Lungnasjúdómar í sauðfé, viðvarandi vandamál
Höfundur: Páll Stefánsson, dýralæknir
Lungnapest, lungnakregða og lungnaskemmdir af völdum lungnaorma sem orsaka hóstakjöltur í ásetningslömbum og yngra fé fram eftir öllum vetri eru vandamál íslenskra sauðfjárbænda með tilheyrandi missi og afurðaskaða í stórum stíl.
Margir af þeim gripum sem veikjast ekki þannig að eftir sé tekið, líða fyrir þessa sjúkdóma vegna vefjaskaða sem átt hefur sér stað á lungnavefnum en háir þeim alla ævi í vexti og afurðum þó lítið sem ekkert beri á daglegum einkennum.
Á haustdögum og fyrri part vetrar hafa komið upp all mörg tilfelli heiftugra lungnapestartilfella þar sem menn eru skyndilega að missa fullþroskuð og vel haldin slátur- og ásetningslömb. Aðrir sauðfjárbændur standa frammi fyrir vandamáli lungnakregðunnar með slælegar heimtur og illa þroskuð og ræfilsleg lömb í lok sumars og hausts.
Lungnasjúkdómar í íslensku sauðfé eru all nokkuð rannsakaðir og skilgreindir. Það sem við vitum er að lungnapestarbakteríurnar eru alla jafna til staðar í koki og munnholi alls sauðfjár í landinu, eitthvað örlítið mismunandi eftir landshlutum, en þær valda jafnan ekki skaða nema þær fái aðstoð og kjöraðstæður til að fjölga sér. Þær aðstæður geta verið mjög fjölbreyttar og stundum óútreiknanlegar eins og stress vegna sundurdráttar eða flutnings, kulda eða vosbúðar, fóðurbreytinga eða annars konar skaða einhverra innri þátta eins og lungnaorma og ekki síður þess slæma undirliggjandi þáttar sem kregðubakterían er, en hún er lúmskur dragbítur sem nýtir sér allt mögulegt til fjölgunar og framdráttar.
Samhengi sjúkdómanna er ótrúlega mikið að mínu mati og til þess að berjast gegn þeim öllum verða menn að nýta þær varnaraðgerðir sem við þekkjum gegn hverjum og einum.
Lungnapest
Þessi sjúkdómur er útbreiddur um allan heim og eru sjúkdómsvaldarnir þrjár ákveðnar bakteríutegundir. Algengust til að valda heiftugum dauðsföllum er bakteríutegundin „Mannheimia haemolytica“ en tegundirnar „Pasteurella multocida“ og „Bibersteinia trehalosi“ eru einnig þátttakendur og geta verið ríkjandi í ákveðnum tilfellum sitt á hvað.
Einkenni lungnapestar eru nokkuð augljós í heiftugum tilfellum. Gripir verða slappir á örskömmum tíma leggjast fyrir og drepst á fáeinum klukkutímum með hausinn strekktan fram þar sem í mörgum tilfellum má sjá blóðlitaða froðu leka fram úr vitum og gripirnir kafna í eigin blóði. Á fyrstu stigum sjúkdómsins koma hefðbundin sýkingareinkenni fram eins og slappleiki með háum hita (41-42 °C ), hraðari öndun og svo hreinlega sofna gripirnir út af í heiftugri sýkingu eins og að ofan er lýst. Oft tekur þetta ferli ekki lengri tíma en 6–12 klst. Einstaka tilfelli eru hægfarari og taka lengri tíma en þau tilfelli eru sjaldgæfari.
Krufningsmynd heiftugrar lungnapestar er nokkuð dæmigerð. Þegar brjóstholið er opnað blasa við blóðdrukkin lungu með einkennum sem líkja má við rauðmálaða mynd af landakorti þar sem há fjöll eru dökkrauð og láglendi aftur daufara í roða og ef menn skera þvert í stærsta lungnablaðið og kreista þá vellur blóðlituð froða út um skurðarsárið. Lungnavefurinn er mun þyngri en hann á að vera og ef hann er settur í vatn flýtur hann ekki eins og heilbrigður lungnavefur myndi gera heldur sekkur að stórum hluta. Í brjóstholinu sjálfu er iðulega blóðlitaður vökvi.
