Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Mynd 1. Fitusöfnun kúa er metin á ákveðnum stöðum eins og hér sést.
Mynd 1. Fitusöfnun kúa er metin á ákveðnum stöðum eins og hér sést.
Á faglegum nótum 9. mars 2022

Rétt holdastig við burð stóreykur líkur á góðu mjaltaskeiði

Höfundur: Snorri Sigurðsson - snorri.sigurdsson@outlook.com

Samhliða auknum afurðum íslenskra mjólkurkúa, eykst þörfin fyrir nákvæmni við bústjórn enda mega kúabændur síður við mistökum við bústjórn þar sem afurðasemin er mikil í samanburði við bú með lægri afurðasemi. Skýrist það einfaldlega af því að kýrnar eru undir meira álagi, sem þær þola mjög vel sé rétt staðið að bústjórninni.

Bústjórn er auðvitað gríðarlega umfangsmikið verkefni og snýr að öllum þáttum búsins, en í þessari grein verður horft sérstaklega til þess þáttar sem snýr að holdastigun kúnna og hvernig hana má nýta til þess að ná betri árangri.

Mynd 2. Holdastigun frá 2,00 til 3,00.

Holdastigun skiptir máli

Þegar kýr eru holdastigaðar er tilgangurinn, eins og nafnið gefur til kynna, að meta holdafar þeirra. Eftir burð, geta kýr alla jafnan ekki étið nógu mikið fóður til þess að hafa undan mjólkurframleiðslunni og því gengur líkaminn á orkuforðann. Því tapa kýrnar holdum á þessu tímabili og það er þeim í raun eðlislægt.

En ef þær eru of holdrýrar á þessu tímabili lífsins, hafa þær of lítinn forða að ganga á og þá bitnar það á framleiðslunni og heilsufari þeirra. Það skiptir því verulega miklu máli að kýrnar séu í réttum holdum fyrir burð. Markmiðið er að kýrnar séu með holdastig (sjá síðar) upp á 3,5 þegar þær fara í geldstöðu og haldi því holdastigi fram yfir burð. Það getur þó verið munur á milli búa, þ.e. að hvaða holdastigi sé stefnt og fer það eftir nythæð og fleiri þáttum. 

Hér er því um viðmið að ræða sem gæti þurft að hnika til á milli búa og ég mæli alltaf með því að bændur setji upp sín markmið í samvinnu við fóðrunarráðgjafa.

Holdastiga 4-5 sinnum

Það þarf eðlilega að fylgjast vel með holdafari kúnna og stilla af fóðrunina á síðari hluta mjaltaskeiðsins svo kýrnar nái að safna réttu magni af holdum. Ef þær eru hins vegar of feitar þegar þær fara í geldstöðu, hefur það neikvæð áhrif á kýrnar og komandi mjaltaskeið rétt eins og ef þær eru of holdrýrar. Þetta er því nákvæmnisverk sem erfitt er að ná nema með því að nota gott holdastigunarkerfi og nota það reglulega.

Almennt mæli ég með því að holdastiga allar kýr í upphafi geldstöðu, við burð og svo 2-3 yfir mjaltaskeiðið. Sumir mæla með því að gera þetta enn oftar en mér hefur fundist þessi tíðni gefa afar gott yfirlit yfir þróunina á hverju búi. Ef þetta er gert fær bóndinn mjög gott yfirlit yfir þróun holdafarsins hjá kúnum og getur brugðist við sé holdafarið almennt að færast út fyrir áætlun búsins.

Einnig er mikilvægt að gera þetta hjá fengnum kvígum, svo þær
séu í réttum holdum við burð, rétt eins og kýrnar.

Mynd 3. Holdastigun frá 3,25 til 5,00.

Holdastigunarkerfið

Nokkur holdastigunarkerfi eru til í heiminum en algengast er að nota það kerfi sem hér verður lýst. Matið er þannig framkvæmt að lagt er mat á fitusöfnun kúnna á afturhluta líkamans, við halarót og setbein, þverþorn, mjaðmahnútu og rifbein (sjá mynd 1).

Holdastigunin byggir svo á 5 mismunandi flokkum og gefin stig sem hlaupa á 0,25 á milli hvers flokks ef þörf þykir. Það tekur alltaf nokkurn tíma að læra að nota þetta stigakerfi en með æfingu geta allir lært þetta. Holdastigin fimm eru (úr kennslubókinni Nautgriparækt):

Holdastig 1: Grindhoraður gripur sem er að öllum líkindum orðinn veikur svo það á ekki við að holdastiga sérstaklega.

Holdastig 2: Hver hryggjarliður er vel greinanlegur, rifbein vel greinanleg og lítil sem engin fylling á milli þverþorna, mjaðmahnútur og setbein vel útstæð og köntuð. Engin fitumyndun er í halarót og U-laga form er undir hana.

Holdastig 3: Hrygglínan orðin aðeins afrúnnuð, aflíðandi lína frá hrygg að þverþornaendum, mjaðmahnútur og setbein jöfn og aðeins mjúk og ekkert köntuð lengur. Halagrópin er grunn og það er aðeins fitumyndun við halarót.

Holdastig 4: Hrygglínan er flöt og engir hryggjarliðir sjást lengur. Þverþorn næstum flöt og mjaðmahnútur og setbein rúnnuð með fitu. Halagrópin fyllt af fitu og halarótin að þykkna.

Holdastig 5: Akfeitur gripur, mikil og greinileg fita alls staðar.

Eins og áður var getið um er holdastigunum svo skipt upp í undirflokka sem hlaupa á 0,25 og til þess að átta sig á dómsskalanum er best að skoða myndir 2 og 3 sem sýna breytinguna á milli undirflokkanna vel.

Eftir matið

Holdastigunin er afar gott bústjórnartæki sem nýtist alltaf til að bæta árangur búsins og þegar búið er að meta hjörðina þarf mögulega að bregðast við.
Þetta geta verið þættir eins og breytt fóðrun, möguleg flokkun gripa í nýja hópa eða annað slíkt sem eykur líkurnar á því að ná réttu holdafari þegar kýrnar fara í geldstöðu eða kvígurnar fara inn í lokatímabilið fyrir burð.

Þetta fer auðvitað eftir fjósgerðum og aðstæðum hverju sinni og því misjafnt hvað er hægt að gera. Fjósgerðin eða stærð hjarðarinnar ætti þó aldrei að halda bændum frá því að holdastiga, hvort sem unnt er að taka á einstökum gripum eða ekki. Þá eru gripirnir mismunandi að eðlisfari og safna holdum með mismunandi hætti.

Það er ýmislegt sem bendir til þess að íslensku kýrnar séu með heldur meiri breytileika hvað holdastig snertir en kýr af öðru kúakyni og að þær erlendu búi að meiri erfðafestu þegar kemur að þessum þætti og/eða búi við meiri stöðugleika
í fóðrun.

Það er því enn mikilvægara fyrir íslenska bændur, en erlenda kollega þeirra, að sinna holdastigun
vel og reglulega svo hægt sé að ná sem mestum og bestum árangri með kýrnar.

Ítarefni:
„Fóðuráætlanir“ eftir Berglindi Ósk Óðinsdóttur í bókinni Nautgriparækt, sem m.a. hægt er að nálgast á vef Búgreinadeildar kúabænda innan BÍ:
www.bondi.is/naut

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...