Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Sýnataka úr eyra.
Sýnataka úr eyra.
Á faglegum nótum 7. febrúar 2022

Um ARR og átaksverkefnið fram undan í arfgerðargreiningum

Höfundur: Eyþór Einarsson ráðunautur búfjárræktar- og þjónustusviðs - ee@rml.is

Það voru einstaklega ánægjuleg tíðindi sem hægt var að færa landsmönnum mánudaginn 17. janúar þegar tilkynnt var um að okkur hefði tekist að finna hina alþjóðlega viðurkenndu verndandi arfgerð gegn riðuveiki (ARR) í íslenska fjárstofninum.

Áður var búið að finna T137 í nokkrum kindum sem líka er mjög spennandi þó sú arfgerð sé ekki viðurkennd, enn sem komið er, sem verndandi. Í raun var vart hægt að hugsa sér betra veganesti inn í það átak sem er fram undan, en það að eiga nú raunhæfa von um að finna gullmola í stofninum.

Hér verða veittar upplýsingar um verkefnið, annars vegar er varða praktísk atriði og hins vegar upplýsingar um áherslur í sýnatökunni – hvernig snýr þetta að mér sem sauðfjárbónda?

Markmið verkefnisins – við hverja á það erindi?

Átaksverkefnið, sem framkvæmt er af RML og styrkt af Þróunarsjóði sauðfjárræktarinnar, gengur annars vegar út á að hvetja bændur til að koma inn af meiri krafti í það að rækta fé sem hefur mikla mótstöðu gegn riðuveiki. Hins vegar að leita betur í stofninum að verndandi arfgerðum og þá í leiðinni öðrum breytileikum á príongeninu sem áhrif geta haft á mótstöðu sauðfjár gagnvart riðu.

Mikilvægt er að allir sýni verkefninu áhuga. Hve stór skref bændur taka í því að rækta þolnari stofna er ákvörðun hvers og eins en vissulega snertir þetta alla sauðfjárbændur en þó með mismunandi hætti.

Hvaða bú?

Fyrir bændur á riðusvæðum er vissulega mest áríðandi að taka ræktun fyrir þolnari stofnum föstum tökum. Útrýma áhættuarfgerðinni úr stofninum og fjölga lítið næmum og verndandi arfgerðum eins hratt og kostur er.

Fyrir bú sem kalla má ræktunarbú, er mikilvægt að þau komi inn í verkefnið af fullum þunga. Hér er átt við bú sem selja talsvert af líflömbum og/eða hafa skaffað sæðingastöðvunum hrúta fyrir hið sameiginlega ræktunarstarf. Þessi bú ættu að losa sig við áhættuarfgerðina og vera undir það búin að anna eftirspurn eftir sölugripum með lítið næmar og verndandi arfgerðir.

Bændur sem telja sig tilheyra hvorugum hópnum geta samt engu að síður lúrt á erfðafræðilegum gullmolum. Það eru því í raun best að allir sýni lit á einhvern hátt í þessu sameiginlega átaki.

Líklegt er að í framtíðinni muni reglur um hvaða gripi má flytja á milli búa, grundvallast á því hvaða arfgerð gripurinn ber.

Hvaða gripir?

Mælt er með að sem flestir láti taka sýni úr hrútunum sínum þannig að sem stærstur hluti hrútaflotans í landinu verði greindur.

Þeir sem hafa hug á að ganga skrefi lengra, myndu taka stikkprufur úr hjörðinni. Velja gripi sem gætu endurspeglað ólíkar ættlínur innan hjarðarinnar og úr ám sem mikið er til út af, líkt og hrútsmæður.

Þeir sem eru tilbúnir að taka stærri skref, ættu þá að horfa til þess að taka yngstu árgangana skipulega fyrir auk þess að skoða valdar eldri ær. Ljóst má vera að fyrir ákveðin bú verður það takturinn næstu árin að inn í hjörðina fari nánast eingöngu gripir sem eru arfgerðargreindir.

Best er vissulega að taka skrefið til fulls og kanna nánast alla hjörðina. Nægilegt ætti þó að vera að greina um 70% gripanna og sleppa þeim sem fyrirsjáanlega eru á leið úr ræktun og ám sem ekki er sett á undan. 

Algengar spurningar 

Á mínu búi eru hrútarnir þegar greindir með tveggja sæta greiningu (sæti 136 og 154) – þarf ég að greina þá aftur? Þetta þarf bara að meta í hverju tilfelli. Vissulega liggja fyrir mikilvægar upplýsingar um þessa gripi, þ.e.a.s. upplýsingar um áhættuarfgerðina og lítið næmu arfgerðina. Til þess að spara sér að greina þessa gripi aftur, mætti byrja á að skoða hvort hægt sé að fá upplýsingar um foreldra þeirra. Einnig mætti byrja á að taka úrtak úr stofninum áður en ákvörðun er tekin að freista þess að finna verndandi arfgerð í hrútunum. Þá er líklegra að gripir sem teljast hlutlausir út frá þessum tveim sætum (AR/AR) leyni verndandi arfgerð heldur en gripir sem eru arfblendnir fyrir áhættuarfgerð (VR/AR) eða lítið næmu arfgerðinni (AR/AH). Svo er útilokað að gripir sem eru arfhreinir fyrir áhættu- eða lítið næmu arfgerð (VR/VR, AH/AH) leyni verndandi arfgerð. Nánar um þetta má lesa inn á heimasíðu RML.

