Nýr kostur í litlum dráttarvélum
Höfundur: Hjörtur L. Jónsson
Í byrjun ágúst þáði ég boð um að skoða Solis-dráttarvélar á Hvolsvelli sem er ný tegund hér á landi. Þegar ég kom austur og skoðaði þrjár stærðir af Solis-dráttarvélum brast á ausandi rigning.
Ég tók smá „monthring“ á tveim stærstu vélunum, en lét mér nægja að labba á spariskónum hring í kring um þá smæstu þar sem hún var húslaus, sætið rennblautt og ég í sparibuxunum.
Litla vélin, húslaus og 26 hestöfl
Á sýningarsvæðinu voru tvær vélar af minnstu gerðinni sem eru með 26 hestafla vél frá Mitsubishi. Vélarnar voru eins fyrir utan hjólbarðana, en önnur var á flotmiklum hjólbörðum sem oftast eru nefnd grasdekk sem henta vel fyrir golfvelli og viðkvæman gróður. Hún var með ámoksturstæki og „bakkó“moksturstæki, aukabúnað sem hægt er að fá hjá Solis. Hin vélin var á hefðbundnum dráttarvélardekkjum og tækjalaus.
Sökum ausandi rigningu prófaði ég ekki þessa litlu vél og lét mér nægja að gangsetja hana svona rétt til að heyra hljóðið í Mitsubishi vélinni. Þessi litla vél getur lyft 600 kg með ámoksturstækjunum. Hægt er að fá vélina með húsi og þannig útbúin tel ég þessa litlu vél vera vænlegan kost fyrir gangstéttamokstur fyrir sveitarfélög. Sé vélin tekin húslaus með moksturstækjum ætti hún að henta sumum vel til að moka út úr haughúsum þar sem lofthæð er lítil, gæti jafnvel hentað í stað liðléttings. Solis með 26 hestafla mótor er 1.055 kg að eigin þyngd og kostar frá 1.630,000 án tækja.
75 hestafla vélin
Miðstærðarvélin er með 3.700 rúmsentímetra (cc) vél sem skilar 75 hestöflum. Hámarkshraði er 32 km hraði á klukkustund.
Allur búnaður er frekar einfaldur og lítið rafmagnsdót sem þarf að hafa áhyggjur af að bili fyrir utan miðstöð sem er kraftmikil og var fljót að hreinsa móðuna af rúðunni sem myndaðist þegar ég settist rennandi blautur inni í vélinni áður en ég gangsetti hana.
Húsið virðist vera vel hljóðeinangrað, lítið hljóð barst frá mótornum inni í vélinni. Úr húsinu er gott útsýni og trufla póstar lítið útsýni fram fyrir vélina. Lítill gluggi er aftan á vélinni sem gerir manni auðveldara að fylgjast með þegar verið er að tengja vagn á dráttarbeislið, eða tæki við þrítengið. Lyftigetan á þrítenginu er 2.500 kg. Glussadælan dælir 45 lítrum á mínútu.
Aflúrtak er fyrir vagnabremsur aftan á vélinni. Hér er um að ræða vel útbúna vél sem kostar að grunnverði frá 3.760.000.
90 hestafla vélin
Stærsta vélin sem ég skoðaði er fjögurra strokka með 4.085 cc. mótor sem skilar 90 hestöflum. Ég tók smá hring á vélinni með frekar þungan vélarvagn aftan í henni.
Þegar ég fór af stað á vélinni í grasinu í fyrsta gír fannst mér stór vélarvagninn furðu léttur í drætti og þegar ég skipti um gír fannst mér vélin renna vel í gírana og vera þægileg í akstri, speglar góðir og allt útsýni úr vélinni gott.
Inni í húsinu fannst mér ég heyra aðeins meira í mótornum en í 75 hestafla vélinni. Það hljóð hvarf þó alveg þegar ég var búinn að kveikja á útvarpinu, enda skila hátalararnir fyrir aftan ökumannssætið góðum hljómburði. Þessi vél virkar frekar lítil miðað við að hún sé 90 hestafla mótor, en er útbúin öllu því sem sambærilegar dráttarvélar að svipaðri stærð hafa.
Grunnverðið á vélinni er 3.990.000 en Solis útvegar lán til dráttarvélakaupa allt að 80% í 7 ár. Allar nánari upplýsingar er hægt að nálgast á aðgengilegri vefsíðu fyrirtækisins á vefslóðinni www.solis.is.