum. Á malarveginum heyrðist aðeins í steinum undir bílnum aftan til en minna frá framhjólum, en þess ber að geta að bíllinn var á frekar grófum vetrardekkjum, stíf fjöðrunin heggur aðeins í verstu malarvegaholunum.
Þegar ekið var í holur á malarveginum var bíllinn aðeins að höggva á fjöðruninni en á móti var bíllinn afar skemmtilegur á bundnu slitlagi og liggur vel í beygjum.
Akreinalesarinn les vel illa málaðar línurnar í vegköntum og lætur vita ef ekið er yfir miðlínu eða línuna í kantinum með blikkljósi í mælaborðinu og hljóðmerki líka.
Mikið lagt upp úr öryggi og þægindum
Framsætin eru sérstaklega þægileg og fara vel með þann sem í þeim situr enda hefur Opel fengið viðurkenningu frá læknum fyrir góða hönnun þessara sæta þar sem þau þykja öðrum sætum fremri fyrir að halda vel við mjóbak og upp með hliðum.
Flestir bílar eru með handfrjálsan símabúnað í gegn um útvarpið, en Opel bætir um betur og er með einn takka upp undir baksýnisspeglinum sem er neyðarhringitakki. Ef maður er með „app“ í símanum virkjað inn á þennan takka er nóg að ýta á hann og maður fær samband við neyðarlínuna. Síminn er það fyrsta sem virðist týnast og jafnvel svífa út úr bílnum við veltu, en ekki það langt í burtu að hann missi sambandið við útvarpið.
Vel útbúinn bíll og fáir ókostir
Í Opel Crossland X er mikið af aukabúnaði, s.s. kæling í hanskahólfi. Slíkt er ekki í mörgum bílum. Þá er gott útvarp með sex hátölurum, upphitaðir hliðarspeglar, varadekk sem ég kalla almennt aumingja, brekkuhjálp sem heldur við bílinn á meðan verið er að fara af stað í brattari brekkum, sjö tommu litaskjár fyrir bakkmyndavélina og fleira, upphitað stýri, hiti í framsætum, en slíkt hefði alveg mátt vera í aftursætunum líka.
Pláss inni í bílnum er gott og fótarými ágætt, farangursrými gott og með plötu til að stilla hæð eða lagskipta farangursrýminu. Auglýst opnunartilboðsverð á beinskiptum Opel Crossland X Enjoy er 2.690.000 og dýrari bílnum af Opel Crossland X Innovation sem er sjálfskiptur er auglýst tilboðsverð 3.290.000. Ef einhver vill fræðast meira er hægt að nálgast frekari upplýsingar á vefsíðunni www.benni.is.
Helstu mál og upplýsingar:
Þyngd 1.163 kg
Hæð 1.605 mm
Breidd 1.976 mm
Lengd 4.212 mm