Skógvist II
Á árunum 2002–2005 fór fram rannsóknarverkefni í skógum á Fljótsdalshéraði og í Skorradal sem ræktaðir höfðu verið skóglausu mólendi.
Verkefnið gekk undir heitinu SKÓGVIST (ICEWOODS) og var samstarfsverkefni Náttúrufræðistofnunar Íslands, Skógræktar ríkisins, Landbúnaðarháskóla Íslands, Héraðsskóga og Suðurlandsskóga.
Markmið verkefnisins var að kanna hvaða breytingar yrðu á lífríki, kolefnishringrás og jarðvegsþáttum mólendis við skógrækt.
Árið 2021 lagði matvælaráðherra fram samþætta aðgerðaáætlun og stefnu stjórnvalda í landgræðslu og skógrækt fyrir árin 2022–2026 undir heitinu Land og líf. Eitt aðalmarkmið hennar er að meta hvaða áhrif breytt landnotkun, til að mynda skógrækt, hefur á líffræðilega fjölbreytni.
Skógvist II
Til að meta þessi áhrif var ákveðið að setja af stað rannsóknarverkefnið SKÓGVIST II þar sem gömlu mælireitirnir úr eldra Skógvistarverkefninu í Skorradal skyldu endurmældir, 20 árum eftir fyrstu mælingar. Skógvist II er stýrt af Landi og skógi í samvinnu við Náttúrufræðistofnun Íslands, Landbúnaðarháskóla Íslands, Háskólann á Akureyri, Náttúrustofu Norðurlands vestra og Háskóla Íslands. Sérfræðingar frá þessum stofnunum sjá um tiltekna þætti rannsóknarinnar. Verkefnið hófst árið 2023 en mælingar byrjuðu síðastliðið vor og hafa gengið vel það sem af er sumri. Öllum mælingum lýkur nú í haust, 2024.
Í verkefninu verða rannsakaðir fuglar, fléttur, lágplöntur, skordýr, ánamaðkar og trjáplöntur í mismunandi skógarreitum og sambærilegu mólendi. Með nýjustu tækni verða einnig kannaðir ýmsir jarðvegsþættir og lífverur í jarðvegi.
Næsta árið mun svo fara mikil vinna í tegundagreiningu skordýra, raðgreiningu jarðvegs, efnagreiningu jarðvegs, mælingar á uppskeru og úrvinnslu gagna.
Ávinningur
- Aukin þekking á lífríki Íslands og hvernig það breytist þegar skógur vex upp á áður skóglausu mólendi.
- Meiri upplýsingar um hvernig vistfræði íslenskra skóga breytist með tímanum, eftir því sem skógurinn eldist.
- Aukin þekking á tegunda- samsetningu lykil-lífveruhópa í skógum á Íslandi og breytileika hennar frá einni skógargerð til annarrar.
- Aukið samstarf stofnana sem vinna við svipuð málefni og sérfræðiþekking nýtt á milli stofnana.
Allt þetta stuðlar að betri og auðveldari ákvörðunum í skógrækt og skipulagsmálum til framtíðar.