Kengúrur – Skippy á grillið
Kengúrur eru einu stóru spendýrin sem hoppa til að koma sér á milli staða. Mestur er fjöldi þeirra í Ástralíu. Kengúrukjöt er fitulítið og svipar til nautakjöts. Þættirnir um kengúruna Skippy nutu gríðarlegra vinsælda í sjónvarpi um allan heim á áttunda áratugnum og ekki síst hér á landi.
Ástralía er helsti framleiðandi kengúrukjöts í heiminum og árið 2014 var kjötið flutt til tæplega 60 landa. Mestur var útflutningurinn til Þýskalands og Frakklands. Þrátt fyrir að frumbyggjar og margir seinni tíma landnemar í Ástralíu neyti kengúrukjöts með bestu lyst hófst útflutningur á því ekki fyrr en 1959.
Útflutningur á kjötinu hefur verið sveiflukenndur frá upphafi. Í nokkrum löndum er innflutningur á kengúrukjöti bannaður vegna dýraverndunarsjónarmiða eða vegna þess að kengúrur eru svo mikil krútt að ekki má drepa þær og borða. Innflutningur á kengúrukjöti var bannaður til Rússlands á tímabili og tengist bannið því að upp komst um að hluti kjötsins sem þangað var flutt var hrossakjöt en ekki kengúra.
Eitthvað hefur verið flutt inn af frosnu kengúrukjöti til Íslands undanfarin ár. Í einu tilfelli reyndist pökkunardagur kjötsins vera að minnsta kosti átta mánuðum fyrr en merkingar hér gáfu til kynna. Ný pökkunardagsetning hafði verið límd yfir þá upprunalegu af íslenska innflytjandanum.
Fleiri kengúrur en fólk
Áætlanir gera ráð fyrir að hátt í 50 milljón kengúrur finnist í Ástralíu, sem er rúmlega tvöfaldur fjöldi íbúa. Flestar tegundir eru friðaðar að því undanskildu að innfæddir mega veiða þær sér til matar.
Eftirspurn eftir kengúrukjöti er talsverð í Ástralíu og vinsælt að fara á kengúruveiðar í þeim fylkjum álfunnar þar sem slíkt er leyft. Á hverju ári eru gefin leyfi til að veiða um sjö milljón kengúrur á svæðum þar sem þær eru sagðar valda skemmdum á gróðri og uppblæstri vegna ofbeita. Langmest af kengúrukjöti fæst af dýrum sem eru veidd en eldi á kengúrum fer vaxandi. Kjöt sem ekki fer til manneldis er notað í gæludýrafóður.
Fanganýlendan Ástralía
Frumbyggjar Ástralíu komu til álfunnar fyrir 50 til 70 þúsund árum en talið er að hollenski landkönnuðurinn Willem Janszoon hafi fyrstur Evrópubúa stigið þar fæti 1606. Bretinn James Cook kannaði austurströnd álfunnar 1770 og fyrstu landnemarnir voru sendir til Ástralíu í upphafi árs 1788.
Fyrstu landnemarnir voru Bretar sem sendir voru til Ástralíu sem fangar til að afplána refsingu sína, í nýrri fanganýlendu, þar sem öll fangelsi í heimalandinu voru yfirfull og ódýrast þótti að losna við hina dæmdu í annan heimshluta. Skipalestin sem varpaði akkerum í Botany Bay í janúar 1788 samanstóð af ellefu skipum og um 1500 farþegum, dæmdum morðingjum, þjófum, hórum, ofdrykkjufólki og geðsjúklingum.
Ekki er ólíklegt að landnemarnir hafi lært að borða kengúrur og önnur pokadýr af frumbyggjunum.
