Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Við enda fíkja er lítið gat þar sem smávaxnar vespur fara inn um og finna hentugan stað til að verpa eggjum.
Við enda fíkja er lítið gat þar sem smávaxnar vespur fara inn um og finna hentugan stað til að verpa eggjum.
Á faglegum nótum 6. október 2017

Fíkjur – kóngaspörð með blómafyllingu

Höfundur: Vilmundur Hansen

Búdda öðlaðist hugljómun undir fíkjutré. Adam og Eva notuðu lauf fíkjutrjáa sem klæðaskáp. Blóm fíkjutrjáa eru ósýnileg og frjóvgast inni í ummyndaðri grein af vespum sem nýskriðnar eru úr eggi.

Samkvæmt tölfræðideild Matvæla- og landbúnaðar­stofnunar Sameinuðu þjóðanna, FAOSTAD, var heimsframleiðsla á fíkjum árið 2015 um 1,14 milljón tonn og hefur framleiðslan verið stígandi undanfarinn áratug. Fíkjur eru ræktaðar á um 500 þúsund hekturum lands í heiminum og mest er ræktunin í löndunum við Miðjarðarhaf.

Fíkjur eru ræktaðar á um 500 þúsund hekturum lands í heiminum.

Tyrkland framleiðir allra þjóða mest af fíkjum, eða rúm 300 þúsund tonn á ári. Næst á eftir kemur Egyptaland með framleiðslu upp á tæp 180 þúsund tonn, í þriðja sæti er Alsír með tæp 130 þúsund tonn, Marokkó í því fjórða og framleiðir um 128 tonn. Í kjölfarið kom Íran, Sýrland, Spánn, Brasilía og Túnis sem framleiða frá 70 þúsund og niður í um 27 þúsund tonn á ári.

Tyrkland er stærsti útflytjandi á ferskum og þurrkuðum fíkjum í heiminum og var útflutningurinn árið 2014 til 2015 um 75 þúsund tonn. Önnur lönd sem flytja mikið út af fíkjum eru Bandaríkin Norður-Ameríka, Spánn, Sýrland og Grikkland auk þess sem, útflutningur á fíkjum frá Kína hefur aukist mikið síðustu ár. Stærstu innflytjendur fíkja eru Þýskaland, Frakkland, Ítalía og Bandaríkin Norður-Ameríka.

Árið 2016 voru flutt inn tæplega 71 tonn af fersku og þurrkuðum fíkjum til Íslands og fyrstu sjö mánuði ársins 2017 nemur innflutninginn rétt rúmum 10 tonnum. Mest er flutt inn af fíkju til Íslands frá Tyrklandi, Þýskalandi, Hollandi og Brasilíu.

Ætt og uppruni

Ættkvíslin Ficus er af mórberjaætt og telur hátt í 800 tegundir af trjám, runnum og klifurjurtum sem vaxa í hita- og tempraðabeltinu umhverfis Jörðina. Flestar tegundir í hitabeltinu eru sígrænar laufplöntur og dæmi um slíkar eru stofuplöntur eins og benjamífíkus F. benjamina, gúmmítré F.elastica, og fiðlufíkus F. lyrata.

Tegundir sem vaxa í tempraða beltinu eru yfirleitt lauffellandi. Þar á meðal er fíkjutré eða fíkjuviðartré, F. carica, sem ber ávöxt sem kallaður er fíkja.

Uppruni fíkjutrjáa er í Suðvestur-Asíu frá Afganistan til Grikklands. Í dag eru fíkjutré ræktuð í löndunum allt í kringum Miðjarðarhafið, Bandaríkjunum, Suður-Ameríku, Suður-Afríku, Asíu og Ástralíu.

Aldin án blóma

Að vera ósýnilegur eins og blóm fíkustrésins er orðatiltæki á Indlandi og Kínverjar kalla fíkjur aldin án blóma. Fíkjur myndast beint frá stofni fíkjutrjáa án þess að trén myndi sjáanleg blóm. Í raun eru fíkjur ekki aldin heldur ummynduð og hol grein og kjötmikið innihaldið er samsett úr hundruðum lítilla blóma sem við frjóvgun mynda hundruð fræja inni í belg eða fölsku aldini. Blómin vaxa í þéttum hnapp inni í belgnum og sjást ekki nema fíkjan sé opnuð. Þrátt fyrir þetta eru blómin frjóvguð með litlum vespum og það sem meira er þá frjóvgar sérstök vesputegund hverja einstaka tegund fíkusa.

Talið er að tekið hafi meira en 80 milljón ár að þróa einstaka samlífi fíkja og vespa og er lýsing á því næstum nóg ástæða til að höfundur þessarar greinar hættir að lesa vísindaskáldsögur.

