Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en mánaðar gamalt.
Þó svo að nautgripum megi gefa alls konar matarafganga beint, eins og hér má sjá, er mælt með því að blanda þeim saman við gróffóður í svokallað heilfóður.
Þó svo að nautgripum megi gefa alls konar matarafganga beint, eins og hér má sjá, er mælt með því að blanda þeim saman við gróffóður í svokallað heilfóður.
Mynd / Loop
Á faglegum nótum 21. júní 2024

Nautgripir geta nýtt matarleifar og -úrgang

Höfundur: Snorri Sigurðsson

Nánast um allan heim hafa stjórnvöld mismunandi landa sett kröfur um losun gróðurhúsalofttegunda og sett sér skýr markmið um stöðu sótspors á ákveðum tímamótum og er oft talað um árin 2030 og 2050 í þeim efnum.

Krafan um minna sótspor við mjólkur- og kjötframleiðslu hefur einnig verið ljós í nokkurn tíma og oft í því sambandi horft til nautgripa- ræktar og þá sér í lagi losunar naut- gripa á metani. Of lítið heyrist rætt um það hvernig nautgriparæktin getur í raun hjálpað margs konar iðnaði til að minnka hið sameiginlega sótspor, með því að nýta margs konar úrgang, sem venjulega færi í landfyllingu eða moltugerð, sem fóður. Nautgripir geta nefnilega fengið næringu úr því sem mannskepnan getur ekki nýtt eða melt, og umbreytt í kjöt og mjólk.

Úr landfyllingu í fóður

Um allan heim fellur til gríðarlegt magn af bæði matarleifum og
margs konar úrgangi frá matvælaverksmiðjum sem í dag fer mikið til bara í landfyllingu eða moltugerð. Þá fer garðaúrgangur mikið til sömu leið en ljóst er að nýta mætti töluverðan hluta sem fóður, ef rétt væri að staðið. Þessu má og er hægt að breyta og hafa nokkur lönd þegar stigið áhugaverð skref í þessum efnum.

Heilfóðrun nautgripa lausnin

Flestir þekkja til fóðrunar á nautgripum þar sem þeir fá gróffóður og svo kjarnfóður sem aukaskammt af orku og öðrum næringarefnum. En með því að skipta þessari fóðrunaraðferð út með heilfóðrun, þ.e. þar sem öllu fóðri sem gripurinn fær er blandað saman í eitt fóður, er hægt að „smygla“ ofan í nautgripina alls konar aukaafurðum og úrgangi sem þeir myndu ella fúlsa við og/eða ekki nokkur skepna líta við yfir höfuð.

Ótal hráefni í boði

Líklega er algengast að nota hrat frá bjórgerð sem fóður fyrir nautgripi en ótal aðrar leifar er hægt að nýta, eins og t.d. hrat/úrkast frá vinnslu á matvælaolíu-, maísmjöls- og sojamjöls- eða hrísgrjónaframleiðslu. Þá geta nautgripir nýtt úrgang frá bómullarframleiðslu, frá epla- og appelsínudjúsgerð og ótal fleiri dæmi mætti nefna. Í raun er hægt að nýta allt sem fólki dettur í hug að nota, svo fremi sem næringarefnainnihaldið falli að fóðrunarþörfum nautgripanna.

Víða erlendis, þar sem kúabúskapur er mjög þróaður, er heilfóðrun algengasta form fóðrunar og í dag er oft 20–30% fóðursins einhvers konar úrgangur sem kemur sem hliðarafurð við vinnslu á matvælum fyrir fólk. Þetta hlutfall getur verið enn hærra en þó aldrei allt fóðrið, enda þurfa nautgripir að fá rétt hlutfall fóðurefna svo vambarstarfsemin haldist virk. Rannsóknir sýna að þar sem hefðbundnu korni og þekktum hefðbundum fóðurefnum er skipt út fyrir matarleifar eða úrgang frá matvælavinnslu þá gefur það áþekka niðurstöðu þegar kemur að mjólkurframleiðslu kúa eða vaxtargetu nautgripa. Undirstaðan er vissulega að rétt sé fóðrað og fóðrið blandað á réttan hátt.

