Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 mánaða.
Það getur munað miklu á köfnunarefnislosun kúabúa eftir hönnun og vinnubrögðum þar sem fastir flórar eru.
Það getur munað miklu á köfnunarefnislosun kúabúa eftir hönnun og vinnubrögðum þar sem fastir flórar eru.
Á faglegum nótum 3. maí 2024

Fagþing dönsku nautgriparæktarinnar 2024 – Þriðji hluti

Höfundur: Snorri Sigurðsson

Kvægkongres 2024, árlegt og einkar áhugavert fagþing hinnar dönsku nautgriparæktar, var haldið í lok febrúar sl. og líkt og undanfarin ár voru þar flutt ótal erindi sem eiga mörg hver erindi við íslenska bændur og annað fagfólk í nautgriparækt.

Fagþingið, sem er í senn bæði ársfundur félagasamtaka danskra nautgripabænda og fagfundur helsta vísindafólks í greininni, stóð í tvo daga og var skipt upp í 13 málstofur með tugum erinda. Í síðustu tveimur Bændablöðum hefur verið fjallað um hluta þessa fagþings og verður hér lokið við þessa umfjöllun og gripið niður í nokkur erindi sem voru flutt í málstofunum um nýtingu, Holstein-kúakynið og kjötframleiðslu.

5. Nýting

Þessi málstofa innihélt 9 erindi sem öll sneru að því hvernig nýta má aðföng og gripi betur til þess að bæði minnka umhverfisálag framleiðslunnar en ekki síður að lækka kostnað við hana. Sum erindin voru fyrst og fremst miðuð við danskar aðstæður og eiga því ekki við hér á landi en erindi Masja Reinhard og Morten Kargo frá háskólanum í Árósum á klárlega erindi við íslenska kúabændur. Þau settu upp áhugaverða rannsókn á kúm í geldstöðu og skoðuðu m.a. áhrif mismunandi meðferða á kúnum í hvíldartímabili geldstöðunnar, þ.e. fyrstu 4-5 vikurnar eftir að geldstaða hefst, á átgetu, sjúkdómatíðni og mjólkurframleiðslu þegar mjaltaskeið kúnna hófst. Í stuttu máli sagt skipti hreyfing geldkúa litlu máli fyrir afurðasemina á komandi mjaltaskeiði en fóðrun og umhirða þeim mun meira. Tilraunin sýndi m.a. fram á að ef geldkýr eru fóðraðar of sterkt í upphafi geldstöðunnar þá kemur það niður á mjólkurframleiðslunni þegar hún hefst á ný eftir burðinn. Bændur þurfi því að vera mjög vel vakandi yfir því hvernig fóðrun er háttað í upphafi geldstöðunnar og þá þarf fyrst og fremst að tryggja að kýrnar séu ekki offóðraðar á kalki. Með því að takmarka aðgengi að kalki fer af stað ferli í líkama kúnna þar sem kalk er dregið úr líkamanum í stað þess að það komi með fóðrinu. Þetta ferli þarf að vera virkt við burð, svo líkurnar á efnaskiptasjúkdómum séu litlar.

„De novo“ gildi mjólkur

Annað mjög áhugavert erindi sneri að fituinnihaldi mjólkur og hvernig megi hafa áhrif á hana með fóðrun, en erindið var flutt af Mads Nielsen og Betinu Amdisen Røjen en bæði starfa við fóðurráðgjöf. Í erindi þeirra kom m.a. fram að þó svo að mjólk innihaldi margar mismunandi fitusýrur er oftast talað um megingerð þeirra, þ.e. hvort fitan sé mettuð eða ómettuð. Undanfarin ár, eða síðan 2019, hefur verið lögð áhersla á það í Danmörku að gefa bændum aukinn möguleika á að fylgjast betur með fitu mjólkurinnar úr kýrsýnunum, með því að ekki einungis greina hana sem hlutfall mjólkurinnar, heldur einnig með því að gefa upp svokallað „de novo“ gildi fyrir fituna en „de novo“ þýðir bara í raun fitusýrusyntasi, þ.e. það ferli sem á sér stað þegar stuttar fitusýrukeðjur myndast. „De novo“ gildið er mælt í kýrsýninu og segir það til um hve hátt hlutfall fitusýranna eru stuttar.

