Hyundai IONIQ PHEV Premium
Höfundur: Hjörtur L. Jónsson
Gífurleg aukning hefur verið í sölu og framboði á vistvænum bílum, en mesta aukningin er af bílum sem eru með annaðhvort bensín- eða dísilvél, og rafmótor hafa og eru almennt nefndir „tvinnbílar“.
Flest umboð bílategunda hafa verið að bjóða svona bíla og hef ég reynt að prófa þá sem flesta. Til gamans má geta þess að um þriðji hver nýr seldur bíll síðustu þrjá mánuði hefur verið tvinnbíll.
Í tvígang hef ég kosið Mitsubishi Outlander tvinnbílinn sem bíl ársins hér í Bændablaðinu. Um 500 slíkir bílar hafa verið seldir það sem af er ári, en alls er sala rafmagns- og tvinnbíla orðin yfir 2.000 bílar á árinu 2017.
Nýjasti tvinnbíllinn á markaðnum er Hyundai IONIQ og er með fimm ára ábyrgð og tók ég stuttan hring á bílnum um síðustu helgi. Ábyrgð á rafhlöðu er 8 ár og 200.000 km.
Kemst allt að 63 km á rafmagninu
Eins og vinsælustu tvinnbílarnir fer Hyundai IONIQ fyrstu kílómetrana á rafmagninu einu saman sé ekki alltaf verið á botngjöf. Sé ekið mjúklega á minni hraða en 70–80 getur Hyundai IONIQ komist allt að 63 kílómetra sé bíllinn með fullhlaðna rafhlöðu í upphafi bílferðar.
Þegar ég fékk bílinn var eitthvað búið að prófa hann fyrr um daginn og samkvæmt aksturstölvu bílsins voru 35 km eftir á rafhlöðunni og yfir 500 á bensíntanknum. Strax og ég setti bílinn í gang fór bensínvélin líka í gang þar sem ég setti miðstöðina á mesta hita, sætishitarann í botn og kveikti á stýrishitaranum. Bensínvélin er 1600 cc. og skilar 105 hestöflum. Við svona mikla rafmagnsnotkun fer bensínmótorinn sjálfkrafa í gang. Eftir smá stund að læra á alla takkana í mælaborðinu var bíllinn orðin heitur og ég lagði af stað í stuttan bíltúr.
Hvimleitt veghljóð frá vetrarhjólbörðunum
Nánast strax og ég lagði af stað, drap bensínmótorinn á sér af því að bíllinn var orðinn heitur og ég búinn að slökkva á sætishitaranum og lækka í miðstöðinni.
Ég leið áfram nánast hljóðlaust um bæinn í fyrstu og ók svo til Keflavíkur. Mér til undrunar, strax við álverið í Straumsvík þegar ég var kominn upp fyrir 70 km hraða, byrjaði að heyrast mikið veghljóð frá vetrarhjólbörðunum. Stuttu seinna fór bensínmótorinn í gang sem blandaðist við veghljóð hjólbarðanna.
Að keyra bílinn er mjög ljúft, fótapláss gott, sæti þægileg, hljómgæði í hljómtækjum mjög gott. Pláss í farangursrými er ekki mikið, en rafhlöðurnar eru aftur í bílnum og undir honum sem gerir hann stöðugri í beygjum og hálku. Þó fannst mér frekar lágt undir lægsta punkt, en í snjó inni á bílaplani varð ég var við að ég væri kominn að þolmörkum bílsins í snjóakstri.
Fjölskylduvænsti tvinnbíllinn til þessa
Ég get ekki sleppt því að vera með smá samanburð á milli nokkurra tvinnbíla sem ég hef prófað síðastliðið ár.
Mini-bíllinn sem ég prófaði í síðasta blaði var með fjórhjóladrif og mun kraftmeiri, en eyðir líka miklu meira eldsneyti á bensínvélinni.
Kia Optima er líka miklu kraftmeiri og eyðir meiru.
Sísti tvinnbíllinn er litli BMW-bíllinn sem ég prófaði á vormánuðum, lítill, tekur nánast engan farangur (óttalegur dúkkuvagn), en afgerandi skemmtilegasta leikfangið var WV tvinnbíllinn sem ég prófaði í vor (endalaus orka og stórhættulegur fyrir ökuskírteinið).
Hyundai IONIQ PHEV Premium er hins vegar fjölskylduvænsti tvinnbíll sem ég hef prófað. Hann er með 141 hestafl og gefinn upp í eyðslu samkvæmt bæklingi með 1,1 lítra á hundraðið. Eftir 93 kílómetra akstur var mín eyðsla 4,4 lítrar. Ekki bestu aðstæður til sparaksturs, snjór, kalt og hálka.
Jákvæðir punktar
Verðið er með lægra móti en Hyundai IONIQ, eða frá 3.990.000 krónum, og bíllinn sem ég prófaði kostar 4.290.000 kr.
Akreinalesarinn virkar vel og blindhornsvarinn einnig. Hitarinn í stýrinu er mun heitari en almennt í öðrum bílum sem ég hef prófað og svo er hiti í aftursætum sem ekki er í mörgum bílum.
Þráðlaus farsímahleðsla, rafdrifin sæti með tveim minnum eru fyrir ökumann.
Neikvæðir punktar
Ekkert varadekk er í bílnum, eitthvað sem ég sætti mig aldrei við.
Hliðarspeglarnir fara niður á veginn sjálfkrafa þegar sett er í bakkgír. Það er gott fyrir þá sem nota bakkmyndavélina, en fyrir þá sem nota hana ekki og bakka með gamla laginu eftir hliðarspeglunum og baksýnisspeglinum, er þetta mjög truflandi (ekki fyrsti bíllinn sem ég prófa með þetta svona, en ég stilli bara hliðarspeglana til baka).
Ég hef aldrei verið hrifinn af því að sjá í baksýnisspeglinum tvískipta afturrúðu, en af einhverjum orsökum hefur svona sýn alltaf truflað mig.
Helstu mál og upplýsingar:
Hæð 1.450mm
Breidd 1.820 mm
Lengd 4.470 mm