Ræktunarstarfið hefur skilað árangri
Höfundur: Jón Viðar Jónmundsson ráðunautur hjá RML
Í síðasta tölublaði sagði ég örlítið af hinu frábæra lokaverkefni Jóns Hjalta Eiríkssonar við LBHÍ á Hvanneyri. Þar sýnir hann fram á þær breytingar sem orðið hafa á síðustu árum í kjötgæðaeiginleikum hjá íslensku sauðfé. Þetta fékk mig til að reyna að leggja eitthvert mat á hvaða verðmætum þetta hafi skilað þjóðfélaginu og bændum.
Slík umræða hefur því miður verið mjög fátíð hér á landi. Erlendis eru forsvarmenn bænda mjög iðnir við að koma slíkum upplýsingum á framfæri til að vekja athygli á sinni atvinnugrein. Hérlendis hefur aldrei á síðari árum heyrst hósti né stuna frá slíkum aðilum, ef til vill að undanskildum málflutningi einstakra forsvarsmanna LK meðan umræða um mögulegan innflutning á erlendu kúakyni var og hét.
Mikil þróun á hagrænu vægi einstakra eiginleika
Innan kynbótafræði hefur mat á hægrænu vægi einstakra eiginleika í ræktunarstarfinu þróast sem mikil hliðargrein og má nýta þekkingu þaðan til að skoða gildi framfara í einstökum eiginleikum fyrir samfélag og framleiðendur. Þetta eru fremur einföld og auðskilin vísindi þegar um er að ræða einfalda magneiginleika eins og mjólkurmagn hjá kúm, kjötmagn hjá mörgum tegundum búfjár eða aukinn lambafjölda hjá sauðfé.
Við Daði Már Kristófersson reyndum meira að segja aðeins að beita slíkri úttekt á ræktunarstarfið í nautgriparækt fyrir um áratug. Unnum með samband kynbótagildis úr nautgripagrunni og rekstrarniðurstaðna úr búreikningum. Niðurstöður gáfu talmarkaða möguleika til að greina áhrif einstakra eiginleika öðru fremur vegna lítils framboðs á búreikninganiðurstöðum en sýndu samt ótvírætt að ræktunarstarfið í þeirri grein skilaði umtalsverðum arði.
Þegar kemur að eiginleikum sem snúa að gæðaeiginleikum einkanlega í kjöti sem er á samkeppnismarkaði kjöttegunda innbyrðis hefur land verið meira á fótinn hjá kenningasmiðum í þessum greinum. Margt hefur um málið verið ritað, misgáfulegt að vísu, en engar einfaldar aðferðir komið fram í slíkum málum. Sú niðurstaða höfunda sem um þessi mál hafa fjallað að lágmarksáherslur ræktunarstarfsins eigi að vera að áherslur á slíka eiginleika verði að lágmarki að nægja til að viðhalda markaðshlutdeild viðkomandi kjöttegundar. Í öllu löndum er í gangi mis árangursríkt úrval hjá búfé vegna þessa fyrir kjötgæðaeiginleika. Þó að þetta gangi ekki upp í heild sinni hefur þetta að minnsta kosti verið mér leiðarvísir sem ráðið hafa miklu um mínar aðgerðir í þessum efnum þar sem ég hef komið að málum.
Breytingar skýrðar með erfðabreytingum í stofninum
Ég vil hér á eftir með hliðsjón af þessu gera tilraun til að meta hverju úrval í sauðfé hér á landi fyrir einum þætti kjötgæðaeiginleika hafi mögulega skilað til framleiðenda og þjóðfélagsins. Þetta er úrval fyrir minni fitu vegna þess að þó að framfarir séu minni en fyrir gerð (vöðva) þá er líklegt að hagræn áhrif þess séu enn meiri vegna fituminnkunar í öllu falli sá hluti þeirra sem skilar sér til framleiðenda.
Skoðum aðeins niðurstöðurnar hjá Jóni Hjalta. Hann finnur að framfarir til minnkunar á fitu séu um eða rúm 10 BLUP stig í kynbótamati á þessum tíma (2000–2013). Með því gríðarmikla gagnasafni sem hann vann með getur hann greint framfarirnar mjög nákvæmlega. Hann finnur að breytingarnar eru að öllu leyti skýrðar með erfðabreytingum í stofninum. Breytingar á umhverfisáhrifum sýnast þar engu hafa valdið. Einnig staðfestir hjá honum það sem ég hef oft áður bent á að þessar breytingar eru allar tilkomnar vegna vals á hrútum fyrir sæðingastöðvarnar. Áhrif af vali bænda vegna þessa eiginleika eru hartnær engin þó að allt öðru máli gegni um gerð fjárins. Fyrstu árin völdu bændur sjálfir raunar fyrir aukinni fitu og skýrist það af óhagstæðu sambandi gerðar og fitu hjá lömbunum á þeim árum.