Við enda fíkja er lítið gat þar sem smávaxnar vespur fara inn um, líkt og geitungar í bú, til að finna hentugan stað til að verpa eggjum. Blóm fíkja eru þrenns konar, löng eða stutt blóm með frævum og blóm með fræflum. Vespurnar geta einungis verpt í stutt blóm með frævum. Eftir að eggin klekjast út skríða ungvespurnar milli blómana og nærast á blómasafa og bera frjó milli þeirra á sama tíma áður en þær yfir gefa fíkjuna. Án vespnanna mynda fíkjurnar ekki frjó fræ. Deyi vespur inni í aldininu leysast þær upp og nýtast trénu sem næringarefni.

Þetta einstaka samlífi fíkja og vespa hefur þróast í meira en 80 milljón ár og er lýsing á því næstum nóg ástæða til að höfundur þessarar greinar hættir að lesa vísindaskáldsögur.

Fíkjutrjám til framleiðslu á fíkjum til neyslu í dag er nánast undantekningarlaust fjölgað með græðlingum, sem ræta sig auðveldlega. Vespur koma því ekki við sögu við myndun aldinanna og fræin yfirleitt ófrjó.

Fíkjutré og aldin

Fíkjutré F. carica eru lauffellandi tré eða runnar 3 til 10 metrar að hæð og með öfluga trefjarót sem leitar djúpt eftir vatni. Börkurinn er sléttur og gráleitur. Laufið fingrað og stakstætt, 12 til 25 sentímetrar langt, 10 til 18 breitt og með þremur til fimm stórum flipum. Ávöxturinn hnöttóttur eða tárlaga og samsettur úr mörgum blómum innan í hjúp, 3 til 5 sentímetrar á lengd, grænt til að byrja en bleikt eða dökkt við þroska. Aldinkjötið er ljósrautt og með mörgum litlum blómum og fræjum. Tréð gefur frá sér grænan safa eða kvoðu sem getur getur valdið útbrotum á húð.

Fíkjur eru ekki aldin heldur ummynduð og hol grein og kjötmikið innihaldið samsett úr hundruðum lítilla blóma sem við frjóvgun mynda hundruð fræja inni í fölsku aldini.

Yrki, ræktunarafbrigði og staðbrigði af fíkjum skipta þúsundum og hafa orðið til í gegnum aldir vegna fólksflutninga og aðlögunar.

Algengustu fíkjur á markaði kallast 'Black Mission' sem koma frá Baleareyjum út af ströndum Spánar í Miðjarðarhafi. Fransikumunkar fluttu yrkið vestur um haf til Mexíkó á sautjándu öld þar sem það dafnaði vel og breiddist út um heiminn. 'Black Mission' fíkjur eru fremur smáar, safaríkar og með bleikt hold. Yrkið 'Brown Turkey' sem einnig nýtur mikilla vinsælda gefur af sér fremur stórar fíkjur og er upphaflega frá Ítalíu en er ræktað víða um heim í dag. 'Calimyrna' er frá Tyrklandi og er stór, safarík fíkja með hunangskeim. Þau þykja góð grilluð. Yrkið 'Sierra' kom á markað árið 2006 og líkis 'Calimyrna' og gefur af sér stórar hnöttóttar fíkjur með græna húð. 'King' er kuldaþolið yrki og getur lifað af frostavetur. Aldinið er grænt, tárlaga og aldinkjötið er bleik. 'Kadota' er þúsund ára gamalt ræktunaryrki sem rómverski sagnaritarinn Pliny gamli minnist á í einu rit og kallar Dottatto. Að utan er aldinið gullgrænt og þykir kjötið silkimjúkt við átu.

Auk þess að vera ólík að stærð, lögun og lit eru ólík yrki af fíkjum ólík á bragðið og til eru fíkjur sem líkjast hindberjum, hlynsýrópi, karamellu og hnetum á bragðið.

Samkvæmt Heimsmetabók Guinness vó stærsta fíkja sem vitað er um 295 grömm og var ræktuð í Sussex á Bretlandseyjum árið 2015 og kallaðist yrkið 'Brown Turkey'.

Yrki, ræktunarafbrigði og staðbrigði af fíkjum skipta þúsundum og hafa orðið til á þúsundum ára vegna fólksflutninga og aðlögunar. 

Kjörlendi

Fíkjutré þrífast best í þurru loftslagi og í mikilli sól. Þau kjósa djúpan, grýttan og þurran jarðveg og geta vaxið frá fjöru og upp í 1700 metra yfir sjávarmáli.

Nafnafræði

Íslenska heitið fíkja svipar til heitisins fikon á sænsku og fig á ensku sem er dregið af latneska heitinu ficus en á grísku nefnast þær sykon. Fíkjur eru stundum kallaðar kóngaspörð á íslensku og gráfíkjur séu þær þurrkaðar.

