Framtíðin býr í fræjunum
„Þó að fræ sé ein minnsta eining af lífi, þá inniheldur það ansi flókinn heim sem einkennist ekki bara af rómantík heldur líka hugsjón og átökum á milli hópa sem varðar framtíð mannskyns,“ segir Vilborg Bjarkadóttir, meistaranemi í þjóðfræði, sem rannsakar plöntusöfn, fræbanka og sjálfstætt starfandi ræktendur sem rækta gömul yrki.
„Þar sem ég er þjóðfræðingur er verkefnið út frá menningarlegum forsendum frekar en líffræðilegum. Þannig að ég leitast fyrst og fremst við að skoða hvers konar menning er í kringum plöntur og þá sérlega hvað varðar verndun og fjölbreytileika plantna á Íslandi. Það er skemmtilegt að sjá hvað það eru margar leiðir til að vernda plöntur. Ég hef sjálf sett þessa verndun í þrjá flokka og hef greint þá svona: þurrkuð plöntusöfn eru einhvers konar fortíð plöntunnar, lifandi plöntusöfn eins og grasagarðar eru plantan hér og nú og svo fræbankar einhvers konar framtíð plöntunnar,“ segir Vilborg.
Eftirminnileg ferð
Rannsókn hennar, sem er styrkt af Nýsköpunarsjóði námsmanna, byggist að stórum hluta á viðtölum en Vilborg ræddi við nokkra ræktendur og garðyrkjufræðinga sem gerði rannsóknarferlið einkar eftirminnilegt að hennar sögn.
„Mér fannst einna skemmtilegast í sumar þegar ég hitti garðyrkjufræðinginn Hafstein Hafliðason því mér hafði margsinnis verið sagt að hann væri svona eins og minni Garðyrkjufélags Íslands. Ég hringdi í hann og spurði hvort hann vissi um einhver íslensk yrki sem höfðu varðveist á milli kynslóða. Hann sagði mér frá bóndanum Lárusi Helgasyni á Kálfafelli og að hann ræktaði Kálfafellsrófuna, sem hafði verið í fjölskyldunni hans í meira en hundrað ár.
Mér fannst ég hafa dottið í lukkupottinn að heyra um þetta. Hafsteinn var svo vinalegur að bjóðast til þess að taka á móti mér á Selfossi þegar ég kæmi úr strætó og keyra mig svo á Kirkjubæjarklaustur til að hitta Lárus, til að taka við hann viðtal um Kálfafellsrófuna. Ferðin var eins og í skáldsögu, því mér finnst eins og það sé ekki á hverjum degi sem tvær manneskjur fara að hitta bónda á Kirkjubæjarklaustri til að ræða um rófu. Það var líka heppilegt að Hafsteinn, sem ég var með í átta klukkustundir í bíl, reyndist bráðskemmtilegur maður sem nýtir tímann svo vel að hann greinir plöntur í vegköntum á meðan hann keyrir.“
Vilborg fór eftirminnilega ferð með Hafsteini Hafliðasyni austur að Kálfafelli að hitta Lárus Helgason, sem ræktar ættaryrkið Kálfafellsrófuna. „Ferðin var eins og í skáldsögu, því mér finnst eins og það sé ekki á hverjum degi sem tvær manneskjur fara að hitta bónda á Kirkjubæjarklaustri til að ræða um rófu,“ segir Vilborg sem stóðst ekki mátið og smellti af þeim mynd.
Gildi fræbanka
Markmið verkefnisins er margþætt að sögn Vilborgar. Í fyrsta lagi leitast hún eftir að fá yfirsýn yfir það sem hefur verið skráð og skrifað um plöntusafnanir og fræbanka á Íslandi. Í öðru lagi gerir hún samtímagreiningu með viðtölum. Þá skoðar hún einnig samband íslenskra stofnana við aðra grasagarða og fræbanka úti í heimi.
„Til dæmis geymir Grasagarðurinn í Reykjavík mjög fágætar plöntur sem eru mikilvægar fyrir heiminn og er í alþjóðlegum samskiptum við aðra fræbanka. Því hann, eins og flest plöntusöfn, er hluti af alþýðlegum stofnunum sem gefa út árlega frælista til annarra grasagarða til þess að þeir geti stundað fræskipti. Jafnvel þegar það er stríð í löndum er fólk að skiptast á fræjum og hjálpast þannig þvert yfir landamæri að vernda plöntur.
Vilborg telur rannsóknina geta vakið athygli á því að fjölbreytileiki plantna og verndun er stórt mál í samtímanum.
