Frá Evrópusambandshópi lífrænna landbúnaðarhreyfinga
Fyrir réttu ári var greint frá því hér í blaðinu að Evrópusambandið hafði þá skömmu áður lagt fram drög að nýjum reglum um lífrænan landbúnað án samráðs við IFOAM, hin alþjóðlegu samtök lífrænna landbúnaðarhreyfinga.
Allar götur síðan hefur Evrópusambandshópur lífrænna landbúnaðarhreyfinga (IFOAM EU Group) unnið ötullega að þessum málum því að óbreyttar myndu nýju reglurnar torvelda aðlögun að lífrænum landbúnaði og draga úr svigrúmi til sveigjanleika. Á sama tíma er stefnumótun ofarlega á baugi.
Tekist á um reglugerðardrögin
Skemmst er frá að segja að starfsfólk skrifstofu Evrópusambandshópsins í Brussel hefur unnið mikið starf síðan í fyrravor við að gera athugasemdir við og leggja fram tillögur um margvíslegar breytingar á reglugerðartextanum. Hópurinn, undir stjórn framkvæmdastjórans, Marco Schlueter frá Þýskalandi, og stjórnarformannsins, Christopher Stopes frá Bretlandi, hefur lagt áherslu á að mun vænlegri leið sé að endurskoða og breyta núgildandi reglugerðum frá 2007 og 2008 en að vinna á grundvelli hins nýja texta sem ESB lagði fram í fyrra án samráðs við lífrænu hreyfinguna.
Allir fulltrúar ESB-þjóðanna, auk fulltrúa Noregs og Íslands frá Evrópska efnahagssvæðinu, svo og frá Sviss, standa þétt saman enda er ljóst að nýju reglugerðardrögin frá ESB torvelda aðlögun að lífrænum landbúnaði sem er í andstöðu við stefnu ESB, þótt merkilegt megi virðast. Þar er stefnt að eflingu lífrænna búskaparhátta sem hafa hlotið verðskuldaða viðurkenningu enda fer eftirspurnin eftir lífrænt vottuðum matvælum o.fl. slíkum vörum ört vaxandi.
Eftirlitskerfin í ESB eru ekki að virka sem skyldi eins og oft hefur verið bent á hér í blaðinu. Hafa m.a. komið upp fáein stór svikamál í lífræna geiranum sem að mestu tengjast vottun og markaðssetningu fremur en frumframleiðslu.
Stóra svikamálið á Ítalíu ber þar hæst en það tengdist flutningi matvæla fá Moldavíu, sem er ekki í ESB, og ólöglegra vinnubragða vottunarstofu á Ítalíu, en það aðildarland ESB leggur mikla áherslu á eflingu lífræns landbúnaðar.
Það var ljóst í fyrra þegar hin nýja reglugerð ESB var lögð fram að embættismenn þar á bæ voru undir miklum áhrifum frá slíkum svikamálum. Töldu þeir sig vera að gæta hagsmuna neytenda. Lítið bendir þó til þess að texti ESB tryggi það, jafnvel þvert á móti, því að m.a. er gert ráð fyrir eftirliti byggðu á áhættumati fremur en reglubundnum árlegum eftirlitsheimsóknum frá vottunarstofu á býli og í vinnslustöðvar.
Þótt mikið sé fundað er framgangur þessa máls hægur en þó er von til þess að Evrópusambandshópurinn geti haft áhrif á reglugerðarvinnuna því að samstaðan í hópnum er frábær og leggur Íslandsdeildin sitt af mörkum við álitsgjöf og atkvæðagreiðslur eftir því sem þörf krefur. Dæmi um slíkt er álit hópsins á notkun kyngreinds sæðis þar sem mælt er með því að notkun þess verði heimil á lífrænum búum.
Mikil andstaða gegn notkun og dreifingu erfðabreyttra lífvera í evrópskum landbúnað
Allt frá því að farið var að ræða um nýtingu erfðabreyttra lífvera (GMOs ) í landbúnaði hefur lífræna hreyfingin verið í fararbroddi ásamt Slow Food og fleiri alþjóðasamtökum í allri umfjöllun um þau mál. Auk þess að vinna mikið við þróun þeirra reglugerða ESB sem varða lífrænan landbúnað er hópurinn í Brussel með sérstaka deild sem fjallar um margvísleg stefnumál (policy). Þar ber hátt gagnrýni á og andstaða gegn notkun og dreifingu erfðabreyttra lífvera sem er algerlega bönnuð við framleiðslu og vinnslu lífrænna afurða. Ekki hefur heldur dregið úr andstöðu neytenda í Evrópu gegn vörum með erfðabreyttu efni en þær eiga að vera sérmerktar.
Ég tel bagalegt að Bændasamtök Íslands skuli ekki hafa tekið afstöðu til notkunar erfðabreyttra lífvera þótt Búnaðarþing 2013 hafi ályktað um að slíkt skyldi gert, m.a. vegna hreinleikaímyndar Íslands. Ísland gæti orðið fyrsta landið í heiminum með alhliða bann gegn ræktun erfðabreyttra nytjajurta í akurlendi, þ.e. utan lokaðra rýma. Á stórum landsvæðum í Evrópu er búið að koma á þeirri skipan að innan þeirra er óheimilt að stunda erfðabreytta ræktun. Hér á landi gildir slíkt aðeins á landareignum lífrænna býla.