Mjólkurfita er aðallega byggð upp af þríglýseríðum (97-98%), sem samanstanda hvert um sig af glýseróli sem tengt er þremur fitusýrum og fitusýrurnar eru svo af misjafnri lengd. Fitusýrur með 4 til 8 kolefnisatóm eru kallaðar stuttar fitusýrur, ef kolefnisatómin eru 10 til 14 er talað um miðlungslangar fitusýrur og ef kolefnisatómin eru 16 eða fleiri er talað um langar fitusýrur. Fitusýrur í mjólkurfitu eiga sér tvenns konar uppruna. Annars vegar myndast þær í júgrinu, en þar myndast fyrst og fremst stuttar fitusýrur. Þessar fitusýrur eru þá byggðar upp frá grunni í júgrinu en aðalhráefnin til að búa þær til eru ediksýra og smjörsýra sem verða til við gerjun örvera í vömbinni. Lengri fitusýrurnar berast aftur á móti í mjólkina sem blóðfita frá blóðrásinni, en þessar fitusýrur eru komnar beint úr fóðri, t.d. vegna sérstakrar fitufóðrunar, örverumassa og forðafitu en sá hluti er breytilegur eftir stöðu á mjaltaskeiði. Um það bil helmingur mjólkurfitunnar myndast í júgrinu og samsetning mjólkurfitunnar ræðst því að stórum hluta af gerjun fóðurs í vömb.

20–30% „de novo“

Framangreind „de novo“ mæling, sem er gefin upp sem g/100 g fitusýranna, segir sem sagt til um það hve mikið magn fitunnar stafar frá gerjun í vömb en talið er að sú aðferð við fituframleiðslu mjólkur sé sú hagkvæmasta. Almennt miða danskir ráðunautar við að „de novo“ hluti fitusýranna sé 20-30%. Síðan eru fitusýrurnar með 16 kolefnisatóm með svokallaðan blandaðan bakgrunn þ.e. hluti þeirra kemur beint úr fóðri t.d. vegna fóðrunar á mettaðri pálmafitu en hinn hlutinn verður til í mjólkurblöðrunum. Þessi hluti fitusýranna er oft 30-40% og það gefur þá að lengri fitusýrurnar, með 18 kolefnisatóm eða fleiri, eru 30-50%. Þessar fitusýrur koma frá fóðri og fituvef kúnna. Plöntuolíur eru hér gott hráefni til að mynda þessar fitusýrur.

Nota „de novo“ sem stýritæki

Með því að þekkja „de novo“ mælingargildi mjólkurinnar hafa danskir bændur og ráðgjafar þeirra náð að stjórna betur fóðrun kúnna og auka hagræði búanna. Þannig þarf að bregðast við ef „de novo“ mæling sýnir að meðaltal búsins er frekar lágt (í Danmörku er talað um lágt gildi sé mælingin 24 g/100 g). Slík niðurstaða segir í raun að vambarmeltingin á búinu sé að jafnaði ekki nógu góð og of stór hluti fitunnar kemur beint úr fóðri en ekki vegna efnamyndunar við gerjun í vömb. Það vantar þá sem sagt byggingarefnið fyrir uppbyggingu fitunnar og bendir til rangrar fóðrunar eða meðferðar kúnna. Reynslan sýnir líka að með lágu mæligildi fylgja önnur vandamál eins og hærri frumutala og fleiri kýr sem þarf að setja út úr framleiðslunni af einhverjum ástæðum. Þetta er s.s. óbein mæling á bústjórninni og því dýrmætt stýritæki sem allir bændur ættu að hafa aðgengi að.