Fíkjur sem fæða

Fíkjur hafa um aldir alda verið hluti af fæðu manna á upprunasvæðum fíkjutrjáa. Þær eru með elstu ræktunarplöntum mannsins og talið er að ræktun þeirra nái að minnsta kosti níu aldir aftur í tímann.

Fornleifarannsóknir í dalnum Jórdan, sem liggur frá Sýrlandi og niður að Rauðahafinu, og skammt frá hinni fornu borg Jeríkó  hafa fundist leifar af ræktuðum fíkjum sem taldar eru vera milli 9.400 og 9.200 ára gamlar.

Fíkja má neyta ferskra, þurrkaðra og sultaðra. Ferskar fíkjur geymast stutt og því eru þurrkaðar fíkjur algengastar á markaði. Þurrkaðar fíkjur eru ríkar af trefjum, kalsíumi, járni, fosfór og andoxunarefnum og í Mið-Asíu þykja þær góðar gegn alls kyns hjartasjúkdómum.

Grikkir og Rómverjar til forna átu fíkjur með bestu lyst og þóttu þær allt í senn góðar til að bæta ástarlífið, losandi við harðlífi og líknandi við þvagsýrugigt. 

Cato gamli nefnir nokkur yrki af fíkjum í riti sínu De Agri Cultura.

Úr fíkjum er bruggaður bjór. Í Túnis er framleitt fíkjubrandý sem kallast búka og í Tyrklandi er hægt að fá rakí úr fíkjum. Auk þess sem á boðstólum eru fíkjubragðbættir líkjörar, arak og vodka.

Greinarnar fíkjutrjáa má brenna sem reykelsi.

Apar eiga það til að éta mikið af fíkjum á tímabilum og er talið að þeir geri það í lækningaskyni þar sem fíkjur innihalda bakteríudrepandi efni.

Klæðaskápur Evu

Í fyrstu Mósebók 3:7 Biblíunnar segir um Adam og Evu eftir að þau neyttu ávaxta skilningstrésins, sem líklega voru fíkjur en ekki epli. „Þá lukust upp augu þeirra beggja, og þau urðu þess vör, að þau voru nakin, og þau festu saman fíkjuviðarblöð og gjörðu sér mittisskýlur.“

Brottvikning Adam og Evu úr Paradís með og án fíkjublaða. 

Eftir að siðsemi og tepruskapur kristni náði að bægja burt siðleysi og strípihneigð Grikkja og Rómverja í daglegu lífi og listum var fíkjublað iðulega notað til að skýla nekt í myndlist. Adam og Eva eru máluð með fíkjublaði í stað kynfæra og í stað tittlinga hafa höggmyndir af karlmönnum fíkjublað milli fótanna.

Árið 1541 koma fram hugmyndir um nauðsyn þess að hylja getnaðarlim höggmyndar Michelangelos af Davíð, hinum örvhenta, með fíkjublaði. Af siðferðisástæðum er slíkt hið sama talið brýnt nokkrum áratugum síðar til að hylja nekt veggmyndar hans af dómsdegi í Sistínsku kapellunni í Vatíkaninu.

Páfarnir Páll fjórði, Innosentus tíundi og fleiri á sextándu og sautjándu öld gengu reyndar lengra og létu sér ekki nægja fíkjublað til að hylja nektina heldu létu meitla karlmannsstoltið af fjölda höggmynda.

Ficus religiosa

Sagt er að Búdda hafi öðlast hugljómun eftir að hafa fastað í fjörutíu daga undir fíkjutré.

Ýmiss konar mismunandi fíkju­tegundir njóta helgi í ólíkum trúarbrögðum heimsins og trén koma fyrir í goðsögnum allra stóru trúarbragðanna. Ein tegund er svo tengd trúarbrögðum að hún kallast F. religiosa eða helgifíkus.

Samkvæmt sköpunarsögu frumbyggja í Indónesíu tálguðu guðirnir fyrstu mannverurnar, mann og konu, úr rót fíkjutrés af ógreindri tegund og Masaíar í Afríku segja að rót fíkjutrés hafi verið notuð til að flytja fyrstu nautgripina frá himnum til jarðar.

Egyptar til forna töldu að Hador gyðja, himinsins, ástarinnar, gleðinnar, tónlistarinnar, frjóseminnar og verðandi mæðra, hafi stigið fullsköpuð úr fíkjutré og að fíkjur séu uppáhalds fæða guða. Mikið af fíkjum hafa fundist í egypskum grafhýsum sem líklega voru ætlaðar sem nesti eða snakk fyrir hina látnu. Í Egyptalandi þjálfuðu bændur litla apa til að tína fíkjur af trjánum og auðvelduðu sér þannig uppskeruna.

