Kíví – loðið, ljúft og laglegt
Víða í skógum, kjarrlendi og fjalladölum Kínaveldis má rekast á sérkennilega og snotra vafningsviði sem hlykkjast upp eftir trjástofnum og breiða sig út í trjákrónum gestgjafanna. Flestir hafa þeir gljáandi leðurkennd, hjartalaga laufblöð og skrautleg blóm með sex krónublöðum, nokkur saman í klösum.
Plönturnar eru það sem kallað er „sérbýlisjurtir“, þ.e. að ýmist eru plönturnar karlkyns eða kvenkyns. Þær fella lauf á haustin og laufgast aftur á vorin. Blómin eru einkar sérkennileg fyrir það, að út frá þykkum kólfi í miðju þeirra standa fræflar eða frævur í geislamynstri líkt og við þekkjum frá „carmen-rúllunum“ sem allar tilhaldskonur þekktu í eina tíð fyrir ekki svo mörgum áratugum. Af þessu geislamynstri dregur ættkvíslin nafn sitt og kallast Actindia á fræðimálinu. Íslenska heiti ættkvíslarinnar, fléttur, er hvorki sérlega frumlegt né lýsandi og virðist vera vitnisburður um tímahrak þýðenda grasafræði- og garðyrkjubóka. En það verður að duga þar til betri uppástunga kemur fram. Geislaflétta gæti gengið en er of stirt í samsetningum.
Fimmtíu tegundir
Til ættkvíslarinnar Actindia teljast rúmlega fimmtíu tegundir, allar dreifðar um austurhluta Mið-Asíu. Frá fornu fari hafa nokkrar þeirra verið ræktaðar. Ýmist vegna skrautlegra blaða líkt og kattafléttan eða kameljónafléttan, Actindia kolomikta, eða vegna berjanna eins og t.d. broddfléttan, Actindia arguta, sem á ensku kallast „chinese gooseberry“ en á nágrannamálum okkar „stikilsberja-kíví“ eða „míní-kíví“. En síðast en ekki síst er kívífléttan – kívíberin – sem nú kallast Actindia deliciosa eftir að fræðimenn gáfu henni sjálfstæði frá þeiri síðasttöldu. Við nánari rannsókn á síðari árum hefur nefnilega komið í ljós að hún mun vera „ræktunartegund“ sem orðin er til eftir kynblöndun annarra tegunda á þeim nokkur þúsund árum sem hún hefur verið í ræktun. Hún hefur ekki dreift sér út af sjálfsdáðum og þarf aðhlynningu manna til að komast á legg.
Allar tegundirnar eru sérbýlisjurtir og því þarf bæði karl- og kvenplöntur til að blómin frjóvgist og plönturnar þroski berin. Lögun og stærð berjanna getur verið mismunandi eftir tegundum. Sumar tegundanna þroska ber að stærð og lögun eins og stikilsber. Hjá öðrum eru þau líkt og fingur að lengd og gildleika. En þær tvær tegundir sem einkum eru ræktaðar vegna berjanna þroska nokkuð stór, flategglaga ber á stærð við andaregg. Gullkíví er beinn afkomandi broddfléttunnar og eru gul í gegn og með hárlausu hýði. Þau eru sjaldséð í verslunum langt frá ræktunarlöndunum. En hin eiginlegu kívíber eða kívíaldin eru nokkuð bosmameiri, móloðin að utan en að innan með fallega grænu og safaríku aldinkjöti. Um þau fjallar afgangurinn af þessum pistli.
Nýsjálensk kennslukona og tveir karlar
Lítið hafði heimurinn heyrt um „kínversku stikilsberin“ fram yfir aldamótin 1900. En þá bar það við að nýsjálensk kennslukona, Mary Isabel Fraser að nafni, kom með nokkur fræ heim með sér eftir að hafa heimsótt vinkonu sína á kristniboðsstöð í bænum Yichang við Gulafljót í Kína árið 1904. Fræjunum kom hún til nágranna síns, Alexander Allison, sem var bóndi með brennandi áhuga á sjaldséðum nytjaplöntum. Alexander tókst vel til og fékk fyrstu „kínversku stikilsberin“ um 1910. Tíu árum seinna hafði hann valið úr nokkrar góðar plöntur sem hann seldi til gróðrarstöðva vítt um kring. En um þessar mundir vaknaði áhugi Nýsjálendinga á að finna heppilegar tegundir ávaxta sem hentuðu nýsjálensku loftslagi og gætu orðið undirstaða fyrir ávaxtarækt í stórum stíl. Þá kom til sögunnar garðyrkjumaðurinn Hayward Wright. Hann víxlfrjóvgaði fram og aftur þann efnivið sem Mary Isabel hafði upphaflega komið með frá Kína. Að lokum hafði hann fengið fram yrki sem stóðst flestar væntingar. Það var hraust og kröftugt, var auðræktað og skilaði stórum berjum sem þoldu langa geymslu og flutning um langan veg. Þetta yrki kynnti hann stoltur á sýningu 1956. Og það var ekki að sökum að spyrja. Til heiðurs honum var það nefnt 'Hayward‘ og var lengi vel eina yrkið sem hentaði í stórræktun og útflutning til annarra landa. En fyrst í stað stóð samt „Chinese Gooseberry HAYWARD“ á merkimiðanum.
