Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Börnin bíða spennt eftir því að fá í skóinn og gjafir á aðfangadagskvöld.
Börnin bíða spennt eftir því að fá í skóinn og gjafir á aðfangadagskvöld.
Á faglegum nótum 23. desember 2020

Jól í gamla daga

Höfundur: Vilmundur Hansen

Jól og áramót eru í huga flestra skemmtilegur tími þegar fjölskyldan kemur saman og gerir sér glaðan dag. Vinir og vandamenn gefa hver öðrum gjafir og gleyma gömlum deilumálum, að minnsta kosti um stundarsakir.

Sumir tengja jólin fæðingu Krists, aðrir halda upp á þau til að fagna því að sólin fer að hækka á lofti og börnin bíða spennt eftir því að fá í skóinn og gjafir á aðfangadagskvöld.

Veðurspá tengd jólunum

Í íslenskum þjóðháttum eftir Jónas Jónasson frá Hrafnagili segir að ef sólskin og heiðviðri er á jóladaginn, verður gott ár, en sama veður annan í jólum boðar harðindi. Ef hreinviðri er og úrkomulaust á aðfangadag og jólanótt, boðar það frostasamt ár, en ef öðruvísi viðrar, veit á betra.

Sé jólanótt kyrr og klár,
koma mun gott og frjósamt ár;
en sé þá vindur og úrfelli
ei mun gras mikið á velli.

Ef gott er um jólin, verður illt um páskana, en gott um páskana, verður illt um næstu jól. Þetta er dregið saman í talsháttinn: Rauð jól hvítir páskar; hvít jól rauðir páskar.
Jónas segir að menn hafi haft mikla trú á þessum dögum en að í sinni tíð hafi trúin verið farin að dofna mjög.

Þetta er líka sá árstími þegar alls konar kynjaverur fara á stjá, jólasveinarnir koma til byggða, álfar flytja búferlum og tröll halda veislur. Það er því ekki hættulaust að vera einn á ferli á þessum tíma ef mark er tekið á þjóðsögum sem tengjast jólunum.

Tröllajól

Í Bárðar sögu Snæfellsáss segir frá allsvakalegu jólaboði sem Hít tröllkona stóð fyrir í Hundahelli í Hítardal. Til veislunnar bauð hún meðal annarra Bárði Snæfellsás sem var af risakyni í föðurætt, Gesti syni hans og mörgum tröllum. Þar var Surtur af Hellisfitjum og Jóra úr Jórukleif, Kolbjörn í Breiðdalsbotnum, Glámur og Ámur úr Miðfjarðar­nesbjörgum og Guðlaugur úr Guðlaugshöfða.

„Voru þá borð upp tekin og matur á borinn, heldur stórkostlegur. Drykkja var þar mjög óstjórnleg, svo að allir urðu þar ginntir. En er máltíð var úti, spurðu þursar og Hít, hvað Bárður vildi til gamans hafa [. . .]. Bárður bað þá fara til skinnleiks. Stóðu þeir þá upp Bárður og Surtur,

Kolbjörn, Guðlaugur og Gljúfra-Geir, og höfðu hornskinnaleik; var þá ekki svo lítið um þá, -- þó var auðséð að Bárður var sterkastur, þó hann væri gamall. Bjarnfeld einn stóran höfðu þeir fyrir skinn, og vöfðu hann saman og köstuðu honum á milli sín fjórir, en einn var úti og skildi sá ná. Ekki var gott að vera fyrir hrundningum þeirra. Flestir stóðu uppi á bekkjum nema Gestur, hann sat kyrr á rúmi sínu. En þá er Kolbjörn var úti, ætlar hann að ná skinni fyrir Bárði og hljóp heldur snarlega. En er Gestur sá það, skaut hann fætinum fyrir Kolbjörn, svo þursinn hraut þegar út á bergið svo hart, að brotnaði í honum nefið, – féll þá blóð um hann allan. Varð þá upphlaup og hrundningar heldur sterklegar; vildi Kolbjörn hefna sín á Gesti.“

