Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Hópurinn samankominn hjá leirhermönnunum í Xi’an.
Hópurinn samankominn hjá leirhermönnunum í Xi’an.
Mynd / SS
Á faglegum nótum 18. desember 2019

Landbúnaðarferð til Kína - seinni hluti

Höfundur: Snorri Sigurðsson, snsig@arlafoods.com
Dagana 27. október til 8. nóvember sl. stóð yfir ferð 40 Íslendinga, aðallega íslenskra bænda, til Kína en tilgangur ferðarinnar var að kynna sér þarlendan landbúnað og þá aðallega kúabúskap. Í ferðinni var farið til fjögurra borga í þeim tilgangi að sækja kín-verska bændur heim, en auk þess var auðvitað tækifærið gripið til þess að skoða og upplifa nokkra af helstu ferðamannastöðum landsins. 
 
Hér á eftir fer síðari hluti frásagnar um hinn faglega hluta þessarar ferðar, en fyrri hluti lýsingarinnar birtist í síðasta Bændablaði.
 
Mörg hundruð metra langar byggingar
 
Fyrsta kúabúið sem var heimsótt í ferðinni var búið Xinlong sem er staðsett í nánd við borgina Sanhe í Hebei héraði, um 70 km austan við Peking borg. Þetta bú selur alla sína mjólk til afurðafyrirtækisins Mengniu og nemur dagleg framleiðsla búsins um 53 tonnum af mjólk. 
 
Þetta kúabú var með um 4 þúsund skepnur í mörgum byggingum en kýrnar, sem voru tæplega 1900, voru hýstar í tveimur gríðarlega löngum fjósum. Fjósin voru, líkt og flest fjós í Kína, með eina legubásaeyju sitt hvorum megin við fóðurgangana og því með um það bil fjórar kýr á hvern lengdarmetra. Til þess að koma svona mörgum kúm fyrir þurfti því samtals um hálfs kílómetra langar byggingar! 
 
Með 600 Mou af landi
 
Xinlong er með 600 Mou af landi, en í Kína er notuð önnur eining yfir land en á Íslandi og eru 15 Mou í einum hektara. Þessi sérstaka eining við mælingu á landi byggir á kín-versku mælieiningunni Chi en í einum Mou eru 6000 Chi.
 
Hér áður fyrr var þessi mælieining nokkuð breytileg á milli landshluta í Kína og er talið að skýringin felist einfaldlega í mismunandi gæðum lands og ræktunarskilyrðum. Þannig ætti ein Mou af landi að duga hefðbundinni fjölskyldu og auðvitað er það afar breytilegt hvað landið getur gefið af sér, eftir því hvar í Kína það er. Árið 1984 var svo ákveðið að staðla eininguna Chi og hefur hún frá þeim tíma verið fasttengd við metrakerfið og eru þrjár Chi í einum metra í dag. Enn þann dag í dag eru margar kínverskar fjölskyldur með eina Mou af landi eða með spildu sem svarar til 667 fermetra og dugar það mörgum til framleiðslu á vetrarforða fjölskyldunnar.
 
Eins og áður segir er þetta kúabú með 600 Mou eða sem svarar til ekki nema 40 hektara af landi, sem telst harla lítið fyrir kúabú með svona margar kýr og því þarf að selja, gefa eða greiða fyrir losun á mykju búsins eftir afgösun, en búið er með eigin hauggasorkuframleiðslu. Auk þess þarf búið að kaupa að mikið magn af gróffóðri frá öðrum búum enda nær það ekki að framleiða nema upp í lítinn hluta af fóðurþörf grip-anna á búinu.
 
