Er tuggan góð?
Öfgarnar í veðrinu ættu ekki að hafa farið fram hjá neinum í sumar, en þær hafa valdið áskorunum í gróffóðuröfluninni.
Þurrkar voru til vandræða á Austurlandi framan af sumri á meðan var mikil vætutíð á Suður- og Vesturlandi, því voru þar ekki margir gluggar til að ná fyrri slætti í góðum þurrki. Töluvert kaltjón var á túnum á Norður- og Austurlandi og því stærri hluti heyforða nýræktir og/ eða grænfóður til að ná viðunandi uppskeru. Allt þetta hefur áhrif á gæði og eðli gróffóðursins sem getur valdið miklum breytileika milli ára.
Áhrif veðurs á grösin
Grösin vaxa misjafnt eftir veðri. Í þurru sumri geta grösin farið að forgangsraða að koma upp punti og fer meira púður í stöngulvöxt sem að alla jafna er tormeltari en blöðin og sjást þá oft hærri gildi á ómeltanlegu tréni sem getur komið niður á orku fóðursins.
Í meiri vætutíð verður meiri blaðvöxtur og grösin koma seinna með punt, hins vegar ef beðið er of lengi með að slá vegna óþurrka gætu grösin orðið of mikið vaxin sem veldur meira tréni en minni orku og próteini. Þurrkstig fóðursins hefur einnig áhrif á eðli fóðursins en blautara fóður er oftar með meira af leysanlegu próteini. Taka þarf mið af því við val á kjarnfóðri því horfa þarf þá í að fá kjarnfóður með nægri leysanlegri orku og torleystu próteini. En ef fóðrið er þurrt er meira af torleystu próteini því meiri þörf á leysanlegu próteini í kjarnfóðrinu. Ef tréni er lágt í fóðrinu ætti að horfa á trénisríkt kjarnfóður og öfugt ef mikið tréni er í fóðrinu.
Heyefnagreiningar
Eftir svona sumar er mikilvægi heyefnagreininga ótvírætt fyrir markvissa og góða fóðrun. Heyefnagreiningar eru mikilvægt bústjórnarverkfæri til að taka réttar ákvarðanir í fóðrun og kjarnfóðurkaupum. Gott er að huga að því að taka sýni úr því fóðri sem endurspeglar vetrargjöfina, sýni úr fyrri slætti, seinni slætti og grænfóðri. Það getur verið gott að taka sýni úr geldkúa heyinu til að athuga hversu vel hefur tekist til í framleiðslu þess og hvort þurfi að gera einhverjar breytingar á geldkúafóðruninni. Safnsýni úr fyrri slætti geta gefið fína mynd á heildarheygjöf vetrarins.
Greiningar til áburðarleiðbeininga
Ef taka á heysýni fyrir upplýsingar um nýtingar á áburði er ákjósanlegra að taka þá úr einni ákveðinni spildu en safnssýni gefa fína mynd á heildar heyforðanum. En fyrir nákvæmari upplýsingar fyrir áburðargjöf er gott að taka jarðvegssýni. Til að nefna ef einhverjar spildur afköstuðu undir væntingum eða eru eitthvað undarlegar er tilvalið að taka úr þeim jarðvegssýni til að leita skýringa hvort skorti einhver næringarefni.
Greining á korni
Ef ræktað er nokkuð af korni og nýta á í mjólkurkýr er gott að láta greina kornið til að vita þurrefnið, próteinið og sterkjuna.
Með að þekkja fóðurgildi kornsins má reikna mjög nákvæmlega korngjöfina inn í fóðuráætlunina og spara á móti aðkeypt kjarnfóður. En til að spara kjarnfóður með sem öruggustum hætti þarf að hafa allar forsendur þekktar og þar er þurrefnis- og sterkjumagn kornsins mikilvægast. Því þegar korn er greint skal alltaf óska eftir sterkjumælingu.
Hægt er að panta hey- og jarðvegssýnatöku hjá RML inni á forsíðu RML.is, þar er hnappur sem heitir „Panta sýnatöku“ eða hafa samband við næsta ráðunaut. Fyrir þá sem vilja taka sjálfir sýni má nálgast staðlaðan heyefnagreiningar fylgiseðil undir Ráðgjöf > Jarðrækt > Heyverkun inni á RML.is.