Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Skriða við bæinn Björg í Útkinn í Þingeyjarsveit.
Skriða við bæinn Björg í Útkinn í Þingeyjarsveit.
Mynd / Aðsend
Á faglegum nótum 26. október 2021

Tryggingavernd bænda

Höfundur: Vigdís Häsler framkvæmdastjóri BÍ

Á síðustu árum hefur reynt verulega á viðbrögð við náttúruhamförum og eyðingu búfjár vegna dýrasjúkdóma. Eftir þá reynslu hafa ýmis álitaefni komið til umræðu sem mikilvægt er að greina og hagnýta til framtíðar litið. Meðal þess er að hvaða marki og með hvaða hætti veita á fé úr sameiginlegum sjóðum landsmanna vegna tjóns á eignum og búfé í eigu bænda.

Síðustu daga og vikur hafa bændur í Þingeyjarsveit þurft að sæta rýmingu vegna skriðufalla í Kinnarfjöllum. Ljóst er að í þessum náttúruhamförum hafa víða orðið skemmdir á túnum og girðingum þar sem skriður hafa fallið fram á láglendi og yfir tún og girðingar. Bjargráðasjóður heyrir undir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið og starfar samkvæmt lögum nr. 49/2009, með síðari breytingum. Lögunum var síðast breytt með lögum nr. 46/2018. Hlutverk sjóðsins er að veita einstaklingum og félögum fjárhagsaðstoð til að bæta meiri háttar beint tjón af völdum náttúruhamfara á eftirfarandi eignum:

a. Gjaldskyldum fasteignum
samkvæmt skilgreiningu laga um tekjustofna sveitarfélaga og girðingum, túnum og rafmagnslínum sem tengjast landbúnaði.

b. Heyi sem notað er við landbúnaðarframleiðslu.

c. Vegna uppskerubrests af
völd­um óvenjulegra kulda, þurrka, óþurrka og kals.

Það tjón sem nýtur almennrar tryggingaverndar fæst ekki bætt úr Bjargráðasjóði og hið sama gildir um tjón sem fæst bætt með öðrum hætti, en þar er vísað til laga um Náttúruhamfaratryggingu Íslands. Þá gera lög um Bjargráðasjóð ráð fyrir því að tjón sé bætt með styrkjum en ekki tjónabótum í hefðbundnum skilningi. Það er umhugsunarefni þar sem meginreglan er sú að styrkir teljast til skattskyldra tekna aðila á meðan tjónabætur gera það ekki. Þetta misræmi þarf nauðsynlega að taka til skoðunar m.a. vegna þess að í lögum um náttúruhamfaratryggingar eru bætur skilgreindar sem vátryggingabætur. Þá taka fjárhæðir veittra styrkja mið af fjárhag og stöðu sjóðsins hverju sinni.

Á síðustu árum hefur fyrirkomulag, fjármögnun og hlutverk Bjargráðasjóðs tekið miklum breytingum frá því hann var stofnaður. Eignarhaldi og aðkoma sveitarfélaganna að Bjargráðasjóði lauk með setningu laga nr. 49/2009. Með niðurlagningu búnaðardeildar Bjargráðasjóðs, samhliða því að búnaðargjald var aflagt gátu bændur ekki lengur sótt um tjónabætur vegna óvenjulegs veðurfars, tjóns á búfé og afurðum búfjár og uppskerutjóns á grænmeti og garðávöxtum. Með niðurlagningu búnaðardeildar sjóðsins lauk þar einnig eignaraðild Bændasamtaka Íslands að sjóðnum. Þannig hefur hlutverk sjóðsins dregist saman með tilkomu almennra landbúnaðartrygginga sem vátryggingafélögin bjóða upp á, Náttúruhamfaratryggingu Íslands, auk ýmissa annarra úrræða sem lög tryggja þegar skórinn kreppir af ýmsum ástæðum. Þá er umhugsunarverð sú staðreynd að Bjargráðasjóður er fjármagnaður með fjárframlögum af fjárlögum sem býður þeirri hættu heim að tjón þeirra sem Bjargráðasjóði er ætlað að koma til hjálpar verði ekki bætt fyrr en eftir að fjárlög hafa verið samþykkt á Alþingi, sem kann að vera allnokkru eftir að tjónsatburður hefur átt sér stað. Það má því raunar segja að verulega hafi fjarað undan starfsemi sjóðsins á síðustu árum og áratugum.