Til að reyna að gera sér grein fyrir hagnaði af þessum breytingum þarf að reyna að gera sér grein fyrir hvernig skipting á milli flokka hafi breyst á tímabilinu. Til að gera tilraun til að skoða þetta aðeins notaði ég tölur frá kjötmatinu um flokkun sláturlamba haustið 1999 og 2014. Nú er annar þáttur sem ekki síður hefur tekið talsverðum breytingum sem er fallþungi lambanna. Vitað er að ákveðið samband er á milli fallþunga og flokkunar lambanna. Haustið 1999 var meðalfallþungi um 15 kg en hins vegar um 16,3 kg haustið 2014. Benda má að landsmeðaltöl eru nánast þau sömu 2014 og 2015. Í töflu er brugðið upp rauntölunum þessi tvö ár fyrir fituflokkana og sést þar augljós fallþungaaukning lambanna í fituflokkunum vegna eðlis lambanna til minni fitusöfnunar á sama tíma og magn í fitufellingu minnkar.
Skilar miklu í verði til framleiðenda
Út frá þekktum tölum um skiptingu í flokkana og um þungadreifingu hjá lömbunum þá hef ég gert tilraun til að svara þeirri spurningu hve líklegt sé að framleiðendaverð hefði verið lægra haustið 2015 hefði það verið framleitt með dilkum með erfðagrunn lambanna frá 1999. Til að nálgast þetta verður að gera áætlanir um fjölda stærða þannig að útkoman verður ákaflega ónákvæm, frekar að mögulegt sé að gefa ytri mörk stærðanna. Athugið að hér er aðeins verið að ræða um verð sláturleyfishafa til bóndans. Allar greiðslur sem tengjast ríkisstuðningi eru látnar óbættar hjá garði, en ljóst að einhver áhrif er að finna þar til hækkunar. Hitt sem er rétt að benda á er að allir þessir útreikningar byggja á miklum margföldunar á ýmsum stærðum sem gerir að ákvörðun stærða verður aðeins þess vegna mjög ónákvæm.
Niðurstaða mín er að hækkun framleiðendaverðs vegna breytinga á fitu hjá lömbunum sé að lágmarki 50–70 miljónir króna en líklegast sé að hún sé á bilinu 100–150 miljónir króna. Þetta er samt aðeins hluti þess sem um ræðir.
Óbreytt ástand hefði valdið samdrætti
Eins og áður er nefnt þá er kindakjötið í samkeppni við fjölda kjöttegunda á markaði. Því miður hefur lambakjötið orðið að láta undan síga sem samkvæmt áðurnefndum útlendum fræðum segir að áhersla á minni fitu í ræktunarstarfinu hafi ekki verið nægjanlega mikil til að standast samkeppni annarra tegunda. Þá gerum við ráð fyrir að fitan hafi verið stærsta vandamálið í samkeppninni, sem áreiðanlega var rétt á tíunda áratuginum. Hins vegar tel ég að augljóst sé að hefðum við ekki náð að minnka fituna hefði samdrátturinn á innlenda markaðnum orðið miklu meiri og einnig dregið úr möguleikum í útflutningi. Að ákvarða þetta er skot í myrkri. Mitt mat er samt að hefði dilkakjötsframleiðslan 2015 verið af lömbum sem höfðu arfgerð fjárins laust fyrir síðustu aldamót gætum við verið að ræða um 20% samdrátt í framleiðslu að lágmarki. Þegar hann er aðeins metinn á framleiðendaverði erum við að ræða um það bil miljarð króna.
Stórar upphæðir
Endalaust má deila um hvaða verð eigi að miða við í slíkum útreikningum. Jafnvel þó að notað væri útflutningsverð í lægri kantinum væri um feikilegar upphæðir að ræða. Á móti má benda á að engu móti er horft til stuðningsgreiðslna framleiðslunnar enda umdeilt að taka tillit til, en það væri aðeins til hækkunar. Þetta er hagnaður sem fyrst og fremst verður að meta til aukins þjóðarhags. Útilokað er að meta hvernig slíkur samdráttur hefði birst. Líklegt er samt að öðru fremur hefði það gerst með miklu hraðari fækkun bænda en verið hefði og mögulega hefðu þeir sem þá stæðu eftir haldið upp tekjum með meiri framleiðslu.
