Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Silkiormar framleiða mýksta og eitt sterkasta efni í heimi
Á faglegum nótum 9. mars 2017

Silkiormar framleiða mýksta og eitt sterkasta efni í heimi

Höfundur: Vilmundur Hansen

Ekkert er mjúkt eins og silki og það er líka sterkt eins og stál. Silki er sú vefnaðarvara sem allar aðrar vefnaðarvörur eru miðaðar við. Kínverjar framleiða allra þjóða mest af silki og silki hefur fundist við fornleifauppgröft á biskupssetrinu Skálholti.

Áætluð heimsframleiðsla á silki árið 2015 er rúm 200 þúsund tonn og hefur aukist úr 140 þúsund tonnum frá 2010. Spár gera ráð fyrir að eftirspurn eftir silki eigi eftir að aukast og framleiðslan að sama skapi og að hún nái 300 tonnum fyrir árið 2030.

Silki úr silkiormum er framleitt í um 60 löndum en mest er framleiðsla þess í löndum í Asíu. Þrátt fyrir að markaðshlutdeild silkis sé innan við 0,5% af textílmarkaði heimsins er vinnsla á silki mannfrek. Nokkrar milljónir manna, aðallega konur, starfa við silkiormaeldi og silkiframleiðslu í Kína og Indlandi. Eldið er lítið tæknivætt og fer að mestu fram í sveitum og er víða undirstaða efnahags íbúanna.

Kína er langstærsti framleiðandinn þrátt fyrir að framleiðslutölum fyrir 2015 beri ekki saman og rokki frá 146 til 170 þúsund tonn. Indland er í öðru sæti með tæp 30 þúsund tonn og Úsbekistan er í þriðja og framleiddi rúm 1000 tonn árið 2015. Sama ár var framleiðsla í Taílandi tæp 700 kíló, í Brasilíu um 600 kíló. Víetnam, Norður-Kórea, Japan og Tyrkland fylgja þar á eftir með framleiðslu sem er frá 450 og niður í 30 kíló.

Helstu innflytjendur silkis í heiminum eru Bandaríki Norður-Ameríku, Ítalía, Japan, Indland, Frakkland, Kína Bretlandseyjar, Sviss og Þýskaland.

Silki er flutt til Íslands í margs konar formi og sem íblöndunarefni. Samkvæmt tollskrá fyrir árið 2016 var mest flutt inn af blönduðu silki sem ofnum dúk, rúm 570 kíló, og rúm 335 kíló af silkigarni úr silkiúrgangi. Eitt kíló var flutt inn af silkiormahjúp eða púpum til vinnslu og fjögur kíló af óspunnu hrásilki.

Lirfa sem spinnur púpu

Silkiormar, Bombyx mori, eru lirfur náttfiðrilda sem upprunnin eru í norðurhluta Kína. Allir silkiormar í eldi eru af tegundinni B. mori. Lengi var talið að ættkvíslin Bombyx innihéldi einungis tvær tegundir B. mori og villtar B. mandarina en í dag eru tegundir silkiorma sagðar vera átta auk fjölda blendinga milli tegunda.

Lífsferill silkiorma skiptist í fjögur stig og á þeim á sér stað fullkomin myndbreyting. Úr eggjum klekjast lirfur sem lifa á laufblöðum hvítra mórberjatrjáa, Morus sp. Lirfurnar éta mikið, vaxa hratt og þegar höfuð þeirra  dökknar líður að hamskiptum. Hamskipti eru að öllu jöfnu fjögur og stækka lirfurnar við hvert þeirra. Eftir síðustu hamskiptin gulnar líkami lirfanna og er það merki um að komið sé að næsta lífstigi sem kallast púpustig. Við púpustig spinnur lirfan, úr kirtlum sem eru hvor sínum megin við munninn, utan um sig hylki sem kallast púpa og er gerð úr örfínum þráðum og eilítið stærri en fingurbjörg. Inni í púpunni umbreytist lirfan í fiðrildi sem að lokum étur sig út úr hylkinu. Fiðrildin neyta ekki fæðu og eftir mökun verpa kvendýrin allt að 400 límkenndum eggjum á lauf mórberjatrjáa og þar með er lífsferli dýranna lokið.

