Mangó – konungur ávaxtanna
Mangó er það aldin sem mest er ræktað og neytt af í hitabeltinu og þar er mangó sagt vera konungur ávaxtanna. Fjölbreytni mangóaldina er mikið og til yfir 1000 yrki sem eru ólík að stærð, lögun, lit og bragði í ræktun. Ian Fleming notaði mangó sem myndlíkingu fyrir botnsprengjur í sögunni Goldfinger.
Ætla má að mangóaldin séu ræktuð í um eitt hundrað löndum og samkvæmt tölum FAOSTAD, tölfræðideildar FAO Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna, var heimsframleiðsla á mangó árið 2016 um 46,5 milljón tonn. Framleiðslan hefur aukist jafnt og þétt frá aldamótaárinu 2000 þegar hún var 24,7 milljón tonn, árið 2008 var hún áætluð 35 milljón tonn og 2010 rétt rúm 37 milljón tonn. Áætlanir gera ráð fyrir að framleiðsla á mangó eigi eftir að aukast enn meira til ársins 2030 og jafnvel tvöfaldast.
Uppskera á mangó fer víðast fram með handafli.
Langmest er framleiðslan á Indlandi, eða um 18,8 milljón tonn, Kína er annar stærsti framleiðandi mangós í heiminum en kemst ekki með tærnar þar sem Indland er með hælana og framleiddi 4,7 milljón tonn árið 2016. Taíland var í þriðja sæti með 3,4 milljón tonn, Indónesía og Mexíkó voru í fjórða og fimmta sæti og framleiddu 2,2 miljón tonn hvort land. Í kjölfar þeirra koma svo Pakistan, Brasilía, Filippseyjar, Bangladess og Nígería. Framleiðsla á mangó er ört vaxandi í suðurríkjum Bandaríkjanna, Norður-Ameríku og í Ástralíu.
Mest af því mangó sem ræktað er í Asíu er neytt á heimamarkaði. Brasilía, Pakistan, Perú og Indland eru stærstu útflytjendur mangóaldinsins en Bandaríki Norður-Ameríku, Holland, Þýskaland, Bretlandseyjar og Kína stærstu innflytjendurnir.
Talsverður stærðar- og útlitsmunur er á mangóyrkjunum 'Ataulfo' og 'Tommy Atkins'.
Samkvæmt upplýsingum á vef Hagstofu Íslands eru ný eða þurrkuð guavaber, mangó- og mangósteinaldin flokkuð saman við innflutning og var innflutningurinn á þessum aldinum árið 2017 rétt tæp 453 tonn. Langstærstur hluti þessa innflutnings mun vera mangó. Sama ár voru auk þess flutt inn rúm 38 tonn af fljótandi mangómauki.
Mest er flutt inn af þurrkuðum guavaberjum, mangó- og mangósteinaldinum frá Brasilíu rúm 137 tonn, Perú 87 tonn, Ísrael tæp 30 tonn og Senegal rúm 25 tonn.
Af mangómauki er mest flutt inn frá Bretlandi, 24,7 tonn árið 2017.
Ættkvíslin Mangifera
Innan ættkvíslarinnar Mangifera er að finna 69 tegundir sem finnast villtar í hita- og heitt tempraða beltinu Suður- og Suðaustur-Asíu. Flestar tegundir eru hávaxin tré sem ná 30 til 40 metra hæð í láglendi regnskóga. Mestur fjöldi tegunda innan ættkvíslarinnar finnst á Indlandi. Fjöldi þeirra gefur af sér æt aldin og eru ræktaðar staðbundið til nytja í Asíu.
Yrkið 'Alphonso' er ræktað í Asíu og sagt bragðbesta mangó sem völ er á.
Elstu minjar um plöntu innan ættkvíslarinnar er um 60 milljón ára gamlir steingervingar sem fundist hafa á Indlandi og í Japan.
Indlandsmangó Mangifera indica
Mangóplantan er þekktasta tegundin innan ættkvíslarinnar Mangifera og sú tegund innan hennar sem mest er ræktuð vegna aldinanna. Tegundin er upprunin á Indlandsskaga og kallast Mangifera indica á latínu. Mest er ræktað af Indlandsmangó í Asíu og mangó það aldin sem mest er ræktað af í hitabeltinu.
