Helstu niðurstöður nýs kynbótamats í nóvember 2015
Höfundur: Guðmundur Jóhannesson Ábyrðamaður í nautgriparækt hjá RML
Nú í nóvember var keyrt nýtt kynbótamat í nautgriparæktinni og lesið inn í nautgriparæktarkerfið Huppu í beinu framhaldi af því. Niðurstöður þess eru því aðgengilegar notendum Huppu en hér verður stiklað á stóru um þau naut sem hafa verið og koma ný í dreifingu.
Fagráð í nautgriparækt tók á fundi sínum þann 10. desember s.l. ákvörðun um það hvaða naut verða í almennri dreifingu á næstu mánuðum. Ákveðið var að fjölga reyndum nautum í dreifingu á þann hátt að nú koma fjögur ný naut til dreifingar en þrjú af þeim sem áður voru í dreifingu falla út. Ánægjulegt er að sjá að þau naut sem hafa verið í notkun undanfarin misseri standa við fyrri dóm að nánast öllu leyti, hækka fremur en hitt.
Afkvæmadómi 2009 árgangsins er í meginatriðum lokið en nú þegar eru þau naut sem telja má áhugaverð til framhaldsnotkunar úr þeim árgangi komin eða að koma til dreifingar. Árgangurinn taldi alls 27 naut og af þeim hafa farið 9 til dreifingar sem reynd. Því miður er ekki um fleiri naut að ræða þar sem fengið hafa verulega gott mat að lokinni afkvæmaprófun.
Eins og áður sagði var ákveðið fjögur ný naut í dreifingu sem reynd naut. Þessi naut eru enn með algjöran lágmarksfjölda dætra með afurðaupplýsingar bak við sitt mat en komin nægan fjölda dætra með útlitsmat og mjaltaathugun til þess að það mat sé komið með gott öryggi.
Ný naut í notkun
Þau naut sem koma ný til dreifingar eða í nautaskrá eru Ferill 09070, Þytur 09078, Dráttur 09081 og Brúnó 09088. Hér verður gerð nánari grein fyrir þeim.
Ferill 09070 er frá Botni í Súganda
firði, faðir er Lykill 02003 og móðir Slóð 420 Stígsdóttir 97010.
Dætur Ferils eru miklar mjólkurkýr með hátt próteinhlutfall í mjólk en fituhlutfall undir meðallagi. Þetta eru stórar og háfættar kýr með mikla boldýpt, góðar útlögur og sterka yfirlínu. Malir eru breiðar og fremur flatar en aðeins hallandi. Fótstaða þeirra er góð og sterkleg. Júgurgerð er um meðallag og ber hvorki mikið göllum né kostum. Spenar eru prýðilega gerðir og vel settir. Mjaltir eru góðar og skapið mjög gott.
Um helmingur afkvæma Ferils er tvílitur og ber langmest á rauðum grunnlitum þó allir nema gráir litir komi fyrir. Af tvílitum ber mest á huppóttum og skjöldóttum.
Ekki er þekkt að Ferill gefi hyrnd afkvæmi. Hæð dætra er að meðaltali 5,6. Ferill kemur til notkunar sem nautsfaðir.
Þytur 09078 er frá Eystra-Hrauni
í Landbroti og er hann fyrsti sonur Glæðis 02001 sem kemur til framhaldsnotkunar. Móðir hans er Hetta 403 Jaxlsdóttir 04027.
Dætur Þyts eru gríðarmiklar mjólkurkýr en efnahlutföll í mjólk eru lág. Þetta eru fremur stórar og mjög háfættar kýr en hvorki boldjúpar né útlögumiklar. Yfirlína er bein. Malir eru fremur grannar, þaklaga og hallandi. Fótstaða er rétt og sterkleg. Júgurgerð er úrvalsgóð, mikil júgurfesta, áberandi júgurband og júgrin hátt sett og vel borin. Spenar eru vel gerðir, nettir en eilítið gleitt settir. Mjaltir eru mjög góðar og skapið í góðu meðallagi.
Helmingur afkvæma Þyts er einlitur og af grunnlitum ber mest á rauðum litum þó allir nema gráir finnist. Af tvílitum ber mest á skjöldóttum. Ekki er þekkt að Þytur gefi hyrnd afkvæmi. Hæð dætra er að meðaltali 6,1. Þytur kemur til notkunar sem nautsfaðir.
Dráttur 09081 er frá Torfum í Eyja-
firði, faðir er Flói 02029 og móðir Svipa 312 Stígsdóttir 97010. Svipa þessi er dóttir Doppulínu 221 frá Baldursheimi í Hörgársveit en hún var mikil glæsikýr sem entist með ólíkindum vel, var felld 2011 þá 16 vetra. Sonur hennar, Baldi 06010, reyndist gott kynbótanaut auk þess sem dóttursonur hennar, Skrúður 14014, var í dreifingu sem óreynt naut fyrir skömmu.
Dætur Dráttar eru góðar afurðakýr með há efnahlutföll í mjólk. Þetta er meðalstórar og háfættar kýr, í meðallagi boldjúpar með fremur litlar útlögur en mjög sterka yfirlínu. Malirnar eru grannar, beinar en þaklaga. Fótstaða er bein og sterk. Júgurgerðin er góð, festa um meðallag en júgurband áberandi og júgrin vel borin. Spenar eru ágætlega gerðir, aðeins grannir en mjög vel settir. Mjaltir eru úrvalsgóðar, ákaflega lítið um mjaltagalla og skapið í tæpu meðallagi.
