Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Ekkert skýrsluhald er yfir stofnstærð íslensku hænunnar en áætlað er að stofninn telji í dag um það bil 3.000−4.000 fugla.
Ekkert skýrsluhald er yfir stofnstærð íslensku hænunnar en áætlað er að stofninn telji í dag um það bil 3.000−4.000 fugla.
Á faglegum nótum 6. ágúst 2015

Íslenska landnámshænan

Áætlað er að íslenski hænsna­stofninn hafi verið um 20-30 þúsund fuglar fyrstu aldirnar eftir landnám. Líkur eru á að  íslenska landnámshænan sé afkomandi þess hænsnastofns, sem barst til landsins með landnámsmönnum fyrir um ellefu hundruð árum, þó eru fáar heimildir til um upprunann. 
 
Talið er að móðuharðindin hafi síðan gengið mjög nærri íslenska hænsnastofninum og heimildir eru um að aðeins hafi örfáar hænur verið í nokkrum sveitum undir lok 18. aldar. 
 
Síðan eftir að farið var að flytja inn til landsins erlend hænsnakyn til eggjaframleiðslu var íslenski stofninn aftur kominn í útrýmingarhættu á miðjum áttunda áratugnum. Því er stofn íslensku landnámshænunnar í dag kominn af tiltölulega fáum fuglum sem safnað var saman víða að af landinu á árunum 1974–1975 af  dr. Stefáni Aðalsteinssyni. Stefán valdi fugla sem hann taldi vera af gamla upprunalega stofni íslensku hænsnanna, með það fyrir augum að bjarga stofninum. Fuglarnir voru fyrstu 10 árin hjá Rannsóknarstofnun landbúnaðarins að Keldnaholti en svo var afkomendum þeirra fyrst komið fyrir að Bændaskólanum á Hvanneyri og síðar á tveimur bæjum í Borgarfirði, að Syðstu-Fossum og að Steinum II.
 
Ekkert skýrsluhald er yfir stofnstærð íslensku hænunnar en áætlað er að stofninn telji í dag um það bil 3.000−4.000 dýr. Virk stofnstærð íslensku hænunnar er því lítil, eða 36,2 einstaklingar (BS. Ó. Guðmundsdóttir 2011) en til samanburðar er hún á bilinu 70–3.000 einstaklingar fyrir ýmsa aðra hænsnastofna í Evrópu. 
 
Töluverður erfðafjölbreytileiki virðist þó vera til staðar í stofni íslensku hænsnanna. Það er því mikilvægt að fylgjast með stofnstærðinni og reyna að stuðla að því að hún fari ekki minnkandi. Eins þarf að hvetja eigendur til að lágmarka skyldleikaræktun svo virk stofnstærð minnki ekki frekar. (BS. Á. Stefánsdóttir 2012) 
 
Árið 2003 var stofnað félag til verndar íslensku hænunni,  Eigenda- og ræktendafélag landnámshænsna. Félagið stuðlar að fræðslu fyrir eigendur og ræktendur landnámshænunnar, stendur fyrir hænsnasýningum, gefur út blaðið Landnámshænuna, einu sinni á ári og heldur úti vefsíðu (www.haena.is).
 
Íslenska hænan er landkyn en það er skilgreint sem  kyn sem hefur fengið að aðlagast og þróast á náttúrulegan hátt. Landkyn eru yfirleitt aðgreind frá sérstökum ræktunarafbrigðum og frá strangt stöðluðum kynjum, því þau hafa fengið að aðlagast án mikillar aðkomu mannsins, til dæmis með að velja fugla til undaneldis eftir eggjaframleiðslu, stærð fugla eða öðrum áberandi eiginleikum. Ræktaðar tegundir hafa því tilhneigingu til að verða erfðafræðilega einsleitar en landkyn eru erfðafræðilega fjölbreytt. Markvisst valin dýr til ræktunar í fjölda kynslóða framleiðslustofna hefur til dæmis leitt til lækkunar á líffræðilegum fjölbreytileika og þar með minna viðnámi gagnvart sjúkdómum. Landkyn eru því  „lón erfðaauðlinda“ og mjög mikilvægt að blanda þeim ekki við önnur kyn í ræktun.
 