Mangótré eru langlíf og ekki óalgengt að 300 ára gömul tré beri ávöxt. Þau ná milli 35 og 40 metra hæð í náttúrulegum heimkynnum sínum og stofninn getur verið tíu metrar að þvermáli. Tré eru með stólparót sem í djúpum jarðvegi vex sex metra niður og myndar fjölda minni róta sem dreifa úr sér og mynda góða festu fyrir tréð. Krónan er víðfeðm. Blöðin sígræn, stakstæð, heilrennd og ílöng, 15 til 35 sentímetra löng og 6 til 16 sentímetra breið. Ung blöð eru gulleit og dökkna fljótlega og verða rauðleit en síðan dökkgræn.
Blómin allt að 2000 saman í 10 til 40 sentímetra löngum sveip. Sjálffrjóvgandi og frjóvgast með skordýrum og leðurblökum. Blómin eru með einn frævil og nokkrar frævur, krónublöðin fimm, hvít með rauðleitum rákum, 5 til 10 millimetra löng, og gefa af sér sætan ilm. Yfirleitt myndast einungis tvö til þrjú aldin úr hverjum blómsveip.
Yrkið 'Turpentine' er nánast óætt vegna þess að það bragðast eins og lyktin af terpentínu.
Húð aldinanna er slétt, vax- eða leðurkennt og litur hennar breytilegur og getur verið gulur, rauður og grænn og allt þar á milli. Aldinin hnöttótt, ílöng eða nýrnalaga, 5 til 25 sentímetra löng og vega frá 140 grömmum að tveimur kílóum. Aldinkjötið eilítið klístrað og yfirleitt appelsínugult.
Samkvæmt skilgreiningu grasafræðinnar er mangó steinaldin eða ber með einu fræi. Fræið er fremur stórt, flatvaxið, 2 til 5 millimetra breitt og 4 til 10 sentímetrar að lengd og hært á ytra borði og erfitt að losa það frá aldinkjötinu.
Fræin þola hvorki að þorna né frjósa en spíra vel við réttar aðstæður. Algengast er að mangótrjám í ræktun sé fjölgað með græðlingum eða ágræðslu.
Að öllu jöfnu tekur fjóra til fimm mánuði frá frjóvgun þar til mangóplantan ber fullþroskað aldin.
Nafnaspeki
Heiti trésins og aldinsins mangó, eða mango á ensku, er upprunnið úr tungumáli innfæddra á suðvesturodda Indlands þar sem aldinið kallast ma??a eða mangga. Það heiti mun komið úr tungumáli sem kallast dravidian og er lifandi mál um miðbik Indlands og á Sri Lanka en á því kallast aldinið mankay. Portúgalar sem kynntust aldininu á 15. öld kölluðu það manga og af því mun heitið mangó hafa spunnist.
Með elstu ræktunarplöntum
Indverska mangó er líklega upprunnið á Indlandi við rætur Himalajafjalla og í Burma. Talið er að ræktun þess teygi sig 6.000 ár aftur í tímann í Suður- og Suðaustur- Asíu og að plantan sé með þeim elstu í ræktun. Heimildir eru um ræktun mangós í austanverðri Afríku á tíundu öld og arabíski ferðalangurinn Ibn Battula segir það ræktað í Sómalíu á 14. öld.
Indverska mangó er líklega upprunnið á Indlandi við rætur Himalajafjalla og í Burma. Talið er að ræktun þess teygi sig 6.000 ár aftur í tímann í Suður og Suðaustur-Asíu og að plantan sé með þeim elstu í ræktun.
Aldinið er einnig eitt fyrsta dæmið, ef ekki það fyrsta, um heimsvæðingu í matvælaframleiðslu.
Hollenski náttúrufræðingurinn og landstjóri hollenska austur indíafélagsins á Malabarströnd Indlands, Hendrik van Rheede, fjallar um mangó í bók sinni Hortus Malabarcus sem kom út 1678. Í bókinni veltir van Rheede fyrir sér efnahagslegu gildi hitabeltisaldina.
Portúgalar voru manna fyrstir til að flytja mangó frá Indlandi til Brasilíu á 17. öld og hófu ræktun á því þar og þaðan breiddist ræktun þess út til landanna í Suður- og Mið-Ameríku
Til að aldinið og fræið skemmdist ekki á langri siglingunni milli heimsálfa var því pæklað. Pæklun var reyndar algeng geymsluaðferð til sjós fyrir tíma kæligeymsla og orðið mango var um tíma samheiti yfir pæklun aldina af ýmsum tegundum.