Kjötætukengúrur og kengúrur í dag
Ekki er vitað með vissu hvenær forverar kengúra eins og við þekkjum þær komu fram á sjónarsviðið en talið er að það hafi verið fyrir að minnsta kosti 20 milljón árum. Fundist hafa steingervingar fjölda tegunda kengúra sem eru útdauðar í dag. Ein þeirra kallast Procoptodon goliah og náði 2,6 metrum á hæð og var grasbítur. Einnig eru til minjar um fornsögulegar kjötætukengúrur sem kallaðar eru pokaljón, Thylacoleo carnifex, og lifðu í skóglendi Austur-Ástralíu og veiddu grasbíta.
Kengúrur eru pokadýr. Þær eru grasbítar með beittar tennur og finnast villtar í Ástralíu, Tasmaníu, Papúa Nýju-Gíneu og Bismarck-eyjum auk þess sem kengúrur voru fluttar til Nýja-Sjálands þar sem þeim hefur fjölgað mikið.
Þrátt fyrir að magi kengúra sé þrískiptur og þær tvítyggi stundum fæðuna eru þær ekki jórturdýr eins og nautgripir og sauðfé. Kengúrur eru vel aðlagaðar þurru loftslagi og geta lifað án þess að komast í vatn í nokkra mánuði.
Kengúrur í dag eru flokkaðar í 65 tegundir og sífellt eru nýjar tegundir að bætast við. Fjórar stærstu tegundirnar tilheyra ættkvíslinni Macropus og vísar heitið til stærðar fótanna. Algengasta tegundin kallast rauðkengúran, M. rufus, og er útbreiðsla hennar mest á graslendi í Austur- og Suðvestur-Ástralíu og í Tasmaníu. Náskyld rauðkengúrunni er austurgrákengúra, M. giganteus, sem finnst í Queensland-fylki og suðaustur hluta álfunnar. Vesturgrákengúrur, M. fuliginosus, halda sig í Vestur- og Suður-Ástralíu og vegur fullvaxið karldýr um 54 kíló. Svokallaðar antilópukengúrur, M. antilopinus, er að finna í norðurhluta Ástralíu.
Ýmislegt er sameiginlegt í atferli tegunda af ættkvíslinni Macropus. Þær halda sig í hópum með 10 til 15 dýrum og einu ríkjandi karldýri. Dýr í sama hópi eða liði eyða talsverðum tíma í að snerta hvert annað og stinga saman nefjum, eða öllu heldur snoppum, og þefa af hvert öðru til að tryggja félagsstöðu sína. Lægra sett dýr beygja höfuðið nær jörðu en hærra sett dýr í goggunarröðinni bera höfuðið hærra við þuklið og þefingarnar.
Forustudýrið, sem kallast boomer í Ástralíu, sýnir yfirburði sína í hópnum með því að sparka, bíta og boxa væntanlega keppinauta sína niður. Þessar kengúrutegundir eru þekktar fyrir að hoppa.
Trjákengúrur tilheyra ættkvíslinni Dendrolagus og lifa í skóglendi Papúa Nýju-Gíneu og skógum í Queensland-fylki í Ástralíu. Þær eyða deginum uppi í trjám, en þegar skyggja tekur fara þær niður á jörðina og éta. Trjákengúrur hoppa ekki heldur ganga.
„Ég skil þig ekki“
Orðið kengúra á íslensku er komið úr ensku kangaroo sem aftur er dregið af orðinu gangurru og vísar til grákengúru á tungumáli Guugu Yimithirr-fólksins í Ástralíu. Heitið gangurru var fyrst skráð í dagbók Sir Joseph Banks, 12. júlí 1770.
Önnur skýring á heitinu er sú að Cook skipstjóri og Banks náttúrufræðingur hafi verið í rannsóknaleiðangri og spurt innfæddan Ástrala um heitið á kengúru. Svar þess innfædda var gangurru sem á máli Guugu Yimithirr þýðir „ég skil þig ekki“ en Banks taldi að um nafn dýrsins væri að ræða. Þessi saga mun hafa verið afsönnuð tvö hundruð árum seinna, 1970, af málfræðingi sem rannsakaði tungumál Guugu Yimithirr-fólksins.