Með tæplega 29 kíló á dag
 
Líkt og flest kúabú í Kína þá er Xinlong búið með svartskjöldóttar Holstein-Friesian kýr en kúm af þessum kúastofni hefur fjölgað hratt á liðnum árum í Kína. Í dag eru flest kúabú í heiminum að nota þetta kúakyn enda hefur það mikla yfirburði yfir önnur kúakyn þegar kemur að framleiðslugetu. Á þessu kúabúi eru kýrnar þó ekki með nema um 29 kíló af mjólk á dag, sem er í tæpu meðallagi fyrir þetta kúakyn en segja má að grunn framleiðslugeta kúa af þessu kyni sé í dag rúmlega 31 kíló á dag. Skýringin á slakri nyt á þessu búi fengust ekki gefnar upp í þessari heimsókn en færa má góð rök fyrir því að mikið magn af aðkeyptu gróffóðri geri gæðastjórn fóðrunar erfiða, sem gæti hæglega skýrt lágar meðalafurðir.
 
Af hverju til Bengbu?
 
Næstu dagar í ferðinni voru nýttir til þess að fara til borgarinnar Xi‘an þar sem hinir heimsfrægu leirhermenn standa vörð og gæta Qin Shi Huangdi, fyrsta keisara Kína. Hann lét gera þessa hermenn og reisti raunar hallir og fleira neðanjarðar svo hann myndi eiga gott líf, eftir eigin dauða en Kínverjar trúðu því á þessum tíma að látnir myndu lifa neðanjarðar eftir andlát sitt. Xi‘an, rétt eins og margar aðrar borgir í Kína, er þekkt fyrir fjölbreytt og óvenjulegt úrval af matvælum og því var tíminn nýttur vel og gengið um þekkt matarstræti í borginni þar sem finna mátt misáhugaverða rétti að borða svo ekki sé tekið dýpra í árinni. Frá Xi‘an var svo haldið til borgarinnar Bengbu sem er um 300 kílómetrum norðvestan við Shanghæ. Þegar kínverska leiðsögukonan heyrði af fyrirætlunum hópsins um að við ætluðum til Bengbu sagði hún einfaldlega „af hverju?“ og bætti svo við „þangað fer enginn!“ Það var líka augljóst af viðbrögðum heimamanna þegar íslenski hópurinn steig út úr hraðlestinni í Bengbu að útlendingar koma ekki oft til borgarinnar, hvað þá bændur frá Íslandi! Tilgangurinn var reyndar ekki að heimsækja borgina heldur stærsta kúabú Kína þar skammt frá. Þess má geta að Bengbu er svo sem ekki neitt þorp, þar búa um 3,5 milljónir manna!
 
631 tonn á dag!
 
Eins og hér að framan var nefnt var næsta heimsókn skipulögð á stærsta kúabúið í Kína þar sem eru 22 þúsund kýr og nemur dagleg mjólkurframleiðsla 631 tonni, sem er umtalsvert meiri framleiðsla en kemur samanlagt frá öllum kúabúum á Íslandi á degi hverjum! Þessu búi hefur áður verið gerð ágæt skil á þessum vettvangi og geta áhuga-samir fundið grein um búið í fjórða tölublaði Bændablaðsins á síðasta ári. Það sem er sérstakt, fyrir utan gríðarlega stærð kúabúsins, er það að vegna stærðarinnar er þar einnig starfrækt gríðarlega afkastamikil afurðastöð og fer mjólkin beint í fernur á innan við tveimur klukkustundum eftir mjaltir. Mjólkin er því markaðssett sérstaklega sem svokölluð 2ja tíma mjólk.
 
Í byrjun nóvember var verið að þreskja hrísgrjón víða í Kína. Í suðurhluta landsins nást tvær uppskerur á ári en norðar bara ein. Mynd / Hjörtur Ásgeir Ingólfsson
 