 Er æskilegt að tvískipta sýna­tökunni? Já, þar sem taka á mörg sýni getur verið skynsamlegt að gera það í tveim hlutum. Almennt væri þá best að taka fyrst úr hrútunum og eldri ám  sem liggur fyrir að taka eigi sýni úr. Afkvæmi foreldra sem báðir reynast hlutlausir (engan breytileika að finna í þeim 6 sætum sem leitað verður í) þarf þá í raun ekki að skoða. Það er 100% öruggt að afkvæmið er einnig hlutlaust. Búast má við að það sé algengasta niðurstaðan í flestum hjörðum, að gripir reynist hlutlausir.

Greiningar á sæðinga­stöðva­hrútum? Allir kandídatar fyrir sæðinga­stöðvarnar sem greindir hafa verið frá ársbyrjun 2021 hafa verið raðgreindir (öll sæti príongensins skoðuð). Þá er þegar búið að greina nokkurn hóp af eldri hrútum. Listi yfir greinda hrúta og þá eldri hrúta sem stendur til að verði greindir, mun birtast á heimasíðu RML á næstu dögum.

Nokkur hagnýt atriði 

Skráning í átaksverkefnið fer fram á heimasíðu RML (www.rml.is). Skráning er opin til 1. febrúar 2022.

Allir geta sótt um. Í boði eru ákveðið margar greiningar á niðursettu verði (niðurgreitt af Þróunarsjóði sauðfjárræktarinnar). Ef eftirspurn eftir greiningum verður umfram þann fjölda sýna sem er niðurgreiddur get bændur keypt greiningar á mjög hagstæðu verði í gegnum verkefnið.

Verð á greiningu pr. niðurgreitt sýni vegna verkefnisins er 850 kr. án vsk. og með fyrirvara um gengisbreytingar (hér miðað við 1 kr = 150 EUR)

Fullt verð á greiningu í gegnum verkefnið er 2.350 kr án vsk. og með fyrirvara um gengisbreytingar (hér miðað við 1 kr = 150 EUR)

Greiningin innifelur skoðun á sex sætum: Það eru klassísku sætin þrjú 136, 154 og 171. Auk þess sæti 137, sem geymir hugsanlega verndandi arfgerð. Þá hefur fundist breytileiki í sætum 138 og 151 sem gæti haft jákvæða þýðingu en áhrifin ekki fyllilega ljós enn sem komið er.

Sýnataka er ekki innifalin í verði. Hægt er að kaupa þá þjónustu hjá RML samkvæmt verðskrá (9.000 kr/klst + komugjald 6.500 kr, bæði verð án vsk.) eða að bændur annast  sýnatöku sjálfir. Reikna má með að hægt sé að taka 40 til 60 gripi á klst., en það fer eftir undirbúningi og mannskap sem að verkinu kemur.

Nota þarf töng við sýnatöku en sýnið er tekið úr eyra. Ef bændur ætla að sjá sjálfir um sýnatökuna er hægt að kaupa tangir í gengnum RML. Verð innan við 3.500 kr. án vsk. Tangir geta bændur samnýtt svo fremi að þær séu tryggilega sótthreinsaðar milli bæja.

Eftir 1. febrúar verður farið yfir umsóknir. Öllum verður svarað. Þá munu bændur fá nákvæmari upplýsingar um sýnatökuna, merkingu sýna, skiladaga o.fl. Ef þarf að forgangsraða við útdeilingu á greiningum á niðursettu verði, verður sett sem lágmark að menn taki 25 sýni. Hámark á bú verða 300 sýni.  Við frekari niðurskurð  yrði tekið tillit til hagsmuna rannsóknarinnar og ræktunarstarfsins og því gæti hlutfall niðurgreiddra sýna orðið eitthvað mismunandi milli búa.  Öllum býðst að kaupa umfram skammta á fullu verði (2.350 kr án vsk.).  Eins má gera ráð fyrir að bæta við pantanir, en það verður auglýst síðar.

Gert er ráð fyrir að fyrstu sýni fari til greiningar (erlendis) um miðjan febrúar. Niðurstöður ættu að liggja fyrir um 15 virkum dögum eftir að sýnið fer til greiningar. Gert er ráð fyrir að sýnatökum ljúki um 1. maí.

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...