Land Rover Defender
Höfundur: Hjörtur L. Jónsson - liklegur@internet.is
Eftir að hætt var að framleiða Land Rover Defender, þennan hefðbundna jeppa sem allir Íslendingar kannast við og eiga minningar um, kom eyða og spurningarmerki um framtíð Land Rover. Hvort söngur Helga Björns og Reiðmanna vindanna um „Land Rover-ferðina“ hafi haft áhrif eða flýtt fyrir hönnun á nýjum Defender skal ósagt, en bíllinn er kominn og verður frumsýndur laugardaginn 6. júní hjá BL.
Fékk bílinn lánaðan í smástund
Eftir stutta og snarpa samningalotu við Karl, sölustjóra Land Rover bíla í BL, náði ég að fá örstuttan prufurúnt á bílnum á fáförnum vegum í nágrenni Reykjavíkur. Veðrið síðastliðinn föstudagsmorgun var ekki til að hrópa húrra fyrir gagnvart myndatöku, en varð að duga.
Eins og um var samið var farið eins stutt og hægt var, en þessi stutti akstur var nóg til þess að finna að þarna er bíll sem lofar góðu, mun stærri og rýmri að innan en ég hafði gert mér í huga, krafturinn fínn, fjöðrunin á malarveginum sem ég ók át holurnar.
Fullbúið varadekk og afturljósin sjást mjög vel.
Defender greinilega hannaður frá grunni, ekkert sem minnir á þann gamla
Eftir að hafa gengið í kringum bílinn, skoðað hann innan og utan, sýnist mér þessi bíll stefna í að vera draumabíll þeirra sem ætla að ferðast innanlands í sumar, kemur með festingabogum á toppinn. Fínt fyrir það sem kallað er „tengdamömmubox“. Þá er krókur til að draga hjólhýsið, fullbúið varadekk og mikið pláss fyrir aftan aftursætin.
Greinilegt að ég þarf að prófa þennan bíl aftur og betur. Þar sem að ekki er búið að frumsýna bílinn vantar mig töluvert af tæknilegum upplýsingum um bílinn. Þrátt fyrir að ég telji mig kláran að fá menn til að tala af sér tókst mér ekki að fá Karl sölustjóra til að missa út úr sér verðið á bílnum (verð að bíða eftir frumsýningardeginum, næstkomandi laugardag 6. júní).