Annmarkar á núgildandi löggjöf um Bjargráðasjóð

Náttúruhamfaratrygging Íslands (NTÍ) bætir beint tjón af völdum eldgosa, jarðskjálfta, skriðufalla, snjóflóða og vatnsflóða. Þau bæta ekki tjón vegna flóða af völdum leysingavatns/asahláku og skýfalls, óveðurstjón, foktjón eða tjóns af völdum snjóþunga þegar eignir sligast eða brotna undan snjó. Allar húseignir á Íslandi eru vátryggðar hjá NTÍ og ef innbú og lausafé viðkomandi er brunatryggt hjá hinum almennu tryggingafélögum, er það vátryggt gegn náttúruhamförum hjá NTÍ.

Landbúnaðartrygging sem í boði er hjá tryggingafélögunum er ætluð bændum sem leggja stund á hefðbundnar búgreinar, svo sem sauðfjár- og nautgriparækt. Sérhæfðari búrekstur, t.a.m. loðdýra-, yl-, alifugla-, garð- og svínarækt verður að vátryggja sérstaklega. Lausafjártrygging tryggir lausafé svo sem búfé, hey, fóður, áhöld og tæki á býli fyrir bruna og gripi fyrir umferðaróhöppum og raflosti. Engin trygging er hins vegar fyrir búfénað sem t.a.m. drepst vegna slæms veðurfars því eftir standa úr sér gengin ákvæði laga um Bjargráðasjóð sem þarfnast heildarendurskoðunar því sjóðurinn veitir bændum ekki þá vernd sem honum var ætlað í upphafi. Annmarkar í núgildandi löggjöf og fjármögnun sjóðsins leiðir til óskilvirkni við uppgjör bóta, langrar málsmeðferðar og óvissu um réttarstöðu þeirra tjónþola sem sjóðnum er ætlað að vernda.

Heildstæð endurskoðun á tryggingamálum bænda

Á Búnaðarþingi í vor var samþykkt ályktun með öllum greiddum atkvæðum þingfulltrúa, þar sem lagt var til að farið yrði í heildstæða endurskoðun á tryggingamálum bænda, þar með talið lögum um Bjargráðasjóð. Það er álit Bændasamtaka Íslands að auka þurfi tryggingavernd bænda, fyrirsjáanleika og skilvirkni við uppgjör á tjónum í landbúnaði en það verður þó heldur ekki gert án aðkomu almennu vátryggingafélaganna því kanna þarf vilja þeirra til að bjóða upp á náttúruhamfaratryggingar sem hluta af samsettri vátryggingavernd þegar landbúnaðartryggingu sleppir.

Í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu er nú að störfum starfshópur skipaður fulltrúum frá Bændasamtökum Íslands, Náttúruhamfaratryggingu Íslands, fulltrúum frá tryggingafélögunum og fjármálaráðuneytinu sem eru að fara heildstætt yfir tryggingamál bænda. Er ráðgert að starfshópurinn skili af sér niðurstöðu og tillögum þann 1. apríl nk. Þangað til þurfa bændur sem orðið hafa fyrir tjóni á búfénaði og túnum að leggja allt sitt traust á að stjórnvöld og Alþingi finni lausnir svo bændur geti haldið áfram að sinna verkefnum sínum.

Vigdís Häsler
framkvæmdastjóri BÍ

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...