Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Sending frá Þorlákshöfn – efsta hryssan í elsta flokki hryssna og frábær klárhryssa með 8.70 fyrir hæfileika. Knapi er Helga Una Björnsdóttir.
Sending frá Þorlákshöfn – efsta hryssan í elsta flokki hryssna og frábær klárhryssa með 8.70 fyrir hæfileika. Knapi er Helga Una Björnsdóttir.
Mynd / Gígja Einarsdóttir
Á faglegum nótum 17. september 2015

Mörg eftirminnileg hross sýnd á árinu

Höfundur: Þorvaldur Kristjánsson
Nú er kynbótasýningum lokið á Íslandi árið 2015. Mörg afar eftirminnileg hross voru sýnd á árinu og undan nýjum afkvæmahestum sem spennandi verður að fylgjast með til framtíðar. Í þessari samantekt verður farið yfir sýningaárið, efstu hross í hverjum flokki og litið til ýmissa þátta. 
 
Í ár voru kveðnir upp alls 1.197 dómar á Íslandi en það er nokkur fækkun frá fyrri árum. Til samanburðar voru dómarnir alls 1.752 í fyrra.
 
Þessi fækkun er að mörgu leyti skiljanleg þar sem ekki var landsmót í ár en einnig hafa markaðsmál eflaust eitthvað að segja. Afar verðmætt er að árlega komi mikill fjöldi hrossa til dóms en þetta er sá grunnur sem ræktunarstarfið byggist á. Þá er mikilvægt á hverjum tíma að þróa sýningarhaldið í því augnamiði að auka áhuga hrossaræktenda á að mæta með hross til dóms.
 
Nú liggur fyrir á næstu misserum að endurskoða dómskalann og framkvæmd kynbótasýninga sem leiðir vonandi til enn betra mats, aukinna upplýsinga til handa hrossaræktendum og þess að hrossaræktendur sjái sér ávinning í því að mæta með fleiri hestgerðir til dóms.
 
Í ár færðist sýningarhaldið enn meira fram í júní og til miðsumars en fá hross voru sýnd í maí. Þetta er þróun sem við eigum líklega eftir að sjá til framtíðar; að miðsumarssýningar verði meira nýttar á árunum á milli landsmóta enda hrossin best á hásumri. Einnig væri til bóta að geta nýtt júní betur til dómsstarfa á landsmótsárum og halda landsmótin því seinna í júlí en verið hefur. Þetta er ekki síst mikilvægt í árum þegar vorar seint.
 
Sýningar voru haldnar vítt og breitt um landið eins og vant er, eða á alls 11 stöðum. Stærsta sýningin í ár var Miðsumarssýningin á Gaddstaðaflötum með 218 hrossum. Einnig má nefna að nýr sýningarstaður var tekinn til notkunar í ár en það var félagssvæði Spretts og gefur sú reynsla góð fyrirheit með sýningar á því svæði.
 
Á árinu var haldið Fjórðungsmót á Austurlandi þar sem 33 kynbótahross komu fram. Þau voru fá en frambærileg og upp í stórmagnaða gæðinga.
 
Heimsleikar voru haldnir í Danmörku í ár en þangað fór fullskipað lið kynbótahrossa frá Íslandi sem stóðu sig öll með miklum sóma. 
 
Efstu kynbótahross á árinu
 
Efsti fjögurra vetra stóðhesturinn á Íslandi í ár var Trausti frá Þóroddsstöðum. Þetta er hestur sem verður spennandi að fylgjast með til framtíðar, fínlegur og léttbyggður hestur með verðmætt mýktar ganglag. Hann er undan Þresti frá Hvammi og Aronsdótturinni Snót frá Þóroddsstöðum en það er með eindæmum eftirtektarvert hvað mýkt og gegnumflæði í hreyfingum einkennir mörg þau hross sem hafa þá feðga Óð frá Brún og Aron frá Strandarhöfði í bakættum. 
 
Efsta hryssan í fjögurra vetra hópnum var Þökk frá Árbæjarhjáleigu II, undan Jarli frá Árbæjarhjáleigu II og Þernu frá Skarði. Þetta var sérstaklega bráðþroska og heilsteypt hross, bæði hvað varðar ganglag og geðslag og gefur góð fyrirheit hvað Jarl varðar sem kynbótahest en þetta er fyrsta hrossið sem kemur til dóms undan honum.
 