Bjöllur, silfurskottur og flær

Þrátt fyrir að silkiormar séu einu skordýrin sem alin eru til framleiðslu á spunaþræði spinna köngulær, krybbur, hunangsflugur, kögurvængjur, bjöllur, flær og silfurskottur silkilíkanþráð á einhverju æviskeiði.

Framleiðsla á silki

Í eldi er eggjum fiðrildanna safnað og þau geymd í kæli. Yfirleitt tekur tvær vikur fyrir lirfu að skríða úr eggi við 18 til 25 gráðu hita á Celsíus.

Þegar að eldinu kemur eru eggin sett á lauf hvítra mórberjatrjáa, M. alba, og eftir að lirfurnar klekjast út éta lirfurnar laufið. Eftir að lirfurnar púpa sig eru púpurnar settar í heitt vatn, áður en fiðrildin skríða úr þeim, og raktar í sundur og þræðirnir spunnir saman á snældu.

Örfínir silkiþræðirnir eru gerðir úr löngum amínósýrum ekki ósvipuðum keratíni sem fjaðrir, hár og horn eru úr. Silkiþráður er sterkari en stálvír af sömu þykkt og þráðinn má strekkja í þrefalda lengd sína áður en hann slitnar. Sé slakað á þræðinum nær hann sinni upprunalegu lengd aftur á svipstundu.
Úr hverri púpu fást 300 til 900 metrar af örfínum silkiþræði. Þráðurinn er svo léttur að það þarf 10.000 til 12.500 púpur til að framleiða eitt kíló af silki.

Að meðaltali þarf um 5.000 púpur í vandað japanskt kímónó.

Eftir árþúsunda eldi og val finnast silkiormar til silkiframleiðslu ekki í náttúrunni og eru algerlega háðir mönnum og ólíklegt að þeir mundu lifa af án umönnunar silkibænda.

Óteljandi ormar

Sé gert ráð fyrir að það þurfi 11.000 púpur til að framleiða eitt kíló af silki og að heimsframleiðslan sé 200 þúsund tonn er fjöldi silkiorma til silkiframleiðslu 2.200 milljarðar, 2.200.000.000.000. Tala sem er svo há tala að hún segir venjulegu fólki ekki neitt. Fjöldinn í einstaklingum talið gerir silkiorma að því nytjadýri sem langmest er af í heiminum.

Púpan og tebollinn

Framleiðsla á silki á sér árþúsunda langa sögu í Kína en heimildum ber ekki saman um hvort Kínverjar hafi verið farnir að vinna silki fyrir 5 eða 10 þúsund árum.

Samkvæmt kínverskri sögn sat keisaraynja Leizu einn góðviðrisdag undir mórberjatré í garðinum við keisarahöllina og drakk te. Óvænt féll silkiormapúpa af trénu og ofan í heitt teið í bollanum og fór að rekjast upp. Leizu var eðlisvitur og forvitin og tók í enda þráðarins og rakti hann upp og áður en lirfan inni í púpunni kom í ljós hafði hún vafið stóran hluta garðsins í silkiþráð. Eins og góðri keisaraynju á þeim tíma sæmdi fékk Leizu leyfi hjá eiginmanni sínum, sem var enginn annar en Guli keisarinn sem sameinaði Kína í eitt ríki, til að rækta silkiorma í lundi mórberjatrjáa og fylgjast með lífsferli þeirra. Í framhaldi af því lærði hún bæði að rækta silkiorma og framleiða silki. Frá þeim tíma er Leizu gyðja silkisins.

Þrátt fyrir að sagan sé góð er líklegra að margar aldir hafi tekið að komast upp á lagið með að framleiða silki og þar að auki eru Leizu og Guli keisarinn goðsagnapersónur í nánast óendanlegu guðatali Kínverja.