Tilraunaaðstaða þar sem ætlunin er að safna saman metani.
Draga út metanlosun

Annað áhugavert erindi í þessari málstofu fluttu ráðunautarnir Anja Juul Freudendal og Michael Holm en þau tóku fyrir stöðugt hertari reglur varðandi umhverfismál í landbúnaði. Kúabú í Danmörku þurfa á komandi árum að draga úr köfnunarefnislosun búanna með einum eða öðrum hætti. Þessi mál hafa verið töluvert rannsökuð undanfarin ár og hafa vísindamenn m.a. komist að því að langmest losun köfnunarefnis á sér stað við jórtrun, eða 69%, og ekki nema 26% stafar frá mykjunni. Fóru þau yfir ýmis handhæg ráð til þess að draga úr köfnunarefnislosun búanna.

Skafa oft á dag

Tóku þau sem dæmi kúabú sem eru með fasta flóra og sköfukerfi að það getur munað gríðarlega miklu á losun búanna eftir því hvernig unnið er við gólfin. Séu gólfin skafin sjaldan og eru oft blaut þá er losun köfnunarefnis frá þessum búum mun hærri en þar sem oft er skafið og gólfunum haldið vel þurrum. Þannig er losun á ammoníaki 23% minni og 90% minna metan sem myndast á búum sem halda gólfunum þurrum og hreinum!

Þá ræddu þau um aðra möguleika, t.d. þar sem eru notaðir flórgoðar, þ.e. að láta þá keyra ört um fjósin og auk þess veltu þau fyrir sér hvort það mætti nota þá jafnvel betur með því að sprauta úr þeim vatni eða einhvers konar bindiefni. Í ár og næsta ár verður einmitt gerð tilraun með þetta í samstarfi við Lely, þar sem flórgoði verður búinn sérstökum búnaði til að sprauta bindiefni út þegar hann skefur eins og sjá má á meðfylgjandi mynd.

En eins og áður segir stafar stærsti hluti losunar köfnunarefnis frá jórtrun og eru þegar komin á markað alls konar bætiefni sem draga úr metanlosun við jórtrun. Hún er þó alltaf til staðar og þar sem jórtrun fer fyrst og fremst fram þegar kýr liggja í básum sínum er verið að skoða alls konar möguleika á að safna saman metani í legubásaröðinni. Enn sem komið er er þetta á tilraunastigi en á meðfylgjandi mynd má t.d. sjá eina útfærslu þar sem komið hefur verið upp eins konar söfnunarklefa á legubásaröð, ofan við svæðið þar sem kýr eru oftast með höfuðið þegar þær liggja og jórtra.

Í sérstakri tilraun verður flórgoði nýttur til þess að sprauta út bindiefni svo losun á köfnunarefni frá kúabúum með fasta flóra verði sem minnst.

6. Holstein-kúakynið

Þó svo að Holstein kúakynið sé ekki notað á Íslandi þykir greinarhöfundi efnið frá einu stuttu erindi svo áhugavert að það eigi rétt á því að vera tekið með. Það sneri nefnilega að kynbótastarfinu þar sem komið var inn á einkar áhugaverðar niðurstöður frá afurðahæsta búi heims í dag en það var Bandaríkjamaðurinn Jordan Siemers sem flutti erindið en hann er kúabóndi á afurðahæsta kúabúi heims.

Afurðahæsta bú heims

Afurðahæsta bú heims í dag, að því að talið er a.m.k., er kúabú Jordan þessa en hann býr með 6.800 kýr í Wisconsin-ríki í Bandaríkjunum en búið hefur verið í ætt hans í langa hríð og hann er sá sjötti í röðinni til að stýra búinu. Kúabúið hefur tekið miklum breytingum á undanförnum árum en upp úr aldamótunum var búið ekki með hreinar Holstein- kýr heldur blendinga. Það gaf ekki nógu góða raun svo árið 2009 sneri Jordan sér alfarið að því að vera með Holstein og setti sér takmark um að ná miklum afurðum. Hann breytti legubásum fjóssins yfir í sandlegubása, en slíkir básar hafa margsýnt sig að bjóða kúm upp á bestu velferð og lægri sjúkdómatíðni en aðrar básagerðir. Síðan kynbætti hann hjörðina vel og jafnt og þétt jókst nyt búsins. Vegna góðs árangurs hafa frá þessu búi nú komið mörg naut sem hafa farið í sæðistöku á nautastöðvum auk þess sem á hverju ári eru seldir um 300 fósturvísar úr bestu kúnum. Í því sambandi má nefna að ein af bestu kúnum á búinu, hún Hanker, hefur þegar skilað af sér 6 nautum á nautastöð og eru þau öll í notkun! Það er líklega einsdæmi í heiminum, þ.e. að sama nautsmóðirin eigi 6 naut í dreifingu!