Útlit og uppeldi
Kengúrur hafa lítinn haus og framlimi en nokkuð stóran belg. Afturlappirnar eru stórar og sterkar, halinn er langur og kraftmikill og gerir þetta kengúrum kleift að stökkva langar vegalengdir. Stórar kengúrur geta stokkið allt að níu metra í einu stökki og vitað er um kengúru sem stökk 13,5 metra. Á venjulegu skoppi hoppa kengúrur á 20 til 25 kílómetra hraða á klukkustund en á flótta ná þær 40 kílómetra hraða talsvert langa vegalengd en allt að 70 kílómetra hraða á stuttum vegalengdum
Kengúrur eru góðar til sunds og leita iðulega út í vatn á flótta undan rándýrum. Elti rándýrið kengúruna út í vatnið snúast þær til varnar og eiga til að kaffæra rándýrið með framlimunum og drekkja því.
Framan á kvenkengúrum er eins konar poki þar sem afkvæmin eyða fyrstu mánuðum ævinnar.
Að öllu jöfnu eignast kengúrur einn unga á ári. Afkvæmið er um tveir sentímetrar að lengd og um eitt gramm að þyngd við fæðingu. Strax eftir fæðingu skríður afkvæmið í pokann sem er framan á móðurinni og er þar í sjö til tíu mánuði, eftir tegundum, og nærist á mjólk sem það fær úr fjórum spenum.
Eftir að afkvæmið er komið í pokann er kvenkengúran tilbúin til mökunar. Eftir frjóvgun þroskast fóstrið í um eina viku en fer síðan á dvalarstig sem lýkur þegar unginn í pokanum yfirgefur hann. Fæðing albínóa kengúra er vel þekkt.
Stórvaxnar tegundir kengúra hafa aðlagast betur breytingum á landslagi í kjölfar aukins landbúnaðar og beitar búfjár en smávaxnar tegundir. Í dag eru margar minni tegundir orðnar mjög sjaldgæfar og í útrýmingarhættu.
Venjulegur líftími kengúra í náttúrunni er 10 til 15 ár en vitað er um kengúrur sem hafa náð 20 ára aldri.
Eru kengúrur örvhentar?
Skoðun á atferli kengúra sýndi að flestar þeirra kjósa að nota vinstri framliminn þegar þær borða og snyrta sig og má því segja sem svo að kengúrur sé örvhentar. Könnunin er sú fyrsta sem er gerð á því hvorn framliminn dýr, að manninum undanskildum, nota meira. Andstætt við kengúrur er rétthent fólk í meirihluta.
Reyndar sýna óformlegar athuganir að nokkrar tegundir pokadýra í Ástralíu sem nota framlimina til gangs og verka beiti fremur vinstri framlim til að borða með. Könnunin hefur verið harðlega gagnrýnd á þeim forsendum að úrtak hennar sé allt of lítið og því ekkert mark á henni takandi.
Kengúrublinda
Vírussjúkdómur sem veldur blindu hefur lengi hrjáð kengúrur í Ástralíu. Á síðasta áratug síðustu aldar jókst útbreiðsla hans í álfunni til muna. Yfirvöld í Ástralíu hafa lýst yfir áhyggjum á að sjúkdómurinn geti borist í búfé og jafnvel menn.
Nytjar af kengúrum
Kengúrukjöt er prótein- og járnríkt en fitusnautt. Um 2% fita er í kjötinu, sem er rautt og mjúkt undir tönn og svipar til nautakjöts en bragðsterkara. Það hentar vel í pottrétti eða á grillið, hvort sem fólk vill sitt kjöti „rare“ eða „well done“.
Kjötið er sagt hollt og í Ástralíu eru til óformleg samtök grænmetisæta sem leyfa sér að borða kengúrukjöt og kallast kangatarianistar. Kjötið nýtur einnig vinsælda á þeim forsendum að það sé villibráð og laust við sýklalyf og vaxtarhormóna.