Starfandi eru stór samtök sem vinna markvisst að fjölgun og stækkun þessara frísvæða, jafnvel heilla landa. Samtök þessi, „GMO Free Regions in Europe“ halda m.a. ráðstefnu um þau efni í vor (www.gmo-free-regions.org). Evrópusambandshópurinn styður markmið þessara samtaka og veitir aðhald og tekur virkan þátt í umfjöllun um þessi mál hjá ESB en þau eru ofarlega á dagskrá um þessar mundir.
Líftæknifyrirtækin halda uppi stöðugum áróðri og þrýstingi en reynslan hefur sýnt að erfðabreytt ræktun er hvorki bændum né neytendum til hagsbóta.
Gróska í markmiðssetningu og áætlanagerð
Evrópusambandshópurinn hefur allt frá stofnun um aldamótin stuðlað að stefnumótun og samningu aðgerðaáætlana, bæði fyrir Evrópu í heild og fyrir einstök lönd.
Nú er verið að safna hugmyndum um framtíðarsýn, allt til 2030 (Vision 2030) en þar er gert ráð fyrir að lífrænn landbúnaður færist úr jaðarstarfsemi yfir í stórfellda framleiðslu að kröfum búvörumarkaðarins. Þessi þróun verði m.a. tengd atvinnusköpun og viðhaldi fjölskyldubúskapar í sveitunum. Þau lönd sem skemmst eru komin í þessari þróun eru, líkt og Ísland, með aðeins um 1% af búvöruframleiðslunni lífrænt vottaða. Mest eru þetta um 15% í Austurríki en af Norðurlöndunum eru Danmörk og Svíþjóð lengst komin á þessari braut. Víðast hvar í Evrópulöndum hafa verið sett markmið, t.d. að stefna að 20% fyrir 2020 sem virðist raunhæft í nokkrum þeirra. Hér á landi var sett það opinbera markmið 2011 í skýrslunni um „Græna hagkerfið“ að stefna að 15% fyrir árið 2020. Að frumkvæði Jóns Bjarnasonar, þáv. ráðherra landbúnaðarmála, var komið á markvissu og vönduðu aðlögunarstuðningskerfi að norskri fyrirmynd skömmu áður en honum var vikið úr embætti, illu heilli, því að Jón hafði sérlega góðan skilning á þessum málum. Gerður var samningur um aðlögunarstuðning við nokkra bændur til fimm ára. Fyrsta árið fengu þeir um 60% af því sem þeim bar að fá, skv. verklagsreglum og samningi við Bændasamtök Íslands, en hin fjögur árin nema greiðslurnar aðeins um 30%. Sem sagt, algjörlega óviðunandi, og það sem verra er, að ekki verður betur séð en núverandi ríkisstjórn sé búin að jarða stefnumiðin sem fram komu í „Græna hagkerfinu“ fyrir fjórum árum. Hér vantar því haldbæra stefnumótun og opinbert fjármagn til að stuðla að aðlögun. Á sama tíma eykst innflutningur lífrænt vottaðra búvara stöðugt. Spurningin er hvort ekki eigi að gefa íslenskum landbúnaði svigrúm til að efla lífrænan búskap með svipuðum hætti og nú er að gerast víða í Evrópu. Evrópusambandsaðild mundi ekki skipta sköpum í þessu sambandi ef ríkisstjórn Íslands á hverjum tíma leggur ekki sitt af mörkum.
Danir góð fyrirmynd við stefnumótun
Tökum frændur okkar Dani til fyrirmyndar sem hafa unnið markvisst að eflingu lífræns landbúnaðar um a.m.k. 30 ára skeið. Þar hefur verið unnið samkvæmt opinberri aðgerðaáætlun um langt árabil og nú í ársbyrjun 2015 lágu fyrir drög að nýrri áætlun sem er til mikillar fyrirmyndar, undirrituð af Dan Jörgensen, ráðherra matvæla, landbúnaðar og fiskveiða í ríkisstjórn Danmerkur. Henni fylgja fyrirheit um stuðning í mörgum liðum, samkvæmt. fjárlögum, svo sem til aðlögunar á bújörðum, til markaðsmála og útflutnings, til neytendafræðslu og til rannsókna, leiðbeininga og kennslu í menntastofnunum landbúnaðarins.
Nú eru lífrænt vottuð matvæli með um 8% hlutdeild á innanlandsmarkaði í Danmörku en stefnt er að 16% fyrir árið 2020, þ.e. eftir aðeins fimm ár. Síðan 2007 hefur útflutningur lífrænt vottaðra danskra búvara aukist um 200%, og því er greinilega sótt á þessi mið af fullum krafti í samræmi við viðleitni til sjálfbærari búskaparhátta og óskir neytenda (sjá „Organic Action Plan for Denmark“, www.fvm.dk).