Árið 1994 var gerð rannsókn af dr. Stefáni Aðalsteinssyni, þá voru blóðsýni tekin úr 50 hænsnum af gamla íslenska hænsnastofninum og þau greind eftir vefjaflokkum. Í ljós kom að alls voru 28% af gömlu íslensku hænsnunum með vefjaflokka sem þekktir voru í helstu varphænsnastofnum í nágrannalöndunum en 72% þeirra voru með vefjaflokka sem voru að mestu óþekktir.
 
Í rannsókn sem gerð var 2011 af Ólöfu Ósk Guðmundsdóttur um erfðafjölbreytileika innan íslenska hænsnastofnsins kom í ljós að íslenski hænsnastofninn stendur nokkuð vel hvað erfðafjölbreytileika varðar. Meðalskyldleikarækt í stofninum er 12,5% sem er mun lægra en sést í mörgum framleiðslustofnum. (BS. Ólöf Ósk Guðmundsdóttir 2011).
 
Í erlendri rannsókn sem gerð var 2014 segir að þótt íslenski stofninn sé staðsettur í meira en 2000 km. fjarlægð frá meginlandi Evrópu, þá sé athyglisvert að hann hafi mestan skyldleika með hænsnastofnum í Norðvestur-Evrópu. Íslenski stofninn er skyldastur tveimur gömlum þýskum stofnum, Bergische Schlotterkaemme og Ostfriesche Mowen, og svo þeim ítalska sem kallst Svartir Ítalir, þó engar sögulegar skýringar séu til á þeim skyldleika. (C.M.Lyimo 2014).
 
Erfitt er að fullyrða að íslenski hænsnastofninn sé kominn af hænsnum sem bárust hingað með landnámsmönnum en hvort sem íslenska landnámshænan er stofn upprunalegra hænsna eða ekki, þá er hún samt partur af íslenskum búfénaði og erfðaauðlind sem Íslendingum ber að varðveita.
Það eru nokkuð mörg ár síðan stjórn Eigenda- og ræktendafélags landnámshænsna fór að taka eftir fótafiðruðum hænsnum á landinu. Í fyrstu voru félagar ekki vissir um hvort þetta væri innblöndun í stofninn eða hvernig ætti að standa gagnvart þessu. Mikið var rætt um þessa uppákomu og ekki allir félagar sammála, sumum fannst þetta „krúttlegt“ og fundu enga ástæðu til að fetta fingur út í þetta, aðrir fundu til ábyrgðar sinnar sem ræktendur og verndarar landnámshænunnar og vildu vita hvaðan þetta hefði borist í stofninn eða hvort þetta hefði alla tíð verið til staðar í stofninum og enn er þetta dálítið umdeilt innan félagsins. Á meðal félagsmanna var það rætt að ekki væri lengur hægt annað en að setja saman helstu útlits- og atferliseinkenni landnámshænunnar, líkt og gert hefur verið á Norðurlöndunum og í Vestur-Evrópu, til að vernda gömul landkyn gegn innblöndun. Það var svo á aðalfundi árið 2011 sem sett var á stofn nefnd sem átti að vinna að lýsingu á helstu útlits- og atferliseinkennum landnámshænunnar og meðal annars að afla sér upplýsinga um fótafiðruð hænsnakyn og hvort það gæti verið, að fótafiður hefði alla tíð verið í íslenska stofninum. Niðurstaða nefndarinnar var ótvíræð gegn fótafiðruðum hænsnum og var upplýsinga leitað víða, bæði frá Norræna genabankanum varðandi önnur landkyn á Norðurlöndunum og útlit þeirra, myndir af þeim hænsnum sem dr. Stefán Aðalsteinsson safnaði saman 1974 og viðtöl við fólkið sem umgekkst fuglana að Keldnaholti og Hvanneyri og hirti um þá þar. Nefndina skipuðu: Júlíus Már Baldursson, þáverandi formaður ERL,  Jóhanna G. Harðardóttir, fyrrverandi formaður, og dr. Ólafur R. Dýrmundsson, ráðunautur lífræns búskapar og landnýtingar hjá Bændasamtökum Íslands og einn af stofnfélögum ERL. Varamenn voru þeir Jónas Pétur Hreinsson og Bjarni Eiríkur  Jónsson. Niðurstöður nefndarinnar voru kynntar félögum ERL og eftir umræður og minni háttar breytingar á þeim niðurstöðum var lýsingin samþykkt samhljóða á aðalfundi 2012 og kynnt rækilega, svo sem á vef- og fésbókarsíðum, í tölvupósti til ræktenda eftir föngum og í fjölmiðlum.
 