En það eru ekki þó ekki bara stofnanir sem viðhalda fjölbreytileika plantna því það er líka heilmikið um að einstaklingar tíni fræ og gera það jafnvel undir formerkjum einhverra félaga, eins og fræbanki Garðyrkjufélags Íslands, sem er heilmikið batterí. Ég fékk að skyggnast inn í þennan dularfulla, forvitnilega heim í gegnum fræmeistarann og líffræðinginn Barböru Stanzeit í sumar, en hún hefur yfirsjón með bankanum ásamt sérskipaðri frænefnd, sem hefur það hlutverk að taka á móti fræjunum, flokka þau og deila þeim. Árlega er svo gefin út frælisti yfir það sem safnað hefur verið. Þá geta félagsmenn keypt fræin sem eru á listanum á kostnaðarverði. Þessi starfsemi viðheldur meðvitund fólks um plöntur og ýtir ekki síst undir fjölbreytileika í einkagörðum ásamt því auðvitað að tengja saman félagsmenn,“ segir Vilborg.
Merking fræja býr í sögu þeirra
Hluti af rannsókninni var að ræða við fólk sem safnar svokölluðum heirloom fræjum. Heirloom fræ eru fræ sem ganga á milli kynslóða, einhvers konar ættargripir í formi fræja. „Oft er skilningur fólks á ættargripum að þeir þurfi að vera í formi dauðra hluta. En það sem flyst á milli kynslóða, hvort sem það er leirpottur, fjölskyldusiðir, orðnotkun innan fjölskyldu, eða fræ er í raun ættargripur. Þannig má sjá fræ sem ættargrip, enda er gjarnan litið á fræ sem tákn fyrir framtíðina,“ segir Vilborg.
Fræbankar viðhalda fjölbreytileika plantna. Félagsmenn Garðyrkjufélags Íslands halda uppi stærsta fræbanka landsins. „Þessi starfsemi viðheldur meðvitund fólks um plöntur og ýtir ekki síst undir fjölbreytileika í einkagörðum ásamt því auðvitað að tengja saman félagsmenn,“ segir Vilborg. Myndir/VB
Hún segir fólk, sem safnar heirloom fræjum, vera mikið hugsjónafólk sem er drifið áfram af ástríðu.
„Það er ekki bara að vernda fræin ein og sér, heldur viðhalda þau þekkingunni um viðkomandi fræ í samfélaginu og hjálpa þannig ákveðnum yrkjum að vera hluti af menningunni sem við lifum í. Merking fræja liggur vissulega ekki bara í fræinu sjálfu, heldur líka sögunni sem það hefur að geyma. Eitt fræ getur sagt mikla sögu ef við rýnum í það. Nafngift á ákveðnu yrki getur til dæmis sagt heila ættarsögu. Þá geta yrki sagt þjáningarsögu sem fólst í að vernda fræin, eins og var tilfellið í Rússlandi, í Leningrad, þegar hungursneyð stóð yfir í seinni heimsstyrjöldinni. Þá dóu fræðimenn frekar á skrifborðinu á rannsóknarstofu fræbankans í Leningrad heldur en að borða úr safni sínu, því þeim fannst framtíðin búa í fræjunum, en ekki í einstaka mannslífi,“ segir Vilborg.
Hugsjónafólk sem berst fyrir breytingum
Þá segir hún heirloom fræsafnara afar meðvitaða um stöðu fræja í samtímanum og berjist fyrir tilveru þeirra.
„Þetta er hópur sem blöskrar harðskeyttur framgangur einkafyrirtækja sem hafa lengi gengið ansi hart fram til að öðlast eignarrétt yfir fræjum, jafnvel þeim sem hafa verið í alþýðueign svo árhundruðum skiptir. Fólk sem safnar heirloom fræjum, er í baráttu við þessa þróun og vill sporna við því að fræ fari alfarið í eigu einkafyrirtækja. Þau vilja að fræ haldi áfram að vera í eigu almennings. Þessi þróun er einnig hluti af því að við getum ekki farið út í búð án þess að kaupa fræ sem eru í eigu einhvers fyrirtækis. Ástæðan fyrir þessu er að söluaðilarnir vilja að einhver ábyrgist fræin sem við kaupum og þannig baktryggt sig ef eitthvað er að fræjunum sem þeir selja. Þannig hefur markaðurinn stuðlað að því að fræ séu ávallt í eigu fyrirtækja,“ segir Vilborg.
