Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 mánaða.
Sauðfjárrækt á Skotlandi glímir við vandamál sem hljómar kunnuglega í eyrum íslenskra sauðfjáráhugamanna – afföll fjár á heiðum.
Sauðfjárrækt á Skotlandi glímir við vandamál sem hljómar kunnuglega í eyrum íslenskra sauðfjáráhugamanna – afföll fjár á heiðum.
Mynd / jhe
Á faglegum nótum 17. október 2024

Heilsa og velferð búfjár

Höfundur: Jón Hjalti Eiríksson, lektor við LbhÍ.

Hér held ég áfram að fjalla um erindi á árlegri ráðstefnu Evrópusamtaka búfjárvísindamanna (EAAP) sem var haldin í Flórens á Ítalíu 1. til 5. september síðastliðinn. Í þessari grein verður kastljósinu beint að nokkrum erindum sem fjölluðu á einhvern hátt um heilsu og velferð búfjár.

Jón Hjalti Eiríksson

Yfirskrift málstofu sem ætluð var öllum gestum ráðstefnunnar var „Endurmat á sambandi okkar við búfé“ þar sem fulltrúum mismunandi sjónarhorna á samband manna og búfjár var boðið að vera með erindi og taka þátt í pallborðsumræðum. Linda Keeling, sérfræðingur í dýravelferð frá Sænska landbúnaðarháskólanum (SLU), fjallaði í sínu erindi um sjálfbærnimarkmið Sameinuðu þjóðanna og hvernig þau tengjast velferð búfjár. Í einhverjum tilfellum hafa sjálfbær þróun og velferð búfjár verið talin illa samrýmanleg markmið vegna þess að auknar velferðarkröfur geta dregið úr skilvirkni matvælaframleiðslu. Linda taldi aftur á móti að bætt dýravelferð hlyti að vera hluti af lausninni á vegferð okkar til sjálfbærrar þróunar og hvatti fólk til að sameinast við að vinna á þeim sviðum þar sem bætt dýravelferð og sjálfbær þróun eiga saman

Ekkert búfé 2050?

Elena Nalon dýralæknir talaði fyrir hönd félagasamtaka um réttindi dýra. Samtök hennar hafa komið að því að tala máli búfjár við Evrópusambandið og stuðla að reglusetningu í þágu þess, svo sem með banni við því að halda varphænur í búrum. Að mati Elenu er í gangi faraldur skertrar dýravelferðar vegna fjölgunar búfjár. Elena kallaði eftir róttækni vísindamanna – þau sem hafa þekkinguna verði að vera óhrædd við að beita sér t.d. hvað varðar framleiðsluaðferðir sem rannsóknarniðurstöður hefðu sýnt að væri skaðlegar fyrir dýravelferð. Sú framtíðarsýn sem samtök Elenu hafa sett fram vakti nokkra athygli á ráðstefnunni. Þau sjá fyrir sér að árið 2050 verði búfé sárafátt og því ekki slátrað til manneldis. Búfé væri aðeins haldið til að skaffa frumur sem væru svo ræktaðar áfram í frumuræktun til að framleiða mat.

Nokkuð annan tón kvað við hjá fulltrúa samtaka sláturhúsa og gripaflutningafyrirtækja, Carolinu Cucurella. Í sínu erindi talaði hún um að velferð búfjár væri líka hagsmunamál iðnaðarins vegna þess að það væri liður í að tryggja gæðavöru og að það þyrfti líka að tryggja velferð framleiðenda, bændanna. Hún lagði áherslu á fræðslu almennings; þekking stórs hluta almennings á því hvernig matur verður til væri mjög lítil. Samt sem áður væri þessi sami almenningur með miklar skoðanir um framleiðsluaðferðir sem oft væru ekki á rökum reistar. Carolina setti spurningarmerki við þá hugmynd að stærri einingar þýddu endilega verri dýravelferð. Til dæmis væri frekar til peningar fyrir dýralæknakostnaði í stærri einingum og frekar hægt að fara í stórar fjárfestingar til að bæta aðstæður dýranna.

Fjórði og síðasti fyrirlesarinn í þessari dýravelferðarmálstofu var Achim Spiller, prófessor í markaðsmálum matar og landbúnaðarafurða við Göttingen-háskólann í Þýskalandi. Hann sagði frá tilraunum til að beita landbúnaðarkerfinu og markaðsaðferðum í Þýskalandi til að stuðla að bættri dýravelferð, bæði því sem hefði gengið vel og því sem ekki hefði tekist að koma í kring. Ítarlega unnar tillögur hafa ekki náð fram að ganga vegna andstöðu stjórnmálaflokka þrátt fyrir að þær njóti stuðnings úr röðum framleiðenda og neytenda.

Líkt og Carolina benti Achim á þann mun sem getur verið á hugmyndum almennings og raunverulegri aðstöðu á búum en samkvæmt könnun í Þýskalandi héldu 36% að algengt væri að varphænur væru í búrum þar í landi, meira en 20 árum eftir að bannað var að hafa hænur í búrum og búrhænuhald lagðist af.