Skömmu fyrir aldamótin 1900 var hópur bandarískra grasafræðinga sendur um víða veröld til að leita upp nýjar ræktunarplöntur fyrir bændur. Afkastamestur við söfnunina var David Fairchild og sagt er að mangó hafi verið annað uppáhalds aldinið hans á eftir mangósteinaldini. Þess má geta að plönturnar eru alls óskyldar þrátt fyrir líkindi nafnanna og að þær séu undir sama tollflokki þegar kemur að innflutningi hingað til lands. Fairchild leitaði upp fjölda afbrigða og staðbrigða og sendi aftur til heimalandsins.
Mangóframleiðsla, sem er vaxandi í suðurríkjum Bandaríkjanna Norður-Ameríku er að mestu tilkomin vegna söfnunarstarfs Fairchilds.
'Haden' er móðuryrki margra ræktunarafbrigða.
Í dag er mangó ræktað í hitabeltinu um allan heim og getur plantan vaxið upp í 1800 metra hæð yfir sjávarmáli svo lengi sem hún frjósi ekki.
Yfir 1000 mangóyrki
Aldin mangótrjáa eru mismunandi hvað varðar stærð, geymsluþol, lögun, lit og bragð eftir yrkjum, afbrigðum og staðbrigðum sem eru yfir 1000 auk þess sem til eru afbrigði sem ræktuð eru sem skrautplöntur. Mangótré í ræktun er lægri en villt tré til að auðvelda uppskeruna.
Algengasta yrkið í ræktun er 'Tommy Atkins' sem hefur mikið geymsluþol og þar af leiðandi hillulíf í verslunum. Það er rauðleitt að lit, ílangt að lögun og sjúkdómaþolið. Þykir bragðgott en ekki með bestu aldinum sem hægt er að fá. 'Haden' er móðuryrki margra ræktunarafbrigða í Bandaríkjunum Norður-Ameríku, til dæmis 'Tommy Atkins', harðgert og gott yrki. 'Keitt' ber stór aldin sem þurfa langan ræktunartíma. 'Kent' uppruni í Flórída, aldin í meðallagi stórt og bragðgott.
'Keitt' ber stór aldin sem þurfa langan ræktunartíma.
Yrkið 'Ataulfo' frá Mið-Ameríku hefur notið aukinna vinsælda síðustu árin vegna bragðgæða. Aldinið ílangt, fremur lítið og gult að lit.
Af öðrum yrkjum má nefna 'Alphonso' sem mest er ræktað í Asíu og sagt bragð besta mangó sem völ er á. Yrkið mun vera sætt á bragðið og mjúkt undir tönn. 'Coconut Cream' er tiltölulega nýtt afbrigði á markaði. Tréð þykkir fremur ljótt í vexti en aldinið bragðast eins kókosbolla.
'Kent'. Uppruni í Flórída, aldin í meðallagi stórt og bragðgott.
Yrkið 'Turpentine' er nánast óætt. Sagt er að það bragðist og sé með áferð sem líkist gólfmottu sem dýft hefur verið í terpentínu. Mikið notað sem rótaryrki við ágræðslu.
Mest borðað ferskt
Aldina mangótrjáa er oftast neytt á meðan þau eru fersk auk þess sem þau eru pækluð eða maukuð til geymslu. Víða er til siðs að krydda aldinið með salti, chili, pipar, ediki eða sojasósu eða að búa til úr þeim mangósafa eða ís. Gott þykir að blanda aldinkjötinu saman við grænan chili og soðin hrísgrjón.
Kím aldinsins er ætt og fræið mulið og notað til baksturs. Laufið er nýtt sem búfjárfóður.
Mangó og menning
Aldin mangótrjáa eru þjóðarávöxtur Indlands, Pakistan og Filippseyja auk þess sem það er þjóðartré Bangladess. Mangó er sagt vera konungur ávaxtanna alveg eins og Tarzan er konungur apanna.
Myndir af Ambika-gyðju jainista á Indlandi sýna hana iðulega sitjandi undir mangótré. Myndir hindúa sýna oft guðinn Ganesha, sem er með fílshöfuð, með mangóaldin í hönd og blóm mangótrjáa þykja viðeigandi fórn til Sarasvati gyðju visku, þekkingarleitar, tónlistar og lista. Aldinin eru algengt mótíf í indverskri myndlist og vefnaði.