Í fimm vetra hópi stóðhesta stóð efstur Andvari frá Auðsholtshjáleigu undan Gára og Fold frá Auðsholtshjáleigu en hann var einnig efstur í sínum flokki á Heimsleikum. Fríður og afar fallega byggður hestur, reistur og flugvakur.
 
Efsta fimm vetra hryssan var svo Hrafna frá Hrafnkelsstöðum, undan Aronssyninum Hrafnari frá Auðsholtshjáleigu sem er alhliða gæðingur og Svartsdótturinni Skyggnu frá Hrafnkelsstöðum. Hrafna hefur mjúka og öfluga byggingu og er alhliða mýktarhross eins og hún á ættir til.
 
Í sex vetra flokki stóðhesta stóð efstur Skaginn frá Skipaskaga, undan Álfi frá Selfossi og Meiðsdótturinni Össu frá Akranesi. Skaginn er með glæsilegri hestum með 9.0 fyrir háls, herðar og bóga og 9.5 fyrir samræmi. Þá er hann fasmikill hestur með burð, léttleika og fallegar hreyfingar.
 
Í sex vetra flokki var hæst dæmda hryssan Garún frá Árbæ, undan Aroni frá Standarhöfði og Glás frá Votmúla. Garún er stórfalleg og fjölhæf alhliða hryssa en hún stóð efst í sínum flokki á Heimsleikum og hlaut sinn hæsta dóm þar. Sú hryssa sem var hæst dæmd í þessum flokki á Íslandi og vert er að minnast á er Nípa frá Meðalfelli en hún hlaut 8.90 fyrir hæfileika. Nípa er undan Orra frá Þúfu og Esju frá Meðalfelli og er því skyldleikaræktuð út af Adam frá Meðalfelli. Nípa er tignarlegur alhliða gæðingur, með gangskil og mikinn burð á hægu tölti og stökki. Þá hefur hún  hreyfingar sem oft erfast frá Adam sem einkennast af mjúku spori og mikilli bóghreyfingu. 
 
Efsti hesturinn í elsta flokki stóðhesta, á Íslandi og einnig á Heimsleikum, var Glóðfeykir frá Halakoti. Glóðafeykir er undan Rökkva frá Hárlaugsstöðum og Glóð frá Grjóteyri og er skrefmikill alhliða gæðingur og fór yfir níu fyrir hæfileika, á vorsýningu og einnig á Heimsleikum.
 
Efst í elsta flokki hryssna var síðan Sending frá Þorlákshöfn en hún er undan Álfi frá Selfossi og Koltinnu frá Þorlákshöfn. Sýningin á þessari hryssu var afar eftirminnileg en hún hlaut þá einstöku einkunn tíu fyrir tölt enda með sérstaka skrefastærð, taktöryggi og jafnvægi á þeirri gangtegund. Þá er hún heilsteypt klárhross með 8.70 fyrir hæfileika og býr yfir óvanalegri framgöngu og útgeislun.
 
Það er skemmtilegt að minnast á að athygli mína vekur hvað Gustur 923 frá Sauðárkróki (sem löngum hefur verið kenndur við Höfða í Þverárhlíð) er víða á bak við hross sem fanga augað með fegurð sinni í reið og útreikningur á erfðahlutdeild Höfða-Gusts í útgeislun er verðugt rannsóknarefni.
 
Starfsfólk kynbótasýninga
 
Rétt er að minnast á starfsfólk kynbótasýninganna en að sýningarstjórn, mælingum og þulastörfum komu um tuttugu manns víðs vegar um landið, flest allt þaulvant þessum störfum þó nokkur endurnýjun hafi átt sér stað í ár. 
 
Kynbótadómarar á Íslandi eru nú 24 en fimm nýir dómarar bættust við hópinn í ár og vert er að nefna. Öll eru þau vel menntað hestafólk en þau eru Arnar Bjarki Sigurðarson, Einar Ásgeirsson, Heiðrún Sigurðardóttir, Heimir Gunnarson og Óðinn Örn Jóhannsson. 
 
Samræmingarfundir voru haldnir í vor, bæði fyrir þá sem koma að sýningarstjórn og mælingum og einnig fyrir dómarana. En einna mikilvægasti þáttur sýningarhaldsins er að viðhalda samræmdum vinnubrögðum við alla þætti starfsins.
 
