Birkikemba
Garðeigendur á Suður-, Vestur- og Norðurlandi hafa örugglega margir tekið eftir því að víða hafa blöðin á birki orðið brún í vor og reyndar undanfarin vor. Ástæða þess er meindýr sem leggst á birkið og kallast birkikemba, sem er tiltölulega nýtt kvikindi hér á landi sem bæði skaðar trén og gerið laufið ljótt.
Utan Íslands er búsvæði birkikembu í Mið- og Norður-Evrópu en hér á landi finnst hún enn sem komið er á landinu sunnanverðu frá Hvanneyri í Borgarfirði austur í Fljótshlíð og í uppsveitum Suðurlands, á Akureyri og örugglega víða sé vel að gáð.
Á heimasíðu Náttúrufræðistofnunar er að finna góða lýsingu á lífsháttum birkikembu og er það sem á eftir fer fengið þaðan.
Birkikemba er smávaxið fiðrildi og sex millimetrar að lengd. Höfuð og frambolur eru þéttvaxin löngum svörtum hárum og eru sem úfinn brúskur. Vængirnir liggja eins og þakris yfir afturbolnum. Það sindrar af gylltum framvængjunum. Á hvorum þeirra er áberandi hvítur blettur sem gerir tegundina auðþekkta frá öðrum sem fljúga á vorin.
Það er lirfa fiðrildisins sem veldur skaða. Kvenfiðrildin verpa eggjunum undir yfirhúð laufblaða snemma sumars. Þar klekjast þau út í blaðholdinu og lirfurnar nærast á því. Talsverð lýti eru af skemmdunum og líklegt að birkikemba hafi letjandi áhrif á vöxt birkisins.
Helsta kjörlendi birkikembu eru í trjárækt og í húsagörðum þar sem er að finna birki. Fiðrildin eru á ferð á vorin en þau skríða úr púpum í fyrrihluta apríl og hverfa með öllu fyrir miðjan maí. Flugtími er því mjög skammur. Á þessum tíma verpa fiðrildin á brum birkis og eggin klekjast þegar tré fara að laufgast.
Lirfurnar smjúga þá inn í laufblöðin, koma sér þar fyrir og éta innvefi þeirra. Eftir því sem lirfurnar dafna taka blöðin að sölna og á endanum standa einungis eftir ysta lag efra- og neðraborðs blaðs sem blæs út eins og brúnn belgur. Fullvaxnar lirfur skríða út úr belgnum og hverfa niður í svörð þar sem þær púpa sig og bíða næsta vors á púpustigi.
Birkikemba fannst fyrst í Hveragerði 2005 og var þá þegar orðin algeng í trjáræktarreit undir Hamrinum og nálægum görðum. Þaðan dreifðist hún fljótt um Ölfusið allt austur að Nátthaga. Hún fannst svo fremst í Fossvogi í Reykjavík 2007, fjölgaði þar hratt og dreifðist upp í Fossvogskirkjugarð, í skógræktarstöðina í Fossvogsdalnum og var tveim árum síðar komin upp á Kópavogshálsinn nálægt Borgarholti.
Vorið 2012 varð ljóst að birkikembu hafði fjölgað til mikilla muna og dreifst um mun stærra svæði. Hún var þá komin austur að Elliðavogi og austur fyrir Elliðaár, svo og suður í Hafnarfjörð. Einnig fannst hún þá í trjárækt Skógræktar ríkisins á Mógilsá í Kollafirði, sömuleiðis í görðum á Selfossi. Upp úr þessu varð dreifingin hröð. Suðurlandsundirlendið allt varð undirlagt allt austur í Fljótshlíð. Var staðfest í Borgarfirði árið 2014 og á Akureyri 2017.
Illur fengur af þessum nýliða í íslensku fánunni. Skaðsemi á birki er veruleg af völdum þessa fiðrildis, ekki aðeins í görðum heldur einnig í birkiskógum á landsbyggðinni.