Kunnugleg vandamál varðandi velferð sauðfjár í Skotlandi

Michelle Reeves frá Háskólanum í Edinborg í Skotlandi sagði frá rannsóknum á nokkrum áskorunum er varða velferð sauðfjár og rannsóknum á mögulegum umbótum. Í fyrsta lagi talaði hún um flutning fjár lengri leiðir. Þrátt fyrir bann við flutningum sauðfjár með bílum lengur en í 8 klukkustundir án hvíldar er sláturfé flutt frá skoskum eyjum með ferjum í 10–14 tíma. Atriði sem væri hægt að bæta í slíkum ferðalögum eru aðgangur að drykkjarvatni og minnkuð hávaðamengun. Gelding hrútlamba er enn víða stunduð í sauðfjárræktarlöndum svo sem Bretlandi. Ný tækni við það sem kallast ClipFitter virðist valda minni sársauka við geldingu smálamba en hefðbundnari aðferðir en ekki ef tæknin er notuð á eldri lömb. Enn annað velferðarmál sauðfjár í Bretlandi sem og annars staðar er ormaveikin og Michelle sagði frá tilraunum til að meta ormaveiki og líðan sauðfjár út frá hegðunarupplýsingum sem er safnað með stafrænni tækni.

Sauðfjárrækt á Skotlandi glímir við vandamál sem hljómar kunnuglega í eyrum íslenskra sauðfjáráhugamanna – afföll fjár á heiðum. Í framleiðslukerfi sem byggir á útiveru allt árið og því að féð gengur mikið til sjálfala verða afföll þar sem ástæðan er ekki endilega þekkt. Í Skotlandi er þetta kallað Blackloss. Fiona McAuliffe var með tvö erindi um þetta efni. Annars vegar sagði hún frá spurningakönnun meðal sauðfjárbænda um hvert þeir teldu umfang vandans vera og helstu ástæður. Þær ástæður sem helst er horft til eru sníkjudýr, rándýr, sólarofnæmi og næringarskortur. Niðurstöðurnar sýndu að sauðfjárbændurnir töldu afföllin allt að 17,5%, sem er reyndar lægra en gögn benda til. Seinna erindi Fionu fjallaði um einn orsakavald, sambærilegt við það sem er kallað sólarofnæmi eða álfabruni í íslensku. Niðurstöðurnar benda til þess að hann geti verið áhrifaþáttur þar sem hærra hlutfall dauðra lamba var með einkenni sólarofnæmis heldur en tíðni sjúkdómsins í hjörðinni í heild.

Baráttan við sjúkdóma

Baráttan við sjúkdóma í búfé er stöðugt strit sem snýr bæði að velferð búpenings og skilvirkni framleiðslunnar. Nú sem fyrr voru allmörg erindi sem tengdust þessu efni, meðal annars hvernig hægt er að kynbæta fyrir þoli fyrir ýmsum sjúkdómum. Til dæmis sagði Roel Meyermans frá Belgíu frá rannsóknum á erfðum psoroptic mange, húðsjúkdóms á nautgripum sem orsakast af mítli. Þessi sjúkdómur er algengur í holdanautakyninu vöðvastælta Belgískum bláum. Eins og með svo marga aðra sjúkdóma í búfé er hluti af breytileikanum í næmni gripa fyrir sjúkdómnum tengdur erfðum og því getur einn þáttur í lausninni verið að velja fyrir minnkuðu næmi, t.d. með erfðamengjavali.

Hvernig smitsjúkdómar bregðast við úrvali og hvernig þeir eiginleikar sem hafa áhrif á útbreiðslu þeirra tengjast er rannsóknarefni sem hefur fengið nokkra athygli að undanförnu. Tvö erindi á ráðstefnunni sögðu frá tilraunum á þessu en í báðum tilfellum var horft til aðstæðna í fiskeldi. Annars vegar stór smittilraun í fiskum sem sýndi fram á erfðabreytileika sem tengist líkum á því að fiskar smitist af sjúkdómi annars vegar og hversu líklegir þeir eru til að smita aðra fiska hins vegar. Hvort tveggja reyndist hafa erfðabreytileika og óhagstæða erfðafylgni sín á milli. Annað erindi sagði frá hermirannókn á því hvernig val gegn smitsjúkdómi virkar miðað við mismunandi erfðafylgni á milli þessara undirliggjandi faraldursfræðilegu þátta.

Heilsa og velferð búfjár eru stór viðfangsefni

Mörg önnur erindi komu inn á velferð eða heilsu búfjár á EAAP enda mikilvæg atriði í allri búfjárrækt. Mörg erindanna tengdust tækniframförum við að fylgjast með þessum þáttum, en í næsta blaði verður fjallað um nýjungar í tækni og aðferðum sem fjallað var um á EAAP í ár.

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...