Meðhöndlun gegn skyndilegri lungnapest er yfirleitt engin því blóðeitrunin er það hröð að fúkkalyf, jafnvel þó að þau séu gefin í stórum skömmtum beint í æð, ná ekki að stöðva sýkinguna.
Eina ráðið til að hindra lungnapest er regluleg fyrirbyggjandi bólusetning allrar hjarðarinnar. Því miður er þó staðreyndin sú að bólusetningin dugar ekki alltaf því breytileiki bakteríanna í innri gerð og framleiðslu eiturefna sinna er erfiður þáttur í sjúkdómsferlinu. Á Tilraunastöð Háskóla Íslands á Keldum er þó samfellt verið að vinna að rannsóknum á breytileika lungnapestarbakteríanna með það að markmiði að þróa betra bóluefni gegn sjúkdómnum sem vonandi nýtist öllum sauðfjáreigendum í framtíðnni. Það bóluefni sem nú er framleitt virkar þó mjög vel í flestum tilfellum sem upp koma og sem fyrirbyggjandi bólusetning er það nauðsynlegt.
Lungnakregða
Orsakavaldur þessa sjúkdóms er baktería sem kallast „Mycoplasma ovipneumoniae“. Þessi baktería er svolítið sérstök að því leyti að hún býr yfir byggingarlegri og hegðunarlegri sérstöðu því að utan um hana er ekki eiginlegur frumuveggur (fúkkalyf eyðileggja yfirleitt frumuvegg bakteríanna í virkni sinni ) auk þess sem hún sýnir afbrigðilega hegðun í efnaskiptum og verður þannig iðulega afar óútreiknanleg í þeim skaða sem hún veldur. Hún hefur í raun þá sérstöðu að hún er tiltölulega máttlaus ein og sér og þarf aðstoð annarra þátta til að fjölga sér og valda skaða.
Þessir þættir geta verið margskonar eins og stress vegna þrengsla, kuldi, vosbúð, þungt loft í húsum og erting öndunarvegarins út frá því, skaði sá sem lungnaormar valda á lungnavefnum á hringferð sinni innan brjóstholsins og síðast en ekki síst tilheyrandi viðvera lungnapestarbakteríanna í koki og slímhimnu efri öndunarvegarins sem bíða færis á að fjölga sér ef skilyrði leyfa. Rétt er þó að taka fram að lungnaormarnir skaða meira afturblöð lungnanna á meðan t.d. kregðubakterían skaðar fremri lungnablöðin. Samhengi skaðans felst þó fyrst og fremst í almennri eyðileggingu lungnavefjarins og minni afkastagetu hans til loft- og efnaskipta og þ.a.l. almennt lakari mótstöðu.
Lungnakregða er sjaldnast bráðasjúkdómur heldur nær bakterían hægt og bítandi að valda skaða. Lömb smitast frá móður, sem er lifandi smitberi, snemma vors og á 6–8 vikum fara einkenni að birtast. Lömbin fá hægfara króníska lungnabólgu sem gerir þau móð, þreytt og slöpp. Þau missa lyst og lífsþrótt þannig að þau þroskast hægar og verða í vandræðum með að fylgja mæðrum sínum. Úti í náttúrunni verða þau sjálfkrafa auðveldari bráð auk þess sem ákveðinn fjöldi þeirra drepst af völdum sjúkdómsins. Þau lömb sem hafa það af eru vanalega mun lakari í vigt og þroska að hausti en jafnaldrar.
Lyfjameðhöndlun gegn lungnakregðu er harla léleg til árangurs. Byggist það á því sem ég hef nefnt hér að ofan að bakterían sjálf er mjög erfið viðureignar og ekki síður á þeirri staðreynd að ef lungnakregðan er búin að hreiðra um sig þá er vefjaskaðinn yfirleitt orðinn það mikill í lungnavefnum að lækning í þeim skilningi getur ekki átt sér stað. Vissulega eru til fúkkalyf sem ná bakteríunni, en þau koma vanalega of seint og einstaklingsmeðhöndlanir eru dýrar.
Krufningsmynd lungnakregðu í sauðfé sýnir vanalega samgróninga á lungnahimnu við brjóstholið (brjósthimnubólga) sérstaklega í fremsta lungnahlutanum auk þess sem lungnavefur er dökkrauður eða brúnleitur, mjög þéttur og þegar skorið er í lungnavefinn sést mjög seigt gráhvítt slím í öndunarvegi.
