Hvað er vistkerfisnálgun?
Í nýlegri stefnu stjórnvalda í landgræðslu og skógrækt, „Land og Líf“, er lögð mikil áhersla á vistkerfisnálgun sem kemur einnig fram í nýlegum landbúnaðar- og matvælastefnum matvælaráðuneytisins.
Að auki er vistkerfisnálgun þungamiðja í alþjóðlegum stefnum og markmiðum um umgengni við auðlindir jarðar.
En hvað þýðir eiginlega vistkerfisnálgun og hvernig tengist sú nálgun starfsemi Landgræðslunnar?
Vistkerfisnálgun er þegar stjórnun á notkun lands, lagar og lifandi auðlinda er samræmd og hvetur til verndunar og sjálfbærrar nýtingar með jafnrétti að leiðarljósi. Vistkerfisnálgun stuðlar þannig að jafnvægi milli verndunar vistkerfa, sjálfbærri nýtingu og jafnri deilingu ágóða. Vistkerfisnálgun leggur áherslu á að þegar við nýtum auðlindir náttúrunnar nýtum við þær á þann hátt að við sköðum ekki náttúruna eða framtíð okkar. Til þess að gera þetta þurfum við að vernda náttúruleg vistkerfi sem enn mega teljast heilleg, nýta auðlindir með sjálfbærum hætti og endurheimta þau vistkerfi sem hafa hnignað.
Þó að hugtakið vistkerfisnálgun sé nýtt af nálinni samræmist það vel þeirri nálgun sem Landgræðslan hefur haft að leiðarljósi í mörg ár. Ef nýleg lög um landgræðslu eru skoðuð sést einnig að þessi nálgun er allsráðandi enda markmið laganna „að vernda, endurheimta og bæta þær auðlindir þjóðarinnar sem fólgnar eru í gróðri og jarðvegi og tryggja sjálfbæra nýtingu lands“.
Landgræðslan hefur allt frá stofnun sinni árið 1907 stundað og stuðlað að endurheimt hnignaðra vistkerfa. Hér áður fyrr var áherslan á að stöðva sandfok og frekari hnignun vistkerfa en í dag hefur áherslan færst meira á endurheimt náttúrulegra vistkerfa, svo sem birkiskóga, votlendis og mólendis. Jafnframt er áhersla á að samþætta þurfi verndun og endurheimt vistkerfa við önnur umhverfismarkmið eins og baráttu gegn loftslagsbreytingum og verndun líffræðilegrar fjölbreytni. Landgræðslan stuðlar að vernd og sjálfbærri nýtingu auðlinda meðal annars með ráðgjöf til landnotenda og almennri fræðslu.
Lykilatriði í vistkerfisnálgun er samráð og þátttökunálganir. Landgræðslan hefur í gegnum árin starfað náið með landnotendum og landeigendum, m.a. í verkefnum eins og Bændur græða landið, Landbótasjóði og í GróLind. Landgræðslan starfar einnig með ríki og sveitarfélögum, veitir ráðgjöf, skrifar umsagnir um skipulagsmál og vinnur við svæðisáætlanir í landgræðslu.
Vöktun og rannsóknir er mikilvægur hluti af vistkerfisnálgun, ef við ætlum að geta stýrt nýtingu á sjálfbæran hátt verðum við að skilja betur þær auðlindir sem við nýtum og fylgjast með hvaða áhrif aðgerðir okkar hafa, hvort sem það er beitarnýting eða uppgræðslur. Þannig lærum við og getum aðlagað aðgerðir okkar eftir því. Rannsóknir og vöktun eru þannig grunnurinn að vönduðum og markvissum vinnubrögðum.
Fimmtudaginn 21. september tekur Landgræðslan þátt í málþingi á vegum matvælaráðuneytisins og Biodice um Vistkerfisnálgun í umgengi við og nýtingu náttúru Íslands. Málþinginu verður streymt beint og hægt verður að hlusta á upptökur eftir á. Ég hvet öll sem hafa tök á að hlusta – til að fræðast meira um þessa nálgun sem við sem nýtum landið ættum að hafa að leiðarljósi.