Útlitseinkenni landnámshænunnar
 
  • Fremur lítill haus miðað við búkstærð og goggur stuttur, breiður og boginn fremst.
  • Misstórir fjaðratoppar á haus algengir.
  • Kambar af ýmsum gerðum, einfaldur; annaðhvort beinn eða lafandi, rósakambur, blöðrukambur, kórónukambur og krónukambur.
  • Eyru hvít eða fölgul.
  • Separ langir á hönum en misstórir á hænum.
  • Augu gulgræn eða gulbrún/orange.
  • Háls fremur stuttur og sver.
  • Búkur þéttvaxinn, stutt bak sem mjókkar aftur og breið, hvelfd bringa.
  • Þyngd: hænur 1,4–1,6 kg og hanar 2,1–2,4 kg hjá fullvöxnum fuglum.
  • Fiðurhamur þéttur og sléttur.
  • Vængir breiðir og stuttir, mjókka aftur með búknum.
  • Stél hátt sett, mjög  hreyfanlegt. Hanar með nokkrar langar og bognar stélfjaðrir.
  • Litafjölbreytni mjög mikil, allir litir leyfðir.
  • Leggir langir og í mörgum litum.
  • Hænur venjulega með litla spora, en hanar með langa og uppsveigða spora.
  • Klær fjórar, afturkló eilítið innanfótar.
  • Leggir berir.
 
Atferliseinkenni
 
  • Mannelsk, forvitin og sjálfbjarga.
  • Heldur góðu jafnvægi.
  • Hænurnar hafa sterka móðurhvöt og vilja gjarna liggja á.
  • Hver einstaklingur hefur sinn persónuleika.
  • Frjósemi góð hjá báðum kynjum.
 
Leitað alþjóðlegrar viðurkenningar á landnámshænsnunum
 
Fyrir rúmlega þremur árum sendi áhugafólk um verndun erfðaefnis landnámskynjanna beiðni til mennta- og menningarmálaráðuneytisins um skráningu landnámskynja íslenskra húsdýra á lista yfir íslenskar menningarerfðir á Heimsminjaskrá UNESCO.  


Var það gert með tilvísun í samning um varðveislu menningarverðmæta hjá Sameinuðu þjóðunum frá 2003.  Landnámshænsnin eru þar með en þau, eins og önnur landnámskyn, eru þekkt fyrir mikla erfðafjölbreytni og hafa tvímælalaust sérstöðu, m.a. vegna einangrunar í landinu um aldir.  Í raun er um að ræða þjóðargersemar sem ber að varðveita óspilltar af blöndun við erlend kyn samkvæmt alþjóðlegum skuldbindingum.  Mál þetta er í vinnslu en ferlið getur tekið mörg ár.