Ein af bestu kúnum á bænum er hún Hanker sem hér sést. Hún var valin Holstein-kýr ársins 2020 en undan henni eru nú 6 naut í notkun! Líklega er það met að undan sömu kúnni, á sama tíma, séu 6 naut í notkun.

Með 17.050 kg á árskúna

Í fyrra náði hann svo þeim einstaka árangri með þessa stóru hjörð að meðalnytin fór yfir 17 tonn! Nánar tiltekið er meðaltal þessara 6.800 kúa hjá Jordan 17.050 kg mjólkur á árskúna með 4,3% fitu og 3,1% prótein. Hreint út sagt magnaður árangur og sérstaklega í ljósi þess að búið er með mörg þúsund kýr. Til að setja þennan magnaða árangur í samhengi má geta þess að afurðahæsta kúabú Íslands árið 2023, Stóra-Mörk í Rangárþingi eystra, var með 8.903 kg mjólkur á árskúna. Þess skal geta að það er líka stórgóður árangur miðað við að um er að ræða íslenska kúakynið.

7. Kjötframleiðsla

Í málstofunni um kjötframleiðslu voru flest erindin miðuð við danskar aðstæður en þar í landi er orðið mjög algengt að nota holdasæði á kýr sem ekki eru ætlaðar að standa á bak við ræktunarstarfið, enda mest notað kyngreint sæði sem tryggir vel hlutfall af kvígum sem koma til ásetnings. Aukinn fjöldi af blendings nautkálfum hefur gert það að verkum að í Danmörku eru margir kúabændur sem fyrst og fremst kaupa kálfa og ala til slátrunar. Nýtt átak, sem snýr að því að efla þessa tegund kúabúskapar, er að safna bændunum saman í faghópa. Þessir bændur hittast þá reglulega til þess að ráða ráðum sínum í samstarfi við ráðunauta. Þær Lene Agerskov dýralæknir, og Louise Boutrup Vestergaard, sem er bústjóri á kúabúinu Klink, ræddu einmitt þetta form við fræðslu og endurmenntun. Sögðu þær svona faghópa bænda einstaklega mikilvæga og gagnlega enda skiptast þar þátttakendur á reynslu sinni og deila helstu niðurstöðum.

6 faghópar

Síðasta haust voru settir á fót 6 faghópar kúabænda í kjötframleiðslu og fylgja þessir faghópar fyrir fram ákveðinni dagskrá í 24 mánuði, en dagskráin miðar fyrst og fremst að því að endurmennta þátttakendur í þeim tilgangi að auka hagkvæmni kúabúanna. Auk þess að fá eins konar námskeið, þá fara bændurnir í heimsókn hver til annars þar sem gestgjafinn sýnir aðstöðuna og fer yfir lykiltölur úr búrekstrinum og fá ráð eða gagnrýni gestanna eftir því sem við á. Þetta er gert undir leiðsögn ráðunauta og hefur margsýnt sig að gefa góða niðurstöðu enda svona kerfi verið í gangi fyrir þarlenda kúabændur í mjólkurframleiðslu í áratugi, en er s.s. nú í fyrsta skipti sérstaklega sett af stað fyrir bændur í kjötframleiðslu. Afar áhugavert framtak.

Fleiri málstofur og erindi voru á danska fagþinginu, sem ekki hafa komið hér til umfjöllunar í þessum pistlum eins og gefur að skilja enda mörg erindi sem eru fyrst og fremst miðuð við danskar aðstæður. Áhugasömum um efni fagþingsins má benda á að flest erindi ráðstefnunnar eru aðgengileg á vefslóðinni: https://www. kvaegkongres.dk/praesentationer/.

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...