Nálægt tveimur þriðju hlutum afkvæma Dráttar eru tvílitir og ber mest á huppótum og skjöldóttum litum. Af grunnlitum eru rauðir og bröndóttir litir mest áberandi en allir grunnlitir koma fyrir. Ekki er þekkt að Dráttur gefi hyrnd afkvæmi. Hæð dætra er að meðaltali 5,6.
Brúnó 09088 er frá Brúnastöðum
í Flóa, faðir er Flói 02029 og móðir Erna 286 Seifsdóttir 95001 en hún entist mjög vel, bar alls sjö sinnum.
Dætur Brúnó er miklar mjólkurkýr með hát flituhlutfall í mjólk en próteinhlutfall í tæpu meðallagi. Þetta fremur stórar kýr, háfættar, prýðilega boldjúpar, útlögur fremur litlar en yfirlína bein. Malir eru grannar, beinar en þaklaga. Fótstaða er heldur náin um hækla en annars nokkuð bein og sterkleg. Júgurgerðin er um meðallag, aðeins skortir á festu en júgurband er mjög áberandi og þau eru meðalvel borin. Spenagerðin er góð og þeir eru ákaflega vel settir. Mjaltir eru úrvalsgóðar og gallar hverfandi litlir. Skap þessara kúa er undir meðallagi.
Um tveir þriðju hlutar afkvæma Brúnós eru einlitir þar sem langmest ber á bröndóttum litum þó allir grunnlitir utan gráir komi fyrir. Af tvílitum eru huppóttur og skjöldóttur algengastir. Ekki er þekkt að Brúnó gefi hyrnd afkvæmi. Hæð dætra er að meðaltali 5,8.
Naut sem áfram verða í notkun
Þau naut sem áfram verða í notkun eru: Logi 06019, Rjómi 07017, Keipur 07054, Blámi 07058, Blómi 08017, Þáttur 08021, Flekkur 08029, Gói 08037, Kraki 09002, Gusur 09003, Bolti 09021 og Gæi 09047. Alls verða því 16 reynd naut í dreifingu í vetur. Nánari upplýsingar um þau er að finna í síðustu nautaskrá og á nautaskra.net.
Væntanleg naut
Við næstu keyrslu kynbótamats verða vonandi fyrstu naut úr árgangi 2010 komin með nægilegan fjölda dætra með afurðaupplýsingar þannig að hægt verði að taka naut til notkunar úr þeim hópi. Á þessum tímapunkti hefði það verið hægt ef burðaraldur 1. kálfs kvígna væri ekki jafn hár að meðaltali og raun ber vitni. Þannig seinkar hár burðaraldur í raun erfðaframförum í kúastofninum til viðbótar þeim kostnaði og öðrum göllum sem hann hefur í för með sér.
Ef við víkjum að þeim nautum sem að öllum líkindum koma úr afkvæmaprófun við næstu keyrslu kynbótamats þá eru það naut fædd 2010. Þetta er nokkuð blandaður hópur hvað faðerni snertir og er einkum að finna syni Glæðis 02001, Skurðs 02012, Ófeigs 02016, Flóa 02029 og Síríusar 02032 meðal þeirra. Þá eiga Kappi 01031, Lykill 02003, Pontíus 02028, Aðall 02039, Ás 02048 og Gyllir 03007 einnig syni í hópnum.
Fyrstu vísbendingar og niðurstöður varðandi syni Glæðis 02001 og Flóa 02029 eru jákvæðar en því miður virðast flestir synir Skurðs 02012 eiga það sammerkt að gefa fremur þungar kýr í mjöltum. Hvað hina varðar hafa fæst orð minnsta ábyrgð en þó eru jákvæð teikn á lofti með nokkur naut í árgangnum.
Besta naut 2008 árgangsins
Fagráð valdi á síðasta fundi sínum besta naut 2008 árgangsins. Fyrir valinu varð Bambi 08049 frá Dæli í Fnjóskadal. Þetta val kemur víst fæstum á óvart enda yfirburðir Bamba miklir. Ræktandi Bamba fær afhenta viðurkenningu fyrir nautið á fagþingi nautgriparæktarinnar sem haldið verður í mars á næsta ári en segja má að þetta séu æðstu verðlaun nautgriparæktarinnar hérlendis.
Bambi var fæddur 4. nóvember á Dæli í Fnjóskadal, sonur Laska 00010 og Stáss 319 Kaðalsdóttur 94017 og eru ræktendur hans þau Geir Árdal og Margrét Bjarnadóttir.Dómsorð Bamba eru:
„Dætur Bamba eru prýðilegar mjólkurkýr og hlutfall verðefna í mjólk er hátt. Þetta eru fremur smáar en í góðu meðallagi háfættar kýr. Þær eru meðalkýr hvað snertir boldýpt en útlögur eru miklar og yfirlínan er eilítið veik. Malir eru í meðallagi breiðar, hallandi en fremur flatar. Fótstaða er mjög sterkleg og góð. Júgurgerð dætra Bamba er úrvalsgóð, þau eru vel löguð, gríðarvel borin með geysimikla festu og sérlega sterkt júgurband. Spenagerð er góð, þeir eru stuttir, grannir og mjög vel settir. Dætur Bamba eru frábærar í mjöltum og skapi.
Bambi 08049 hlýtur nafnbótina besta naut 2008 árgangs nauta frá nautastöð BÍ.“
Bambi 08049 stendur nú með 117 í heildareinkunn í kynbótamati, efstur allra nauta og slær við úrvalsnautum síðustu ára eins og Birtingi 05043 og Kola 06003.