Lífrænt hrísgrjónabú
 
Eftir dvöl í eina nótt í Bengbu var svo haldið áfram með hraðlestinni til Sjanghæ og byrjað á því að fara í heimsókn á búið Jianyu en það stendur suðvestan við Sjanghæ í nánd við þorpið Shangwu. Þetta bú er sérhæft í lífrænt vottaðri hrísgrjónaframleiðslu og er með ræktun á 4000 Mou eða rétt tæplega 270 hektörum. Búið er því stórt á kínverskan mælikvarða og nemur ársframleiðsla þess um 1.400 tonnum af hrísgrjónum og er því hver hektari að gefa af sér 5,3 tonn af hrísgrjónum. Þetta telst þó ekki sérlega mikil uppskera þegar hrísgrjón eru annars vegar og er skýringin sú að framleiðslan er eins og fyrr segir lífrænt vottuð og því er ekki notaður tilbúinn áburður né t.d. eitrað gegn skordýravá eða sveppasmiti. Fyrir vikið er uppskeran einungis um helmingur þess sem ella væri, ef um hefðbundna ræktun væri að ræða en verðið er þó töluvert hærra enda fást 3 RMB, um 52 íslenskar krónur, fyrir hvert kíló af hefðbundnum hrísgrjónum en 6 RMB, um 104 íslenskar krónur, ef þau eru framleidd eftir lífrænum stöðlum.
 
Allt á kafi
 
Það sem er sérstakt við hrísgrjónaframleiðslu er að ræktunin fer fram á akri sem hulinn er vatni rétt eins og flestir kannast líklega við. Það er því ekki sáð fyrir hrísgrjónum með hefðbundnum hætti, eins og þekkist hér á landi í kornframleiðslu, heldur er hrísgrjónaplöntunni plantað út. Áður fyrr var þetta gert með handafli þar sem vinnufólk þurfti að vaða um akrana og planta út en í dag eru til vélar sem gera þetta. Fyrst eru plönturnar forræktaðar í þar til gerðum gróðurhúsum og svo eru plöntubakkarnir settir í sérstakar plöntunarvélar sem sjá um restina. Vatn hylur svo akurinn allt fram undir uppskerutímann, en þá er vatninu veitt af akrinum og eftir um vikutíma er hægt að fara með þreskivélar á akurinn og uppskera hrísgrjónin.
 
Eigin þurrk- og afurðastöð
 
Jianyu búið er með það umfangsmikla framleiðslu að búið rekur eigin þurrkstöð sem raunar er með það mikla afkastagetu að hægt er að þurrka hrísgrjón frá öðrum bændum í henni einnig. 
 
Eftir þurrkunina fara hrísgrjónin svo í vinnslusal búsins en þar eru vélar sem fjarlægja hismið af grjónunum og svo fara þau í gegnum hálfgerða vélpússun en ópússuð hrísgrjón eru brúnleit og seljast ekki vel. Fólk vill hvít grjón og sá litur getur fengist með því að þvo grjónin upp úr sérstökum efnum en það má ekki í lífrænt vottaðri hrísgrjónaframleiðslu. Það eru því notaðar sérstakar vélar sem slípa til yfirborð hrísgrjónanna þannig að þau verða fallega hvít. Þeim er svo pakkað í lofttæmdar eins kílóa umbúðir og seldar í sérstökum gjafaöskjum, 5 í hverri pakkningu og er slík pakkning seld á 150 RMB eða um 2.600 íslenskar krónur. Kílóaverðið á hrísgrjónunum hefur því fimmfaldast við það að fara í gegnum vinnslustöðina!
 
Mjaltaþjónabú við alþjóðaflugvöllinn
 
Síðasta búið sem var sótt heim í þessari ferð var eitt af fáum kúabúum í Kína sem nota mjaltaþjóna. Búið, sem er með um 1.200 kýr, stendur rétt við alþjóðaflugvöllinn Pudong við Sjanghæ og er nánast umkringt þéttbýli. Eigandi búsins, Jin De Hua, greindi frá því að búið hefði áður verið í eigu hins opinbera og að hann hefði sjálfur byrjað að vinna á búinu sem verkamaður en haldið svo til náms í Bandaríkjunum og eftir heimkomuna keypti hann búið af ríkinu og hefur síðan búið þarna og stundað mjólkurframleiðslu. 
 
