Haustblómin huggulegu
Nú gengur í garð sá tími að sumarblómin fara að syngja sitt síðasta og blómakerin og sumarblómabeðin hafa skilað sínu sumarhlutverki til fulls. Í stað þess að horfa upp á eyðimörk í beðum og pottum fram á vetur er tilvalið að skella fallegum haustblómum í moldina í staðinn.
Ýmsar tegundir sumarblóma standa reyndar lengi fram eftir haustinu og hafa fyrirhyggjusamir garðeigendur einmitt plantað þessum tegundum á sérvalda staði. Í þessum hópi eru morgunfrú, ljónsmunni, skrautkál, sólboði, möggubrá og silfurkambur, svo eitthvað sé nefnt, en þessar tegundir geta staðið bísperrtar og fallegar vel og lengi þrátt fyrir að kólni í veðri. Löng hefð er fyrir því að krydda hauströkkrið með fallegum lyngplöntum eins og beitilyngi og erikum, enda standa þær í fullum blóma þessa dagana og næstu vikur.
Mikið úrval er af þessum plöntum í garðyrkjuverslunum og er hægt að nota þær hvort heldur sem er í ker og potta eða skella þeim niður í blómabeðin í garðinum. Einnig er um að gera að horfa til fjölærra plantna eins og steinahnoðra, sumarhnoðra, jónsmessuhnoðra og annarra síðblómstrandi fjölæringa sem eru að hefja sitt blómgunartímabil síðla sumars. Þessar fjölæru blómplöntur eiga fullt erindi í potta og ker, ekki síður en í blómabeðin og má alltaf skella þeim svo í blómabeðin þegar kemur að því að endurnýja blómahafið í kerjunum.
Sígrænar plöntur koma líka mjög sterkt inn á haustin því þær framlengja sumarið, hjálpa okkur við andlega tilfærslu frá sumri til vetrar og lífga upp á umhverfið eftir því sem aðrar plöntur fella blöðin og koma sér í vetrardvalann. Margir garðeigendur heimsækja garðyrkjustöðvar á haustin og falla þar fyrir sígrænum freistingum sem falla kannski aðeins í skuggann af blómahafi sumarsins en þeirra tími er núna.
Skemmtilegast er að blanda saman sígrænum tegundum og blómstrandi plöntum í haustkerin, þá fær augað mjög mikið fyrir peninginn.
Við gróðursetningu plantna í ker á haustin má nota venjulega pottamold en almennt þarf ekki að hafa mikið fyrir áburðargjöf á þessum tíma, enda eru plöntur ekki í hröðum vexti þegar hitastigið lækkar.