Betri eiginleikar skila sér í auknum þjóðarhag
Erlend fræði segja að allur hagnaður í eiginleikum sem þessum skili sér sem aukinn þjóðarhagur og til neytenda en ekki til framleiðenda. Nær ekkert er að finna af erlendum rannsóknum sem studdar eru mælingum sem sannreyna þetta. Þó birtist á síðasta ári rannsókn í Ástralíu þar sem þeir höfðu gögn til að meta þessar stærðir. Held ég hafi stuttlega fjallað um þetta hér í blaðinu fyrr á árinu. Niðurstöður rannsóknarinnar studdu fræðin að flestu leyti nema að örlítill hluti þess hagnaðar sem þarna kemur fram skilaði sér þar þó alla leið til framleiðenda.
Aukin fóðurnýting
Endalaust má velta fyrir sér fleiri þáttum í sambandi við þetta. Eitt er hvernig breytist fóðurþörf lambanna. Minni fita og meiri vöðvar getur tæplega annað en aukið fóðurnýtni og þannig enn aukið sjálfbærni framleiðslunnar. Margir munu í dag vilja meta slíkt til tekna. Vegna minni fitu hefur vöðvi komið hjá lömbunum í hennar stað vegna þess að fallþunginn hefur meira að segja talsvert aukist. Hefði aðeins fitan verið fjarlægð hefði fallþungi lækkað.
Aukinn árlegur arður til þjóðarbúsins 400 til 700 milljónir
Fráleitt held ég sé að leggja megi þær áætluð tölur sem nefndar hafa verið saman, líklega nær lagi að horfa á meðaltal stærðanna sem nefndar hafa verið. Þær sýna samt að ræktunarárangurinn vegna fitunnar einnar er að skila að lágmarki 400-700 miljónum í arð til þjóðarbúsins á hverju ári.
Framsýni Framleiðsluráðs og fjárræktarbúsins á Hesti
Ljóst er að einhver kostnaður hefur verið við að ná þessum árangri. Ljóst er samt að hann er hreinir smámunir í þessu sambandi. Vinna við hrútavalið fyrir stöðvarnar á þessum tíma var í öllu falli sáralítil. Aftur á móti lá að baki einhver kostnaður við öflun gagna til að byggja úrvalið á. Þar vegur líklega hvað þyngst öflun mælitækja (ómsjáa) fyrir búnaðarsamböndin upp úr 1990. Þar hjálpaði verulega framsýni stjórnenda Framleiðnisjóðs á þeim tíma en sú stofnun hefur góðu heilli hafti lengi í farteskinu meiri framtíðarsýn en sumar aðrar af stofnunum landbúnaðarins. Full ástæða er líka að nefna í þessu sambandi áratuga markvisst ræktunarstarf við fjárræktarbúið á Hesti (og einnig einstakra ræktenda víða um land) sem virkilega skilaði ómældum hluta til þeirra breytinga sem hér eru til umræðu.
Bætt heilsufar þjóðarinnar
Einn þáttur hefur ekki verið nefndur og verður aldrei metinn af nokkru viti en á að bætast við árangurinn eru möguleg áhrif minni fitu til betra heilsufars þjóðarinnar vegna þess að kjötið sé orðið enn heilsusamlegri fæða en áður. Við vitum að allar tölur í sambandi við heilbrigðiskerfið verða strax risatölur í höndum fjármálavitringa eins og sveitunga míns, heilbrigðisráðherra og Vigdísar Hauksdóttur formanns fjárlaganefndar. Að líkindum hefur það einnig fært þeim vissa ánægju við beitingu niðurskurðarhnífsins, sem að sjálfsögðu ber að telja tekjumegin, þó að það sé greinilega minnsti bagginn í heildarsamhenginu.
Peningar vegna kynbóta hafa rentað sig vel
Hér hafa verið færð rök fyrir því að þeir peningar sem varið hefur verið til kynbótastarfs vegna eins eiginleika í sauðfjárræktinni hafi skilað sér með mikilli rentu til baka til þjóðarbúsins. Allar innlendar og erlendar rannsóknir styðja að svo sé um flest sem snýr að búfjárkynbótastarfi. Til að svo megi verða þarf að vísu ætíð að starfa af framsýni og laga starfið á hverjum tíma að breyttri framtíðarþróun. Þar sem stór hluti ábatans skilar sér beint til samfélagsins hljóta það að vera sterk rök fyrir því að til slíkra starfa sé áfram varið opinberu fé.