Tómas Ponzi í Brennholti breytti viðhorfi Vilborgar til tómata. „Ég skammaði hann í góðlátlegu gríni um daginn fyrir að hafa eyðilagt hina tómatana fyrir mér.“
„Heirloom-hópurinn gagnrýnir einnig einsleitni á matarmarkaði, að maturinn sem við borðum sýni ekki fjölbreytileika heldur fábreytt úrval. Þau vilja breytingu á heiminum og horfa til framtíðar í von um að vernda hag alþýðunnar með því að viðhalda yrkjum með fræskiptum sín á milli, sem eru stunduð á milli heimshluta, oft í formi bréfa. Tómataræktandinn Tómas Ponzi í Brennholti, sem notar heirloom fræ, sýndi mér til að mynda jólakort þar sem fræjum í poka hafði verið komið fyrir. Þetta er fallegasta jólakort sem ég hef séð, því hvað er fallegra en að óska einhverjum gleðilegs nýs árs og veita honum svo framtíð með fræjum?“
Bragðlausir tómatar og kartaflan sem móðir
Vilborg segir að samtöl sín við ástríðufulla fræsafnara hafi breytt viðhorfi hennar til frambúðar.
„Það er aðdáunarvert að hitta fólk sem brennur fyrir eitthvað. Samræðurnar verða svo lifandi, fullar af orku, drifkrafti og ást. Það er líka svo gaman að tala við fólk sem er umkringt því sem það elskar. Það er eitthvað sérstakt við að hlusta á fólk sem getur látið plöntur verða meira á lífi fyrir manni en áður.
Það var til dæmis einstakt að sjá hvernig tómatur umbreyttist í höfðinu á mér á nokkrum klukkutímum við að tala við Tómas Ponzi. Ég skammaði hann í góðlátlegu gríni um daginn fyrir að hafa eyðilagt hina tómatana fyrir mér. Því í hvert skipti sem ég kaupi mér tómata úti í búð núna, neyðist ég til þess að bragðbæta bragðlausa tómatana með salti, sósu og óskhyggju um að þeir smakkist betur en þeir gera.“
Það sama hafi verið upp á teningnum þegar hún hitti Dagnýju Hermannsdóttur kartöfluræktanda í sumarbústað á ræktunarlandi sínu að Laugarvatni. „Það var magnað hvernig hún breytti kartöflu í flókna móður fyrir mér, sem gæti verið jafnvel fjólublá. Það er eitthvað sérstakt þegar heill heimur getur opnast fyrir manni bara með að tala um hversdagslega hluti eins og kartöflur, og maður fattar að þótt þær séu í kringum mann daglega þekkir maður þær vandræðalega lítið.“
Merking fræja liggur vissulega ekki bara í fræinu sjálfu, heldur líka sögunni sem það hefur að geyma.
Almenningur aftengdur grunnþörfum
Vilborg vill með rannsókn sinni vekja athygli á mikilvægi verndunar fræja og plantna.
„Við stöndum nefnilega frammi fyrir því á okkar tímum að fjöldi gamalla plöntutegunda er að tapast. Ég tel að svona rannsókn geti vissulega vakið athygli á því að fjölbreytileiki plantna og verndun er stórt mál í samtímanum. Það þurfa að verða miklar viðhorfsbreytingar hjá stjórnmálamönnum, fyrirtækjum og meðal almennings hvað snertir fjölbreytileika platna og verndun þeirra.“
Þá geti verkefnið vakið okkur til umhugsunar um hvar við erum stödd gagnvart matarræktun.
„Það er eitthvað skrýtið við það hversu mikið við erum búin að starfsvæða okkar eigin grunnþarfir. Við látum bara ákveðinn hóp fólks í samfélaginu um það að búa til matinn okkar en erum svo flest algjörlega alveg aftengd. Þetta mætti að sumu leyti líkja við það að við myndum láta lækna eingöngu sjá um að fjölga okkur, en hefðum svo gleymt getunni og áhuganum til að stunda kynlíf. Þannig það hlýtur að myndast ákveðið rof við að verða aftengdur eigin uppruna og eigin grunnþörfum, það er ekki nóg að rækta nokkrar basilikur í glugga og finnast maður sjálfbær. Þvert á móti þarf að eiga sér stað stórtæk breyting í samfélagi okkar þegar það kemur að ræktun,“ segir Vilborg Bjarkadóttir.
Hún mun kynna niðurstöður rannsóknar sinnar á Þjóðarspeglinum, ráðstefnu um félagsvísindi í Háskóla Íslands, í október.
Fræmeistarinn og líffræðingurinn Barböru Stanzeit kynnti Vilborgu fyrir fræsöfnun og fræbanka GÍ í sumar, en hún hefur yfirsjón yfir bankanum ásamt sérskipaðri frænefnd, sem hefur það hlutverk að taka á móti fræjunum, flokka þau og deila þeim.