Auk þess sem kjöt af kengúrum er nýtt er unnið leður úr húðum þeirra og verkfæri og listmunir úr beinunum. Kengúruleður er sagt með allra þynnsta, léttasta og sterkasta leðri sem hægt er að fá. Sérstaða leðursins felst í trefjum sem liggja þvert á yfirborð þess og auka styrkinn. Leðrið er teygjanlegt, rakahelt og eldþolið frá náttúrunnar hendi og meðal annars notað í fótbolta og eldvarnarhanska. Fótboltaskór Davids Beckham eru handsaumaðir úr kengúruleðri.
Leðurbelgir úr kengúrum voru notaðir og eru enn til að bera í og geyma vatn og matvæli.
Nefskraut úr kengúrubeini og hellamyndir
Bein úr kengúru sem stungið var í gegnum miðnesið er með allra elstu skartgripum sem fundist hafa. Beinið, sem er 13 sentímetra langt, fannst ásamt öðrum mannvistarleifum við fornleifarannsóknir í helli Ástralíu vestanverðri. Samkvæmt aldursgreiningu er beinið og aðrir munir sem fundust í hellinum um 46 þúsund ára gamlir.
Árið 1995 fundust meira en 200 hellamyndir frumbyggja í Ástralíu af kengúrum. Myndirnar eru taldar vera yfir 4000 ára gamlar.
Skippy the Bush Kangaroo
Á hverju ári kemur til fjölda árekstra milli kengúra og bíla í Ástralíu. Kengúrur laðast að bílljósum í myrkri og eiga það til að hoppa á miklum hraða að ljósinu og um leið fyrir bílana með skelfilegum afleiðingum fyrir kengúrurnar og farþega bílanna.
Kengúrur eru yfirleitt fælnar og forðast menn. Afar fá dæmi eru um að kengúrur ráðist á fólk en í einu tilfelli mun karldýrskengúra hafa ráðist á 93 ára gamla konu í garðinum við heimili hennar. Sagan segir að gamla konan hafi sprautað piparúða framan í árásardýrið og það lagt á flótta.
Þrátt fyrir að kengúrur séu mannfælnar er hægt að temja þær og kenna kúnstir séu þær vandar frá unga aldri.
Á seinni hluta sjötta og fram á áttunda áratug síðustu aldar nutu áströlsku sjónvarpsþættirnir Skippy the Bush Kangaroo vinsælda víða um heim. Þeir voru meðal annars sýndir í ólíkum löndum og menningarsvæðum eins og Gana, Kanada, Mexíkó, Kúbu, Þýskalandi, Rússlandi, Íran og hér á landi. Þættirnir fjölluðu um ævintýri ungs drengs og kengúrunnar Skippy. Vinsældir þáttanna voru reyndar svo miklar að þeir voru á sínum tíma mest útflutta ástralska sjónvarpsefni allra tíma. Flestir Íslendingar um fimmtugt ættu að muna eftir þáttunum og ekki síður kynningarstefinu og textanum í því.
Skippy, Skippy, Skippy the Bush Kangaroo,
Skippy, Skippy, Skippy our friend ever true.
Kengúra kemur einnig við sögu í gamanmyndinni Kangaroo Jack sem segir frá bandarískum félögum, hárskera og tónlistarmanni, sem lenda í útistöðum við misindismenn. Félagarnir eru neyddir til að fara með háa peningaupphæð til Ástralíu fyrir bófana. Félagarnir keyra óvart á kengúru sem rotast og sér til skemmtunar ákveða þeir að setja á hana sólgleraugu og klæða í rauða hettupeysu og taka mynd af henni.
Kengúran raknar úr rotinu áður en þeir ná að klæða hana úr jakkanum og hoppar hún burt með peningana í vasanum.
Kengúrur eru óopinbert tákn Ástralíu og þær eru hluti af skjaldarmerki álfunnar og skreyta ástralska eins dals mynt.
Ekki er vitað til þess að sótt hafi verið um leyfi til að flytja inn lifandi kengúrur til Íslands.