Fyrir rúmum áratug tókst samstarf við Slow Food samtökin, alþjóðleg en upprunnin og með höfuðstöðvar á Ítalíu, um viðurkenningu íslensku geitarinnar í Bragðörk samtakanna (Ark of Taste). Slow Food leggur m.a. áherslu á að vernda líffræðilegan fjölbreytileika í dýrum og plöntum, þar með verndun sérstæðra búfjárkynja og afurða þeirra, einkum matvæla. Nú hefir geitin einnig fengið hina eftirsóttu Presidia-viðurkenningu samtakanna og nýlega voru lagðar fram umsóknir í Bragðörkina fyrir fleiri íslensk búfjárkyn, þar með íslensku landnámshænuna. Fulltrúar  frá Slow Food voru hér á ferð fyrir skömmu og kynntu sér m.a. ræktun og nýtingu þessara sérstæðu hænsna.


Þannig er með tvennum hætti stefnt að því að renna styrkari alþjóðlegum stoðum undir varðveislu landnámshænsnanna.

Ólafur R. Dýrmundsson
(oldyrm@gmail.com)

 

Samþykkt að skrá vottaða ræktendur á aðalfundi 2013

Í rökréttu framhaldi af fyrri aðgerðum var lögð fram tillaga á aðalfundi 2013 um að ERL komi upp skrá yfir viðurkennda ræktendur landnámshænsna, samkvæmt gildandi reglum um útlits- og atferliseinkenni. 
Fundur þessi var óvenju fjölmennur, enda verið að halda upp á 10 ára afmæli félagsins, og kom fram í líflegum umræðum nær einróma álit á því að brýnt væri að koma betri reglu á ræktunarmálin. Var tillagan samþykkt óbreytt með öllum greiddum atkvæðum og hefur núverandi stjórn unnið ötullega að því að koma upp skránni, hún er nú aðgengileg öllum á heimasíðu félagsins www.haena.is sem hefur nýlega verið uppfærð og meðal annars verið komið upp góðum myndabanka auk annarra gagnlegra upplýsinga. Einnig hafa Bændasamtökin gefið út veggspjöld í tveim stærðum af landnámshænunni sem er hægt að panta í gegnum heimasíðu samtakanna www.bondi.is
 
Stjórn ERL gefur út þessa ræktendaskrá í tvennum tilgangi:
 
  • Að koma reglu og festu á ræktunarstarfið með því að varðveita sem best hina miklu erfðafjölbreytni sem einkennir kynið.
  • Að tryggja kaupendum landnámshænsna fugla sem falla að viðurkenndum útlits- og atferliseinkennum ERL til hænsnanna.
 
Borið hefur á því að verið sé að selja fugla sem ekki falla að viðurkenndri lýsingu landnámshænsna, annaðhvort með fiðraða leggi eða vangaskegg. Bæði eru þetta ríkjandi eiginleikar sem sennilega hafa blandast inn í stofninn á seinni árum. Þessir eiginleikar voru ekki í upprunalega stofninum, það sýna bæði myndir og umsagnir fólks sem umgekkst þá fugla. Því miður er blöndunin í stofninum orðin það útbreidd að þessir óæskilegu eiginleikar geta komið upp á ólíklegustu stöðum, því þurfa allir ræktendur að vera vel vakandi yfir sinni ræktun. 
 
Könnun á stofnstærð
 
Í umræðum um varðveislu og innblöndun landnámshænunnar fyrir stuttu, komst ég yfir áhugaverða rannsókn sem gerð var af Hallgrími Sveini Sveinssyni fyrir Rannsóknarstofnun landbúnaðarins árið 1998, „Könnun á stofnstærð íslenska hænsnastofnsins“. 
 
Tilgangur verkefnisins var að kanna stofnstærð og dreifingu íslenska hænsnastofnsins og að athuga hvort tekist hafi að bjarga honum frá útrýmingu með aðgerðum Stefáns Aðalsteinssonar árið 1974. Í framhaldi af niðurstöðum könnunarinnar yrði síðan ákveðið næsta skref í því að auka útbreiðslu stofnsins og að halda honum hreinum. Verkefnið var unnið á vegum erfðanefndar búfjár. 
 