Nytjar á silki og silkiormum

Silki er ótrúlega sterkt þrátt fyrir fínleikann. Helstu nytjar á því er sem þráður sem ofinn er í klæði, teppi, mottur og rúmföt. Vegna þess hversu fínn þráðurinn er eru silkiklæði mjög þétt og góð vörn gegn stungum og biti skordýra.

Vörur úr silki hafa alltaf verið dýrar og lengi var notkun þess bundin við háaðalinn. Í dag er silki víða fáanlegt í verslunum fyrir almenning en það silki er langt frá því að vera hreint og réttast væri að kalla það silkilíki vegna þess hvað gæðin eru ólík alvöru silki.

Silkiþræðir eru einnig notaðir sem íblöndunarefni í einangrun í rafmagnstækjum og bílum, í heilbrigðisiðnaði og í fallhlífar.

Í kínverskum lækningum eru þurrkaðir silkiormar muldir í duft sem er sagt gott við iðraþembu, slímmyndun og skjálfta. 

Villtir og aldir silkiormar þykja ágætir til matar. Í norðausturhéruðum Indlands eru þeir soðnir í mjólk með eldpipar og kryddjurtum. Í Kóreu og Kína eru ristaðir silkiormar borðaðir sem snakk en í Japan eru þeir bornir fram soðnir í súrsætri sósu sem er búin til úr sykri og sojasósu.

Í framtíðinni er ekki ólíklegt að silkiormar verði aldir sem fæða fyrir áhafnir geimskipa sem ætluð eru til langferða.

Silkileiðin og leið silkis til Evrópu

Kínverjar einokuðu framleiðslu á silki í margar aldir og dauðadómur lá við að uppvísa um framleiðsluaðferðina. Auk þess sem sami dómur lá við að flytja eða selja fræ mórberjatrjáa eða egg, lirfur, púpur eða fiðrildi silkiorma úr landi.

Til Evrópu barst unnið silki frá Kína eftir Silkileiðinni sem var net verslunarleiða sem hófst eða endaði í Sían í Kína og náði til borga við austanvert Miðjarðarhaf.

Svo vel gættu Kínverjar leyndarmál silkisins að Evrópubúar héldu lengi að silki væri plöntuafurð en ekki unnið úr skordýrum.

Sagan segir að kínversk prinsessa hafi verið send gegn vilja sínum til að giftast keisaranum í Khotan sem var landlukt smáríki í Taklamakan-eyðimörkinni, sem í dag er gróflega þar sem landamæri Kína, Kasakstan, Kyrgyzstan og Pakistan liggja saman. Prinsessan var niðurbrotin og sorgmædd og gat ekki hugsað sér að lifa án silkis. Hún smyglaði því nokkrum eggjum silkiorma í hári sínu til Khotan og var það fyrsta ríkið utan Kína sem framleiddi silki.

Síðar barst þekkingin til Japans, Indlands og annarra Asíuríkja.

Sagan segir að Alexander mikli hafi kynnt silki fyrir Evrópubúum en líklegra er að silki hafi borist eftir verslunarleiðum til Persíu og Tyrklands löngu áður en hann lagði í ævintýraleiðangur sinn.
Í Róm var silki jafn verðmætt gulli að þyngd.

Silkiormar berast til Evrópu

Sagt er að tveir persneskir munkar hafi smyglað fræjum af mórberjatrjám til Miklagarðs árið 552 eftir Krist. Fræjunum var sáð og upp af þeim uxu tré sem döfnuðu vel en á þeim óx ekkert silki eins og búist var við. Það vantaði ormana.

Munkarnir sneru aftur til Kína og í það sinn tókst þeim að hafa með sér nokkra silkiorma til Miklagarðs sem þeir földu í holum göngustöfum úr bambus. Í Evrópu var silki fyrst framleitt á Grikklandi. Márar hófu silkirækt á Spáni og Portúgal á áttundu öld en það var ekki fyrr en á tímum krossfaranna á tólftu öld að silkivefnaður breiddist út að einhverju ráði um Evrópu.

Frans I, konungur Frakklands í lok fimmtándu og byrjun sextándu aldar, átti silkisokka sem þótti nýlunda á þeim tíma.