Heilbrigðisskoðanir kynbótahrossa
 
Heilbrigði kynbótahrossa var skoðað einsog undanfarin ár, bæði fyrir og eftir dóm.
 
Sú nýbreytni var tekin upp í ár að kvarða alla áverka sem hrossin hlutu í dómi í þrjá flokka til að fá betri mynd af ástandi hrossanna. Þetta átti við bæði særindi í munni og ágrip á fótum. Fyrsta stigs athugasemdir teljast ekki vera eiginlegir áverkar en eru t.d. særindi í munni sem ná ekki í gegnum slímhúð eða strokur á fótum sem ná ekki í gegnum húð og eru án eymsla eða bólgu. Annars stigs athugasemdir eru áverkar, s.s. lítil sár í munni eða á ágrip á fótum sem ná þó ekki einum cm. Þriðja stigs athugasemdir eru alvarlegir áverka og á þá lund að hrossið hlýtur ekki reiðdóm og getur ekki mætt til yfirlitssýningar. Nákvæmari lýsingu á þessari kvörðun má finna á heimasíðu RML.
 
Þær jákvæðu fréttir eru að enn dregur úr tíðni skráðra áverka á milli ára. Skráð voru ágrip á fótum í 15,5% tilfella en 61% af þeim tilheyrðu 1. stigi. Var því um eiginleg ágrip (áverka) á fótum að ræða í einungis 7% tilfella og ágrip sem tilheyra 3. stigi voru einungis 10 í 1.197 sýningum sem er um 0,8%. Þá voru skráð særindi eða blóð í munni í 5% tilfella og var í öllum tilfellum um 1. stigs særindi að ræða. Þetta eru jákvæðar niðurstöður að tíðni áverka fari lækkandi og verðugt markmið að draga enn frekar úr þessari tíðni. 
 
Þeim möguleika var bætt við á síðasta ári að hægt væri að skrá þjálfara þegar hestur er skráður á kynbótasýningu. Þetta er jákvæð nýlunda og hefur það aukist til muna frá síðasta ári að fólk nýti sér þennan möguleika. Það verður hægt að tengja áhugaverða niðurstöður við þessar upplýsingar í framtíðinni. Til dæmis má nefna að tíðni ágripa er mun lægri í þeim hópi hrossa þar sem sýnandinn er einnig skráður þjálfari, samanborið við heildar gagnasafnið. Einnig dregur þetta fram í dagsljósið nafn þjálfara sem hafa staðið að baki góðum árangri hrossa, hverra nafn hefur kannski hvergi komið fram hingað til. Á það má benda að í þeim tilvikum þar sem margir hafa komið að þjálfun hestsins er hægt að skrá búið inn sem þjálfara, sem er þá í raun þjálfunarmiðstöðin. 
 
Áfram veginn 
 
Ásýnd sýninganna er sífellt að batna og framfarir í reiðmennsku og faglegum undirbúningi hrossanna eru merkjanlegar ár frá ári. Einnig er afar verðmætt að á undanförnum árum hefur verið að koma fram floti af frábæru ungu reiðfólki sem undirbýr hross sín af kostgæfni, sýnir þau sjálf af metnaði, á forsendum hestsins og nær miklum árangri. Er það afar mikilvægt inn í framtíðina. Bann á einjárnungsstöngum og notkun á krossmúl/skáreim við stangir sem tók gildi í vor hefur eflaust haft sitt að segja í lækkandi tíðni ágripa. Sá beislabúnaður getur boðið upp á afkastareið sem lítil innistæða er fyrir með tilheyrandi slysahættu. 
 
Árangur á forsendum fagmennsku og eðlisgæða mun ávallt skila okkur hinum mestu framförum.  Þá má nefna að á undanförnum árum hefur verið lögð ríkari áhersla í dómum á gæði gangtegundanna, þar sem þættir einsog mýkt, jafnvægi og burður vega meira inn í einkunnagjöfina en t.d. hraði eða fótaburður. Gæði á hægu tölti og hægu stökki hafa nú meiri áhrif á lokaeinkunn fyrir þessar gangtegundir svo dæmi sé tekið. Þetta er rétt þróun að mínu mati og vegferð sem er ekki lokið. Þetta eykur líkurnar á því að hrossin sem hljóta hæstu einkunnir gefi okkur þær hestgerðir sem mest verðmæti er í; úrvals reiðhrossin, ferðahrossin og keppnishrossin. 

4 myndir:

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...