Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 11 mánaða.
Hnúfubakur hefur fjölgað sér mikið við landið. Í fyrstu talningu, fyrir 35 árum, voru þeir um 1.000 en nú eru þeir á milli 10–15.000 talsins.
Hnúfubakur hefur fjölgað sér mikið við landið. Í fyrstu talningu, fyrir 35 árum, voru þeir um 1.000 en nú eru þeir á milli 10–15.000 talsins.
Mynd / Wikipedia
Á faglegum nótum 4. janúar 2024

Hvalastofnar við Ísland eru í góðu ástandi

Höfundur: Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, búfræðingur og framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum.

Umræða um hvali og hvalveiðar fór varla framhjá nokkrum manni síðastliðið sumar og snerist að hluta til um hvort við ættum að veiða hvali eða ekki.

Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson

Umræðan var að mestu á tilfinningalegum nótum og snerist um hvernig hvalir væru veiddir og þá hvort þær mannúðlegar eða ekki.

Hvergi komu fram, svo greinarhöfundi sé kunnugt um, sæmilegar upplýsingar um stöðu hvalastofna við Ísland eða í Norður-Atlantshafi. Til að bæta úr því fengum við Guðjón Má Sigurðsson, doktor í sjárvarlíffræði og sérfræðing í hvalarannsóknum hjá Hafrannsóknastofnun, í viðtal.

Helstu hvalastofnar við Ísland

Hvalir skiptast í tvær tegundir, tannhvali annars vegar og skíðishvali hins vegar. Skíðishvalir sía sjóinn með skíðum sínum og nærast á dýrasvifi sem og smærri tegundum fiska, s.s. síli og loðnu, en þar slæðast einnig með stærri fiskar.

Tannhvalir nýta tennurnar til veiða sem eru aðallega ýmsar tegundir fiska, smokkfiska og kolkrabba, og sumir þeirra, s.s. háhyrningar, veiða aðra hvali og seli. Steypireyður er langstærsta dýr jarðar og vegur allt að 200 tonnum. Dýrið verður allt að 100 ára og kynþroski verður um 15 ára aldur. Aðalfæðan eru svifdýr ýmiss konar og fæðuþörf dagsins er um 4 tonn. Aðrir helstu skíðishvalir við landið eru langreyður, hnúfubakur og hrefna. Hafrannsóknastofnun gefur út veiðiráðgjöf á hrefnu og langreyði. Langreyðum er að fjölga en hrefnu hefur heldur fækkað við landið og er líkleg skýring að fæðustofnar hennar, einkum sandsíli, hafa dregist saman við Ísland en á sama tíma hefur þeim fjölgað við Jan Mayen.

Helstu tannhvalir við landið eru búrhvalur, háhyrningar, andanefja, hnísa, grindhvalur og höfrungategundirnar hnýðingur og leiftur. Búrhvalurinn er stærstur og heldur sig mest í úthafinu en af einhverjum ástæðum er hann ein algengasta tegund hvalreka, það er að segja að hann reki dauður að ströndum landsins.

Staða flestra hvalastofna er góð

Meðal umhverfisverndarsamtaka, einkum erlendis, er talað um að hvalir séu í útrýmingarhættu. En hver er staða þeirra tegunda sem halda sig við Ísland? ,,Það er bara hægt að segja að þeir séu allir í ágætu standi, jafnvel mjög góðu ástandi. Flestir hvalastofnar hafa stækkað mjög mikið síðan við byrjuðum að telja þá fyrir um það bil 35 árum. Sumir hvalastofnar hafa margfaldast, eins og hnúfubakurinn. Það er helst steypireyðurinn sem hefur ekki alveg tekið við sér. Hann var veiddur ansi harkalega niður en hann er mjög langlífur og fjölgar sér hægt. Það tekur bara tíma að hann nái sér upp í fyrri styrk,“ segir Guðjón Már.

Rannsóknir á hvölum

Farið er í hvalatalningar á átta ára fresti að sumarlagi til að leggja mat á stofnstærð og útbreiðslu en lítið er vitað um útbreiðslu á veturna. Þá hefur verið reynt að meta fæðusamsetningu hvala með því að ná lífsýni úr húð þeirra.