Til að berjast gegn áhrifum og skaða lungnakregðunnar verður að sjá til þess að umhverfi og atlæti sé sem best auk þess að stunda fyrirbyggjandi aðgerðir gegn hinum skaðvöldunum sem eru lungnaormarnir og lungnapestarbakteríurnar.
Af reynslu manna sem hafa lent í kregðuvandamáli í hjörðum sínum má sjá að með tíð og tíma minnka einkenni hægt og bítandi ef vel er hugsað um loftræstingu í húsum, passað upp á atlæti gripanna og hugað vel að bólusetningu gegn lungnapest og skipulegum ormalyfsgjöfum. Til eru þau dæmi að á 2–3 árum hafa menn þannig komist út úr kregðuvandamálum.
Lungnaormar
Hér á landi eru vitað með vissu um tvær tegundir þráðorma í sauðfé sem sækja sérstaklega í lungnavef. Annars vegar er um að ræða hinn svokallaða stóra barkapípuorm (Dictyocaulus filaria) og hins vegar um lungnaörðuorminn (Muellerius capillaris). Þróunarferill þessara orma er með þeim hætti að kynþroska ormar sem lifa í barka og berkjum gefa af sér fjölda ormaeggja sem gripir hósta upp úr sér vegna ertingar og kyngja síðan, en með saurnum berast eggin í hagann. Eggin þroskast í lirfur og með ákveðnum fjölda hamskipta (dagar/ vikur / mánuðir / allt eftir hita og tíðarfari) verða þessar lirfur smithæfar og skríða á grastoppa til að láta éta sig aftur.
Úr meltingarveginum skríða lirfurnar í gegnum þarmavegginn inn í kviðarhol, æðar og bora sig í gegnum lungnavefinn til að komast afur í barkann, en þar ná þær kynþroska til að fjölga sér áfram. Þetta ferðalag þeirra veldur verulegum skaða á líffærum gripanna, sérstaklega lungnavefnum, sem síðan aðrir sjúkdómsvaldar eins og kregðu- og lungnapestarbakteríur nýta sér. Í stóra samhenginu verða menn að gera sér grein fyrir að ormarnir skaða lungnavefinn og veikja mótstöðukraft gripanna gagnvart bakteríunum.
Krufningarmynd ormasýkinga í lungum leynir sér ekki við skoðun. Víða um lungnablöðin má sjá staðbundnar blæðingar og vefjaskemmdir eftir hringferð þeirra, sérstaklega aftast í stóru lungnablöðunum og með tímanum myndast litlir hnúðar sem geta verið kalkaðir.
Samantekt
Til að koma í veg fyrir missi og afurðatap af völdum lungnasjúkdóma í sauðfé verða menn að líta á lungnasjúkdómana í heild sinni sem eitt vandamál og berjast gegn þeim öllum.
Til að berjast gegn kregðu verða menn að vera duglegir að gefa breiðvirk ormalyf gegn lungnaormum, bólusetja gegn lungnapest og sjá til að loftræsting og aðbúnaður í húsum sé í lagi.
Til að fyrirbyggja lungnapest verður að bólusetja alla hjörðina reglulega með lungnapestarbóluefni, stunda reglulega ormalyfsgjöf með breiðvirku ormalyfi og sjá til að aðbúnaður sé einnig í lagi.
Erfiðast verður þó alltaf að hindra smit af völdum lungnaorma en möguleikinn á að halda þeim eins mikið í skefjum og við getum er þó til staðar. Þar höfum við til umráða breiðvirk og góð ormalyf. Þar er lykilatriði með lömb sem eru á heimahögum fram eftir vori og sumri og fara síðan í úthaga eða afrétt að áður en þeim er sleppt sé þeim gefið breiðvirkt ormalyf til að klippa á smitkeðju lungnaormanna. Með þeirri aðgerð má draga verulega úr þeim skaða sem ormarnir valda. Síðan þegar ásetningur hefur verið ákveðinn að hausti er þeim lömbum gefið aftur breiðvirkt ormalyf sem fyrst eftir að þau eru tekin á hús auk þess sem þau eru tvíbólusett gegn lungnapest.
Einungis með slíkum markvissum aðgerðum má halda lungnaskaða sauðfjár í lágmarki.
Páll Stefánsson, dýralæknir