Nýtt nafn – nýir tímar og þjóðarfuglinn
En þetta gamla enska nafn þótti ekki hentugt þegar ljóst varð að ávöxturinn var á hraðri leið út á heimsmarkaðinn. Nokkrar uppástungur höfðu komið fram, en árið 1959 var ákveðið að tengja þennan ávöxt endanlega við Nýja-Sjáland með því að gefa honum nafn nýsjálenska þjóðarfuglsins kíví. Þar þóttu líkindin líka góð hvað varðaði sköpulag og áferð. Hinn kubbslegi kívífugl með sitt móloðna yfirbragð fékk því að ljá honum nafn sitt. Upphaflega var þó varlega farið í sakirnar og ávöxturinn látinn heita „kiwifruit“. En fyrr en varði var það nafn einfaldlega stytt í „KIWI“ og það nafn er nú notað um allan heim eða því sem næst. Á íslensku höfum við þó einfalt vaff í nafninu.
Framvinda og heimsverslun nú
Eftir að kíví varð ein aðalútflutningsvara Nýsjálendinga komu fram mun fleiri yrki sem þoldu flutningshnjask og langa geymslu. Og Nýsjálendingar voru lengi vel einir um hituna.
Meginuppskera hjá þeim er á haustmánuðum Suðurhvels, þ.e. í apríl. En ekki leið á löngu þar til farið var að rækta kíví í fleiri löndum þar sem loftslag hentar til þess. Ítalía, Chile, Brasilía og Ástralía eru nú þau lönd sem kívíræktun er mikil.
Nú orðið hefur Ítalía tekið forystuna í kívíræktuninni og nýtur þess að uppskerutíminn þar er á haustmánuðum Norðurhvels, þannig að þeir eiga vetrarmarkaðinn hér á Vesturlöndum. Þannig má reikna með að þau kívíaldin sem við kaupum á veturna komi frá Ítalíu en á sumarmarkaði fáum við þau frá Nýja-Sjálandi. Til að þrífast þurfa plönturnar vel framræstan, frjóan jarðveg. Skjól fyrir vindum og nægan jarðraka árið um kring. Og síðast en ekki síst góða vörn gegn frosti.
Ræktun hér á norðurslóðum
Nokkuð er um að garðeigendur í nágrannalöndunum reyni sig við ræktun á kívíplöntum. Komið hafa fram yrki sem beinlínis eru ætluð til þess. Jafnframt hafa þróast yrki sem eru tvíkynja og geta frjóvgast af eigin frjódufti. Kívíplöntur hafa jafnvel fengist hér í garðplöntuverslunum á vorin. Í þeim tilvikum er undantekningarlaust, má telja, tvíkynja plöntur. En ef við ætlum sjálf að rækta kíví, þarf sú ræktun að fara fram í frostlausum gróðurhúsum. Plönturnar þurfa mikið rými, hver planta þarf að minnsta kosti þriggja til fjögurra fermetra vaxtarrými á vegg og þræði til að vefja sig upp eftir. Og þá gildir einu hvort við erum með hina eiginlegu, berjastóru kívífléttu ellegar þær tegundir sem nágrannar okkar kalla „mínikíví“. Hvort heldur sem er, þurfum við gróðurhús til að dæmið gangi upp. Engin tegundanna þolir vetrarálagið hér utandyra.
Á síðustu árum hefur samt verið lögð nokkur vinna í það, í löndunum sem næst okkur eru, að fá fram harðgerðari yrki sem geta staðið af sér frostkalda umhleypingavetur og skilað af sér árlegri uppskeru úti í görðum. Svo við verðum bara að bíða þolinmóð. Sumir hafa sáð fræjunum innan úr kívíberjum að gamni sínu. Fræin spíra vel og plönturnar komast á legg en það tekur þær fimm til tíu ár að verða kynþroska. Og til að von sé um að þær skili berjum verðum við að muna að það þarf tvo til, karlplöntu og kvenplöntu, svo við þurfum mikla þolinmæði og gott pláss til að bíða eftir árangrinum.
Kívíberið sjálft eins og við þekkjum það
Að utan móloðið. Að innan með grænu, sætsúru aldinkjöti og svörtum fræjum sem geislast í hring út frá kólflaga miðju séð horft á það þverskorið. Berin eftirþroskast þegar búið er að tína þau af plöntunni og það þarf að geyma þau í kæli við ákveðnar aðstæður til að þau endist lengi á lager. Séu kæliaðstæður góðar geymast þau í fjóra til fimm mánuði. En inni í stofuhita ofþroskast þau á fimm til sex dögum og verða þá fremur ólystug. Fyrir notkun þarf að afhýða þau. Í hýðinu eru efni sem geta valdið ofnæmisgjörnum nokkrum vandræðum. Kívíber eru afar auðug af C-vítamíni og öðrum næringarefnum. Einnig innihalda þau efni sem brjóta niður eggjahvítu. Því eru þau oft notuð til að meyra kjöt. Þessi meyringarefni valda því að ekki er hægt að nota kíví í hleyptar sultur eða rétti þar sem matarlím kemur við sögu. Kíví er gott sem mauk saman við skyr eða jógúrt. Það má nota það sem tertuskraut. Og svo auðvitað eins og það kemur fyrir og maður mokar því upp í sig með teskeið innan úr hýðinu.