Fyrsta skrefið er að flokka rétt

Til þess að geta náð árangri við nýtingu á matarleifum og sambærilegum úrgangi þarf að flokka rétt og hér er mikilvægast að frumframleiðendur og söluaðilar standi sig vel. Í Banda- ríkjunum, þar sem mikið af matvælum og úrgangi sem í raun mætti nýta sem fóður fyrir skepnur endar á haugunum, er búið að útbúa flokkunarkerfi fyrir svona úrgang og er um að ræða 41 mismunandi flokk matvæla sem nýta má sem fóður fyrir skepnur í stað þess að hann fari til spillis og endi sem landfylling eða molta. Þetta eru t.d. úrgangur frá bakaríum, fráflokkað grænmeti og ávextir, niðursuðuvörur og fleira mætti nefna.

Bændur og verslanir vinna saman í Kanada

Í Kanada hefur verið komið upp áhugaverðu kerfi sem tengir saman bændur og verslanir. Þetta kerfi kallast „Loop“ sem mætti snara yfir á íslensku sem „Hringur“ en bændum og verslunum er valfrjálst að taka þátt í þessum „Hring“. Um er að ræða kerfi sem tengir saman bændur og verslanir og snýst í stuttu máli um að flokka úrgang og matarleifar rétt í verslunum, svo úrganginn megi nýta sem fóður fyrir skepnur. Þeir sem taka þátt í kerfinu fá sérstaka endurmenntun í því hvernig á að flokka og hvernig á að nýta matvælaúrganginn sem bændurnir fá til að gefa sínum skepnum.

Hvað er nothæft?

Það er í raun ótrúlega margs konar matvæli sem má nota sem fóður fyrir jórtrandi skepnur, svo fremi sem fóðrið sé rétt blandað og samsett.

Á listanum hjá Loop í Kanada er t.d. hið augljósa eins og vörur frá bakaríum, grænmeti og ávextir frá dreifingarfyrirtækjum og verslunum en einnig útrunnar eða skemmdar mjólkurvörur, kaffikorgur, samlokur og ýmislegt annað mætti nefna. Í raun má segja að allar matvörur séu nothæfar nema kjöt og fiskur.

Laga- og reglugerðarumhverfi þarf að vera í lagi

Þrátt fyrir að þetta verkefni sé gert í nánu samstarfi við yfirvöld sýnir reynslan af þessu kanadíska verkefni að aðalvandamálið við að koma þessu samstarfi bænda og verslana á koppinn hafi einmitt verið opinbera eftirlitskerfið og lagaumhverfið, sem var í raun ekki hannað eða aðlagað því að nýta matarleifar eða matarúrgang sem fóður fyrir skepnur.

Yfirvöld hafa þó verið öll af vilja gerð til að liðka til fyrir þessari nýtingu á úrgangi, enda hafa kanadísk yfirvöld skuldbundið sig til þess að draga úr landfyllingu matarleifa og -úrgangs um 50% fyrir árið 2030. Það sem er sérstaklega áhugavert við þetta kanadíska kerfi er að það er upprunnið hjá bónda, sem tók það upp hjá sjálfum sér að gera samninga við verslanir o.s.frv. Nú hefur kerfið undið upp á sig og félagasamtök og stofnanir slegist í hóp þúsunda bænda og fyrirtækja sem nú eru þátttakendur í þessu Loop-kerfi.

Þegar vel nýtt á Indlandi

Það er áhugavert að skoða hvernig staðið er að þessum málum í ólíkum löndum og Indland er á allt öðrum stað en t.d. Kanada. Ástæðan er sú að þar er enn mikið um fullvinnslu matvæla á hverju heimili og þar fellur minna til af úrgangi en ella.