Athyglisverðast fannst mér að lesa, að aðeins var getið um fótafiður á 7 stöðum af 213 og ekkert getið um karlmannlegar hænur (skeggjaðar). Ég er því miður hrædd um að niðurstöðurnar yrðu aðrar og verri ef sambærileg könnun yrði gerð í dag. 
 
Auðveldara að skiptast á hreinræktuðum fuglum
 
Betri samgöngur milli landshluta hafa gert ræktendum auðveldara að skiptast á fuglum og því hefur fótafiður og vangaskegg breiðst hratt út á undanförnum 17 árum. Þeir eigendur sem vilja vernda stofninn sinn fyrir innblöndun þurfa að vara sig á þessu og passa að taka ekki nýja fugla inn í hópinn án þess að kanna hvaðan fuglarnir koma og í hvernig ástandi stofninn er sem fuglarnir koma frá. Í samtali nýlega við trúnaðarmann ERL á Norðurlandi kom fram að ástand stofnsins er verulega slæmt í þeim landshluta og fáir hafa staðist úttekt  og fengið skráningu ræktunarstofns. Það vakti athygli mína að flestir þessara blönduðu fugla komu frá einum stórum ræktanda sem var staðsettur norðanlands til margra ára. Við ræktun landnámshænunnar þurfa stórir afkastamiklir seljendur að passa sérstaklega vel upp á stofninn sinn, því ábyrgð þeirra er meiri en annarra sem selja ekki eða lítið sem ekkert. Að dreifa og selja blandaða fugla sem landnámshænur er ábyrgðarlaust gagnvart stofninum og ekki síður eru það svik við kaupendur ef þeir eru ekki upplýstir um þessa innblöndun. Því miður er ástand stofnsins orðið þannig að hver sem er getur lent í því að fótafiður dúkki upp hjá þeim en ef einhver óæskileg innblöndun á sér stað, þurfa ræktendur að vinna að því að hreinsa til hjá sér og grisja þetta út úr stofninum, sérstaklega þeir sem selja og dreifa fuglum, þeirra ábyrgð er stærst! Með því að skipta við viðurkennda ræktendur, sbr. meðfylgjandi skrá, verður lítil hætta á að fólk sé að kaupa „köttinn í sekknum“ en nokkuð er um að ERL hafi borist kvartanir um slíkt.
 
ERL vill þakka þeim sem sótt hafa um vottun og vilja taka þátt í þessu vandasama starfi.
 
Ása Lísbet, ritari ERL
(asalisbet@hotmail.com)
 
 
Heimildir
Friðrik G. Olgeirsson (2003). Alifuglinn. Reykjavík: Félag eggjaframleiðenda.
Sveinn Pálsson (1791). Ferðabók Sveins Pálssonar. Reykjavík: Prentsmiðjan Oddi.
Stefán Aðalsteinsson (2004). Sérstaða íslenskra húsdýra. Freyr, 5(100), 27.
Ólöf Ósk Guðmundsdóttir (2011). Erfðafjölbreytileiki innan íslenska hænsnastofnsins metinn með greiningu örtungla. BS-ritgerð. Landbúnaðarháskóli Íslands, Hvanneyri.
Ásta Þorsteinsdóttir (2012). Afurðir og einkenni íslenska hænsnastofnsins  BS-ritgerð. Landbúnaðarháskóli Íslands Hvanneyri.
C. M. Lyimo*, A. Weigend*, P. L. Msoffe, H. Eding, H. Simianer and S. Weigend*. Global diversity and genetic contributions of chicken populationsfrom African, Asian and European regions. www.academia.edu/9110645/Global_diversity_and_genetic_contributions_of_chicken_populations_from_African_Asian_and_European_regions
Hallgrímur Sveinn Sveinsson (1998). Könnun á stofnstærð íslenska hænsnastofnsins. Rannsóknarstofnun Landbún­aðarins, Erfðanefnd búfjár.

5 myndir:

Skylt efni: Landnámshænan

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...