Til að auka framleiðslu á silki í Evrópu var milljónum mórberjatrjáa plantað í suðurhluta álfunnar. Til dæmis plöntuðu Prússar þremur milljónum mórberjatrjáa í ríki sínu, sunnan Eystrasalts, árið 1782.
Stanslausar erjur og stríð í Evrópu allt fram á þessa öld gerðu það að verkum að mórberjatrén voru drepin nánast jafnóðum og þeim var plantað. Eldi á silkiormum og framleiðsla á silki í Evrópu hefur því verið minna en efni stóðu til.

Erfðarannsóknir á silkiormum

Í dag eru mörg hundruð stofnar silkiorma í eldi og með erfðatækni hefur tekist að rækta orma sem geta lifað á öðru en laufi mórberjatrjáa og framleitt enn sterkara silki. Rannsóknir benda einnig til að með hjálp erfðatækni sé hægt að láta ormana framleiða húðlíkt efni sem nota má til að græða sár og efni til lyfjaframleiðslu í staðinn fyrir silki.

Silki á Íslandi

Ómögulegt er að segja fyrir víst hvenær silki barst fyrst til Íslands en silki hefur fundist við fornleifauppgröft á biskupssetrinu Skálholti.

Hrefna Róbertsdóttir segir í doktorsritgerð sinni, Wool and society, að silki hafi borist frá Danmörku með skipi til Vopnafjarðar á árunum 1760 til 1763 sem tilbúnar flíkur fyrir yfirstéttina.

Í MA-ritgerð Helgu Hlínar Bjarnadóttur, Þarflegir hlutir og óþarflegir – (Ó)hófsemi Húnvetninga 1770–1787 og íslensk neyslusaga á 18. öld, er áhugaverður kafli um silki.

„Tilskipanir allt til 18. aldar sýna að embættismenn voru uppteknir af fatnaði landsmanna og hvort fólk hafði stöðu og stétt til þess að bera ákveðin klæði. Föt áttu að sýna hverrar stéttar fólkið var og þess vegna var mikilvægt að senda öðrum rétt skilaboð. Þá var ekki aðeins litið til gæða þeirra efna sem fötin voru gerð úr, heldur einnig skrautsins á þeim og útsaumsins.“

Silki var lúxusvarningur og einungis ætlað yfirstéttinni.

Í ritgerð Helgu segir að þegar Steinunn Björnsdóttir prófastsdóttir frá Görðum á Álftanesi giftist Skúla Magnússyni, síðar landfógeta, árið 1738, fékk hún heimanfylgju sem voru meðal annars silkigardínur með kögri.

Silki var nokkuð aðgengilegt í gegnum verslanir á 18. öld og embættismenn teknir að kvarta yfir því að almenningur væri einnig farinn að nota þetta fína efni sem ætlað var þeim sjálfum.

Í Frásagnir um Ísland, sem kom út árið 1752, segir Niels Horrebow að fatnaður almúgans líkist fötum danskra sjómanna, buxur og treyjur. Munurinn á heldri frúm og öðrum konum er að þær fyrrnefndu nota silki og flauel, silfurskraut og gyllta silfurhnappa en almúginn notar látúnshnappa og saumar heimaskraut á flauelsborða.

Meðal þess sem Helga skoðar í ritgerð sinni er uppskrift dánarbúa úr Húnavatnssýslu frá árunum 1770 til 1787. Af 94 dánarbúum reyndust 46 þeirra innihalda silki, eða tæplega helmingur, og verður það að teljast mikið miðað við hvað silki var dýrt og taldist til óþarfa fyrir almúgann. Skoðun Helgu á uppskriftum dánarbúanna sýnir ótvírætt að til hefur verið fátækt fólk sem átti silki.

„Hvernig fólkinu hefur áskotnast það er erfitt að segja. Kaupmenn fluttu inn silki og því var hægt að kaupa glænýja klúta þar. Fólk hefur getað erft þá, fengið að gjöf eða keypt á uppboði.“

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...