Með því er unnt að greina hvað dýrið hefur verið að éta síðustu mánuði. Veiðar Hvals hf. á langreyð hafa veitt sérfræðingum aðgang að magasýnum til að skoða samsetningu fæðu en einnig er fæðuval hrefnu þekkt frá fyrri rannsóknum. Minna er vitað um fæðusamsetningu þeirra hvala sem ekki eru veiddir, svo sem hnúfubaks, sem fjölgað hefur mikið við Ísland

Aldursgreining tannhvala fer fram með því að skoða tennur þeirra en aldur hjá skíðishvölum er metinn með því að telja aldurshringi í eyrnamergi. ,,Í framtíðinni verður vonandi hægt að fylgjast betur með hvölum, til dæmis með því að telja þá úr drónum og að skjóta í þá merkjum sem senda staðsetningu og aðrar upplýsingar til gervihnatta,“ segir Guðjón Már.

Veiðar á hvölum

Flestir hvalastofnar við Ísland myndu þola veiðar út frá öllum mæli- kvörðum. Hafrannsóknastofnun gefur út veiðiraðgjöf á hrefnu og langreyð sem er mjög varkár, eða innan við 0,5% af stofnstærð. Alþjóðahvalveiðiráðið fer síðan yfir ráðgjöfina en þar situr fólk sem er bæði með og á móti hvalveiðum. ,,Hvalveiðar Íslendinga eru sjálfbærar og hafa engin áhrif á stofnstærð þeirra hvalategunda sem veiddar eru við landið. Flestir aðrir hvalastofnar eru stórir og myndu þola hóflegar veiðar ef vilji væri fyrir slíku,“ segir Guðjón Már.

Hnúfubakur og loðnuveiðar

Hnúfubakur hefur fjölgað sér mikið við landið. Í fyrstu talningu, fyrir um 35 árum, voru þeir um 1.000 en nú eru þeir einhvers staðar á milli 10–15.000 talsins. Þeim hefur því fjölgað gríðarlega.

Í fyrstu voru þeir aðallega á sumrin á loðnuslóð norður af landinu en nú halda þeir til hér stóran hluta ársins og fylgja loðnugöngu suður með austurströndinni og vestur um og inn í Breiðafjörð á veturna. Sjómenn hafa haldið því fram að hnúfubakur éti gríðarlegt magn af loðnu og sé einn áhrifavaldur minnkandi loðnugengdar við landið.

Hvað segir Guðjón Már um það? ,,Það er erfitt að fullyrða um það. Við eigum magasýni úr hrefnu og langreyð en ekki úr hnúfubak. Við getum því ekki sagt mikið um hvað hann er að éta, en við vitum að hann fylgir loðnunni. Nýlega var birt grein þar sem heildarát sjávarspendýra í Norður-Atlantshafi er metið 13 milljónir tonna á ári. Þar af er áætlað að hnúfubakar við Ísland séu að éta rúmlega 1,3 milljónir tonna. Það er áreiðanlega töluverður hluti þess loðna enda fylgir hnúfubakurinn loðnunni. En við höfum einfaldlega ekki gögn til að fullyrða neitt meira um þetta. Til þess vantar rannsóknir.“

En hvernig enda hvalir líf sitt?

Í ljósi umræðu um ómannúðlegt dráp hvalveiðimanna á hval, er eitthvað vitað um hvernig hvalir enda líf sitt? ,,Nei, það er ekki mikið vitað um það. En því eldri sem þeir verða eru þeir viðkvæmari fyrir sýkingum og sjúkdómum og á endanum geta þeir ekki étið eða andað og drepast þannig. Það er líka þannig að þegar þeir eru orðnir veikburða þá ráðast háhyrningar eða hákarlar á þá og drepa.

Hákarlategundir hér við land eru ekki mikið þekktar af því að drepa, mun frekar af því að éta hræ. Háhyrningar eru aftur á móti þekktir af því að fara um í hópum og drepa hvali, einkum smáhveli og seli. Það virðist vera að sumir hópar háhyrninga veiði frekar hvali og seli en aðrir hópar séu frekar á eftir síld og öðrum uppsjávarfiskum. En hér við Ísland eru þeir meiri tækifærissinnar og éta bæði fisk og sjávarspendýr.“

Yfirlitið sýnir helstu hvalastofna við Ísland og í mið Norður-Atlantshafi, áætlaðan fjölda, mestu lengd, hámarksaldur og kynþroska. Áætlað er að hvalir í Norður-Atlantshafi éti um 13 milljónir tonna af svifi, fiski og öðrum sjávarspendýrum.

Skylt efni: hvalveiðar | hvalir

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...