Enn er bætt á nægtaborð nautanna
Nú er hafin notkun á fyrstu nautunum sem valin voru út frá erfðamati á Nautastöðina á Hesti. Þetta er enn eitt skrefið í innleiðingarferli erfðamengisúrvalsins og það verður spennandi að sjá þegar dætur þeirra koma til framleiðslu.
Þessi naut eru fædd á síðasta ársfjórðungi 2022 og eru geysiöflug, standa með 112 og 113 í heildareinkunn.
Hér verður gerð nánari grein fyrir þessum nautum.
Flammi 22020 frá Króki í Biskupstungum undan Bikar 16008 og 573 Kláusardóttur 14031. Flammi er alhliða naut með gott mat fyrir afurðir, bæði magn og efnahlutföll, júgur- og spenagerð, mjaltir og skap. Einu neikvæðu þættirnir eru aðeins grannir spenar og mat fyrir frumutölu er 88. Þarna er því á ferðinni öflugt naut sem stendur í 112 í heildareinkunn.
Strókur 22023 frá Stóru-Reykjum í Flóa undan Herki 16069 og Brynju 884 Kláusardóttur 14031. Strókur er öflugt naut sem sækir mátt sinn og megin í þætti eins og mjólkurlagni, júgurhreysti, júgurgerð, mjaltir og skap. Efnahlutföll mættu vera betri og spenar eru grannir. Strókur er eini sonur Herkis 16069 sem kemur til notkunar. Heildareinkunn 112.
Drungi 22024 frá Neðri-Þverá í Fljótshlíð undan Mikka 15043 og 1065 Úranusdóttur 10081. Drungi er fyrsti og eini sonur Mikka 15043 sem kemur til notkunar. Þarna er á ferðinni naut með afurðagetu, góða júgurgerð og sérlega góðar mjaltir og skap. Hins vegar eru efnahlutföll og spenagerð um meðallag. Spenar aðeins langir og meðalvel settir. Drungi stendur með hökugóða heildareinkunn upp á 113.
Krummi 22025 frá Neðri-Þverá í Fljótshlíð undan Bússa 19066 og 1169 Piparsdóttur 12007. Krummi er fyrsti sonur Bússa 19066 sem kemur í notkun. Þetta gott alhliða naut með góða afurðagetu, mjög góða júgurgerð og mjaltir og skap yfir meðallagi. Eini neikvæði þátturinn er að spenar eru aðeins í lengri kantinum. Heildareinkunn Krumma er nú 112.
Þrymur 22027 frá Stóra-Ármóti í Flóa undan Tanna 15065 og Tröllu 1543 Búkkadóttur 17031. Þrymur er þriðji sonur Tanna í notkun og styrkleikar hans eru miklir. Afurðagetan er góð, júgurgerðin frábær og mjaltir og skap með miklum ágætum. Spenar eru hins vegar grannir. Þá er ekki mælt með því að nota Þrym á kvígur en mat hans fyrir burð feðraáhrif er 80. Heildareinkunn Þryms er 113.
Ofangreind naut eru þegar komin í eða á leiðinni í dreifingu eftir því hvernig stendur á útsendingu sæðis frá Nautastöðinni.
Áfram verða Magni 20002, Gauti 20008, Óðinn 21002, Kaldi 21020, Mjölnir 21025, Pinni 21029, Vorsi 22002, Drangur 22004, Hnallur 22008, Kajak 22009 og Ægir 22010 í notkun.
Notkun á Bússa 19066, Billa 20009, Garpi 20044 og Svarfdal 22006 verður hætt, ýmist vegna þess að þeir eru búnir að vera lengi í notkun eða þeir eru samfeðra þeim nautum sem nú koma inn.
Nú þegar notkun nauta sem valin voru á grunni erfðamengis er hafin er þess að vænta að ný naut komi til notkunar örar en verið hefur. Þannig kann listi nauta í notkun að taka breytingum á 4-8 vikna fresti. Breytingar á nautum í notkun verða þannig tíðari en umfangsminni hverju sinni.
Ég vil nota tækifærið og hvetja til notkunar á sæðingum enda hefur nautavalið aldrei verið betra en nú. Einkum og sér í lagi þarf að auka kvígusæðingar en nú er svo komið að innan við 30% fæddra kálfa undan 1. kálfs kvígum er undan sæðinganautum.
Kvígunar telja ríflega 30% kúastofnsins á hverjum tíma og undan kvígum koma líka kvígur sem eru settar á. Þannig nýtum við ekki öll þau tækifæri sem við höfum til kynbóta og stöndum uppi með lakari gripi en þörf er á. Ekki láta nægtaborð nautanna fram hjá ykkur fara – sæðið kvígurnar!