Enn fremur er þar hátt hlutfall nautgripa um nánast allt land, sem m.a. skýrist af trúarlegum ástæðum, og þessir nautgripir ganga um lausir og éta nánast allt sem þeir komast í. Það er því ekki beint heilfóðrun þar sem leysir málið heldur hungraðir nautgripir sem gæða sér á úrganginum áður en hann nær því að verða ónýtur. Þetta skilar sér þó líklega síður sem lækkun á heildarsótspori enda eru indverskir nautgripir afurðalitlir og oft ekki einu sinni nýttir til annars en dýrkunar.

Þurrka matarúrgang

I Indlandi er þó áhugavert verkefni í gangi, en það snýr að því að þurrka matarúrgang við stýrðar aðstæður og breyta honum þannig í fóður fyrir nautgripi. Aðferðin gerir það að verkum að bæði er hægt að staðla fóðrið og lengja nýtingartíma þess enda skemmist það síður ef það er þurrkað. Þetta er nýstárleg aðferð sem gæti reynst einkar áhugaverð ef vel gengur og má sjá fyrir sér slíka lausn notaða á Íslandi, þar sem bændur búa dreift.

Regluverk þarf að breytast

Innan Evrópusambandsins hefur þróunin á því að nýta úrgang í fóður verið heldur hægari en í framangreindum löndum og felst skýringin í fæðuöryggissjónarmiðum.

Þar á bæ hafa sérfræðingar enn áhyggjur af því að ekki takist að gera ferlið nógu gagnsætt og þar með geti skapast hætta á því að ekki sé hægt að tryggja öryggi matvælanna, þ.e. kjöts og mjólkur, sem framleitt yrði með úrganginum. Regluverkið dregur þannig, a.m.k. enn sem komið er, úr hraðri þróun á þessu en unnið er að lausn málsins enda brýnt að finna lausn sem horfir heildrænt á ferlið svo hægt sé að nýta enn betur það sem framleitt er í dag.

Fóðuráætlanir nauðsynlegar

Þegar komið hefur verið á fót kerfi til að safna og dreifa matarleifum og -úrgangi þarf að blanda fóðrið rétt eins og áður segir. Hér þarf því að koma til nokkuð viðamikil upplýsingaöflun um helstu virku næringarefni sem finna má í hinum söfnuðu fóðurefnum og svo þurfa sérfræðingar í fóðrun að gera uppskrift að réttri fóðurblöndu fyrir nautgripina.

Þetta kann að virka svolítið flókið en er í raun frekar einfalt, sé flokkun úrgangsins og matarleifanna rétt gerð, þá er næringarefnainnihaldið nokkuð stöðugt í hinum mismunandi úrgangsflokkum.

Hvað er fram undan?

Það er líklega þónokkuð löng leið sem þarf að fara þar til raunverulega góð nýting fæst á úrgangi sem nýta mætti sem fóður. Auðveldast er að nýta úrgang frá hvers konar matvælavinnslu eða -framleiðslu, en erfiðara er að eiga við nýtingu á matvælum sem t.d. eru runnin út á tíma í verslunum og/eða heimilum.

Lausnin á þessu gæti þó komið fyrr en síðar, enda er verið að horfa á þessi atriði í ótal löndum og einungis tímaspursmál hvenær heppileg lausn finnst. Dæmið frá Kanada sýnir m.a. að þetta er hægt upp að ákveðnu marki og með þurrkun eins og verið er að vinna með í Indlandi gæti farvegur verið kominn fyrir mun betri hringrás næringarefna en nú er, með því að nýta úrgang sem fóður fyrir skepnur í stað þess að hann endi sem molta eða landfylling.

Byggt að hluta til á greininni „From the US to India and turning food waste into milk“, Dairy Global 23-06-2021

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...