Grikkir sögðu fíkjur gjöf gyðjunnar Demetis til manna og tengdu þær einnig guðinum Apolló. Rómverjar tengdu fíkjur lukku og lífsláni og helguðu þær guðunum Satúnusi og Mars og gyðjunni Venus.

Tvíburarnir, Romulus og Remus, sem eiga að hafa stofnað Rómaborg eru sagðir hafa fundist undir fíkjutré í umsjón úlfynju.

Fylgjendur frjósemis- og gleðiguðsins Bakkusar eða Díónisíusar höfðu mikið dálæti á fíkjum og sagt er að þær hafi verið nátengdar svallveislum helguðum honum. Enda fíkjur sem búið er að skera í tvennt stundum líkt við persónulegasta hluta kvenlíkamans. Fíkjur voru eins konar Viagra síns tíma og í Ljóðaljóð Biblíunnar, sem eignuð eru Salómoni konungi, segir: „Ávextir fíkjutrésins eru þegar farnir að þroskast, og ilminn leggur af blómstrandi vínviðnum. Stattu upp, vina mín, fríða mín, æ kom þú.“

Samkvæmt Tóra, helgibók gyðinga, var fíkjan fyrsta fæða mannkynsins. Fíkjur koma oft fram í Kóraninum og flestir kannast við missögnina um að hvers múslímskur karlmaður sem deyr píslavættisdauða í nafni trúar sinnar bíði sjötíu hreinar meyjar í paradís. Hér er um misskilning að ræða og það rétta er að hans bíða sjötíu fíkjur.

Fíkjur eru oft nefndar í Biblíunni og tákna lýð Guðs og á kraftaverkatímum bera trén ávöxt í hverjum mánuði. Í Matteusarguðspjall 7:15 segir að menn eigi að gæta sín á falsspámönnum: „Af ávöxtum þeirra skuluð þér þekkja þá. Hvort lesa menn vínber af þyrnum eða fíkjur af þistlum?“

Í Markúsarguðspjalli 11:12-14 segir um Jesús þegar svengd var að pirra hann: „Á leiðinni frá Betaníu morguninn eftir kenndi Jesús hungurs. Þá sá hann álengdar laufgað fíkjutré og fór að gá hvort hann fyndi nokkuð á því. En þegar hann kom að því fann hann ekkert nema blöð enda var ekki fíkjutíð. Jesús sagði þá við tréð: „Enginn neyti framar ávaxtar af þér að eilífu.“

Sagt er að Búdda hafi öðlast hugljómun eftir að hafa fastað í fjörutíu daga undir fíkjutré. Samkvæmt hindúisma fæddist guðinn Visnú undir fíkjutré.

Í Þúsund og einni nótt segir: „Það er ekki allt hnot, sem er hnöttótt og ekki allt langt, sem er fíkja.“ og í gríska gamanleiknum Lýsiströtu frá því á fjórðu fyrir Krist segir frá fullorðinsvíxlu ungrar konu sem ber hálsfesti úr gráfíkjum.

Fylgjendur frjósemis- og gleðiguðsins Bakkusar eða Díónisíusar höfðu mikið dálæti á fíkjum og sagt er að þær hafi verið nátengdar svallveislum helgaðar honum.

Fíkjur í Slæpingjalandi

Í Nýju félagsriti frá 1843 er minnst á fíkjur í varningsskrá um innflutning sem unnin er af Herra kaupmanni Hemmerts. Eins og búast má við er ekki um mikið magn að ræða enda á þeim tíma um fáséðan ávöxt að ræða bæði hér og í Danmörku, þaðan sem mest af nýlenduvöru var flutt inn.

Í Almanaki fyrir hvern mann frá 1884 er að finna smásögu sem kallast Slæpingjaland. Þar í landi fljúga steiktir fuglar um loftin og beint í munninn. Þegar rignir í því gæðalandi þá „rignir þar eintómu hunangi í sætum dropum, sem ánægja er að sleikja, og þegar að snjóar, þá snjóar hvítasykri, og þegar heglir, þá heglir ekki öðru en sykurkúlum og brjóstsykrinum ljúfa saman við fíkjur, rúsínur og möndlur.“+

Á íslensku kallast þurrkaðar fíkjur gráfíkjur

Þrátt fyrir að ekki fari mikið fyrir fíkjum í ræktun hér á landi minnist ég þess að þær uxu í Bananahúsi Garðyrkjuskólans á Reykjum í eina tíð. Auk þess sem má rækta harðgerðar fíkjutegundir í gróðurskálum og líklega einnig í köldum gróðurhúsum hér á landi.

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...