Í Kína getur enginn átt landið sjálft en gerir langtíma leigusamning um það við hið opinbera. Leiguverð fer svo eftir samkeppnisstöðunni á svæðinu og þar sem búið stendur nánast í þéttbýlinu við Sjanghæ er leiguverðið hátt. Þá sagði hann að það væri erfitt að fá fólk í vinnu vegna nábýlisins við þéttbýlið og einnig áskorun að stunda kúabúskap svona nálægt byggð.
 
Þetta nábýli gerði það að verkum að launakröfur verkafólks væru miklar og einfaldlega mikið um áhugaverðari störf en einmitt að vinna á kúabúi og það var megin ástæðan fyrir því að hann fékk sér mjaltaþjóna.
 
Tæknivæddasta bú Kína
 
Í dag er búið með átta mjaltaþjóna frá DeLaval en mun fleiri kýr en þeir ráða við og því er enn líka mjólkað á búinu með hefðbundnum hætti. Hann sagðist þó vera að hugsa um að panta átta mjaltaþjóna í viðbót og klára þannig mjaltaþjónavæðingu búsins en 16 mjaltaþjónar eiga að geta sinnt um 1.000 kúm sem passar við fjölda kúnna á búinu, en hinar 200 eru í geldstöðu á hverjum tíma að jafnaði. Þá hefur hann einnig þróað eigin fóðurstöð, þ.e. blandar allt fóður í gripina sína með einni nánast sjálfvirkri fóðurstöð sem keyrir sjálfkrafa fóðrinu inn á fóðurganginn en búið er með einn mjóan miðstæðan fóðurgang sem allir gripir komast að og er eins og gefur að skilja um óhemju langt fjós að ræða enda rúmar það um 2.500 gripi í það heila.
 
Hátt afurðastöðvaverð
 
Í Kína eru svona fjárfestingar í mikilli tæknivæðingu afar óvenjulegar en skýringin á því fékkst m.a. þegar spurt var um afurðastöðverðið en Jin fær 5 RMB fyrir hvert framleitt kíló mjólkur eða um 87 íslenskar krónur. Þetta er nærri 20 íslenskum krónum hærra en kínverskir kúabændur eru almennt að fá fyrir sína mjólk en skýringin felst í mikilli samkeppni um mjólkina sem er framleidd í nánd við Shanghæ. Fyrir vikið er gott borð fyrir báru og hægt að fjárfesta í tæknivæðingu búsins.
 
Sjanghæ ótrúleg borg
 
Tveir síðustu dagar ferðarinnar voru svo nýttir til þess að njóta Sjanghæ með ýmsum hætti og var þar gert ótal margt til dundurs eins og t.d. að sigla á ánni Bund og njóta þar einstaks útsýnis yfir ljósum prýddar byggingar, fara í skoðunarferð um gamla bæjarhluta borgarinnar þar sem stunduð er mikil ferðaþjónusta.
 
Þá var haldið upp í hinn 468 metra háa sjónvarpsturn sem kallast Austurlanda Perlan og þar upp var notið ótrúlegs útsýnis yfir stóran hluta af borginni, en í allar áttir frá þessari kínversku Perlu var þéttbýli svo langt sem augað eygði og þorri bygginganna gríðarleg háhýsi! Svo var að sjálfsögðu farið á kínverska fjöllistasýningu, ekki annað hægt þegar fólk er á annað borð í Kína og þá var einnig farið í skoðunarferð og siglingu í hinu forna vatnaþorpi Zhujiajiao sem oft er kölluð „Feneyjar“ Kína, enda er allt þorpið umlukið vatni. 
 
Frá Kína flaug svo hópurinn til Kaupmannahafnar og hafði þar einnar nætur viðkomu áður en haldið var heim til Íslands og lauk þannig þessari viðburðaríku fagferð íslenskra bænda til Kína.
„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...