Sagt er að Búdha hafi þótt best að hugleiða í skugga mangótrjáa.
Blóm mangótrjáa þykja viðeigandi fórn til Sarasvati, gyðju visku, þekkingarleitar, tónlistar og lista.
Þurrkuð aldinhúð og mangófræ eru notuð við alþýðulækningar á Indlandi sem kallast ayurveda. Í Suðaustur-Asíu eru mangógreinar með laufi hengdar yfir dyragættinni til að varna þess að nokkuð illt komist inn á heimilið og sem verndartákn í veislum og brúðkaupum.
Mangó, bæði tré og aldin, eru víða í Austurlöndum fjær sögð vera tákn um lífið og hamingjuna.
Í Vestur-Indíum er til fyrirbærið mangóganga og vísar til þess að menn hafi í skjóli nætur stolið mangóaldinum úr garði nágrannans. Um sama athæfi er einnig til barnagæla með sama nafni.
Í Ástralíu er hefð fyrir því að selja fyrstu mangóaldin uppskerutímans á uppboði til góðgerðarmála.
Þrátt fyrir að Kína sé annar stærsti framleiðandi mangós í dag var aldinið nánast óþekkt í landinu fyrir tíma menningarbyltingarinnar þegar það varð að tákni um ást Maó formanns á alþýðu landsins.
Myndir af Ambika, gyðju jainista á Indlandi, sýna hana iðulega sitjandi undir mangótré.
Mangó af fræi
Hægt er að rækta mangóplöntu upp af fræi með því að taka fræið innan úr aldininu og setja það strax í mold og gæta þess að það þorni ekki. Gangi allt að óskum spírar fræið á tveimur til fjórum vikum.
Mangótré þrífast best í skjóli og mikilli sól við háan loftraka. Jarðvegurinn skal vera djúpur og vel framræstur og eilítið súr með pH 5,5 til 7,5. Trén eru frek á köfnunarefni og járn í jarðvegi.
Mangó, Ísland og James Bond
Lítið hefur farið fyrir mangóaldin á Íslandi allt fram á okkar dag. Helst er að þeirra sé getið í þýðingum sagna sem gerast á Indlandi eða í Austurlöndum. Dæmi um það er eftirfarandi málsgrein sem birtist í Fálkanum 1952 og segir frá gyðingum á Indlandi. „Ég hitti dr. Simon á hans fátæklega heimili. Hann hafði ekki annað á kroppnum en nærbuxur og gleraugu og var að éta mangó-aldin.“
Árið 1965 birtist Goldfinger eftir Ian Fleming með njósnara hennar hátignar, James Bond, í aðalhlutverki sem framhaldssaga í Vikunni. Í fimmta kafla, Næturvaktin, er Bond staddur í höfuðstöðvum bresku leyniþjónustunnar við Regent´s Park í London þegar hann tekur upp símtólið og segir Universal Exports. Eins og aðdáendur Bond vita er Universal Exports dulnefni sem leyniþjónusta notar vegna starfsemi sinnar víða um lönd. Það lá því eitthvað annað undir þegar röddinn við hinn endann spurði hvort Bond hefði fengið skeyti varðandi skipsfarm af mangóávöxtum.
„Já, ég er með það hér. Bond dró möppu í áttina til sín. Hann vissi hvað málið var um. Stöð H vildi fá nokkrar botnsprengjur til að borga í rauðu þremur njósnarajunkum kommúnista, sem notuðu Macao til þess að stöðva brezk flutningaskip og leita í þeim að flóttamönnum frá Kína.“
Í óformlegri könnun á framboði á mangó í verslunum á höfuðborgarsvæðiunu kom í ljós að aldinið er á boðstólum í flestum stórmörkuðum. Yrki í boði reyndust vera þrjú, eitt sem að öllum líkindum er 'Tommy Atkins', var eingöngu merkt sem mangó og ekki greint frá uppruna þess. Annað yrki kallast 'Nococi' og kemur frá Fílabeinsströndinni og það þriðja var 'Kent' og hingað komið frá Malí. Á merkingu eins yrkisins, 'Kent', var skammstöfun RTE sem stendur fyrir Ready to eat eða tilbúið til neyslu. Sömu upplýsingar voru á þremur tungumálum á yrkinu sem ætlað er að sé 'Tommy Atkins'.