Gandreiðin

Jólin eru magnaður tími og svo virðist sem öll náttúrulögmál snúist á hvolf. Eftirfarandi lýsing er höfð eftir Jóni Sigurðssyni á Gautlöndum og segir frá ungum vinnumanni sem hafði ráðið sig til starfa á kirkjujörð. „.... á aðfarakveldi jóla er drengur úti í hesthúsi að kemba og hirða eldishesta prestsins. Hann veit ekki fyrr til en konu prestsins vindur þar inn og gefur hún sig á tal við dreng um ýmsa hluti. Og er minnst varði bregður hún beisli undan svuntu sinni og leggur við dreng; fylgir því svo mikið töfraafl að drengur líður prestkonunni að fara á bak sér, og hleypur hann þegar á stað sem fugl fljúgi. Fer hann yfir fjöll og dali, kletta og klungur og hvað, sem fyrir er, – er því líkast sem hann vaði reyk mikinn.“

Dansferðir í mannahíbýlum

Samkvæmt Þjóðsögum Jóns Árnasonar er mikið um að álfar séu á ferð um jólin. „Bæði er skemmtanatími þeirra mestur um það leyti ársins [. . .] en um jólin hafa þeir samsæti og veizlur, hljóðfæraslátt og dansferð ýmist í mannahíbýlum eða í álfabyggðum, og þar að auki halda þeir fardaga sína um nýjárið.“ Stundum kom fyrir að mennskir menn rötuðu í álfaveislur á jólanótt eins og segir í sögunni Álfar hjá Víðivöllum. „Í klöppum hjá Víðivöllum sá maður nokkur á jólanóttina stórt hús allt ljósum prýtt. Hann gekk þar inn og fékk góðar viðtökur og ágætan beina; morguninn eftir er hann vaknaði lá hann á berum klettunum og sá hvorki veður né reyk eftir af stóra húsinu.“

Sögur um jólagleði álfa hefjast oft á því að heimilisfólkið er á leið til kirkju og að einhver einn, maður eða kona, verður eftir til að gæta bæjarins. Þegar líður fram á kvöld koma álfarnir inn í bæinn og halda skemmtun og sá sem heima situr missir vitið eða deyr. Þeir sem halda glórunni og lifa álfageimið af gera það yfirleitt eftir að djammið hefur endurtekið sig í tvö eða þrjú ár með fyrrgreindum afleiðingum.

„Einn hring enn, móðir mín“

Það eru þó fleiri en álfar og tröll sem hafa gaman af því að skemmta sér um jólin. Einu sinni var prestur í Hruna í Árnessýslu sem mjög var gefinn fyrir skemmtanir og gleðskap. Presturinn messaði ekki fyrri part nætur eftir að fólk var komið til kirkju, „heldur hafði dansferð mikla í kirkjunni með sóknarfólkinu, drykkju og spil og aðra ósæmilegar skemmtanir langt fram á nótt“.

Presturinn átti aldraða móður sem hét Una og var mjög á móti háttalagi sonar síns og bað hann oft um að huga frekar að guði en skemmtanahaldi en hann hirti ekkert um það og hélt uppteknum hætti.

Eina jólanótt var presturinn lengur að en venja var og bað móðir hans hann í þrígang að hætta en hann sagði ávallt: „Einn hring enn, móðir mín“. Þegar Una gamla gengur frá syni sínum í þriðja sinn heyrir hún kveðið utan við kirkjuna:

Hátt lætur í Hruna
hirðir þangað bruna;
svo skal dansinn duna
að drengir megi það muna.
En er hún Una
og enn er hún Una.

Þegar kerlingin kom út sá hún mann sem hún taldi vera djöfulinn sjálfan. Una söðlaði því hest og reið allt hvað af tók til næsta prests. Þegar hún kom aftur að Hruna ásamt prestinum og fleiri mönnum – „var kirkjan og kirkjugarðurinn sokkinn með fólkinu í, en þeir heyrðu ýlfur og gaul niðri í jörðinni“.

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...